Hvort er betra Nakin Eyja eða vera nakinn á eyju?

user-10-company_logo12Hvað er betra en að vera nakinn á eyju eða á nakinni eyju?  Kannski að vera nakinn á eyju með bjór?  Ég  veit ekki en eitt veit ég þó að í Noregi er framúrskarandi handverksbrugghús sem kallar sig einmitt Nøgne Ø.  Já við höfum verið með danska snillinga og auðvitað íslensku snillingana og nú er kominn tími á norska snillinga, sorry Finnland, þið eruð bara ekki með spennandi bjór. Nøgne Ø var stofnað árið 2002 af hinum metnaðarfullu heimabruggurum Gunnar Wiig og  Kjetil Jikiun.  Líkt og kollegar þeirra víðs vegar um heiminn voru þeir með hugsjón, þeir vildu sjá vandaðan gæðabjór með bragð og sérkenni, þeir voru einfaldlega komnir með hundleið á persónusnauða lagersullinu sem tröllreið Skandinavíu á þessum tíma, og gerir reyndar enn.  Þeir fóru í þetta að fullum krafti og í dag er brugghúsið  landsins þekktasti og öflugasti framleiðandi handverks bjórs af bestu sort.

BlackTokyoNakta Eyjan hefur verið ófáanleg á eyjunni okkar þar til núna sem er alveg ótækt. Við (undirritaður í samvinnu við Skúla Craft Bar) höfum hins vegar bætt úr því og valið nokkra af bestu bjórum brugghússins fyrir ykkur að sötra bæði á flöskum og af krana.  Reyndar hefur Nøgne Ø bjór fundist hér á landi óbeint því meistararnir Mikkeller, Brewdog og Nøgne Ø lögðust í sæng saman fyrir nokkrum árum og kokkuðu upp einn besta Imperial Stout sem um getur að mati undirritaðs, Black Tokyo Horizon sem hefur verið afar vinsæll hjá okkur á Skúla.  Mikkeller hefur einnig í gegnum tíðina fengið að bruggað bjór hjá Nøgne Ø og má þar t.d. nefna hinn magnaða Beer Geek Brunch Weasel sem við vorum nú með á krana fyrir nokkru síðan.  Svo hafa þeir nöktu einnig bruggað með ýmsum öðrum stórlöxum (collab) á borð við Stone Brewing og Jolly Pumpkin.  Já þeir kunna þetta sko.

Nú er þetta sem sagt orðið að veruleika, Nøgne Ø  er lent á klakann og einhvern tíman eftir helgi verður hægt að fá á Skúla Craft Bar slatta af flöskum og amk 5 kúta frá nakta fólkinu, og um að gera að kíkja og prófa þetta stöff.  Já þetta er í fyrsta sinn á Íslandi takk fyrir.

.
IMG_3317

Stóra Lekamálið…Bjórspekingur fylgist með!

Krani
Mynd fengin af AdvancedMedia

Nú er jólabjórinn nánast allur uppurinn í Vínbúðinni, ja eða sá sem vert er að eltast við amk, þá meina ég Mikkeller bjórinn, Brewdog og To ÖlÞvörusleikir er einnig búinn eða alveg að klárast en við þurfum þó ekki að örvænta því það eru dásamlegir hlutir að gerast á kranavaktinni.

Já við höfum verið að fylgjast sérstaklega með krönunum á Kexinu og Microbar en þar er oft hægt að komast í eðalöl af krana og það er sko sannarlega mikið að gerast á næstunni.  Undir á Kexinu núna er El Celler De can Roca 5% hoppy pilsner sem ég hef reyndar sjálfur ekki smakkað en ég hef ekki trú á öðru en að bjórinn sé stórgóður.  Hins vegar kemur hinn magnaði Mikkeller Hoppy Luving Christmas undir á næstu dögum hjá þeim og því ber sko að fagna.  Bjórinn er einn sá albesti af jólabjórflórunni í ár og hann er löngu búinn á flöskum.  Hér gefst því stórkostlegt tækifæri að leggjast undir kranann og smakka bjór eins og hann gerist bestur.  Ekki skemmir svo fyrir matseðillinn á Kexinu en þar er alltaf hægt að fá vandaða smárétti eða ómótstæðilega stærri rétti.  Það er vert að fylgjast hér með því þessi mun klárast hratt þegar hann kemur undir.   Ekki svo að skilja að það sé slæmt því þegar Hoppy Luving klárast er bara pláss fyrir eitthvað annað meistaraverk.  Ég veit t.d. að Mikkeller Ris a la M’ale mun detta undir einhvern tíman í desember.  Hér er virkilega stórbrotinn bjór á ferð sem gerður er til heiðurs hrísgrautsins ris ala mande sem er Danskur jólaréttur og afar vinsæll bæði þar og hér heima.  Bjórinn smakkaði ég fyrst í New York á krana fyrir einhverjum árum síðan og kom hann mér alveg í opna skjöldu.  Hlakka mikið til að smakka hann aftur enda hefur palletan þroskast mikið síðustu ár.  Stíllinn er óljós, einhver blanda bara, það er hins vegar ekki verið að tala um IPA eins og ég hef greinilega skrifað þarna í þessum dómi mínum í denn.
Að lokum má benda á að Þvörusleikir kemur einnig þarna á krana á næstu dögum.

Á Microbar var þegar ég leit þar inn fyrir helgina Mikkeller Crooked Moon Tattoo á krana en sá er flottur 9% imperial IPA.  Ég hvet fólk til að drífa sig á staðinn og þamba þetta kvikindi ef eitthvað er eftir því þegar hann er búinn þá kemur sko hvorki meira né minna einn sá albesti sem ég hef smakkað, Mikkeller Santas Little Helper Cognac Barrel Aged.  Ég smakkaði hann fyrst í tvíburaslagnum í fyrra á Microbar, þvílíkur bjór.  Ég er reyndar að vona að menn verði dálítið seinir að fatta þegar hann kemur undir því ég má ekki til þess hugsa að missa af honum.  Ég læt ykkur vita þegar hann er kominn undir og ég er sjálfur búinn að taka nokkra lítra af honum.

Jahérna, þvílíkur tími framundan!

Nýr Founders á klakanum, Dark Penance Imperial Black IPA

IMG_2655Þessi er glænýr á klakanum og fæst á betri börum borgarinnar og auðvitað via sérpöntun Vínbúðarinnar. Segja má að Dark Penance (8.9%) sé vetrarbjór þeirra Founders manna þar sem hann fæst aðeins frá október til desember og hann er hjartavermandi og hlýr eins og vetrarbjór/jólabjór á að vera. Brugghúsið er vissulega í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum sem þarf ekki að hljóma svo undarlega þar sem Founders er eitt flottasta, vinsælasta og eftirsóttasta brugghús veraldar. Ég er því ekki alveg hlutlaus. Ég hef smakkað um 12 bjóra frá þeim fram að þessu og enn ekki lent á vondum bjór sem er alveg magnað, ég eiginlega skora ég hér á lesendur að finna fyrir mig vondan Founders bjór og ég lofa verðlaunum.

Dark Penance er bleksvartur imperial black IPA. Í nefi eru ristaðir tónar, ögn píputóbak frá afa og smá sætur keimur. Í munni má finna alls konar skemmtilegheit í mjúkum sopanum sem hlaðinn er eins konar bragðregnboga. Humlarnir koma vel fram, Centennial sem eru svo vinsælir hjá Founders og kristallast kannski best í Centennial IPA frá þeim og svo er þarna Chinook. Þetta skapar þurran beiskan en jafnframt ögn blómlegan keim ásamt sitrus og furu. Það er svo haugur af malti í þessum karli, kristal malt sem gefur sætt karamellu-toffee bakbein ásamt dökku hveitimalti sem gefur litinn, ristuðu tónana og fyllinguna. Þannig má lika finna ögn súkkulaði og svo er kannski ögn vanillubragur yfir þessu öllu saman. Herlegheitin enda svo í þurrum beiskum humal. Þetta er eiginlega salgæti. Mér datt fyrst í hug að lýsa bjórnum bara með þessum fáum orðum:

„bjórinn er álíka góður og miðinn er fallegur. Fullkomnar umbúðir vægast sagt.“

.
Já menn vilja oft samanburð og mér dettur þá helst í hug Surtinn okkar frá Borg nr 23, ekki sami bjórinn, alls ekki en menn geta amk áttað sig í hvaða átt Penance er.  Enn eitt undrið frá Founders.

Logsdon Peche´n Brett – hinn fullkomni sumarkarl

 

image

Logsdon brugghús var mér ókunnugt um þar til tiltölulega nýlega þegar ég smakkaði Seizoen Bretta hjá Sæberg nokkrum Einarssyni á bjórhátíð Kex fyrir nokkru síðan en Sæberg er eins konar listrænn hönnuður og meðeigandi Logsdon brugghúss. Brugghúsið er amerískt „sveitabrugghús“ staðsett í Oregon sem einbeitir sér að belgískum bjórstílum, sér í lagi villibjór og saison (sveitabjór). Þessir gaurar eru snillingar í Brettanomyces villisveppnum og notkun hans í bjór. Ég held að Seizoen Bretta hafi verið besti saison sem ég hef smakkað svei mér þá!

Ég var að klára nokkuð stóran áfanga í mínu sérnámi á föstudaginn, eða hann er amk stór að mínu mati og því fannst mér ástæða til að fagna. Hvað er betra en að fagna í bjór…stórum bjór, eitthvað sem maður venjulega tímir ekki að kaupa? Júbb ég spjallaði við Steina á Micro en hann hefur smakkað vel flest sem til er hér á landi í bjór og spurði hann ráða, hvaða bjór myndi hann fá sér við svona tækifæri. Steini benti mér á þennan m.a. og hafandi smakkað tvo Logsdon bjóra áður þá þurfti ekki mikið til að sannfæra mig, ég meina 10% Saison með villigeri sem hefur verið aldraður á eikartunnu með ferskjum? Ekki flókið.

image Þetta er gullfallegur bjór í glasi, gulur og mattur með flotta þykka froðu. Ískaldur í sólinni þannig að glasið verður svona í móðu eins og í góðri auglýsingu. Í nefi mætir manni dásamlegur ferskjukeimur i bland við „funky“ brett. Fyrir þá sem ekki þekkja keiminn af villibjór þá er dálítið erfitt að lýsa því. Sumir tala um fúkkalykt, háaloft, mysukeim, súran keim en allt er þetta eitthvað sem gefur ekki góða mynd af því sem maður finnur. Menn verða bara að fá sér einn klassískan villibjór t.d. Cantillon Gueuze eða 3 Fonteinen Oud Gueuze sem hafa stundum fundist á Microbar, og þefa. Logsdon Peche er ekki gott dæmi um „funky“ hins vegar þar sem ferskjurnar eru afar áberandi.

Í munni er þessi drykkur álíka magnaður, gríðarlega frískandi með áberandi ferskjum en án þess að verða væminn. Sýrði, funky villigerskeimurinn kemur í veg fyrir það, kemur virkilega vel út svona súrsætur. Svo kemur eikin þarna í gegn með eins konar vanillukeim eða kókos en afar látlaust þó og loks kryddaðir tónar frá gerinu. Bjórinn er þurr á tungu og það er ágætis beiskja en þó víðs fjarri því sem maður finnur í pale ale t.d. Sopinn endar svo með dálítið súrum eftirkeim sem gerir mann klárann fyrir næsta sopa. Það sem kemur svo á óvart er að þessi bjór er 10% en það er algjörlega ómögulegt að finna það í bragði. Alveg hreint magnaður sumarbjór, hitti beint í mark

Borg full of shit!

IMG_1812

Borg nr 26 Fenrir Taðreyktur IPA er merkilegur andskoti, líklega sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum bara. Já alltaf gaman að reka tungu ofan í  svona tilraunaverkefni, reyndar hafði ég smakkað taðreyktan bjór hjá Borg fyrir einhverjum 2 árum eða svo, hann var skemmtilegur og á þeim tima voru Borgarar að velta fyrir sér hvort markaðurinn myndi ráða við svona furðuverk.  Ég er Borgurum afar feginn að hafa nú látið vaða því ég átti nefnilega  mjög skemmtilegt móment með þessum bjór á pallinum í gær þar sem sólin gægðist fram á milli skýjanna í nokkrar sekúndur en þó nægilega lengi til að fullkomna mómentið.
Það var nefnilega þannig að þegar ég opnaði flöskuna kom bara öll gamla góða sveitin á móti mér. Þvílíkur hrossaskítur, ég var bara allt í einu kominn aftur í Kjósina fyrir aftan haugsuguna á bak við fjósið. Já ég er þetta gamall, ég náði nefnilega þessum gullárum þar sem ungir menn voru sendir í sveit á sumrin í kúasmölun, heyskap og annað púl. til að verða að mönnum, en nú eru víst breyttir tímar. En en aftur að  haugsugunni 🙂 þetta skemmtilega atvik var mér eignlega nánast gleymt sem er eiginlega ótrúlegt, en kannski er þetta einmitt atvik sem menn vilja ekki tala mikið um?  Hvað með það, það var heitur sumardagur og við vorum þarna tveir félagarnir, líklega 12 eða 13 ára gamlir, nýbúnir að sjúga beljuskít úr haughúsinu  undir fjósinu og smekkfylla haugsuguna sem tengd var við gamla Zetorinn þegar sá þriðji, sem reyndar var bóndinn sjálfur ákvað að setja allt í gang. Hann gerði það reyndar óvart, eða þannig voru hans útskýringar amk, en afleiðingarnar voru þær að haugsugan, eins og haugsugum er ætlað, byrjaði að spúa saur út um alla veggi og jörð og auðvitað okkur félagana tvo.  Það er eiginlega frekar súrt að ekki sé til ljósmynd af þessu.

En ok, gaman að þessu, ekki oft sem bjór tekur mann svona aftur í tímann. Fenrir er amk fullur af skít eins og haugsugan í denn, „full of shit“ eins og hinir Engilsaxnesku frændur okkar myndu orða það. Reyndar ekki beljuskít sem betur fer, slikt kæmi líklega ekki vel út.  Í raun er svo sem enginn skítur í bjórnum heldur er kornið reykt yfir hrossataði sem þannig gæðir kornið þessum eiginleikum.  Í munni er taðið nokkuð minna áberandi en þó vel merkjanlegt og reykurinn dásamlegur. Þetta er bjór sem kallar á mat, fullkominn matarbjór og ég sé strax fyrir mér einhverja flotta reykta ítalska pylsu og franska osta, eða massífa grillsteik. En já mjög sérstakur bjór er óhætt að segja, ég sakna þó dálítið meiri beiskju, hefði viljað meira humalbit með þessum skít enda um IPA að ræða. Engu að síður, ofsalega skemmtilegur bjór.

Græni karlinn var hins vegar ekki eins spenntur, „kúkalykt“ voru hans orð þegar hann prófaði bjórinn fyrst.  Það er nefnilega þannig að menn og konur verða held ég að fara í þennan bjór með alveg opnum hug og ekki missa gleðina ef bjórinn er skrítinn….þessi bjór Á NEFNILEGA AÐ VERA SKRÍTINN!

Hoegaarden á krana – frábæri sumardrykkurinn í stóra vinalega glasinu!

Image

Að brugga bjór með hveitikorni er ævaforn bruggaðferð sem hvaða Mesopotamiumaður sem er gæti staðfest ef hann væri bara á lífi í dag. Hveiti er í raun bara ein gerðin af mörgum korntegundum sem hægt er að nota í bjórgerð. Í dag er maltað bygg hins vegar langvinsælasta kornið en vissulega nota menn hveitið líka. Hveitibjór nútímans er líklega þekktastur frá Þýskaland og Belgíu en þessar þjóðir brugga dálítið ólíkar gerðir hveitibjórs. Belgar eru frægir fyrir sinn hvíta bjór, belgian witbier eða biere blanche eins og stíllinn er kallaður líka. Um er að ræða hveitibjór sem er alltaf ósíaður og fær því á sig mjólkurkenndan blæ í réttri lýsingu, hann er nánast hvítur!
Hoegaarden er belgískur hvítbjór sem segja má að sé fyrirmynd allra nútíma hvítbjóra frá Belgíu. Nafnið er dregið af smáþorpi með sama nafni sem bendlað hefur verið við þennan bjórstíl í marga áratugi en á „gullárum“ Hoeagaarden þorpsins á 16. öld var haugur af bruggurum sem gerðu hvítbjór eða ein 30 „brugghús“ þegar mest var og þ.m.t. klaustur nokkuð sem opnaði reyndar 100 árum áður.  Já já Guðsmenn fortíðar voru ofsalega duglegir að gera bjór og jafnvel vín.  Þetta breyttist hins vegar allt með tilkomu hins ljósa pilsner bjórs sem náði furðu fljótt gríðarlegum vinslældum um alla veröld. Menn vildu auðvitað taka þátt í æðinu og hættu því að brugga hvítbjórinn og snéru sér að þessar tekjulind.  Hvar var hugsjónin á þessum tíma, ég bara spyr? Tvær heimsstyjaldir hjálpuðu heldur ekki til og þannig lagði síðasta hvítbjórs brugghúsið í Hoegaarden upp laupana árið 1950.
Nokkrum árum síðar hins vegar, ákvað maður nokkur að nafni Pierre Celis að endurvekja stílinn enda fólk farið að sakna gamla góða hvítbjórsins á þessum slóðum. Celis opnaði þannig eftir nokkuð brask brugghús árið 1966 sem bruggaði einungis gamla góða hvítbjórinn. Brugghúsið varð fljótlega þekkt sem Hoegaarden brugghús og var eina sinna tegundir um langt skeið og sætti mikilla vinsælda, belgíski hvítbjórinn var þannig endurfæddur. Celis karlinn lenti hins vegar í fjárhagsvandræðum eftir að brugghúsið hans brann árið 1985 og þurfti að leita til bruggrisans Interbrew eða InBev eins og það heitir í dag. Þar með eignaðist ein stærsta bruggsamsteypa veraldar Hoegaarden og á enn þann dag í dag. Bjórinn er engu að síður stórgóður enn í dag og gríðarlega vinsæll. Það tíðkaðist á þessum slóðum að krydda hvítbjórinn með coriander fræum og appelsínuberki líklega í upphafi til að draga úr súra keimnum sem einkenndi bjórstílinn en notast var við villiger á þeim tíma en slíkt ger gefur af sér afar súran „funky“ keim. Þessi hefð hefur svo bara haldist áfram enda gæðir það bjórinn meira flækjustig og sérkenni.

Hoegaarden er ofsalega mildur og ljúfur bjór af gerðinni öl eða yfirgerjaður bjór. Þessi bruggaðferð gæðir bjórinn meira bragði en menn eiga að venjast í lagerbjór.  Gerið fær að leika lausum hala og líður vel og losar út í bjórinn haug af dásamlegum esterum og öðru góðgæti sem gefur flókið og notalegt bragð. Bragð sem reyndar truflar fólk sem vant er hinum látlausa og leiðinlega lager. Hvað um það, þetta þýðir ekki að hér sé einhver bragðbomba á ferð en maður finnur þó dálítið fyrir kóríander og berkinum og svo er bjórinn örlítið kryddaður og frúttaður þar sem epli eða perur koma við sögu og jafnvel smá hunang.  Bjórinn er einfaldlega dásamlegur alveg ískaldur í sumar og sól og reyndar stórvarasamur þar sem hann er svo auðdrekkanlegur að maður er fljótur að klára nokkra lítra af honum ef maður er ekki á varðbergi, sérstaklega þegar maður fær hann í ofvaxna flotta Hoegaarden glasinu.
En afhverju er ég að skrifa um þennan bjór núna, hann hefur verið fáanlegur lengi hér í vínbúðum og börum í flösku. Jú nú er það nefnilega svo að þessi flotti sumarkarl fæst nú á krana á VegamótumÖlstofunni, Forréttabarnum, K-bar, KOL Resturant og Café Flora . Þetta verða að teljast góðar fréttir ekki satt?

Drekktu hann ískaldan á meðan þú grillar ketið, sötraðu hann með léttu sallati eða humar eða dreyptu á honum með sætum ávaxtabaseruðum eftirréttum.  Hvernig sem er, aðal atriðið er bara að smakka kauða.

Flottur sumarbjór, Peter Pale and Mary

Notalegur og frískandi sumarkarl

Mikkeller Peter, Pale and Mary – Mikkeller framleiðir svo mikið af bjór að það er nánast vonlaust að fylgjast með. Síðan þeirra er einnig frekar ruglingsleg og oftast lítið af upplýsingum um bjórinn þeirra. Það virðist sem það sé dálítið „cool“ bara að slengja fram einhverjum stykkorðum og smá vísbendingum á fésbókinni en án þess þó að útskýra almennilega um hvað ræðir. Þetta virkar sennilega vel, vekur forvitni og menn kalla á eftir upplýsingum. Stundum er þetta hins vegar bara pirrandi.

Hvað um það, þessi bjór er af gerðinni pale ale í léttari kantinum. Eins og svo oft áður þá er hann bruggaður í De Proef í Belgíu. Nafnið hefur líklega einhverja sögu á bak við sig….eða ekki? Það skiptir ekki nokkru máli, það er bjórinn sem um ræðir.
Í nefi eru mikil blóm og humlar, líklega Mosaic ef ég þekki hann rétt. Í munni er um ofsalega flottan bjór að ræða. Mikið af ávöxtum, ferskjur, og mangó? Þægilega þurr, beiskja notaleg ofsalega léttur og sumarlegur. Já mjög sumarlegur bjór bara með notalegum ávaxtakeim og beiskju í eftirbragði.Frábær sumarbjór sem ég mæli klárlega með, fæst í vínbúðinni, amk Heiðrúnu og Skútuvogi….eru menn eitthvað að þvælast annað hvort eð er?