Heima er best?

Gerðu það sjálfur hugmyndafræðin er dálítið stórt fyrirbæri í bjórheiminum.  Menn þekkja það vel að hægt er að búa til þolanleg vín í heimahúsum.  Já ég segi þolanleg, ég hef aldrei smakkað virkilega gott heimabruggað vín, hvort sem um ræðir rautt eða hvítt.  Öðru máli gegnir um bjórbruggun.  Heimabruggarar eru að gera stórkostlegan bjór og er það aðdáunarvert hve mikil gæðin eru.  Ég segi það og stend við að sumt heimabrugg er mun betra en flest allt sem kemur t.d. frá hinum stóru brugghúsum heimsins.  Hér skiptir stærðin máli, fjöldaframleiddur bjór frá risunum er aldrei eins vandaður og bjór sá er kemur frá litlu svokölluðu örbrugghúsum eða „microbrewery“ heimsins.

Heimabruggarinn leggur alla sína alúð og athygli í bjórinn sinn, 30L t.d.  Hann hefur mun betri yfirsýn yfir það sem hann er að gera en stóru brugghúsin.  Það er því ekkert skrítið að bjórinn sem úr þessu kemur er oft á tíðum stórkostlegur.  Því til stuðnings má benda á að vinsælasta og eitt framsæknasta „brugghús“ veraldar í dag Mikkeller byrjaði bara svona að fikta heima í eldhúsi.
Þessi iðja er að ryðja sér til rúms hér á landi og eru líklega 3 meginástæður fyrir vinsældum heimabruggunar hér á landi.

  1. Í fyrsta lagi þá er verð á bjór og öðru áfengi hér á landi eitthvað sem á heima í brandarabókum, hlægilega hátt.  Mun ódýrara er að gera sinn eigin bjór.
  2. Í öðru lagi þá hefur bjórúrvalið hér á landi verið sorglega lélegt en er reyndar að lagast dag frá degi þegar þetta er ritað.  Menn geta einfaldlega bara bruggað sinn uppáhaldsbjór heima.
  3. Í þriðja lagi þá er þetta gríðarlega skemmtilegt áhugamál.  Að leika sér með samsetningar og sjá afraksturinn er bara svo gaman.  Sjálfur átti ég góðan sprett þegar ég bjó í Danmörku, þá gerði ég nokkra ágætis bjóra sem ég kallaði nIcebrew. Ég mun klárlega endurvekja þetta brugghús hér heima á næstunni.

Árlega halda heimabruggarar keppni hér heima um besta bjórinn.  Ég hef tekið þátt í að dæma á þessum keppnum og varð eginlega hissa yfir því hve margir tefldu fram stórkostlegum bjórum.

Ég hef verið svo lánsamur að menn hafa stundum sent mér bjór til smökkunar úr heimahúsum.  Virkilega gaman og hef ég ákveðið að taka þessar smakkprufur fyrir hér á síðunni. Skrifa nokkur orð um þá og jafnvel láta mynd fljóta með ef umbúðirnar bjóða uppá það.  Þið megið því endilega halda áfram að senda inn smakkprufur!

Að lokum vil ég benda á að ef menn ætla að hella sér útí þetta af alvöru þá er um að gera að skoða þessa síðu hér fyrst. Brew.is en þar er hægt að fá allt sem þarf til að hefja sinn eigin bruggferil.