Það hefur kannski komið fram hér undanfarið að ég hef dálítið verið að hvíla belgíska bjórinn. Frábær bjór en svo virðist sem maður detti stundum í einhverja ákveðna bjórstíla og úr öðrum, maður fær bara leið á sumum bjórum þó þeir séu vandaðir og góðir. Það þarf vart að kynna belgíska bjórinn, hann stendur alltaf fyrir sínu en Belgar gera með betri bjórum þessarar veraldar en ég ætla ekki að fara frekar í þá sálma í þessum pistli.
Þegar þetta er ritað er ég staddur í Barcelona, borg sem alls ekki er þekkt fyrir bjórinn, þvert á móti, hér er það Estrella Damm sem er allsráðandi en sá bjór er nánast ódrekkandi. Það eru þó nokkrir staðir hér þar sem hægt er að verða sér úti um góðan bjór og er La Maison Belge einn þeirra. Rétt eins og nafnið bendir til gefa þeir sig út fyrir að bjóða besta úrval belgísks bjórs hér í Barcelona. Þeir eru reyndar einnig með búðir víðar og svo eru þeir með flottan bar hér í borg með eina 40 krana og gott flöskuúrval einnig, allt belgískt. Ég komst þó aldrei í það að skoða þann bar en þetta er haft eftir afgreiðslumanni í La Maison Belge. Ég fór í þessa búð til að taka hana út en einnig til að næla mér í súrmeti, Gueuze og Lambic. Það var dálítið skemmtilegt hvernig ég rambaði á búðina, ég bókstaflega þefaði hana uppi. Já ég var staddur ca á þeim stað á kortinu þar sem Pablo á Ale & Hop hafði krotað inn staðinn en ég sá hann þó ekki í fyrstu. Ég var búinn að ramba dálítið um þegar ég fann einkennandi belgískan bjórkeim, líkt og eitthvað hefði hellst niður af blond eða tripel. Ég snéri mér við og þar blasti búðin við. Ég veit svo sem ekki hvað þetta var en svona var upplifunin.
Ég varð annars fyrir vonbrigðum, úrvalið var alls ekki það sama og ég hafði vonast til. Hillur hálf tómar og ekkert súrt nema Cantillon Gueuze og Boon Kriek. Ég fékk þá skýringu að úrvalið væri lélegt yfir sumartímann. Kommon það virðist allt vera í lamasessi í þessu landi yfir sumartímann. Ég fann svo sjálfur 3 fonteinen Oude Gueuze í hillunum. Ég tók þetta allt og kláraði súra bjórinn þeirra og svo greip ég nokkra aðra í leiðinni, þar á meðal St Feuillien Grand Cru en ég hef lengi haft dálæti á St Feuillien. Ég og frú erum t.d. algjörlega háð því hver jól að fá jólabjórinn þeirra Cuvée De Noel (ath mjög gamall dómur 🙂 ). Án hans eru engin jól á okkar bæ. Reyndar er flöskuútgáfan bara málamiðlun, það er kranaútgáfan sem er algjörlega dásamleg. St Feuillien jóla er líklega sá belgíski bjór sem við höldum hvað mest uppá við frúin fyrir utan súrmetið. Grand Cru er nýr eða nýlegur frá þeim hjá St Feuillien. Um er að ræða þróttmikinn bjór, belgískan strong ale eða golden, 9.5 %. Hann hefur allt sem maður býst við af belgískum bjór. Þétt falleg froða og alveg nóg af henni. Bjórinn er ljós og mattur. Minnir ögn á belgískan hveitibjór í glasi. Mikil lykt, ávextir og krydd. Í munni er hann mikill og flókinn í samsetningu en samt léttur. Miklir ávextir og dálítil sæta en svo einhver notaleg beiskja sem heldur honum uppi. Í lýsingunni er talað um ekkert krydd? Mér finnst þessi bjór hins vegar búa yfir kryddum ýmiskonar, mildum ávöxtum, belgískt ger og notalegri beiskju. Minnir um margt á Tripel Karmeliet ef ég á að nefna einhvern til samanburðar. Virkilega flottur belgískur bjór sem ég myndi klárlega kaupa aftur.