Þegar bjór nær himneskum hæðum.

IMG_2815

Þorláksmessa er minn uppáhalds tími, þá eru jólin á morgun og allir eitthvað að dunda sér að klára jólastúss.  Ég hef það fyrir venju að splæsa á mig einhvern ofsalega flottan bjór undir lok kvölds.  Í ár var það Prairie Artisan Wine Barrel Noir og þvílík hamingja sem fylgdi honum.  Þetta er bjórinn sem maður getur valið ef maður stendur fyrir framan vínhilluna og getur engan veginn ákveðið sig hvort maður eigi að fara í rauðvínið eða bjórinn því þessi sameinar hvortveggja í eitt glas.  Já Noir er nefnilega Imperial Stout sem hefur legið og þroskast á nýtæmdum rauðvínstunnum og það finnst sko í nefi og bragði. Til að byrja með lítur hann út eins og dökkt rauðvín í glasi og í nefi er berjakeimur og ögn súr og svo smá eikin inn.  Í munni er hann furðulega mildur miðað við allt.  Mjúkur og fínn með súr vínber, eik og svo súkkulaði og ögn kaffi.  Í eftirbragði kemur einhver blanda af vanillu og berjumþ  Ofsalega skemmtilegur bjór, eitthvað sem ég hef eiginlega aldrei smakkað fyrr.  Skemmtileg pæling.

Bjórinn fæst á Skúla Craft Bar og líklega líka Microbar ef ég þekki Steina bjórsnilling rétt.  Hér sameinast sko tveir heima, vín og bjór.  Frábært.

Skúli Craft Bar

Það hefur kannski ekki farið framhjá fólki hér að nú á næstu dögum mun hér í miðbænum opna nýr bjórstaður sem kallaður er Skúli Craft Bar í höfuðið á Skúla Fógeta sem stendur fyrir utan gluggann.  Þ.e.a.s styttan auðvitað.  Um er að ræða krá þar sem bjórinn er í lykilhlutverki.  Skúli mun líklega opna í þessari viku og verður gaman að sjá hvernig fólk á eftir að taka honum en þar mun fólk komast í besta bjór sem völ er á hér á landi.

Það vita svo ekki allir að sá sem sér um allan bjórinn á staðnum og viðburði tengdum honum er sjálfur undirritaður.  Ég get því lofað góðum gæðum 🙂 Ég vil svo bara taka þetta fram hér svo það fari ekki á milli mála að ég er líklega dálítið hlutlægur þegar kemur að því að fjalla um bjórinn á Íslandi.   Nú geta menn tekið það með í reikninginn þegar þeir lesa eitthvað hér.

🙂