Sá „harði“ – áhugasamt bjórnörd og spekingur í nær tvo áratugi, R. Freyr Rúnarsson forsprakki bjórupplýsingasíðunnar http://www.bjorbok.net. Vísindamaður í húð og hár með BS gráðu í bæði sameindalíffræði og MD í læknisfræði. Sá harði eyddi fyrri hluta ævinnar í heimi gersveppa, baktería og annara spennandi örvera og hafa rannsóknir á „labbanum“ skilað honum góðri vitneskju um hegðun þessara fyrirbæra og áhrif þeirra á bjór og bjórgerð. Í seinnig tíð hafa svo læknavísindin skilað honum mikilvægri reynslu um áhrif áfengis á líkama og sál bæði þau slæmu sem og ljúfu. Sá harði er vel meðvitaður um niðurbrot og eitrunaráhrif á lifur og taugakerfi.
Sá harði höfðar meira til bjórnördsins í ummælum sínum og lýsingum og reynir að fremsta megni að nota öll stóru flottu lýsingarorðin til að koma sem best út og rugla almenninginn. Gott er að hlusta á þann harða vilji menn prófa eitthvað sem þykir vel lukkað í heimi bjórspekinga en það skal taka það með í reikninginn að áralangt álag á bragðlauka hefur gert þá harða og ónæma fyrir t.d. beiskum humlum og öskrandi gersveppum. Þeir óreyndu gætu verið afar ósammála þeim harða og jafnvel sjokkeraðir.
Sá“ græni“ – er rödd hins sauðsvarta almúga. Sá græini skoðar bjórinn frá sjónarhóli þeirra sem minna þekkja til bjórspekinnar og eru kannski að stíga sín fyrstu skref í átt til bjórspekingsins. Það gæti því verið sniðugt að hlusta dálítið á hann. Sá græni er meira á jörðinni og reynir að notast við einföld lýsingarorð og hugtök í skýringum sínum. Þannig geta sá græni og sá harði jafnvel verið ósammála í ummælum sínum. Sá græni er fámáll og einfaldur og forðast orðlengingar.