Southern Tier Blackwater Series Warlock Imperial Stout (8.6%)
Ég kom heim áðan eftir erfiða vakt á hjartagáttinni í dag og viti menn, þetta gula sjaldséða sem við köllum sól lét loksins sjá sig. Það var því kærkomin stund á pallinum í kvöldsólinni seinni part dags og auðvitað tilvalið að fagna þessu nýtilkomna sumri með góðum bjór. Ég átti svo sem ekki mikinn bjór í skápnum góða en ég átti þó þennan Graskers Imperial Stout sem ég kippti með frá Orlando á dögunum. Southern Tier er amerískt brugghús sem oft átti þátt í því að gleðja þreyttan læknanemann á gömlu góðu námsárunum í Danmörku…..gullárunum eins og maður kallar þau stundum þegar maður reynir að gleyma fjárhagsörðuleikum og smámunasemi í danskanum.
Þessi 8.6% imperial stout er bruggaður með graskerjum og á líklega að vera einhvers konar Hallowene bjór eða álíka. Bjórinn er kolsvartur í glasi, liggur dálítið á að komast úr flöskunni, freyðir uppúr. Í glasi er hins vegar látlaus froða. Í nefi er mikið krydd og eitthvað sem líklega er grasker sem er mjög ríkjandi. I munni er bjórinn frekar léttur en þó flókinn. Skrokkur í meðallagi. Áberandi krydd sem minnir helst á kanil eða Chai Latte ef einhver hefur smakkað slíkt svei mér þá. Léttir ristaðir brenndir tónar í bakgrunni sem minna mann á að þetta er stout. Vínandi alveg fjarverandi.
Virkilega flottur bjór og furðulega frískandi. Ég held að þessi verði gríðarlega góður með ungnautafile steikinni sem liggur grillinu hjá mér til að fagna sumrinu sem líklega verður búið í fyrramálið.
Græni karlinn: Svei mér þá ef ég er ekki bara alveg sammála fyrri ræðumanni. Flottur bjór, mildir tónar, krydd og skemmtilegheit.