Borg full of shit!

IMG_1812

Borg nr 26 Fenrir Taðreyktur IPA er merkilegur andskoti, líklega sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum bara. Já alltaf gaman að reka tungu ofan í  svona tilraunaverkefni, reyndar hafði ég smakkað taðreyktan bjór hjá Borg fyrir einhverjum 2 árum eða svo, hann var skemmtilegur og á þeim tima voru Borgarar að velta fyrir sér hvort markaðurinn myndi ráða við svona furðuverk.  Ég er Borgurum afar feginn að hafa nú látið vaða því ég átti nefnilega  mjög skemmtilegt móment með þessum bjór á pallinum í gær þar sem sólin gægðist fram á milli skýjanna í nokkrar sekúndur en þó nægilega lengi til að fullkomna mómentið.
Það var nefnilega þannig að þegar ég opnaði flöskuna kom bara öll gamla góða sveitin á móti mér. Þvílíkur hrossaskítur, ég var bara allt í einu kominn aftur í Kjósina fyrir aftan haugsuguna á bak við fjósið. Já ég er þetta gamall, ég náði nefnilega þessum gullárum þar sem ungir menn voru sendir í sveit á sumrin í kúasmölun, heyskap og annað púl. til að verða að mönnum, en nú eru víst breyttir tímar. En en aftur að  haugsugunni 🙂 þetta skemmtilega atvik var mér eignlega nánast gleymt sem er eiginlega ótrúlegt, en kannski er þetta einmitt atvik sem menn vilja ekki tala mikið um?  Hvað með það, það var heitur sumardagur og við vorum þarna tveir félagarnir, líklega 12 eða 13 ára gamlir, nýbúnir að sjúga beljuskít úr haughúsinu  undir fjósinu og smekkfylla haugsuguna sem tengd var við gamla Zetorinn þegar sá þriðji, sem reyndar var bóndinn sjálfur ákvað að setja allt í gang. Hann gerði það reyndar óvart, eða þannig voru hans útskýringar amk, en afleiðingarnar voru þær að haugsugan, eins og haugsugum er ætlað, byrjaði að spúa saur út um alla veggi og jörð og auðvitað okkur félagana tvo.  Það er eiginlega frekar súrt að ekki sé til ljósmynd af þessu.

En ok, gaman að þessu, ekki oft sem bjór tekur mann svona aftur í tímann. Fenrir er amk fullur af skít eins og haugsugan í denn, „full of shit“ eins og hinir Engilsaxnesku frændur okkar myndu orða það. Reyndar ekki beljuskít sem betur fer, slikt kæmi líklega ekki vel út.  Í raun er svo sem enginn skítur í bjórnum heldur er kornið reykt yfir hrossataði sem þannig gæðir kornið þessum eiginleikum.  Í munni er taðið nokkuð minna áberandi en þó vel merkjanlegt og reykurinn dásamlegur. Þetta er bjór sem kallar á mat, fullkominn matarbjór og ég sé strax fyrir mér einhverja flotta reykta ítalska pylsu og franska osta, eða massífa grillsteik. En já mjög sérstakur bjór er óhætt að segja, ég sakna þó dálítið meiri beiskju, hefði viljað meira humalbit með þessum skít enda um IPA að ræða. Engu að síður, ofsalega skemmtilegur bjór.

Græni karlinn var hins vegar ekki eins spenntur, „kúkalykt“ voru hans orð þegar hann prófaði bjórinn fyrst.  Það er nefnilega þannig að menn og konur verða held ég að fara í þennan bjór með alveg opnum hug og ekki missa gleðina ef bjórinn er skrítinn….þessi bjór Á NEFNILEGA AÐ VERA SKRÍTINN!

Hvenær er gestur góður?

Hvenær er gestur góður?

Mynd stolið af síðu Microbar

Það er oftast gaman að fá góða gesti en stundum er enn meira gaman þegar þeir fara aftur.  Hvað er þá góður gestur, er það einhver sem er afar sjaldgæfur og maður sér aldrei og sem kemur aldrei aftur að heimsón lokinni?  Eða er það kannski sá sem er reglulegur gestur og maður gengur að vísum? Hann kemur alltaf aftur en verður þá kannski ekki eins spennandi eða hvað?  Rómantískur gestur hlítur alltaf að vera spennandi?  Við getum amk verið sammála því að gestur sem er leiðinlegur og óspennandi er ekki góður gestur og manni er einhvern veginn sama þegar hann fer og hefur litlar áhyggjur ef hann kemur aldrei aftur.  Hér erum við komin dálítið út á heimspekilegan ís, ég veit.

En  talandi um gesti þá vill nefnilega svo til að núna er góður gestur á krana á Microbar.  Já þetta er sjaldséður gestur, gestur sem kemur aldrei aftur þegar hann er farinn og það sem meira er þá er hann hér í boði ástarinnar.
Já hann Steini á Micro gekk nefnilega í það heilaga á dögunum og bruggaði að því tilefni öl sem kallað er ástarmjöður.  Um er að ræða pale ale með rauðleitum blæ.  4,7% karl, ofsalega ljúfur og þægilegur bjór.  Dálítið þurr á tungu, notaleg beiskja og meðalgóð fylling.  Ég held að fyrir þá sem vilja smakka eitthvað ljúft, einstakt og eitthvað sem kemur líkast til aldrei aftur á krana að þá er um að gera að renna við á Microbar og láta vaða.  Ef Steini er á staðnum ættu menn jafnvel að smella á hann einum kossi í boði Amor.

Svo er það spurningin sem ég hef stundum átt erfitt með að svara.  Hvort er betra að smakka góðan bjór sem maður mun aldrei smakka aftur og komast þannig á bragðið en vitandi það að það sé svo bara allt búið.  Eða bara alveg að sleppa því að smakka en missa þá af því að hafa upplifað eitthvað einstakt?  Talandi um ástina, þá mætti heimfæra þetta þannig, reyndar vel þekkt spurning, er betra að elska og missa eða hafa aldrei elskað?
Já ég held ég hætti hér, þetta er orðið of heimspekilegt og væmið….er með tár í hvörmum þegar þetta er ritað svei mér þá.

p.s.  Pínu óheppileg merking á miðanum eða hvað?  Vonandi ekki dulið hróp á hjálp?  SOS?  😉

Flottur sumarbjór, Peter Pale and Mary

Notalegur og frískandi sumarkarl

Mikkeller Peter, Pale and Mary – Mikkeller framleiðir svo mikið af bjór að það er nánast vonlaust að fylgjast með. Síðan þeirra er einnig frekar ruglingsleg og oftast lítið af upplýsingum um bjórinn þeirra. Það virðist sem það sé dálítið „cool“ bara að slengja fram einhverjum stykkorðum og smá vísbendingum á fésbókinni en án þess þó að útskýra almennilega um hvað ræðir. Þetta virkar sennilega vel, vekur forvitni og menn kalla á eftir upplýsingum. Stundum er þetta hins vegar bara pirrandi.

Hvað um það, þessi bjór er af gerðinni pale ale í léttari kantinum. Eins og svo oft áður þá er hann bruggaður í De Proef í Belgíu. Nafnið hefur líklega einhverja sögu á bak við sig….eða ekki? Það skiptir ekki nokkru máli, það er bjórinn sem um ræðir.
Í nefi eru mikil blóm og humlar, líklega Mosaic ef ég þekki hann rétt. Í munni er um ofsalega flottan bjór að ræða. Mikið af ávöxtum, ferskjur, og mangó? Þægilega þurr, beiskja notaleg ofsalega léttur og sumarlegur. Já mjög sumarlegur bjór bara með notalegum ávaxtakeim og beiskju í eftirbragði.Frábær sumarbjór sem ég mæli klárlega með, fæst í vínbúðinni, amk Heiðrúnu og Skútuvogi….eru menn eitthvað að þvælast annað hvort eð er?

Ommegang Game of Thrones Fire and Blood Red Ale

Ommegang Game of Thrones Fire and Blod Red Ale

Ommegang er vinsælt amerískt brugghús sem er dálítið þekkt fyrir að smíða bjór eftir belgískum hefðum. Þessu hafði ég alveg gleymt þegar ég tók þennan með í körfuna í áfengisverslun nokkurri í Orlando á dögunum.  Líklega var það bara flaskan og þetta thema sem heillaði mig þá stundina.  Ég hef smakkað nokkra Ommegang bjóra og þeir hafa allir verið ágætir, hins vegar er ég á þeim stað í lífinu að ég er búinn með belgíska tímabilið, tók líklega of stóran skammt af því á sínum tíma.  Svo er það bara þannig að þegar ég vil belgískan bjór þá vel ég mér bjór frá Belgíu, ekki amerískan bjór sem bruggaður er eftir belgískum fyrirmyndum.   Þannig er ég bara.  Ef ég hins vegar fer út í belgískan amerískan bjór þá vil ég líka finna fyrir ameríska „twistinu“.

Að þessu sögðu þá að bjórnum.  Fire and Blood er bjór sem bruggaður er til heiðurs hinna gríðarlegu vinsælu Game of Thrones sjónvarpsþátta sem m.a. hafa verið teknir upp hér á landi að hluta til eins og þekkt er.  Bjórinn er af gerðinni red ale segja þeir og hann kemur í takmörkuðu magni í þrem mismunandi umbúðum.  Þ.e.a.s það eru þrír mismunandi drekar á merkimiðunum en bjórinn er sá sami.  Þeir sem horfa á þættina vita jú að drekarnir eru 3 og skýrir það þessa pælingu.  Þannig að, mig langaði bara að prófa þetta og þá er jú tilvalið að gera það á sama tíma og Game of Thrones er í sjónvarpinu.

Bjórinn er vissulega rauður í glasi og afar fallegur.  Froðan er flott og mikil en hverfur heldur fljótt.  Í nefi er mikið krydd og ávextir og líkist þannig belgískum tripel eða blond.  Auk þess er hellingur af ristuðu malti.
Í munni er hann skemmtilegur og þægilegur.  Mikið bragð, kitlandi kolsýra, fín fylling.  Það er mikill belgi í honum, krydd og pipar jafnvel eða er þetta chillí?.  Sætur maltkeimur skín í gegn en svo kemur þurr og beiskur keimur fram í restina.  Að hafa humlana svona áberandi í lokin tekur bjórinn dálítið út úr algjörlega klassíska belganum sem er mjög gott á þessum bæ.  Eftirbragð er svo langt og notalegt með sætu ristuðu malti og svo eins og dálítið súr tónn alveg í blárestina sem reyndar hverfur og breytist þegar líður á flöskuna eða þegar lögurinn volgnar, þá kemur fram þessi flotti chillí hiti, hér kemur drekinn fyrst fram í bjórnum.

Hinn ágætasti bjór, ég bjóst þó við meira „attitute“.  Virkar líklega vel sem matarbjór með ýmsum réttum.  Ef ég hins vegar á að vera alveg hreinskilinn þá eru umbúðirnar það besta við bjórinn að mínu mati.  Það er bara alltaf gaman að smakka svona bjór sem kemur út að einhverju tilefni og í takmörkuðu magni.  Er samt feginn að ég tók ekki allar þrjár flöskurnar.  Munum samt að ég er einhvern veginn búinn að overdosa á belgískum bjór.

Founders Imperial Stout, einn sá besti í ÁTVR í dag!

Founders Imperial Stout, einn sá besti í ÁTVR í dag!

Ég hef áður fjallað um Founders, eitt flottasta brugghús veraldar og jafnvel þótt víðar væri leitað?  Síðustu vikurnar hafa fengist nokkrir af þeirra bestu körlum á betri krám borgarinnar og via sérpöntun ÁTVR.  Kannski hafa menn þegar smakkað t.d. All Day Session IPA frá þeim en hann er með eindæmum ljúfur IPA.  Nú í gær var svo að bætast við einn ægilega flottur, einn sá besti í ÁTVR þessa dagana að okkar mati, Founders Imperial Stout.  Svona eiga Imperial Stout bjórar að vera, þeir gerast varla mikið betri.  Við hér á Bjórspekinni erum svo alls ekki einir um þessa skoðun því þessi ofsalegi karl fær 100 stig af 100 mögulegum á Ratebeer sem fyrir þá sem ekki þekkja til er stærsta bjórsamfélag veraldar á netinu.

Founders Imperial Stout er gott dæmi um bjór sem má ALLS ekki drekka af stút….og ég meina ALLS ekki. Þessi bjór þarf að vera í fallegu glasi, helst einhverju svona tulip glasi, belgmiklu og á fæti.  Ég var svo heppinn að fá að gjöf Founders glas frá félaga mínum Andra sem er einn af þeim sem ábyrgur er fyrir stórauknu bjórúrvali Íslands.  Það er dásamlegt að fylgjast með bununni þegar hellt er í glasið, koooolsvört og þykk eins og olía beint úr iðrum jarðar.  Svo myndast þessi líka fallegi froðuhaus sem hangir nokkuð vel inni.  Í nefi er heilmikið í gangi, mikil sæta, og ristað sætt malt og svo keimur sem ég kannast vel við frá fornri tíð.  Þetta er lykt sem minnir furðu mikið á súkkulaðibananakökuna sem góð vinkona mín Ólína átti stundum til að baka handa mér þegar hún var í góðu skapi.  Frábær nostalgia.  Í munni er hann mikill, áfengið finnst varla nema sem flottur hiti.  Það er mikil beiskja í honum sem er nauðsynlegt til að draga úr sætunni sem skín þó í geng.  Sopinn liggur afar vel og hann er í raun fáránlega mjúkur í munni.  Svo er þarna kaffi, súkkulaði og einhver sæta sem ég kem ekki fyrir mig og loks ofsalega snoturt eftirbragð, korn, kaffitónar og karamella jafnvel.

Ég hvet fólk til að prófa þennan bjór en hafa það þó í huga að þetta er heldur pótent bjór með mikinn skrokk og bragð sem tekur vel í.  Að gefnu tilefni vil ég svo benda á að þessi bjór minnir ekkert á Guinnes sem menn virðast alltaf við þegar kemur að svörtum bjór.
Þessi bjór er magnaður einn og sér en enn betri með einhverju gúmmilaði og ég skora á ykkur að prófa með vanilluís með heitri súkkulaðisósu eða heitri eplaköku með vanilluís og svo auðvitað súkkulaðimús og þá er jafnvel hægt að hella örlítið af bjórnum yfir músina……maður fær bara vatn í munninn.

Þegar heimabrugg er tekið á næsta stig!

Þegar heimabrugg er tekið á næsta stig!

Stundum er ég svo heppinn að það rata á borð til mín skemmtilegir karlar úr smiðjum heimabruggara landins. Að þessu sinni er það Digri brugghús sem lofar mér að smakka.  Ég hef smakkað frá þeim tvo bjóra áður og var ég sérlega ánægður með Batman í Blautri Skikkju frá þeim, virkilega flottur imperial stout þar. Í kvöld er það hins vegar bjór sem ég hef reyndar vitað af lengi og segja má að ég hafi fylgst með fæðingu hans í gegnum munnmæli Digra manna, Imperial Stout heitir hann bara.  Ekki datt mér í hug að ég fengi smakkprufu frá þeim félögum því um afar lítið upplag er að ræða og bjórinn ofsalega spennandi og má segja afar sjaldgæfur bjór, hér á landi amk.  Ég nánast leyfi mér að fullyrða að enginn hefur bruggað svona bjór hér á landi áður.  Vissulega kannski svipað „konsept“ en ekki með svona sögu.  Já Digri notar nefnilega notaða Bourbon Whisky tunnu frá Mikkeller sem hefur verið notuð til að þroska bjór-whisky í svo kölluðu spirits verkefni Mikkellers.  Hefur einhver gert það áður hér?  Hvað sem því líður, hér er maður vitni af því þegar heimabrugg er komið á næsta stig…..“beond homebrew“ hvorki meira né minna.  Þessi magnaði bjór hefur allt að bera og jafnvel umbúðirnar gefa skýr skilaboð um fágaða og vandaða vöru.  Sjálfur hef ég verið með á „todo“ listanum mínum lengi að vaxa flöskutappann á mínu heimabruggi líkt og Mikkeller, Three Floyds og allir þessir stóru flottu gera svo gjarnan með eðalölið sitt.  Hingað til hef ég bara ekki gert nógu flott og pótent öl sem á það skilið.  Digri er hér kominn með öl sem eiginlega verður bara að vera innsiglað á svona elegant máta.  Miðinn er svo annað mál og ekki minna en þar má sjá virkilega elegant en einfalda mynd sem kemur afar smekklega út.  Fullt hús stiga fyrir umbúðirnar.

Bjórinn er kolsvartur og flottur með nettan froðuhaus sem heldur velli.  Ég valdi að sjálfsögðu flott Mikkeller glas undir þennan Digra/Mikkeller fusion bjór ef svo má segja.  Það er svo ofsalega flottur kemur í nefi þar sem viður er áberandi og klárlega whisky.  Það er svo ööööörlítill aukakeimur sem ég stundum finn af heimabruggi og stundum truflar mig.  Veit ekki hvaða þetta kemur, í kvöld hins vegar er svo mikið annað sem fangar athygli mína í nefi að þetta truflar alls ekkert.
Í munni er mikið að gerast, gríðarlegt bragð, mikill hiti og hamagangur og svo er bourbon whisky allsráðandi.  Ofsalega flottur keimur.  Humlar gefa einnig flotta beiskju og svo kemur einhver notaleg vínleg sæta fram þegar líður á.  Eftirbragð hugljúft og gott og maður einfaldlega verður að drífa sig í næsta sopa.

Já þessi guttar eiga hrós skilið, þennan bjór gæti maður hæglega séð á svona 2000 kr í ÁTVR ef hann væri í sölu.  Kærar þakkir fyrir mig!!!

Páskabjórinn 2014

IMG_1347-001Þá er komið að síðustu árstíðarbjórunum í bili…..eða hvað, hmmmm?  😉  Alla vega, páskabjórinn er umfjöllunarefnið að þessu sinni og í ár eru þeir 6 talsins ef ég hef talið þá rétt.  Ég verð að segja að ég var ekki mjög spenntur í ár en það eru þó spennandi karlar þarna inn á milli.  Ég ætla ekki að skrifa um hvern og einn að þessu sinni heldur einbeita mér af þeim sem standa uppúr fyrir einhverjar sakir.
Það er nóg af bjór fyrir þá sem bara vilja fá þægilega og létta lagerinn sinn en þó með páskastemningu fyrir páskahlaðborðið.  Það er bara þannig að umbúðirnar gera bjórinn hátíðlegri þó svo að innihaldið sé eitthvað sem gengur allt árið um kring.  Þannig er það með Egils Páskagull sem er með nýrri uppskrift í ár, Víking Páskabjór og Páskakalda.  Þessa karla þekkir fólk vel og er óþarfi að fara nánar í þá hér og nú.  Í stuttu máli eru þetta allt léttir og einfaldir lagerbjórar hver með sínu sniði þó og sem gera ekki miklar kröfur til neytandans sem er bara gott og blessað.  Vilji menn hins vegar aðeins „hleypa bragðlaukunum út“ þá eru það Borg með Jesús, Steðji með Þara og Víking með Bockinn sinn.  Þessir þrír eru allir gríðarlega mismunandi, Páskabock Víkings er alltaf flottur og menn ættu að vera farnir að þekkja hann, bock er alltaf klassískur á páskunum og er virkilega flottur matarbjór og svo er hann bæði fyrir lengra komna sem og leikmenn.  Þarinn frá Steðja er hins vegar dálítið snúinn, mjög spennandi og alltaf gaman að fá eitthvað nýtt.  Hugmyndin er skemmtileg en fyrir mína parta gekk dæmið ekki alveg upp.
Jesús er svo sigurvegarinn í ár að okkar mati og má lesa nánar um hann hér.

Júdas frá því í fyrra orðinn stálpaður

Að lokum má svo minna á Júdasinn frá Borg sem kom út í fyrra.  Fyrir þá sem enn eiga hann til þá er hann orðinn virkilega flottur núna.  Hann var flottur þá en núna er hann orðinn mun skemmtilegri að mati undirritaðs og sprittið sem var næstum því truflandi fyrir ári er nú aðeins merkjanlegt sem flottur hiti og sæta.  Hann er sætur í nefi, suðrænir þurrkaðir ávextir, heilmikið malt áberandi.  Í munni er mikill hiti, hann er orðinn mjúkur og notalegur og sætt ristað malt er allsráðandi og fer þannig að minna dálítið á dobbelbock.  Svo eru þarna sætir suðrænir dökkir ávextir í bakgrunni.

Sem fyrr auglýsi ég eftir ykkar áliti, og munið það er sama hvað þið segið, það er ykkar mat!