Að færa bjór í bú!

IMG_1759
Það tíðkaðist hér áður fyrr að menn brugðu sér í víking og fóru utan til að færa björg í bú. Þetta voru reyndar ránsferðir og menn komu heim með ýmsan vafasaman varninginn og voru þá konur oft taldar með. Ég er svo sem ekki fylgjandi svona ferðum í dag, hins vegar tel ég nauðsynlegt að kíkja út fyrir landssteinana og skoða bjór í framandi löndum. Þó þörfin hafii reyndar verið meiri fyrir nokkrum árum síðan þegar bjórlandslagið hér heima var eyðimörk líkast þá er samt alltaf gaman að skoða úrvalið erlendis og koma með nokkrar flottar flöskur heim, grasið er jú alltaf aðeins grænna hinu meginn ekki satt? Ég hef stundað þetta núna í ein 20 ár og nota hvert tækifæri ef ég bregð undir mig ferðafætinum.
Ég hef stundum verið spurður um hvernig best sé að gera þetta og jafnvel hvaða bjór á að taka með sér heim. Ég þekki einnig sögur af fólki sem hefur verið í bjórparadís en ekki þorað að koma með ölið heim af ótta við töskuslys og sull. Þetta er gríðarleg skömm, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem um ræðir fólk sem hefur sjálft lítinn áhuga á bjór en hafði verið að spá í að koma með bjór handa undirrituðum.
Nú er sumarið að bresta á og við Íslendingar hrúgumst út um allar jarðir, þ.e.a.s ef aumingja flugmennirnir með litlu lágu launin sín loka ekki áfram landinu, og því tímabært að skrifa hér örlítinn leiðarvísi til að tryggja að menn komist með ölið heim til sín og ég tala nú ekki um mín.

Hvaða bjór?
Í fyrsta lagi, hvaða bjór á að velja? Þetta er eitthvað sem ég get ekki sagt til um, nema um ræðir einhvern sem ætlar að koma mér á óvart, þá vil ég bara benda á að allt sem er amerískt og heitir imperial eða dobble eitthvað er mjög vel þegið. Fyrir aðra þá snýst þetta bara um eigin smekk. Kannski mætti þó hafa bak við eyrað að humlaðir bjórar svo sem IPA og pale ale eiga að vera ferskir og ekki spennandi að geyma þá lengi. Það má vel drösla þessu heim en muna þá bara að drekka það í fyrra laginu.

Hvernig kemst maður heim?
Þá er komið að sjálfum flutningnum, já þetta virðist vefjast fyrir sumum en ég skil svo sem ekki afhverju. Ég hef aðeins einu sinni á þessum 20 árum lent í að flaska brotnaði í flutningum og man ég reyndar vel eftir því þar sem sorgin var mikil. Bjórinn var Gulden Draak, þetta var sko á belgíska tímabilinu mínu fyrir þó nokkrum árum síðan, og var ég sérstaklega svekktur þar sem fyrra eintakið sem ég ætlaði að smakka hafði sprungið í frystinum. Nóg um það, þetta er það eina sem komið hefur uppá fyrir utan forviða tollverði á Leifsstöð endrum og eins (að því hér að neðan). Það sem menn þurfa bara að passa er að pakka þessu inn td í föt eða betra, bóluplast ef slíkt er með í för sem ég mæli reyndar með. Fötin hafa hins vegar dugað mér. Það þarf einnig að passa að hafa ekki tvær eða fleiri saman í snertingu því hart á móti hörðu er ekki góð blanda. Loks þarf að passa að hafa ekki bjórinn næst „útvegg“ í töskunni ef svo má orða það, þar er mesta hnjaskið. Stundum hef ég svo pakkað hverri flösku í poka til að taka við vökvanum ef eitthvað kæmi uppá, hins vegar erum við ekki með rauðvín og því er auðvelt að þvo föt sem verða fyrir bjórslysi.

Bustaður í tollinum?
Magnið hefur svo stundum vafist fyrir einhverjum en við getum auðvitað ekki komið með ótakmarkað af bjór í hverri ferð. Hins vegar er limitið svo mikið að það er erfitt að fara framúr þvi þar sem max þyngd á hverri tösku er fljótt náð með öllu glerinu.
Það er fínt að skoða hvaða leiðir eru í boði hér en ég vil t.d. benda á leið 5, 12L af bjór, 24 L ef þið eruð tvö eða leið 4 ef maður vill lauma smá léttvíni með. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að kaupa þann bjór sem maður vill nema kannski þyngdartakmarkanir. Styrkleikinn skiptir ekki máli, bjór er bjór og þannig væri hægt að taka 12L af 12% Barley Wine eða Quadrupel ef maður væri á þeim buxunum. Ég hef nokkrum sinnum lent í því að vera tekinn úr röðinni í töskuleit á Leifsstöð, ég veit ekki afhverju en tel það vera eitthvað með konuna mína sem lítur dálítið dularfull út stundum. Reyndar hefur þetta ekki gerst núna siðustu árin. Það er svo sem í lagi, maður passar bara magnið. Það er svo dálítið gaman að sjá þessa karla sem ekkert vita í sinn haus um bjór klóra sér í kollinum yfir stóru korktappalokuðu imperial flöskunum. „Er þetta léttvín eða sterk?“ Þetta er bjór karlinn minn, sættu þig við það, bless. Þetta er svo sem í lagi því þegar maður er búinn að rabba við tollinn þá er konan komin fram og búin að panta tvo kaffi to go og maður getur farið bara beint í bílinn.
Já það er svo sem ekki mikið að bæta við þetta nema þá það að ef menn eru með pláss í töskum sínum þá má alltaf senda undirrituðum línu og kanna hvort ekki megi lauma einni flösku með heim.

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s