Þvörusleikir, þurrhumlað eikarþroskað rauðöl frá Borg.

IMG_2607

Þá er komið að því, árið er liðið og næsti jólasveinn í röðinni frá Borg á leið til byggða. Nú er það Þvörusleikir sem fær að þann heiður að fá nefndan bjór í höfuð sér. Tengingin er flott að þessu sinni, Þvörusleikir er jú jólasveinn og við erum að tala um jólabjór, svo er karlinn án efa mikill matgæðingur og því von að hann láti ekki nafn sitt við eitthvað slor. Loks er það þvaran sem hann elskar meira en allt en hún er gerð úr viði, eða það var hún amk í denn, en í þennan bjór kemur eik nefnilega við sögu.

Já Þvörusleikir jólabjór er af gerðinni þurrhumlað eikarþroskað red ale sem næstum því nær þeim hæðum að mega kallast double red ale með sín 7% alkohól.

.
Ég ætla að reyna vera hér dálítið hlutlaus í lýsingum samanber síðustu færslu, en ég get þó ekki alveg látið vera með að koma með mitt eigið álit í lokin. Bjórinn er rauður og tær í glasinu með þétta hvíta froðu „on top“ sem endist vel og lengi, þetta eru jólalitirnir ekki satt? Í nefi koma citra humlarnir vel fram enda þurrhumlaður með þessum nývinsælu humlum en þeir gefa mjög frúttað sexy yfirbragð, mango, ástaraldinn og mandarínur eru dæmi um lykt sem citra humlarnir gefa frá sér. Með þessu uppátæki fá þeir Borgarar fram bjór sem lyktar líklega töluvert betur en sjálfur jólasveinninn sem hann heitir eftir. Í munni er kitlandi gos, meðal til mikil fylling, nokkur sæta af korninu og svo beiskja og blómlegheit frá humlunum. Humlarnir ná ekki að gefa alveg IPA beiskju enda er það alls ekki ætlunin en þessir kynæsandi tónar koma samt fram en þó alls ekki eins vel og í nefi. Áfengið er alveg falið í bragði og svo kemur þvaran dálítið í gegn. Hér er ég vissulega að tala um eikina sem maður finnur vel fyrir ef maður leitar dálítið. Bjórinn þarf kannski aðeins að volgna. Þetta er þó aðeins rétt mátulega mikið til að lyfta bjórnum ögn upp en verður alls alls ekki eitthvað sem er ríkjandi. Eikarþroskaður bjór fær oft á sig dálítinn kókoskeim og stundum vanillu jafnvel í bland við þennan sérkennilega og skemmtilega viðarkeim.

„Mitt eigið mat, algjörlega frábær bjór sem í raun hentar bæði hardcore bjórnördum sem og hinum almenna fiktara því hann er mildur en þó með humla og eikarflækju og svo er beiskjan til staðar en þó stillt í hóf. Fallega vel viðeigandi rauður liturinn sómir sér líka afar vel á matarborðinu yfir jólin. Mín spá er að þessi fái háar einkunnir í komandi jólabjórdómaflóði fréttablaðanna.“

.
Svo er það alltaf spurningin um geymslu. Fyrir mína parta þá held ég að þessi komi best út ferskur svo eikin, þurrhumlunin og beiskjan njóti sín sem best. Það er þó aldrei að vita hvað gerist eftir ár, það er jú líf í karlinum og einhver þróttur en ég held þó að hann verði orðinn frekar mildur og mjúkur eftir árið. Um að gera að prófa samt enda hefst engin framþróun án tilrauna.

Bjórdómar alveg gagnslausir?

image

Ég hef verið að velta öllu þessu bjórdómamáli fyrir mér í nokkurn tíma, þessu bjórbloggi ef svo má segja. Ég hætti fyrir nokkru að gefa bjórnum einkunn frá 1 upp í 5 og fór meira bara að dæma í orðum en ég hef verið að spá í að taka þetta alla leið, taka næsta skref. Ég hef áður velt því fyrir mér hér á síðunni afhverju ég er eiginlega að þessum skrifum.

Hefur þetta eitthvað uppá sig, er eitthvað að marka svona dóma, er einhver yfir höfuð sem hefur gagn eða gaman að þessu?“

.
Ég veit ekki svei mér þá, eitt veit ég þó að ég byrjaði upphaflega á þessu fyrir sjálfan mig til að halda til haga hvaða bjór ég hef smakkað og hvernig ég upplifði bjórinn. Það var svo fyrir áskorun vina að ég færði skráningu þessa úr gömlu glósubókinni út á veraldarvefinn. Ég viðurkenni það, mér finnst gaman að skrifa pistla og velta þessu fyrir mér og auðvitað enn skemmtilegra ef einhver nennir að lesa. Hins vegar er ég farinn að setja spurningarmerki við gagnsemi svona dóma fyrir aðra en mig sjálfan. Já og reyndar hef ég komist að því að jafnvel ég sjálfur græði kannski ekki svo mikið á þessum dómum. Það er jú þannig að öll erum við misjöfn og því ekkert sem segir að það sem mér finnst gott eða vont gildi fyrir aðra sem þetta lesa. Það að Steini eða Gunnar Óli (báðir miklir og nokkuð sýnilegir bjórspekúlantar) dásami einhvern bjór þýðir alls ekki að ég eigi eftir að kunna að meta hann. Gott dæmi eru t.d. stout bjórar en ofannefndir karlar eru mikið fyrir þennan stíl og því erum við oftast ósammála þegar slíkir bjórar eru dæmdir. Haukur Heiðar (annar ansi virkur bjórspekúlant) er annað dæmi, hann er óhræddur við að drulla yfir bjór sem hann er ekki að fíla og ég viðurkenni að það fælir mig stundum frá en oft hef ég þó farið gegn hans ráði og smakkað bjór sem ég svo kunni mjög vel við. Þannig er þetta bara. Maður smám saman lærir á þessa karla og finnur með tímanum út hvar smekkur þeirra fellur að mans eigin smekk og þá er hægt að nýta sér bjórdóma þeirra. T.d. er ég farinn að læra að ef Gunnari Óla finnst imperial stout of sætur að þá er það kjörinn bjór fyrir mig. Þetta er vissulega ekki raunhæfur möguleiki fyrir flesta lesendur.

Svo er það eiginlega það versta að það sem manni finnst þessa stundina er alls ekki endilega það sem manni finnst á morgun. Ég hef oft notað dálítið dramatíska samlíkingu máli mínu til stuðnings, þetta er í raun tilraun sem maður getur auðveldlega framkvæmt til að sannreyna þetta. Prófaðu að fara í bústaðinn með góðum vinum eða maka. Skellið ykkur svo í pottinn og njótið bjórs undir norðurljósahimni. Það er næstum því (ég sagði næstum) sama hvaða bjór er með í för, hann verður ljúfur, jafnvel besti bjór sem þið hafið smakkað. Það er af því að umhverfið, stemningin hefur áhrif á líðan og líðan hefur áhrif á hvernig við upplifum hlutina í kringum okkur hvort sem um ræðir, bragð, tilfinningar eða jafnvel það sem er sagt við okkur. Vel þekkt í heilsufræðum eru t.d. verkir sem verða mun verri ef andleg líðan er slæm. Oft er hægt að létta eða laga alveg verki meða því að létta lund. Já prófið svo að taka þennan frábæra bjór aftur á mánudagsmorgni skömmu síðar á meðan þið berjist við að koma börnum framúr og í skólann og þið sjálf jafnvel orðin of sein í vinnu. Það verður aldrei sama upplifunin og ég fullyrði að bjórinn mun ekki bragðast vel, amk ekki eins vel. Fyrir „bjórspekúlantinn“ sem á svo að dæma og skrifa um bjórinn. Hvort á hann að skrifa um hann í pottinum eða þarna á mánudagsmorgni?

Svona ýkt þarf þetta jú ekki að vera til þess að maður upplifi þennan mun. Ég er alltaf að reka mig á þetta, bjór sem ég hafði dæmt fyrir stuttu síðan og hafði þá fengið fullt hús stiga er allt í einu bara orðinn allt í lagi bjór, jafnvel þótt stemningin væri mjög fín. Hér er ég að tala um bara nokkra daga á milli smakka. Ég þori ekki einu sinni að hugsa út í bjór sem ég hef smakkað fyrir einhverjum árum síðan. Ég er því hræddur um að það sé akkúrat ekkert að marka þessa bjórdóma, víndóma eða yfir höfuð hvaða dóm sem er. Nú fer að t.d. að styttast í jólabjórdómana sem finna má í Fréttablaðinu, Fréttatímanum og Mogganum og jafnvel víðar. Sjaldan ber öllum þessum dómum saman og almenningur stendur eftir jafn ringlaður og í upphafi.

Já þannig er það, súrt en líklega rétt. Ég hef ákveðið að breyta þessu hérna hjá mér, ég er samt ekki alveg tilbúin í að hætta að blogga/skrifa um bjórinn því það er vissulega svo margt hægt að fjalla um annað en dóma. Ég ætla hins vegar að reyna að hætta að leggja persónulegt mat á bjórinn, hætta að dæma og fara meira í það að lýsa hvernig ég upplifi bjórinn. Ekki þá með orðum eins og góður eða vondur, meira í átt að hvaða bragð, hvernig fylling og svo frameftir götum. Reyna að vera hlutlaus ef það er hægt. Það er þó líka snúið því t.d. það sem ég upplifi sem bananabragð er fyrir öðrum pera. Upplýsingar um hráefni, bruggaðferð og brugghús er hins vegar eitthvað sem ekki er hlutlægt og ætti að vera óhætt að taka mark á. Svo er líklega rétta að miða alltaf bara við fyrsta mat, „first impression“ og vita þá að það mun líklega breytast fljótt. Ég var líklega kominn á rétta leið þegar ég byrjaði alveg í blábyrjun að skrá í glósubókina mína. Þá skrifaði ég alltaf hvort um væri að ræða fyrsta smakk, hve marga bjóra ég hafði smakkað þennan dag, hvar ég var staddur og hvernig stemningin var á þeim tíma. Þegar ég fletti upp í glósubókinni góðu má t.d. sjá hvaða bjór ég var að smakka þegar ég fékk að vita að ég ætti von á mínu fyrsta barni. Þetta var árið 2000 og bjórinn Hoegaarden (sjá mynd að ofan). Hehe, hann fékk þó ekki nema 3 krúsir þrátt fyrir mikla geðshræringu. Kannski var maður bara í sjokki?

Svo er hægt að gera eins og Haukur Heiðar og Steini t.d. skrifa upp lista yfir 10 eftirminnilegustu bjóra þeirra og afhverju þessir bjórar fá þann stall. Þar má glöggt sjá hve aðstæður geta haft mikil áhrif á dóma.  Skemmtileg pæling.

Jæja ég veit ekki hvað ég geri, þetta er amk pæling.  Sjáum hvað gerist.  Það verður svo gaman að fylgjast með öllum jólabjórdómunum sem eru alveg að fara detta inn í öll fréttablöðin og víðar.  Þar er enginn sammála.

Oktoberbjórinn, er eitthvað varið í hann?

oktoberNú fer senn að líða að Oktoberfest, hinni árlegu risabjórhátíð í Munchen þar sem íturvaxnar barmmiklar bjórþernur færa í þyrstann líðinn bjór í lítravís og blindfullir karlar í leðursmekkbuxum syngja og tralla eins og enginn væri morgundagurinn.  Bjórhátíð þessi hefur smitað út frá sér í gegnum tíðina og má nú finna litlar útgáfur af oktoberfest víða um veröld.  Hér á landi tíðkast að halda svona bjórveislur í fyrirtækjum, á krám og nú það nýjasta, í tjaldi á Háskólalóðinni í kringum mánaðarmótin september/oktober.  Stóru brugghúsin í Þýskalandi, í kringum Munchen brugga ár hvert sérstakan oktoberfestbjór sem drekka á á þessari gríðarlegu bjórhátíð. Hér á landi eru menn einnig farnir að fikta dálítið við að brugga bjór að þessu tilefni.  Sumir halda í hefðina og brugga bjórinn eftir þýskum hefðum, svo kallaðan Märzen bjór sem bruggaður var í mars og svo látinn gerjast í rólegheitunum yfir sumarmánuðina þannig að hann væri tilbúinn til drykkju í lok september þegar Oktoberfest geisar sem hæst.  Upphaflegi Märzen bjórinn var dökkur lagerbjór en í kringum 1870 náði önnur tegund vinsældum og tók við af gamla dökka bjórnum.  Sá bjór var sterkari bjór af gerðinniVienna lager eða amber-rauður lager sem bruggaður var í mars líkt og hinn upphaflegi Märzen.  Í dag er dálítið mismunandi hvernig menn brugga þennan bjór, Kanarnir halda sig enn við hina rauðu eða amber bjóra á meðan Evrópa er meira í gylltu tæru bjórunum.
Það eru þó alls ekki einhver fastskrifuð lög um hvernig oktoberfestbjór á að vera, menn hafa jú alveg frjálsar hendur í þeim efnum en oftast má finna einhverja tengingu við hátíðina.

Í ár eru 3 nýjir oktoberbjórar á markaðinum, þeir koma  frá íslensku brugghúsunum Borg, Ölvisholti og Steðja.   Kaldi er svo með sinn venjulega oktober Kalda og svo er Lövenbrau og Sam Adams með sína útgáfu.  Ég hef fjallað um þessa karla einhvers staðar áður og mun ekki gera það hér aftur.  Það er jú nýja stöffið sem er spennandi.

Gréta 7.3% baltic porter frá Borg Brugghús

.

Ég hef þegar fjallað um Grétu frá borg og geta menn lesið um hann hér.

.

Hrekkjalómur, 6% amerískur porter frá Ölvisholti

.
Hrekkjalómur
(6%) heitir oktoberbjór þeirra Ölvisholtsmanna þetta árið og er jafnframt sá fyrsti frá þeim eftir að nýr bruggmeistari Elvar kom í hús.  Elvar er reyndur heimabruggari sem hefur lært fræðin sín í Bretlandi.  Við hérna meginn segjum bara velkominn til starfa Elvar, hlökkum til að sjá hvað þú gerir í framtíðinni. Bjórinn sem er af gerðinni amerískur porter er kannski meira tileinkaður hinni amerísku hrekkjavöku sem nálgast nú eins og óð fluga.  Hrekkjalómur er dökk brúnn í glasi með fína froðu.  Maður finnur það um leið og maður hellir í glas að það er veisla í vændum.  Heilmikið krydd, dálítið jólayfirbragð svei mér þá, negull, kanill og svo þetta lúmsa grasker. Það er bara allt í lagi að komast í smá jólafíling enda stutt í hátíð ljóss og friðar….og jólabjórs. Í munni er hann mjög lifandi, kitlar allan skoltinn með gosi og humlum og svo er haugur af kryddi.  Virkilega skemmtileg blanda beiskju og kryddaðra tóna með örlítilli sætu í bakgrunni.  Þegar sopinn fjarar út kemur fram létt ristaður blær sem slær botninn í þetta allt saman.  Fylling er í meðallagi og eftirbragð langt og ljúft.  Ofsalega skemmtilegur bjór frá Ölvisholti.

Græni Karlinn: Dökkur bjór en samt ekki svona „dökkur“ ef þið skiljið mig.  Mjög skemmtilegur bjór, léttur með alls konar bragðflækjum þar sem krydd á borð við kanill og engifer kemur vel fram. Gæti ekki drukkið marga svona í einu en einn stakur er mjög fínn t.d. með steikinni.

.

Steðji Októberbjór, 6% bock frá Steðja

.
Steðji hefur ekki verið að gera góða hluti til þessa að mínu mati.  Þeir fá þó plús í kladdann fyrir að vera frumlegir í bjórgerð sinni og þá má nefna þar Hval og Þara sem dæmi.  Nú eru þeir komnir með oktoberbjór í bock stíl bruggaður með graskersfræjum.  Miðinn er flottur sem hefur hingað til verið eitt af því versta við bjórinn þeirra.  Þessi merkimiði er snotur og kemur vel út og eiga þeir hrós skilið fyrir það, þetta er kannski að koma?  Bjórinn er rauður og fallegur í glasi en froðan sápukennd og hverfur á auga bragði.  Eftir stendur allsber bjórinn sem minnir á vínberjasafa frekar en bjór og engar gosbólur eða neitt.  Ekki aðlaðandi að mínu mati.  Í nefi er mikið malt og sæta.  Klassískur bock, finn þó ekki krydd eða grasker.  Í munni er bjórinn mjög mildur og léttur.  Hann er vel matlaður og bock stílnum er gerð ágætis skil.  Ég finn lítið fyrir graskerinu í þessum karli.  Þannig að þetta er ágætis bjór, sæmilegur bock sem er svo sem viðeigandi fyrir Oktoberbjór.  Graskerið kemur ekki nægilega fram að mínu mati hins vegar.

Græni Karlinn: Fallega rauður blær en vantar alveg froðuna.  Mildur en ekki sérlega góður.  Hellti honum eftir nokkra sopa :

Sem sagt, af þessum þremur myndi ég líklega fara í Grétu en þó er Hrekkjalómur skemmtilegur og væri gaman að sjá hvað hann gerir eftir nokkra mánuði.  Hinir oktoberbjórarnir, Kaldi, Sam Adams og Lövenbrau eru bara eins og hefur verið hingað til.  Ekkert sérlega spennandi.  Ef maður vill hins vegar komast í oktoberfest skap í anda hátíðarinnar í Munchen þá er það Lövenbrau sem er málið.

Baltic Porter frá Borg

IMG_2486
Maður er orðinn allt of góðu vanur held ég þegar maður er farinn að bíða óþolinmóður eftir næsta bjór frá Borg en nú er hann loksins kominn eða bara rétt handan við hornið.  Mér skilst að hann komi á barina í kvöld og svo í vínbúðirnar í næstu viku líklegast.  Ég held að ég sé ekki að fara rangt með heimildir þegar ég segi að þetta sé jafnframt fyrsti bjórinn sem kemur frá Borg eftir að Árni Long áður ÖB bruggari bættist í hópinn en hvernig sem er fyrsti eða annar þá skiptir það svo sem ekki máli, þetta er allt gott.  Ég býð bara Árna hér með formlega velkominn í hóp þeirra sem mega gleðja bragðlauka mína.
.     Hér erum við alla vega að tala um oktoberfestbjórinn þeirra Borgara sem þeir kalla Grétu, þetta er 7.3% baltic porter sem vel er til þess fallinn að þroska dálítið á flösku með öllum hinum stóru körlunum frá Borg. Það er bara svo gaman að sjá hvernig þessir bjórar breytast og dafna með tímanum.  Gréta fær líklega nafn sitt úr ævintýrinu um þau salgætissjúku systkin Hans og Grétu en tengingin við bjórinn er líklega sú að í hann eru notaðar 4 gerðir korns og auðvitað ger og vatn sem er jú uppistaða brauðs. Það er því heilmikið brauð í þessari kerlingu ef svo má segja, brauðmolar?
.     Porter er ekki minn uppáhalds stíll en ég dett þó annað slagið niður á mjög góða slíka, sjáum t.d. Myrkva frá Borg, og auðvitað skipta aðstæðurnar máli líka.  Gréta er reyndar ekki venjulegur porter, Gréta er baltic porter sem þýðir að maður fær alveg slatta af áfengisprósentum með í kaupunum.  Gréta er því næstum því imperial porter þó svo að hún kannski nái ekki alveg þeim stalli.  Menn vita sem þekkja mig að ég er sérlega hrifinn af öllu sem heitir imperial eða double eitthvað og því hef ég verið dulítið spenntur fyrir þessari kerlu hér.
.     Baltic porter er upphaflega kominn frá hinum baltnesku ríkjum svo sem Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi og jafnvel Rússlandi og Svíar hafa einnig verið bendlaðir við stílinn. Á 18. öld barst hinn enski porter til þessara ríkja og svo hafa menn farið að gera sína eigin útgáfu.  Þannig varð baltic porter til sem túlkun þessara ríkja á stílnum.  Stíllinn er þó ólíkur hinum enska porter hvað varðar áfengismagn sem getur orðið töluvert og er því kannski frekar hægt að líkja stílnum við hinn rómaða Russian Imperial Stout.  Baltic porter þarf alls ekki að vera af gerðinni öl eða yfirgerjaður heldur er eiginlega algengara að um lager sé að ræða.  Ég veit, þetta hljómar ekki alveg rétt eða hvað?  Þetta er mjög maltaður stíll, mikið af korni í honum og því oft nokkuð sætur og þægilegur.  Þrátt fyrir háa áfengisprósentu  þá skortir hann þróttinn sem maður fær í frændum hans imperial stout.

„Árstíminn fyrir þennan bjór er einmitt núna að mínu mati, haustið, september/oktober, það er farið að kólna í veðri sem kallar á aðeins þyngri bjór og fleiri prósentur en þó er maður ekki alveg tilbúninn í hardcore imperial vetrarbjórinn.“ Græni Karlinn

Gréta er falleg í glasi, kolsvört og glæsileg með fallegan froðuhaus sem lætur sig þó hverfa nokkuð fljótt.  Í nefi er lítið að gerast, korn, malt, brauð og svo aðeins dökkt súkkulaði?  Í munni hins vegar lifnar hann allur við og stuggar aðeins við bragðlaukunum með kitlandi gosi og humlum.  Beiskja í hófi en er þarna þó.  Hann er nokkuð mildur á tungu, það er ögn hiti í honum frá áfenginu sem kemur virkilega vel út, haustlegt!   Skrokkur er meðal til mikill en ekki þó imperial þéttleiki.  Hann er alls ekki eins sætur og ég bjóst við, maltið er þó þarna og gefur ögn karamellutón, örlítið ristaður fílingur og svo eins og einhver lakkrískeimur í lokinn.  Allt kemur þetta mjög vel út og vekur því alveg réttu lukkuna.
Þetta er bjórinn til að drekka í bústaðnum á pallinum meðan sólinn sest og haustlaufin fjúka um í öllum regnbogans litum.  Þetta er ölið sem maður drekkur eftir erfiða vakt á Landspítalanum til að róa taugarnar rétt fyrir háttinn og þetta er bjórinn sem passar með lambinu, grillmatnum og stóra flotta djúsí BBQ borgaranum.  Þetta er bara nokkuð flottur og skemmtilegur bjór.  Svo er spurning hvenær Hans kemur út?  Varður það oktoberbjórinn að ári eða bara næsti bjórinn frá Borg?

Græni Karlinn : Skemmtilegur bjór, kolsvartur en ekki þannig á bragðið, mun léttari og einfaldari bjór en maður bjóst við.  Aðeins súkkulaði og lakkrís sem kemur skemmtilega út og svo er þessi þægilegi hiti í honum.  Nokkuð sáttur bara!

Fórn til þrumuguðanna, Bardarbunga offering!

imageÉg er orðinn virkilega ánægður með nýja bjórinn minn sem hefur nú verið í gerjun í 8 daga, ég kalla hann Ösku Illur Pale Ale Bardarbunga Offering en í grunninn er þetta Zombie Dust klónn frá Three Floyds.  Ég bruggaði þennan bjór til að reyna að sefa Þór og Zeif og alla hina sem sjá um þessi eldgos hér á Jörðu. Ástæðan er sú að ég er að fera til New York í fyrramálið þar sem ég mun stúdera bjór og pöbba í hæsta gæðaflokki og ég mátti bara ekki til þess hugsa að helvítis bungan þarna myndi loka fyrir mér öllum flugleiðum.  Þrumuguðirnir virðast vera sáttir við bjórinn einnig því þetta virðist ætla að sleppa fyrir horn.  Bjórinn er þó ekki tilbúinn en bragðgóður er hann.  Já eftir 8 daga í gerjun er hann orðinn 6.3% (FG 1.014) með mikinn humalkarakter þar sem Citra fær að blómstra.  Hann heldur einnig í fyllinguna og sætuna.  Besti bjórinn minn hingað til held ég ef þróunin verður áfram á þessa leið.

Ég bætti 90g af Citra humlum í hann í dag til að poppa hann dálítið upp í nefi.  Skrepp svo til USA og hendi honum svo á kút líklega 2. eða 3. sept.  Það verður þá fyrsti kútabjórinn minn og ég verð bara að viðurkenna það að ég er ooooofsalega spenntur að prófa það dæmi.  Kominn með krana og kolsýrudæmið og allt að verða klárt bara.

Kaldi IPA

imageÉg er nú ekki vanur að skrifa hér um Kalda enda fyrir mína parta um lítt spennandi bjór að ræða hingað til. Ég var eiginlega búinn að gleyma því að ég hitti Sigurð Braga bruggara Bruggsmiðjunnar hérna um árið á bjórhátíð Kex. Við spjölluðum stuttlega saman og hann sagði mér að þeir væru að smíða Kalda India Pale Ale en það þóttu mér virkilega flottar fréttir. Síðan þá eru liðnir nokkrir mánuðir og maður bara búinn að gleyma….slíkt gerist.
Það hefur annars lítið farið fyrir þessum bjór sem mér finnst dálítið undarlegt þar sem hér er um að ræða fyrsta alvöru skref Kalda út fyrir „þægindarammann“ ef svo má segja. IPA frá þessu brugghúsi sem hingað til hefur bara komið með léttan tékkneskan pilsner í öllum mögulegum útgáfum eru stórar fréttir, meira að segja mjög stórar fréttir.
Ég vissi eignilega bara ekki af því að hann væri kominn „í hús“ fyrr en ég rambaði einu sinni sem oftar inn á Microbar núna í þarsíðustu viku. Ég hef reyndar verið mjög, mjöööög upptekinn og ekkert kíkt á öldurshús borgarinnar undanfarið. Nú hins vegar er stórum áfanga lokið í mínu námi og ég ákv að kíkja á Steina á Micro í leit að einhverju góðu í flösku til að fagna. Ég fann það að sjálfsögðu og má lesa um þá hamingju hér en ég rak einnig augun í Kalda IPA á krana og fékk að smakka.
Bjórinn kom virkilega á óvart, ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki við miklu (fordómar, ég veit), ég bjóst við Kalda pilsner með örlitlum humalkeim en nei þetta er alvöru IPA, humlaður og fínn með flotta beiskju, dulitla sætu á móti og fínann skrokk. Það er bara alls ekkert að þessum bjór og get ég vel mælt með honum um leið og ég segi að þetta er klárlega besti Kaldinn í fjölskyldunni. Ef þetta er vísir að nýjum áherslum brugghússins, vísir af því sem koma skal þá eru góðir tímar framundan. Vonum það besta.

Logsdon Peche´n Brett – hinn fullkomni sumarkarl

 

image

Logsdon brugghús var mér ókunnugt um þar til tiltölulega nýlega þegar ég smakkaði Seizoen Bretta hjá Sæberg nokkrum Einarssyni á bjórhátíð Kex fyrir nokkru síðan en Sæberg er eins konar listrænn hönnuður og meðeigandi Logsdon brugghúss. Brugghúsið er amerískt „sveitabrugghús“ staðsett í Oregon sem einbeitir sér að belgískum bjórstílum, sér í lagi villibjór og saison (sveitabjór). Þessir gaurar eru snillingar í Brettanomyces villisveppnum og notkun hans í bjór. Ég held að Seizoen Bretta hafi verið besti saison sem ég hef smakkað svei mér þá!

Ég var að klára nokkuð stóran áfanga í mínu sérnámi á föstudaginn, eða hann er amk stór að mínu mati og því fannst mér ástæða til að fagna. Hvað er betra en að fagna í bjór…stórum bjór, eitthvað sem maður venjulega tímir ekki að kaupa? Júbb ég spjallaði við Steina á Micro en hann hefur smakkað vel flest sem til er hér á landi í bjór og spurði hann ráða, hvaða bjór myndi hann fá sér við svona tækifæri. Steini benti mér á þennan m.a. og hafandi smakkað tvo Logsdon bjóra áður þá þurfti ekki mikið til að sannfæra mig, ég meina 10% Saison með villigeri sem hefur verið aldraður á eikartunnu með ferskjum? Ekki flókið.

image Þetta er gullfallegur bjór í glasi, gulur og mattur með flotta þykka froðu. Ískaldur í sólinni þannig að glasið verður svona í móðu eins og í góðri auglýsingu. Í nefi mætir manni dásamlegur ferskjukeimur i bland við „funky“ brett. Fyrir þá sem ekki þekkja keiminn af villibjór þá er dálítið erfitt að lýsa því. Sumir tala um fúkkalykt, háaloft, mysukeim, súran keim en allt er þetta eitthvað sem gefur ekki góða mynd af því sem maður finnur. Menn verða bara að fá sér einn klassískan villibjór t.d. Cantillon Gueuze eða 3 Fonteinen Oud Gueuze sem hafa stundum fundist á Microbar, og þefa. Logsdon Peche er ekki gott dæmi um „funky“ hins vegar þar sem ferskjurnar eru afar áberandi.

Í munni er þessi drykkur álíka magnaður, gríðarlega frískandi með áberandi ferskjum en án þess að verða væminn. Sýrði, funky villigerskeimurinn kemur í veg fyrir það, kemur virkilega vel út svona súrsætur. Svo kemur eikin þarna í gegn með eins konar vanillukeim eða kókos en afar látlaust þó og loks kryddaðir tónar frá gerinu. Bjórinn er þurr á tungu og það er ágætis beiskja en þó víðs fjarri því sem maður finnur í pale ale t.d. Sopinn endar svo með dálítið súrum eftirkeim sem gerir mann klárann fyrir næsta sopa. Það sem kemur svo á óvart er að þessi bjór er 10% en það er algjörlega ómögulegt að finna það í bragði. Alveg hreint magnaður sumarbjór, hitti beint í mark