Ég er nú ekki vanur að skrifa hér um Kalda enda fyrir mína parta um lítt spennandi bjór að ræða hingað til. Ég var eiginlega búinn að gleyma því að ég hitti Sigurð Braga bruggara Bruggsmiðjunnar hérna um árið á bjórhátíð Kex. Við spjölluðum stuttlega saman og hann sagði mér að þeir væru að smíða Kalda India Pale Ale en það þóttu mér virkilega flottar fréttir. Síðan þá eru liðnir nokkrir mánuðir og maður bara búinn að gleyma….slíkt gerist.
Það hefur annars lítið farið fyrir þessum bjór sem mér finnst dálítið undarlegt þar sem hér er um að ræða fyrsta alvöru skref Kalda út fyrir „þægindarammann“ ef svo má segja. IPA frá þessu brugghúsi sem hingað til hefur bara komið með léttan tékkneskan pilsner í öllum mögulegum útgáfum eru stórar fréttir, meira að segja mjög stórar fréttir.
Ég vissi eignilega bara ekki af því að hann væri kominn „í hús“ fyrr en ég rambaði einu sinni sem oftar inn á Microbar núna í þarsíðustu viku. Ég hef reyndar verið mjög, mjöööög upptekinn og ekkert kíkt á öldurshús borgarinnar undanfarið. Nú hins vegar er stórum áfanga lokið í mínu námi og ég ákv að kíkja á Steina á Micro í leit að einhverju góðu í flösku til að fagna. Ég fann það að sjálfsögðu og má lesa um þá hamingju hér en ég rak einnig augun í Kalda IPA á krana og fékk að smakka.
Bjórinn kom virkilega á óvart, ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki við miklu (fordómar, ég veit), ég bjóst við Kalda pilsner með örlitlum humalkeim en nei þetta er alvöru IPA, humlaður og fínn með flotta beiskju, dulitla sætu á móti og fínann skrokk. Það er bara alls ekkert að þessum bjór og get ég vel mælt með honum um leið og ég segi að þetta er klárlega besti Kaldinn í fjölskyldunni. Ef þetta er vísir að nýjum áherslum brugghússins, vísir af því sem koma skal þá eru góðir tímar framundan. Vonum það besta.