Bjórspeki er hugtak sem hægt er að nota yfir bjórvangaveltur hvers konar. Ekki er um afsprengi eða upphafsgrein raunvísindanna að ræða líkt og heimspekin t.d þó svo vissulega komi vísindin heilmikið við sögu við bjór og bjórgerð. Bjórspekin á það þó sameiginlegt með heimspekinni að oft er varpað fram spurningum sem ekki er hægt að svara. Oft er ekki eitt rétt svar til. Hver er besti bjór í heimi er t.d. álíka snúin spurning og hver er tilgangur lífsins (tökum þá ekki gilt svar úr hinu merka riti The hitchhiker’s guide to the galaxy). Það er svo sem ekki tilgangurinn að komast að einhverjum heilögum sannleik heldur frekar að hafa gaman að þessu og kannski leggjast í vísindin og kanna hvað bjórheimurinn hefur að geima. Að þessu leiti eru heimspekingar og bjórspekingar kannski svipaðir, það er verið að spá og spekúlera og ein spurning kallar á aðra og nýjar uppgötvanir.
En nóg um það, tilgangur þessa vettvangs hér er að skoða bjórheiminn í kringum okkur ,með fókusinn á því sem er að gerast hér heima og varpa fram bjórdómum og fréttum á mannamáli. Já það er nefnilega svo með okkur spekúlantana, hvort sem það er bjór, ostar, vín, kaffi eða annað að þá verða oft til stór og flott orð sem enginn skilur sem ekki er sjálfur í sama bransa. Annað er svo að það sem „sérfræðingarnir“ segja er ekki endilega það eina sanna. Það er akkúrat þetta sem er kjarni málsins hér má segja. Það kann að vera að menn sem hafa lagt stund á bjórsmökkun um langt skeið hafi meira vit á bjór en næsti maður og þeir eru klárlega komnir með ansi næma og þroskaða „pallettu“ þ.e.a.s bragðlaukar orðnir næmir á bragðflækjur þær er fyrirfinnast í bjórsopanum. Það þýðir þó alls ekki að það sem við spekulantarnir segjum um bjórinn sé algilt. Það er það fallega við bjórsmökkun að það er enginn sem getur sagt þér hvað þér finnst gott nema þínir eigin bragðlaukar. Þú ert þinn eigin bjórnörd! Það er hins vegar stundum gaman að vita hvaða bjór þykir flottur og eftirsóknarverður í bjórveröldinni. Ekki skemmir svo fyrir ef einhver fróðleikur um bruggferlið, innihald og sögu fylgir með til að gera upplifunina meira lifandi og spennandi.
Boðskapurinn er kannski þessi: sérfræðiálit er meira leiðbeinandi en heilagur sannleikur. Sjálfur er ég hættur að finna hina miklu beiskju sem loðir t.d. við India Pale Ale og þegar ég mæli með slíkum bjór fyrir byrjendur verða menn oft skrítnir á svip eftir fyrsta sopann og flestir ósammála mér um gæði bjórsins. Það er þetta sem okkur hér á Bjórspeki langar að reyna að forðast, þ.e.a.s að fjalla um málefnið frá báðum hliðum, frá sjónarhorni hins „HARÐA“ bjórnörds og frá hinum „GRÆNA“ byrjanda.
Ég vil svo að lokum aftur benda á að það er enginn sem getur sagt þér hvað þér finnst gott eða hvað þá heldur hvað þú finnur í bjórtilraunum þínum. Það sem þú finnur er nákvæmlega það…það sem þú finnur, punktur! Hvort sem það er strokleður, hundakeimur, skósóli, tóbak eða hvað það nú er sem skýtur upp kollinum hjá þér þá er það þú sem finnur þetta og það er bara þannig. Ég hef þetta skáletrað því mér finnst þetta mikilvægt. Það er bara allt of oft sem menn leiðast út í það að leiðrétta aðra styttra komna bjórvitringa. Upplifun hvers og eins er persónulegt fyrirbæri. Ég vil enda þetta á smá vangaveltu, ef við smölum saman hópi fólks og réttum þeim jarðaber og biðjum það að segja hvaða bragð það finnur þá kæmi líklega svarið „jarðaberjabragð í öllum tilvikum “ ekki satt? Fólk veit bara að svona á jarðaber að bragðast því það hefur smakkað það áður. Í bjór finnur maður oft eitthvað sem maður veit ekki hvað er, það er ekki klippt og skorið. Maður leitast því til við að lýsa bragði og lykt af bestu getu en þar sem ekki er til eitthvað ákveðið fyrirbæri sem passar við það sem við upplifun þá er erfitt að koma orðum að því. Hvaða svar skyldi koma út úr því að finna hóp fólks sem aldrei hefur séð eða smakkað jarðaber áður og biðja um að lýsa bragðinu?
Aftur, þú ert þinn bjórnörd, ekki vera hræddur við að halda í þínar skoðanir!