Jóladútl og einn ljúfur með frá Kernel

Jóladútl og einn ljúfur með frá KernelNú líður að jólum og menn og konur keppast við að leggja lokahönd á allt sem þarf að klára fyrir jólin.  Það er verið að versla gjafir og pakka inn, jólakortin eru skrifuð og smákökur og annað gúmmilaði bakað.   Þetta fylgir allt saman og er í raun það sem gerir aðdragandann að sjálfum jólunum svo notalegan og skemmtilegan.  Ekki skemmir svo fyrir að fá sér kannski eins og einn ofsalega ljúfan bjór með, svona rétt til að setja ögn meiri gleði í þetta allt saman.
Þó ég eigi sjálfur eftir að gera vel flest þá er frúin komin á fullt og í gær var sett í sörur, eitt af því fáa sem ekki má vanta yfir hátíðarnar hér á bæ.  Þetta lofaði allt saman mjög góðu hjá henni í gær og ákvað ég að láta reyna á nýjan bjór sem kom í hendur mínar úr undarlegri átt.  The Kernel Imperial Brown Stout 9,9% alla leið frá Glascow.  Já mágkona mín fór í mæðraorlof yfir hafið til Skotlands og þar komst bjóráhugi minn einhvern veginn í tal sem endaði með því að náungi að nafni Kevin, sem mágkona mín reyndar hitti aldrei sjálf, vildi endilega senda til mín tvo bjóra, þennan frá The Kernel og svo Fade To Black IPA frá Weird Beard.  Já þetta er flott, það vantar fleiri svona Kevina í heiminn það er sko víst.

En já The Kernel er heldur nýlegt lítið brugghús (2009) í London sem reyndar er orðið svo eftirsótt að það annar ekki eftirspurn. Af þeim ástæðum hafa þeir stækkað við sig held ég bara á síðasta ári.  Bjórinn þeirra er algjörlega framúrskarandi og frumlegur og spái ég því að eftir fáein ár munu vel flestir vita hvað Kernel er, ekki bara í bjórnördaheiminum.  Maður segir bara ekki nei við Kernel.  Ég hef smakkað þá nokkra frá þeim og ekki orðið fyrir vonbrigðum til þessa.
Ég ákvað að prófa bjórinn með stolnum nýbökuðum sörum. Bjórinn er svartari en kol í glasi og froðuhaus hverfur frekar fljótt.  Í nefi er mikið að gerast, hnetur, dökkt súkkulaði, ristað brennt malt.  Einnig einhver vanilla en þá samt alveg sáralítil.  Notaleg sæta með.  Í munni er bjórinn ofsalega mjúkur og flottur með mikla fyllingu.  Áfengið ein 9,9% kemur hvergi fram í bragði.  Hann er nokkuð flókinn þar sem ægir saman ristaðar hnetur, brenndar kaffibaunir, dökkt súkkulaði og ögn reykur.  Beiskja er einnig nokkur og þægileg.  Svo er einhver sæta með, vanilla?  Jább í raun flottur imperial stout sem vert er að prófa.  Hins vegar glími ég við það vandamál að þegar að stout kemur þá er ég afar vandlátur og er oftast ekkert allt of hrifinn.  Þessi karl er aðeins of súr fyrir mig í svipuðum skilningi og espresso getur stundum verið heldur súrara en beiskt en góðu hófi gengnir.  Með sörunum passar hann hins vegar mæta vel, og kemur þannig þessi sæta sem mér finnst vanta.

To Øl / Buxton Collab Carnage IPA – Svekkelsi!

IMG_2291

Carnage IPA – of mikið hype!

Ég hef stundum látið í mér heyra þegar ég er ósáttur við bjórinn eða réttara sagt öll lætin sem stundum er í kringum hann.  Það er svo oft þannig að menn gera mikið veður úr bjórnum sem svo reynist vera nákvæmlega eins eða amk mjög svipaður og annað sem kemur kannski frá sama brugghúsinu.  Ég ætla ekki að nefna Mikkeller í þessu samhengi því þá fæ ég fólk upp á móti mér 🙂  Ég geri mér reyndar vel grein fyrir því að brugghús sem brugga aðdáunarvert mikið af nýjum bjór lendir í því að gera bjór sem svipar til annara í eigin framleiðslu það er bara þannig og gott og blessað.
Það sem er að pirra mig núna er meira það að ég lét hafa mig út í það að eltast við einn svona bjór. Bjór þessi er samsuða tveggja brugghúsa To Øl sem gerir nú orðið ansi spennandi og ljúfa bjóra, m.a. einn af mínum uppáhalds Raidbeer og svo Buxton brewery sem er enskt brugghús sem virðist vera að gera það gott, hef ekki smakkað neitt frá þeim enn sem komið er.  Bjór þessi er 7% IPA sem þeir kalla Collaboration Carnage IPA.  Þeir gerðu svo annan bjór í sama samhengi sem er súr 4.9% bjór byggður á sama malti og humlum og sá fyrri.  Þetta var gert til gamans til að sjá hvernig svipaður grunnur getur orðið breytilegur eftir gerinu.  Bjórinn kalla þeir The Sky Mountain í höfuðið á hæsta fjalli Danmerkur Himmelbjerget.  Hér er um mun meira spennandi bjór að ræða.

Nóg um það, núna fyrir helgi var svo komið að því, heimsfrumsýning á bjórnum þeirra í nokkrum löndum á sama tíma á öllum stöðum.  Örfáir barir í heiminum sem sagt og einn af þeim Ale & Hop hér í Barcelona þar sem ég var einmitt staddur.  Klúðrið hér er dálítið mér að kenna að hluta til því á síðu Ale & Hop er þetta auglýst og svo er linkur á merkimiða Sky Mountain.  Á heimasíðu To Øl var svo ekki beint gefið að lesa sér til um þennan heimsviðburð heldur, ég set hér inn linkinn til gamans http://to-ol.dk/home/?p=768.  Þetta ruglaði mig amk í ríminu og ég fór því spennur, þvert yfir borgina….sem nota bene er ekki lítil, í steikjandi hita til að smakka þennan svakalega bjór.  Þegar ég kom á staðinn var sæmilega margt um manninn og gleði í mannskapnum, og viti menn einn af krönunum var aðgangurinn að þessum herlegheitum.  Ég keypti mér stóran bjór enda ofsalega þyrstur og spenntur, súrbjór er jú virkilega góður í hita.  Mér fannst samt eitthvað undarlegt við þetta allt saman þarna, sérstaklega þar sem merkingin passaði ekki við Sky Mountain  🙂 Komst svo að því að það var ekki sá bjór sem átti að vera á krana heldur þessi Collaboration Carnage.  Í æsingnum yfir því að fá að smakka Sky Mountain hafði ég bara lokað á Carnage IPA bjórinn, magnað alveg.   Bjórinn var  samt fínn, venjulegur IPA en akkúrat ekkert meira en það.  Þéttur og fínn, með góða fyllingu.  Ferskir ávextir í nefi, mango eða ástaraldinn.  Í munni mikil beiskja einnig og einhver krydd, jafnvel vanilla.  Ávextir ekki eins áberandi fyrir utan hefðbundinn sítruskeim/furunálar.  Mjög góður bjór og verkefnið skemmtilegt.  Hefði verið skemmtilegt að smakka báða bjórana saman, það er jú kjarni verkefnisins eða hvað?
Það er hins vegar á hreinu að það að eltast við þennan bjór meira en að rölta í næstu sérverslun er alls ekki þess virði.  Það er akkúrat ekkert spes við þennan bjór nema kannski höfundarnir og svo það að þeir geta haft hann dýrari bara af því að hann er collab bjór.

Bjór í Barcelona – Ale & Hop góður byrjunarreitur!

Bjór í Barcelona

Hinn vinalegi og káti Pablo Lezana á Ale&Hop

Þegar maður er í Barcelona þá er það kannski ekki bjórinn sem er efstur í huga fólks.  Þá er ég að tala um venjulegt fólk því bjórnördar eru auðvitað stöðugt að leita að góðum bjór.  Hér í Barcelona er ekki sjálfsagt að fá góðan bjór, hér eru það suðrænir kokteilar, spánskt rauðvín, Sangria og Cava sem ráða ríkjum.  Ég get svo sem ekki kvartað mikið enda sólginn í gott Cava því þeir kunna svo sannarlega til verka hér þegar Cava er annars vegar.  Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Cava freyðivín sem aðeins er bruggað hér á Spáni og nánast einungis hér í Cataloniu.  Cava er eins ósvikið hér á Spáni og Champagne er í Frakklandi.  Ég og frúin fórum ekki með miklar bjórvæntingar hingað út enda dásamlegt að sötra ískalt og spriklandi Cava hér í 30+ stiga hita og ég tala nú ekki um ef maður er staddur á litlum sætum tabas bar sem gerir sitt eigið ósvikið Cava.  Það er þó alltaf erfitt að slíta sig alveg frá bjórnum, ískaldur bjór er eins og allir vita afskaplega ljúfur í steikjandi hita.  Ég lét til leiðast og fékk mér bjór um daginn á rölti mínu hér um borgina, 30 stiga hiti, mig langaði bara svo mikið í einn ískaldann. Það er hins vegar ekki um auðugan

IMG_0061

Ískalt Cava ummm

garð að gresja í þeim efnum, Estrella Damm er hér alls ráðandi og varla hægt að fá annað.  Hér á 3. degi hef ég amk ekki séð neinn annan bjór á krana.  Ég segi þetta nánast aldrei en nú verð ég bara að láta það flakka, bjór þessi er algjörlega ódrekkandi.  Lager sull með einhvern furðulegan brennivínsundirtón. Hræðilegt.  Estrella Damm er klárlega „local“ bjórinn hér, bruggaður hér í Barcelona síðan 1876, stolt Barcelona og menn virðast bara sáttir við að fá ekkert annað.  Svei.
Sem betur fer hafði ég gert heimavinnu mína og laumast til að leita uppi bestu bjórstaði borgarinnar, þeir eru alls ekki margir en þó til staðar.  Ég hafði farið á einn slíkan (þann besta skv Ratebeer) fljótlega eftir komuna til borgarinnar bara til að mæta lokuðum dyrum.  „lokað vegna sumarfríja til 25. ágúst“, þvílík gremja, þarna sá maður haug af Mikkeller, BrewDog og ýmsu amerísku „stöffi“ bak við harðlæsta rimlana.  Það var því sorgmæddur bjórnjörður sem fékk sér Cava þetta kvöld til að lappa upp á sálina.  Virkaði svo sem fínt.  Næsta dag rambaði ég hins vegar inn á bjargvættinn, vin í eyðimörkinni, Ale & Hop!!  Þetta er vandfundinn lítill staður, ekki svo langt frá dýragarðinum og sigurboganum, í rauninni ca miðsvegar á milli þessara kennileita.  Þetta er lítill rólegur staður, dálítið fjarri ferðamannastraumnum þar sem bæði er hægt að kaupa sér ljúfan eðalbjór af krana og drekka á staðnum eða fá sér flöskubjór úr kælinum.  Flöskubjórinn má einnig taka með heim og fær maður þá 10% afslátt, það er hins vegar þess virði að staldra þarna við og drekka bjórinn sinn og ræða við framkvæmdastjórann Pablo en hann er ofsalega vinalegur, talar fína ensku og veit sitthvað um bjórinn og ekki síst bjórinn í Barcelona.  Pablo fræddi mig um bjórmenningu borgarinnar sem er dálítið eins og heima á Íslandi á byrjunarstigi.  Við erum byltingin sagði hann!  Pablo merkti alla bjórstaði borgarinnar á kortið mitt þar sem hægt er að fá góðan eðalbjór og hvatti mig til að skoða úrvalið, mjög hjálplegt.   Maður gæti vel mælt bara með því að menn byrjuðu á Ale & Hop, fengu sér góðan bjór og burger og svo upplýsingar um alla hina staðina í borginni.   Maturinn þarna sem er með mexíkönsku sniði og án kjöts er frábær.  Sonur minn sem er 12 ára fék sér mexikanskan salsaborgara sem var besti borgari sem hann hefur smakkað hvorki meira né minna. Ég fékk mér ofsalega flottan chilli casadia rétt og svo ískaldan IPA af krana með ummm. Kranabjórinn er síbreytilegur og reynt er að hafa bæði bjór frá erlendum stórlöxum sem og litlum spænskum örbrugghúsum.  Flöskuúrvalið er sæmilegt, ekkert ofsalegt en þó hægt að fá eitthvað frá Brewdog, Mikkeller, Port Brewing, Orval ofl.

IMG_0121

Síbreytilegt úrval á 10 krönum staðarins

Ég byrjaði á því að fá mér Kernel Cream IPA 7.2%.  Ofsalega góður IPA, alveg eins og ég vil hafa hann, dálítið blómlegur, frúttaður með þægilega beiskju sem maður finnur vel fyrir.  Fylling ljúf og góð.  Kernel er mjög spennandi örbrugghús í London sem vert er að fylgjast með því ég held að þeir eiga eftir að verða stórt nafn í framtíðinni.  Þetta er frekar nýtt brugghús og er að gera gríðarlega lukku í bjórheiminum í dag.  Það er þó ekki hlaupið að því að fá bjórinn þeirra því framleiðslan er afar lítil og frumstæð.  Hér má sjá stutt myndskeið til að fá tilfinninguna fyrir því hve lítið í sniðum þetta er, reyndar hefur brugghúsið nú stækkað við sig og komið í stærra og flottara húsnæði.  Frábært brugghús sem gerir alveg ljómandi bjór.
‘Eg legg það í vana minn á ferðalögum um heiminn að prófa „local“ bjórinn ef ég kemst í slíkt.  Ég ákvað því að reyna annan af þeim tveim örbjórum sem á krana voru frá Barcelona.  Pablo lofaði mér að reka tunguna í þá báða, báðir amerískir pale ale.  Annar var dálítið spes, eins og með brettkeim (villiger) og ég spurði Pablo hvort hænn væri með slíku geri, Pablo smakkaði þá bjórinn og taldi hann vera sýktan því það var ekki meiningin af gera brettbjór þarna. Það er erfitt að halda bjórnum í réttu ásigkomulagi hér í hitanum í Barcelona segir Pablo.  Bjórinn var hins vegar mjög góður þrátt fyrir þetta en ég ákvað þó að fá mér hinn localbjórinn frá Fort sem þeir kalla American Pale Ale 5.4%.  Virkilega flottur bjór, mildur með þægilegri beiskju og og dálítið gras eða plöntukeim frá humlunum.  Ágætis amerískur pale ale.

Já ég get fyllilega mælt með þessum stað hér í Barcelona, góður matur, róleg stemning, ágætis úrval af flottum bjór (til viðmiðunnar má taka Microbarinn okkar heima sem líklega hefur ögn stærra úrval bjórs á flöskum) og vinalegur og skemmtilegur barþjónn.

Foie Gras og Imperial Stout – einhver smakkað?

Foie Gras og Imperial Stout!

Chartier ofsalega vinsæll en ofmetinn?

Kannast einhver við staðinn? Ég valdi þessa mynd því á þessum stað í París fékk ég það besta Foie gras sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Ég er reyndar ekki mikill Foie gras maður í þeim skilningi að ég fæ það í raun sjaldan.  Rétturinn getur verð ofsalega góður eða bara eiginlega vondur.  Þetta er dálítið eins og créme brulée, hef smakkað ótal margar útgáfur, það virðist vera hægt að gera þann rétt á óendalega marga máta.  Nóg um það, staðurinn sem ég er að tala um þarna á myndinni heitir Chartier og ku vera ofsalega vinsæll resturant í París.  Okkur var bent á það af heimamönnum að fara þarna svo við gerðum það, staðurinn á að vera ódýr og með hágæða mat.  Við stóðum í ofsalegri röð til að komast þarna inn.  Þegar inn var komið tók við stór salur fullur af fólki.  Allt á iði, brjáluð læti, þjónar hlaupandi út um allt kófsveittir og með blæðandi magasár af stressi.  Við tókum eftir því á meðan við biðum eftir matseðlinum að fólk var nánast rekið út um leið og það renndi niður síðasta bitanum.  Ekki alveg staðurinn til að eiga rómatíska stund en samt heilmikil upplifun og í raun alveg þess virði að fara þarna bara til að fá besta Foie gras í heimi!!!

Nú er ég mikið að spá í pörun matar og bjórs.  Þegar ég sat þarna og smjattaði á þessu lostæti fór ég að spá í hvaða bjór kæmi vel út með.  Rauðvínið var ágætt en bjór væri enn betra held ég.  Ég fór að máta í höfðinu og datt í hug eitthvað þróttmikið Imperial Stout eða barley wine?  Ég held að það gæti verið stórgóð blanda, þrumu bjór, mikið bragð og svo mjúkur ofsalega ljúfur Foie gras ummmm.  Vandinn er að bjórinn er ekki til þar sem maður fær réttinn eða öfugt.  Það er því ekki hlaupið að þessu.  Hvað haldið þið lesendur góðir?  Hefur einhver smakkað þessa pörun? Getur annars einhver bent á stað sem býður uppá góðan Foie gras?

Ástríkur, hinseginn bjór?

Ástríkur, samkynhneigður bjór?

Öfugur, hinseginn bjór fyrir hýra?

Borg brugghús er að leggja lokahönd á nýjan bjór sem þeir tileinka gleði, hamingju og  hinsegin fólki.  Nú má maður ekki segja eitthvað vitlaust til að stuða ekki neinn eða hvað.  Alla vega bjórinn mun koma út fyrir Gay Pride hátíðina sem er á næsta leiti.  Bjórinn heitir Ástríkur og er merkimiðinn skrautlegur í fánalitum Gay pride og textinn á hvolfi.  Skemmtileg pæling.

Margur myndi ælta að hér væri mildur sætur ávaxtabjór á ferð, kannski eru það fordómar, ég veit ekk en bjórinn er amk allt annað en mildur og léttur.  Um er að ræða þrusu bjór með ein 10% áfengis.   Margslunginn og þróttmikill en þó með dálitlum ávaxtablæ.

‘Eg smakkaði þennan bjór síðast á krana fyrir ekki svo löngu síðan þegar Borg brugghús yfirtók Englis pub undir yfirskriftinni „Borgaraleg yfirtaka“.  Ofsalega góður bjór og mikill.  Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég segja, alvöru bjór fyrir alvöru karlmenn.  Ég veit svo sem að það gæti verið stuðandi lýsing ekki hvað síst nú við þessar aðstæður? Ég skal ekki segja, eitt er þó víst að bjórinn stuðar bragðlaukana svo um munar en á góðan hátt.  Stuð er annað orð yfir fjör ekki satt? þetta er alvöru bjór, og hann mun án efa gera menn hýra. Ég er svo ekki frá því að ég hafi smakkað þennan bjór einnig á bjórhátíðinni á Kex hér um árið þegar Borgarmenn mættu til leiks með uppfærða útgáfu af Benedikt, frysta páskabjórnum frá Borg.  Sá bjór minnti helst á belgískan tripel, belgískan strong ale eða eitthvað þar á milli, ofsalega góður.  Þó svo að stílar séu ekki beint það sem menn eru að eltast við á Borg þá stendur Klausturöl á miðanum og það kemur alveg heim og saman við það sem maður er að upplifa.

Belgískt Gay pride klausturöl hehehe skemmtileg samsuða svona í sögulegu samhengi.

Mæli með þessu, flott framtak hjá Borg.

Sá græni er auðvitað með eitthvað væl líka. Sá græni er hinn mjúki bjórdrykkjumaður með viðkvæma bragðlauka og óharðnaða.  Hann kunni vel við lyktina, mikill ávaxtakeimur og bjórinn lofaði góðu.  Í bragði var hann ofsalega mikill og sterkur og áfengisbragð dálítið að trufla.  Það er samt ofsalega gaman að smakka bjórinn sérstaklega ef maður er bara viðbúinn því að hann taki dálítið í.

Einstaka humalverkefnið – dagur 4

Cluster og Colombus

Þegar einstakir eru ekki stakir verða þeir enn meira einstakir!

Dagur 4, verkefnið heldur áfram, þegar hér er komið sögu sýnist mér kassinn vera rétt um hálfnaður.  Það var mikil spenna í loftinu þegar ég valdi næstu tvo til að takast á við og ekki laust við smá valkvíða.  Þar sem fáar ábendingar höfðu borist á þessum tímapunkti ákvað ég bara að grípa næstu tvo bjóra nánast af handahófi. Colombus og Cluster komu uppúr kassanum.  Kunnuleg nöfn en ég vissi þó ekkert við hverju var að búast.

Cluster er einhver blendingur sem á sér langa sögu.  Hann er amerískur og notaður bæði sem ylmhumall og til beiskju og bragðbætingar.  Alfasýrur í kringum 5-8% og með nokkuð hátt hlutfall myrcene olíu sem gerir hann dálítið blómlegan eða þannig er honum oft lýst.  Ég er þó ekki að finna þennan blómakeim, hann er mjög mildur í nösum með smá ávöxtum og svo má finna vínlegan keim sem ég held nú orðið að stafi af gerinu í bjórnum.  Í munni er mjög þægileg beiskja, hann er blíður í gómi, einhver kryddblær og jörð eða hnetukeimur.  Ekki þessir ávextir eða blóm sem ég hafði búist dálítið við.  Ágætur samt en ekkert sérstakur svo sem.

Colombus er enn einn ameríkaninn, hann gengur einnig undir nafninu Tomahawk.  Hann er töluvert beiskari með ein 14-16% alfasýruhlutfall.  Auk þess að gefa bjórnum hressandi beiskjuboost þá hefur hann einnig heilmikið að bjóða í nefi.  Hann er því klárlega sniðugur „dual“ humall.  Vinsæll í stærri amerísku ölin og allt sem heitir imperial.  Colombus er einn af þessum vá! humlum í þessari rannsókn, þeir hafa reyndar ekki verið margir, í raun bara Citra og kannski Warrior því þótt Simcoe hafi komið vel út þá vissi ég svo sem að þar var um magnaðan humal að ræða.  Colombus hef ég lítið stúderað og því var undrun mín mjög skemmtileg.  Hann kemur ofsalega vel út í nefi með haug af blómum, sætu og sítrus og er því alveg rakinn ylmhumall.  Í munni er hann mjög ljúfur einnig, töluverð beiskja, dálítið þurr á tungu með ögn sítrus og svo er einhver ofsalega flottur þéttleiki með og keimur sem gæti verið einhver viður eða jarðvegur.  Svakalega flottur.  Þetta endar svo allt saman með ljúfum kryddkeim í eftirbragði og ögn lakkrís? Virkilega flottur humall og nú kominn á listann yfir uppáhalds humalinn minn.  Bjórinn sem slíkur heldur alveg velli sem þrusu flottur IPA þrátt fyrir einn stakan humal.

Svo blandaði ég þessum tveim saman og út kom ofsalega flottur IPA, dálítið blandaður í nefi, krydd, sæta og blóm.  Þéttur og flókinn í munni með ljúfu löngu eftirbragði þar sem finna má eins og brenndan sykur með.

Já þetta er ofsalega skemmtilegt.  Sé eftir því að eiga svo ekki annan kassa af þessum bjórum eða það sem væri enn betra ef hægt væri að kaupa þá staka.  Ég myndi þá klárlega hafa gaman að því að reyna að búa til fullkominn IPa.  Óskablandan að svo stöddu væri Citra, Colombus og Warrior, uss hvað ég held að það kæmi vel út.  Ég skora á þá sem eru að fikta í single hop seriunni að taka þessa 3 saman.

Stóra einstaka humalverkefnið – framhald!

Dagur 3, 11/7/13 – Stríðsmaðurinn og áskorandinn og svo dásamlegur endir……Bravó!

Broskarl fyrir þá sem geta gískað á hvaða tvo humla um ræðir hér.  Stríðsmaðurinn er bandarískur andskoti, stór og mikill beiskjuhumall með aðdáunarverð 14,5-17% alfasýruhlutfall.  Humall þessi setur mark sitt á bjórinn svo um nemur með mikilli beiskju. Vilji maður góðan beiskan grunn í bjórinn sinn þá er það þessi.  Stríðsmaðurinn er einnig tiltölulega lár í svo kallaðri co-humulone olíu sem er sú olía sem gefur „hörðu“ eða „vondu“ beiskjuna.  Humallinn ætti því að gefa þægilega en mikla beiskju.  Það er einnig einhver ylmur sem fæst af þessum karli en í hverfandi magni held ég. Ég var ekki alveg að átta mig á því sem ég fann í nefi.  Eitthvað allt annað en allir hinir hér að ofan og minnti mig „gamla“ manninn á lyktina sem maður fann sem barn á Bjarnastígnum og þar í kring þegar Egils var þar starfandi.  Þegar þeir voru að brugga mátti finna einhvern þrúandi rúgbrauðshumalkeim leggja yfir allt hverfið.  Mjög spes keimur og ekkert sérlega aðlaðandi.   Í munni er gríðarleg beiskja, humallinn stekkur hér heljastökk afturábak í fullum herklæðum á sjokkeruðum bragðlaukunum.  Líklega sá beiskasti hingað til en það fær mig einmitt til að brosa breitt.  Þurr á tungu og dálítið krydd eða pipar. Í eftirbragði er svo langvarandi mikil beiskja  Ummm.
Áskorandinn er ekki eins mikill, hann er enskur sjentelmaður sem þó hefur karakter.  6,5-8,5% alfasýrur, hentar vel til að kalla fram beiskju en einnig góður í þurrhumlun til að skapa ylm.  Humall þessi er notaður í hina ýmsu bjórstíla.  Í mínum huga átti áskorandinn ekki séns, ég var búinn að dæma hann áður en keppnin hófst.  Í nefi er hann mun mildari, ögn mold og heytugga.  Ekki blómlegur, minnir helst á lagerinn.  Ef þetta er afrakstur þurrhumlunnar þá myndi ég ekki nota hann sem slíkan.  Í munni er hann mjúkur, ekki eins beittur og stríðsmaðurinn.  Hann er beiskur alls ekkert um of.  Sítrus kemur vel fram og hann er ekki eins þurr.  Þegar líður á bjórinn hins vegar byrjar hann að blómstra verður svona floral í restina og frúttaður.  Dálítið eins og Rocky…þegar er búið að berja hann sundur og saman þá allt í einu kemur hann til og klárar bardagann í restina.  Það er þó ekki alveg að gerast hér, hann nær ekki alveg að klára þetta að þessu sinni.

Nú mundi ég eftir því að prófa að blanda saman þessum tveim humlum og kom það mjög vel út.  Lyktin áfram svona heytugga og jörð og lítt spennandi.  Í munni er bjórinn orðinn mun betri, meira complex ef svo má segja.  Ekki eins bitur en hefur þó nóg og svo kemur blómakeimurinn og ögn sæta í gegn.  Mun betri bjór og meira lifandi.  Gaman að þessu.  Hefði viljað eiga smá Simcoe eftir og setja saman við þessa blöndu og fá þannig meira og betra nef og enn meiri flækju í bragði.  Sárt að eiga ekki til nokkra dropa eftir.  Mun prófa þetta næst 🙂

Hinn marg umtalaði Citra og svo Bravo með.

raidBeerCitra er dálítið nýr af nálinni, var fyrst ræktaður 2007.  Humallinn hefur sætt dálítilli gangríni finnst mér ef marka má umsagnir á veraldarvefnum.  Fólk annað hvort elskar hann eða hatar.  Ég hef smakkað bjór áður sem inniheldur þennan humal í bland við aðra.  Sá sem kemur hvað fyrst upp í hugann er Raid beer frá To Øl en sá bjór er alveg magnaður með haug af humlum og blómum.  Ég er svo glaður að hafa tekið Citra núna því nún fyrst átta ég mig á því hvað það er sem ég elska svo við Raid beer, það er Citra!  Humallinn er amerískur og  inniheldur 11-13% alfasýrur.  Hann er þekktur fyrir að vera mjög öflugur ylmhumall en hátt alfahlutfall gerir hann fínan beiskjuhumal að auki.  Humallinn inniheldur hátt hlutfall af olíum og er lár í co-humulone olíu sem á mannamáli þýðir að hann hefur bara það besta að bjóða, flóknar bragðflækjur og beiskju en ekkert rusl með.  Þegar ég hugsa það betur þá fékk ég einnig sendan Citra IPA frá heimabruggurum er kalla sig Digra.  Sá bjór var góður en þar kemur humallinn alls ekki eins vel fram.
Hér er hann gríðarlega flottur í nefi, flóðbylgjur af „tropical“ ávöxtum þar sem mango ber hæst.  Mikil og fersk lykt.  Í munni er hann mjög beiskur með ávöxtum og þar má enn finna mango og blómlega humla sem og ögn sítrus.  Mikil langvarandi beiskja í eftirbragði. Þessi bjór hrópar á mig Raid beer.  Dásamlegur alveg og klárlega sá besti til þessa úr seriunni.
Í allri þessari hamingju smakkaði ég Bravo humalinn einnig.  Dálítið ósanngjarnt en hei, svona er lífið.  Þetta er humall sem ég þekki ekki neitt.  Hann er amreískur og líkt og Citra tiltölulega nýr á markaði en hann var kynntur til leiks árið 2006 sem svo kallaður super alfahumall.  Hann inniheldur 14-17% alfasýrur og er ætlað það hlutverk að vera beiskjuhumall þó svo að hann hafi líka dálítinn blómlegan blæ og einhverja ávexti.  Lýsingin er flott en í samanburði við Citra þá á hann dálítið erfitt.  Ég átta mig ekki á lyktinni, alls ekki áberandi blóm eða ávextir, get í raun ekki lýst þessu.  Líklega einhver kryddkeimur sem ég kem þó ekki fyrir mig og lúmsk sæta.  Á tungu er hann mjög beiskur og þurr.  Klassískur sítrus og einhverjir kryddtónar.  Sakna ávaxta og blóma eins og lýsingin gefur til tilefni til að búast við (vá er ég að flækja þetta eitthvað?).  En já ágætur humall, skorar hátt bara út á beiskjuna. Ástæðan fyrir því að ég valdi þessa tvo saman var að annar er þekktur ylmhumall og hinn beiskjuhumall.  Mig langaði að sjá hvernig slík blanda kæmi út.  Viti menn blanda þessara tveggja 50/50 býr til ofsalega flottan IPA.  Látlausari í nefi, blóm og ávextir og heldur enn í mangóið.  Í munni mikil beiskja en svo notaleg sæta og ávextir.  Minnir hér enn mikið á Raid beer.  Ég hvet fólk til að reyna þann bjór t.d. á Microbar.

Já og litla getraunin, er þetta ekki nokkuð augljóst?