Stóra Lekamálið…Bjórspekingur fylgist með!

Krani
Mynd fengin af AdvancedMedia

Nú er jólabjórinn nánast allur uppurinn í Vínbúðinni, ja eða sá sem vert er að eltast við amk, þá meina ég Mikkeller bjórinn, Brewdog og To ÖlÞvörusleikir er einnig búinn eða alveg að klárast en við þurfum þó ekki að örvænta því það eru dásamlegir hlutir að gerast á kranavaktinni.

Já við höfum verið að fylgjast sérstaklega með krönunum á Kexinu og Microbar en þar er oft hægt að komast í eðalöl af krana og það er sko sannarlega mikið að gerast á næstunni.  Undir á Kexinu núna er El Celler De can Roca 5% hoppy pilsner sem ég hef reyndar sjálfur ekki smakkað en ég hef ekki trú á öðru en að bjórinn sé stórgóður.  Hins vegar kemur hinn magnaði Mikkeller Hoppy Luving Christmas undir á næstu dögum hjá þeim og því ber sko að fagna.  Bjórinn er einn sá albesti af jólabjórflórunni í ár og hann er löngu búinn á flöskum.  Hér gefst því stórkostlegt tækifæri að leggjast undir kranann og smakka bjór eins og hann gerist bestur.  Ekki skemmir svo fyrir matseðillinn á Kexinu en þar er alltaf hægt að fá vandaða smárétti eða ómótstæðilega stærri rétti.  Það er vert að fylgjast hér með því þessi mun klárast hratt þegar hann kemur undir.   Ekki svo að skilja að það sé slæmt því þegar Hoppy Luving klárast er bara pláss fyrir eitthvað annað meistaraverk.  Ég veit t.d. að Mikkeller Ris a la M’ale mun detta undir einhvern tíman í desember.  Hér er virkilega stórbrotinn bjór á ferð sem gerður er til heiðurs hrísgrautsins ris ala mande sem er Danskur jólaréttur og afar vinsæll bæði þar og hér heima.  Bjórinn smakkaði ég fyrst í New York á krana fyrir einhverjum árum síðan og kom hann mér alveg í opna skjöldu.  Hlakka mikið til að smakka hann aftur enda hefur palletan þroskast mikið síðustu ár.  Stíllinn er óljós, einhver blanda bara, það er hins vegar ekki verið að tala um IPA eins og ég hef greinilega skrifað þarna í þessum dómi mínum í denn.
Að lokum má benda á að Þvörusleikir kemur einnig þarna á krana á næstu dögum.

Á Microbar var þegar ég leit þar inn fyrir helgina Mikkeller Crooked Moon Tattoo á krana en sá er flottur 9% imperial IPA.  Ég hvet fólk til að drífa sig á staðinn og þamba þetta kvikindi ef eitthvað er eftir því þegar hann er búinn þá kemur sko hvorki meira né minna einn sá albesti sem ég hef smakkað, Mikkeller Santas Little Helper Cognac Barrel Aged.  Ég smakkaði hann fyrst í tvíburaslagnum í fyrra á Microbar, þvílíkur bjór.  Ég er reyndar að vona að menn verði dálítið seinir að fatta þegar hann kemur undir því ég má ekki til þess hugsa að missa af honum.  Ég læt ykkur vita þegar hann er kominn undir og ég er sjálfur búinn að taka nokkra lítra af honum.

Jahérna, þvílíkur tími framundan!

Láttu það flakka!