Humlar eru til í ýmsum gerðum og geta verið afar mismunandi bæði hvað varðar bragð og biturleika. Eins gefa þeir mismikinn angann í bjórinn og jafnvel lit. Það getur stundum verið erfitt að átta sig á nákvæmlega hvað ákveðinn humall er að gera fyrir þann bjór sem maður er að drekka. Oft er nefnilega notuð blanda af humlum í bjórinn. Eitt er þó víst að án humla væri bjór ódrekkandi, sætur og líflaus.
Mikkeller hóf fyrir nokkrum árum síðan að leika sér með humlana og byrjaði að brugga India Pal Ale (IPA) og nota aðeins eina gerð af humal í bruggunina. IPA eru þekktir fyrir að vera beiskir og gera humlunum góð skil og því tilvalinn grunnur í svona tilraunir. Þegar þetta byrjaði fyrir nokkrum árum síðan náði ég að smakka 4 tegundir. Virkilega skemmtilegt þar sem allt annað er eins í bjórnum nema humallinn. Ég hélt reyndar að þeir myndu svo bara hætta þessu en aldeilis ekki. Í dag eru komnir amk 20 mismunandi bjórar, þ.e.a.s 20 mismunandi humlar. Ekki nóg með það að þegar þetta er ritað er hægt að kaupa þessi herlegheit hér á Íslandi.
Já þetta er einstakt tækifæri fyrir þá sem eru að reyna að átta sig á mismunandi eiginleikum humalsins og þá kannski sérstaklega þá sem eru að fikta við heimabruggið.
Fyrir áhugasama þarf að bregðast skjótt við, takmarkað upplag er til af þessu skilst mér og það þarf að panta alla 20 bjórana í einu í gegnum sérpöntunarkerfi vínbúðanna.