Töfrar tunnunnar!

 IMG_2749„Hver er uppáhalds bjórinn þinn?“ spurning sem ég fæ oft og hef aldrei getað svarað.  Það væri nærri lagi að tala frekar um uppáhalds stíllinn þinn um þessar mundir.  Það er samt erfitt að svara þessu líka því stundum er maður í stuði fyrir Stout, stundum Barley Wine, stundum léttan lager ofv.  Ég get þó sagt að ég hef farið í gegnum nokkur tímabil og það er dálítið skemmtilegt að fara yfir farinn veg í þeim efnum.
.

Ég byrjaði á lagertímabilinu eins og nánast allir Íslendingar held ég, menn byrja að fikta í þar.  Svo fór ég á belgíska tímabilið þar sem belgíski bjórinn var það eina rétta, ég var eiginlega allt of lengi þarna.  Þeir kunna sitt fag Belgarnir ekki misskilja mig, það er bara svo margt annað spennandi. Frábær bjór og mun alltaf vera í uppáhaldi.  Svo  fór ég að þróast meira yfir í amerískan IPA, þar er allt annað að gerast,t.d beiskja sem ekki finnst í Belganum.  Ég komst á bragðið og eftir það varð Belginn talsvert minna spennandi.  Humlar og beiskja áttu hug minn allan á tímabili og þörfin jókst og jókst og Imperial eða Doubble IPA var það eina rétta.  Eins mikil beiskja og áfengi og hægt er.  Áfengið kemur nefnilega fram sem þéttleiki og þróttur og gefur oft notalega vínlega sætu í bjórinn.   Stout hefur alltaf verið úti í kuldanum hjá mér en núna allra síðustu misseri er hann farinn að koma meira inn, ég vil þá ekki sjá venjulegan stout, hann þarf að vera Imperial og helst á sætari nótum.  Svo er það það nýjasta tunnuþroskaða tímabilið, reyndar kom stutt tímabil þarna á milli með Saison eða sveitabjór, þessu tímabili er alls ekki lokið en tekur sig meira upp þegar nær dregur sumri.  Tunnuþroskaða tímabilið er hins vegar í fullum blóma, ég get bara ekki fengið nóg af þess konar bjór.  Skoðum þetta nánar.

Tunnuþroskaður bjór eða barrel aged bjór, kallað oft bara BA á merkimiðum, er bjór sem hefur legið á eikartunnum af ýmsum toga og þroskast stundum upp í rúmt ár. Sem grunnbjór er oftast notast við einhvern eðalbjór sem þegar er frægur hjá viðkomandi brugghúsi og þá algengt að um sterka þróttmikla bjóra sé að ræða.  Við erum að tala um imperial stout, double IPA, Barley Wine, Skotch Ale, American strong ale og þar frameftir götum.  Reyndar hafa menn líka verið að leika sér með Saison stílinn dálítið í þessum efnum.  Það er alveg ótrúlegt hvað tunnuþroskun gerir fyrir bjórinn.  Bara plain eikartunnur gefa skemmtilegan viðarkeim, kókos og vanillu sem stundum getur orðið mjög áberandi.  Við þetta bætist svo alls konar krúsídúllur ef eitthvað vín hefur áður legið á tunnunum.  T.d. er bourbon whisky tunnur vinsælar og fær maður þá grunnbjórinn, plús eikina og loks bourbon keiminn líka.  Þetta getur oft á tíðum verið svakaleg flóðbylgja af bragðtegundum sem gaman er að reyna að glíma við að skilgreina.  Menn eru að prófa allt mögulegt í þessum efnum, rauðvínstunnur, hvítvíns, tequila, sherry, brandy, púrtvínstunnur og svona mætti lengi telja.
.

Það skemmtilega við þessa karla er að fólk sem vant er mildari bjór, lager eða ljúft belgískt öl á oftast mjög auðvelt með þessa karla.  Þ.e.a.s ef það fer í bjórinn með opnum hug.  Þannig hef ég komið nokkrum vinum mínum af báðum kynjum á bragðið, fólk sem hefur gaman af t.d. púrtvíni, sherry eða whisky.
.

Þannig að, ég gæti líklega svarað spurningu dagsins á þennan hátt, tunnuþroskaður bjór er minn uppáhaldsbjór…núna.  Já og það sem meira er ég á mér nokkra alveg uppáhalds.

Liquid Confidence Sherry Barrel Aged frá To Øl.  Hér erum við með alveg magnaðan imperial Stout í grunninn sem kryddaður er með chilly en hefur svo legið á sherry tunnum í einhverja mánuði.  Afraksturinn er þéttur og mikill bjór með sætum keim, dökkir þurrkaðir ávextir og súkkulaði.  Við þetta bætist svo kryddaður undirtónn með léttum bruna frá chilli-inu og svo er látlaus vínlegur kirsuberjablær sem minnir á létt sherryglas.  Hér er eikin sjálf ekki áberandi, maður getur samt greint vanilluna ef maður vill. Ofsalega skemmtilegur bjór. Sem ljúft er að sötra með elskunni sinni t.d. á köldu vetrarkvöldi í bústað!

Deliverance_Brewbuzz-003Annar í miklu uppáhaldi er Lost Abbey Deliverance.  Hér erum við með bjórinn sem ég fæ mér spari já eða bara þegar ég vil vera viss um að enda kvöldið með stíl.  Lost Abbey er amerískt brugghús sem erfitt er að finna á krám heimsins.  Þeir gera bara góðan bjór, punktur.  Deliverance er tunnuþroskaður bjór sem er  blanda tveggja bjóra af bestu sort , Serpent’s Stout sem hefur legið á bourbon tunnu í einhverja mánuði  annars vegar og Angels Share, amerískt sterköl þroskað á brandy tunnum í heilt ár.   Þessi samsetning gefur ofsalega skemmtilega blöndu.  Bjórinn er kolsvartur og dularfullur í takt við listaverkið á miðanum.  Í nefi má finna alls konar gotterí, maður þarf að passa aðeins að hafa bjórinn ekki of kaldann.  Þá koma fram þessir flottu tónar frá eikinni, ögn vanilla, súkkulaði, dökkir ávextir, gráfíkjur jafnvel og lakkrís.   Brandy keimurinn er látlaus en er þó þarna klárlega, sérstaklega þegar líður á.  Í munni er mikið að gerast, mikill og þéttur bjór án þess að verða ruddalegur.   Það er hárfínt jafnvægi beiskju og sætu og svo kemur inn ögn súkkulaði og kaffi.  Bourbon og brandy kemur vel fram en þó minna en manni grunar.  Það er flottur hiti í þessum bjór sem kallar á kulda og trekk.  Þessi er sko flottur í heita pottinum á ísköldu norðurljósakvöldi, ja eða með vindil eftir góða máltíð…annars hef ég ekki hugmynd um það.  Aldrei prófað tóbak.

Það erum að gera að reyna hafa uppá þessum tunnukörlum og prófa, þú munt ekki líta bjór sömu augum.