Jólabjórinn er farinn að flæða og landinn strax farinn á stjá að hamstra áður en allt klárast. Að vanda mun ég fara létt yfir það helsta sem vert er að vita þetta árið varðandi jólabjórinn. Til að byrja með held ég að aldrei hafi verið eins mikið úrval, einar 30 tegundir eða svo. Ég ætla samt ekki að hafa þetta langt, er eginlega hættur að kaupa þessa léttu karla til að dæma, þeir eru bara svo óspennandi og alltaf eins milli ára. Ég var þó einu sinni sem oftar með í jólabjórsmakki Vínotek þetta árið og komst því í flest það sem er í boði núna í vínbúðinni. Það var ýmislegt sem kom á óvart skal ég segja ykkur.
Dómar þessir verða dálítið litaðir af eigin smekk, það er í lagi svona í kringum jólin.
Þegar það er sagt vil ég benda á að persónulega vil ég hafa jólabjór aðeins spes, bjórinn verður helst að hafa eitthvað sem minnir á jólin eða eitthvað sem ekki fæst allt árið um kring. Ég veit að margir eru mér ósammála hvað þetta varðar. Ég þoli svo ekki bjór sem er bara kallaður jólabjór en er alveg eins og allt annað sem viðkomandi brugghús framleiðir. Verð bara reiður.
Bráðatilfellin:
En ok, hvað er það sem maður bara má ekki missa af? Jú það sem mun klárast fyrst og þetta segi ég bara af reynslu, eru Mikkeller Hoppy Luving Christmas, Snowball frá To Öl, og Brewdog Hoppy Christmas. Reyndar fer þetta allt mjög fljótt frá Mikkeller og Brewdog. Þvörusleikir er svo annað sem verður að drífa sig í að prófa, Borg bjórinn fer alltaf hratt. Svo veit ég að það á eftir að koma eitthvað alveg spes og flott á krana á t.d Micro og Kex. Eitthvað sem klárast mun mjööög fljótt. Fylgist með því hér.
.
Það óvænta þetta árið:
Egils Jólagullið kom töluvert á óvart, hingað til hef ég ekki getað drukkið þennan bjór með góðu móti en í ár er allt annað uppá tengingnum, í ár eru Egils Gullið ekki lager heldur öl. Já öl með bara nokkuð þægilegum karakter, ágætis beiskja, sæmileg fylling og bara allt í lagi bjór. Í nefi er nokkur sæta með perum og banönum og minnir þannig á hveitibjór. Þetta er svona jólabjór fyrir þá sem vilja fara úr látlausa lagernum í aðeins skemmtilegri bjór og fær Ölgerðin hér með hrós fyrir að breyta aðeins út af vananum og kannski koma til móts við ört vaxandi bjórkröfur þjóðarinnar.
Jólatuborginn kom líka á óvart, hingað til hefur hann alltaf verið í dálitlu uppáhaldi, líklega nostalgía frá námsárum mínum í DK. Nú hins vegar var hann ekki alveg að standast væntingar, mikill málmur í nefi og bragði. Ég veit ekki, er eitthvað nýtt að gerast í Tubbanum? Ger? Ég mun þó ekki gefast upp, ég mun halda tryggðinni við gamlan félaga. Þetta var svo sem bara first impression.
Svo er það Kaldi, já blessaður Jólakaldinn kom verulega á óvart. Hann vann í raun flokk léttu lager jólabjóranna hjá mér þetta árið. Ólíkt fyrri árum þá er hann í fínu jafnvægi, ekkert auka eða off bragð. Hann er bara þægilegur, nettur og flottur og það sem undarlegast er, það er öööörlítill lakkrískeimur af honum svei mér þá? Eitthvað sem ég held að fólk eigi eftir að falla fyrir svona almennt. Sjálfur mun ég ekki kaupa flösku af honum frekar en hitt létta stöffið samt, aurinn minn fer í flóknari bjór. Ég hélt að aldrei ætti ég eftir að segja þetta um Kalda, gaman að þessu.
Loks eru það Ölvisholts bjórarnir, þeir eru tveir þetta árið, Jóli og Jólabjór Ölvisholts. Hingað til hef ég verið sérlegur aðdáandi Ölvisholts og jólabjórinn þeirra hefur alltaf skorað hátt hjá mér en í ár hefur eitthvað gerst. Ég er fylgjandi því að jólabjór sé eitthvað spes og minni á jól og það gera þeir sannarlega báðir en hins vegar er bara allt allt of mikill negull og krydd. Jólabjórinn byrjar vel, flottur í nefi, jólakrydd og fínerí en svo er bara of mikill negull í munni. Jóli er svo sama themað nema á sterum, gríðarlegt krydd. Já þessir komu verulega á óvart, bjóst við miklu betri bjór.
Hvað ber að forðast:
Mér finnst leiðinlegt að skrifa það en stundum má það alveg. Mér finnst að fólk eigi bara að vanda sig við jólabjórgerðina, ekki bara merkja hvað sem er sem jólabjór. Víking Jólabjór er algjörlega eins óspennandi eins og þeir gerast, reyndar ekki vondur en hann er bara eins og hver annar lager, ekkert jólalegt við hann. Harboe jóla er líkast til einn sá versti sem ég hef smakkað og voru Vínotekssmakkarar eiginlega sammála því. Klár óvirðing við fólk sem hefur eitthvað örlítið bragðskyn. Egils Malt jólabjórinn kom einnig ekki vel út, allt allt of sætur.
Bestu Íslensku:
Það er án efa Þvörusleikir frá Borg sem hefur vinninginn í ár. Hann hefur það sem þarf, humlana, sætuna, kókos og fínerí. Hann er í senn einfaldur og þægilegur en þó með hæfilegt flækjustig sem gengur vel í lengra komna. Svo er hann bara afar fallegur á borðum.
Kaldi er sem fyrr segir, afar nettur og vandaður þetta árið eða kannski er það bara smekkur minn um þessar mundir. Ég held að þessi muni slá í gegn hjá flestum sem aðhyllast létta flokkinn. Þetta er bjórinn sem ég læt flesta vini mína kaupa í ár en ég er alltaf spurður ár hvert hvað á að kaupa. Flestir vinir mínir hafa nefnilega einfaldan bjórsmekk. Fast á eftir þessum kemur Jóla Thule, þetta er bjór sem krefst einskis af neytandanum en hefur þó þessa karamellu og rist sem menn vilja tengja við jólabjórinn.
Svo má hafa hér með Almáttugan Steðja, annar af tveim jólabjórum frá þeim í ár. Miðarnir á báðum eru að vanda hræðilegir en það verður að teljast aukaatriði. Í nefi má finna ristaðar hnetur og ögn lakkrís. Í munni er hann mjúkur, eiginlega furðu mjúkur miðaða við prósentu. Lakkrísinn leynir sér ekki en er ekkert of mikill. Það er nokkur hiti í honum sem kemur vel út en bjórinn endar þó ekki alveg nægilega vel. Fyrsta ölið frá Steðja, skemmtilegt framtak og án efa besti bjórinn frá þessu brugghúsi til þessa.
Bestu jólabjórar ársins:
Bestu bjórar ársins koma ekki á óvart, eiginlega þeir sömu og síðasta ár.
Efstur á lista er Mikkeller Hoppy Luvin Christmas. Hér erum við komin í sterkari flokkinn, hér erum við með bjóra með bragð, hita og hamingju. Huppy Luvin er mikill í nefi, mikil mandarína og sætir ávextir. Í munni er hann afar ferskur, flott fylling og mikil beiskja og hann er þægilega þurr. Mandarínur koma einnig við sögu. Þessi er frábær með t.d Öndinni í appelsínusósunni og flottur eftir þunga jólasteik.
To Öl Snowball kemur hér fast á eftir, þetta er bjór sem er svo þægilegur að það er engu líkt. Saison í grunninn með humlum og villigeri. Bjórinn er örlítið funky í nefi og kryddaður. Í munni er hann þurr, smá mandarínur, létt krydd og ger og svo fullt af skemmtilegum humlum.
Brewdog Hoppy Christmas kemur hér í 3. sæti ásamt Mikkeller Red White Christmas. Báðir vel humlaðir, þurrir og beiskir. Brewdog er þurr i nefi með grenikeim. Í munni er mikil fylling, og humlarnir gefa sætuna. Red White er svo blanda af hveitibjór og red ale. Gríðarlega mikil froða, þétt og flott. Mikil krydd og humlar í nefi. Flott fylling, fura og ögn sykur á tungu. Þessi passar líka sérlega vel með Öndinni að ofan.
Það verður svo að nefna Brewdog Santa Paws sem er aðeins 4.5% karl of lendir því í létta geiranum. Þetta er dökkur og fallegur bjór með mikilli rist í nefi og saltlakkrís. Fylling er í meðallagi, dálítið þurr á tungu og kryddaður. Minnir töluvert á porter en fyrir minn smekk aðeins og þunnur. Hefði viljað sjá þennan svona 7% Engu að síður gott val fyrir þá sem hafa gaman að porter.
Samantektin:
Úrvalið er mikið þetta árið, margir þeir sömu og síðast. Þvörusleikir vinnur íslensku bjórana í ár en Kaldi og Jóla Thule koma vel út og eru held ég þeir bjórar sem flestir geta drukkið.
Egils Jólagull kom á óvart, nú er hann orðinn öl og stendur sig bara nokkuð vel, menn verða að prófa. Steðji kemur svo með sinn besta bjór til þessa, porterlegan, ristaðan og skemmtilegan bjór með ögn lakkrískeim, bjórinn kalla þeir Almáttugur Steðji sem er annar af tveim jólabjórum frá þeim í ár. Bestu bjórarnir þetta árið yfir allt eru líkt og í fyrra Mikkeller Hoppy Luvin Christmas og Snowball frá To Öl. Báðir virkilega ferskir og flottir með mikið bragð, humlabeiskju og notalegheit. Þetta er bjór fyrir fólk sem vill eitthvað meira potent og vandað.
Svekkelsi ársins eru svo Ölvisholtsbjórarnir sem eru bara allt of kryddaðir.
Líkar við:
Líkar við Hleð...