Sumar, pallurinn og bjórinn?

Image

Víking sumaröl

Við Íslendingar erum mikið að stússa á pallinum okkar á sumrin enda er það fátt eitt notalegra en að sitja á pallinum í brakandi blíðu og kannski með einn „kaldann“ við hönd.  Ég tala nú ekki um þegar menn eru að grilla, þá er jú nauðsynlegt að hafa bjór við hönd eða ííískalt hvítvín.

Það er erfitt að lýsa því, það eru einhver tengsl sem myndast milli grillmeistara og bjórsins sem hann er með án hans er hætt við að fari illa, steikin brenni við eða verði þurr og leiðinleg.  Það er held ég bara of mikið að hafa tvær lausar hendur við grillið.  Þá fara menn að pota meira í kjötið og snúa að óþörfu, eitthvað er það amk?  Alla vega, bjórinn?  Hvaða bjór passar best á pallinn?  Einu sinni sem oftar held ég að ekkert eitt svar sé rétt, smekkurinn ræður hér öllu.  Ég held þó að heit sumarsól kalli á léttari bjór sem ekki er of krefjandi.  Hveitibjórarnir koma fyrst upp í kollinn í þessu samhengi, hins vegar er það algengur misskilningur að hveitibjór sé þungur, mikill eins og brauð.  Slíkt heyrir maður oft þegar menn sem kannski ekki eru miklir reynsluboltar í bjórnum ræða um hveitibjór.  Nei hveitibjór er líklega sá allra mest svalandi af þeim öllum, er alls ekki þungur.  Ískaldur hveitibjór er eitthvað sem maður þarf að vara sig á því það er hætt við að hann drekkist hratt.  Sjálfur get ég ekki drukkið hveitibjór á veturnar svo sterk er tengingin við sól og hita á mínum bæ.  Dæmin eru mörg hér á landi um þessar mundir, þar má nefna nokkra, sá allra besti og þótt víðar væri leitað er Weihenstephaner Hefe Weissbier hann kostar dálítið en er vel þess virði.  Kemur frá elsta brugghúsi veraldar.  Fransizkaner er einnig ljúfur þýskur hveitibjór, heilmiklir ávextir í bragði þar sem perur bera hvað hæst.  Fransiz er á frábæru verði í Vínbúðinni.  Svo er alltaf Hoegaarden frá belgíu og svo eru ágætis íslenskir karlar til eins og Sumaröl frá Víking, Föðurlandsins Freyja frá Ölvisholti og Sumarliði frá Borg svo einhverjir séu nefndir.  Hinn klassíski lager gengur einnig mjög vel og er hann líklega vinsælasti bjórstíllinn á pallinum hér á landi.  Bjórstíll þessi er látlaus og mildur og ekki krefjandi verkefni.  Menn geta því auðveldlega einbeitt sér að fullu að grillinu án þess að láta flóknar bragðflækjur bjórsins trufla.  Dálítið eins og að horfa á Steven Siegal mynd.  

Hinir súru villibjórar, oft kallaðir „brett“ bjórar sem tilvísun í sveppi þá er gefa hvað mest í bragð bjórs af þessum toga, brettanomyces.  Þessi stíll er reyndar fyrir lengra komna, hann er þó oftast frekar mildur og þægilegur með súrum og þurrum blæ.  Minnir þannig stundum á þurrt hvítvín eða freyðivín.  Í grunninn eru þetta oft hveitibjórar, svo kallaðir lambic.  Nútímabruggun er hins vegar komin langt út fyrir öll box og reglur og því stundum erfitt að átta sig hvaða stíl maður er með í höndunum.  Belgar nota lambic sem grunn í hina frægu ávaxtabjóra sína og brugga þannig kirsuberjabjór, hindberjabjór ofl ofl.  Þessir bjórstílar eru virkilega ljúfir sumarbjórar.  Svalandi og ferskir og ganga svo sannarlega vel á heitum sólpalli.  Dæmin eru ekki mörg hér á landi, þó má finna flotta brettbjóra frá Mikkeller og þá helst á Microbar. Í Vínbúðinni er hægt að fá nú um stundir Mikkeller Arh Hvad? sem er í raun Orval klónn, afskaplega frískandi og skemmtilegur.  Minn uppáhalds ávaxtabjór sem ég nota oft sem fordrykk eða á pallinum yfir grillinu er Liefmans Cuvee Brut, belgískur ávaxtabjór sem byggður er á Oud Bruin and Goudenband, ofsalega ferskur, dálítið þurr og virkilega svalandi.  Þessi er eðal, kostar sitt en þess virði.  Verðið bjargar manni kannski frá að þamba hann í lítravís.

Þróttmiklu áfengisbomburnar ganga kannski á heita pallinn líka, ég veit ekki?  Fullskrokka Imperial IPA (sjá nánar hér) er í það minnsta mikið notaður hér á bæ á meðan grillað er.  Hann er bara svo ljúfur og brakandi humlarnir eru vel til þess fallnir að koma bragðlaukunum af stað.  Hins vegar fer hiti og hátt áfengismagn ekki allt of vel saman að mínu mati.  Þannig finnst mér ekki Imperial Stout eða Barley Wine ganga í miklum hita á pallinum eða með grillinu.  Þessi bjórar eru ofsalegir laukatryllar með mikið bragð og þungskrokka.  Svona karla á að drekka fyrir háttinn á köldu vetrarkvöldi, eða það finnst mér.  Það skal þó hafa það bak við eyrað að hafi maður í hyggju að para bjór og mat saman sem er virkilega skemmtilegt þá er allt leyfilegt yfir grillinu.  Þ.e.a.s ef maður er að grilla rétt og búið að velja hárrétta bjórinn með þá er sjálfsagt að sötra hann með yfir eldamennskunni, hvernig svo sem viðrar!

Nóg um það, hvaða bjór kallar sú sjaldséða gula fram hjá ykkur?

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s