Hugleiðingar um bjórdóma og tilheyrandi spámenn?

young-michael-jackson-beerStundum velti ég hlutum fyrir mér, gerist ekki oft þar sem ég er að reyna að spara heilasellur fyrir mögru árin.  En stundum fer ég á flug og þá enda ég oftast í einhverri vitleysu þar sem ég sit uppi með mun fleiri spurningar en ég lagði upp með í upphafi.
Líklega er það að gerast akkúrat núna en undanfarið hef ég verið á svona flugi. Ég hef verið að smakka, meta og skrifa um bjór nú í mörg mörg ár, og svo farinn að brugga hann líka.  Þetta eru eiginlega mun fleiri ár en ég þori að viðurkenna, það má segja að hálf ævi mín hafi farið í þetta en ég verð 40 ára í sumar og menn geta svo bara reiknað, sem minnir mig svo á það að ég þarf að halda einhverja veislu….hmmm!

Ef ég lít aðeins yfir farinn veg þá byrjaði þetta allt saman bara svona fyrir sjálfan mig, það er jú gaman að reka tungu ofan í eitthvað nýtt og upplifa nýjar víddir. Bragðlaukar þurfa að fá sína útrás rétt eins og aðrir.  Ég er amk þannig að ég er gjarn á að fá leið á sömu hlutunum til lengdar, reyndar er súkkulaði þarna undantekning.  ‘Eg er svo með það vandamál að ég er settur saman með frekar lítinn minniskubb og þar er allt plássið fyllt af læknisfræðilegum viðfangsefnum og lítið pláss fyrir annað, þess vegna þurfti ég að skrifa niður nafn á þeim bjór sem mér líkaði við eða mislíkaði svo ég gæti haldið aðeins bókhald um það sem ég hafði prófað.  Síðar komust menn yfir þessi skrif mín og hvöttu mig til að skrá þetta á veraldarvefnum svo aðrir gætu notið góðs af. Jújú mér leist vel á það á þeim tíma og ég hef fengið góð viðbrögð.  Fullt af fólki sem kveðst hafa látið vaða í eitthvað sem það hefði ekki gert nema að hafa lesið skrif mín. Margir hafa orðið forfallnir bjórnördar og kenna mér um. Þetta er vissulega gaman og hvetjandi og varð til þess að ég fór að leggja meiri vinnu og metnað í þetta bókhald mitt.  Ég fór einnig að lauma inn almennum fróðleik því það er jú svo að með tímanum lærir maður ýmislegt um sitt áhugamál, hluti sem maður sjálfur var að leita svörum við þegar þetta byrjaði allt saman. Þannig varð www.bjorbok.net til.

Svo er það svo að með betra aðgengi að þá fylgir alltaf að fleiri skoða og lesa og þá fara fleiri að koma sínum skoðunum að.  Jújú áfram er maður að fá þakkir og hvatningu og fólk hefur einnig óskað eftir fyrirlestrum og fræðslu um bjór og tengd efni en svo eru jú þeir sem eru algjörlega ósámmála og jafnvel súrir yfir að hafa látið „plata sig“ í að kaupa bjór sem þeim svo mislíkaði.  Svo eru enn aðrir, og það eru kannski þeir sem pirra mann mest, sem eru að eigin mati svo miklir bjórvitringar að allt sem þeir segja eða finnst telja þeir vera  heilagan sannleik og að annað, þmt skoðanir og smekkur annara er bara rangt.

Ég hef undanfarið verið að velta þessu öllu fyrir mér, hvaða tilgangi þjónar þetta allt saman?  Ég held að í mínu tilviki þá fjalli þetta mikið um það að fá útrás fyrir að skrifa um kært áhugamál og ekki síst að taka  ljósmyndir af bjórnum og safna, því það er nú orðið vaxandi áhugamál mitt einnig.  Svo er jú alltaf þetta með minniskubbinn, ég er enn að þessu til að minna mig á hvernig ég upplifi mismunandi bjóra.  Það að einhver gagnist af skrifum mínum er svo bara bónus því það er gaman að breiða út góðan boðskap, bjór er góður og bjór er svo miklu meira en bara gylltur lager.  Það er svo líka dálítil eigin hagsmunasemi sem drífur þetta batterí áfram því ef bjórvitund þjóðarinnar eykst þá kallar það á meira úrval og aðgengi fyrir mig hér heima, allir vinna!

Kveikjan af þessari síðu, http://www.bjorspeki.com var svo að reyna að koma þessum skrifum mínum fram á meira hlutlausari máta því það er stórt vandamál hve smekkur manna og upplifun er misjöfn.  Ég hef lagt áherslu á að varpa hér fram mínu mati en reyni jafnframt að benda á svona almenna eiginleika viðkomandi bjórs miðað við hvernig aðrir gætu upplifað hann.  Þetta er erfitt því tungan og bragðskyn þroskast og breytist eftir því sem meiri bjór flæðir yfir laukana með tímanum.  Ég hef t.d. verið að skoða dóma frá því að ég byrjaði á þessu og stundum furðað mig á skrifum mínum.  Ég er þá t.d. að dásama einhvern bjór alveg í hástert sem í dag myndi fá bara sæmilega einkunn.  Ég er einfaldlega að komast að því að það er ekkert að marka dóma fortíðarinnar, 5 krúsir þá eru kannski 3 í dag eða öfugt. Hér er lítið dæmi  um eeeeldgamlan bjórdóm Kronenbourg já eða þá þessi Leffe Blonde þarna segi ég „án efa með betri bjórum sem ég hef smakkað“.  Ég man að það var þannig þá en í dag finnst mér Leffe fínn og ég kaupi hann oft en er laaaaangt frá því að vera með betri bjórum.
Ég er því hættur að gefa einkunnir á þessari síðu.  Maður getur svo tekið þetta enn lengra, það þarf ekki að vera einkunn sem breytist, bragðskyn breytist og því er t.d. eitthvað sem þótti beiskt eða jafnvel hræðilega beiskt fyrir 5 árum bara orðið frekar milt í dag.

Svo er það dagamunurinn og stemningin.  Þetta skiptir máli og þá er ég ekki að tala um mörg ár á milli smakka.  Nei stundum er maður alveg dolfallinn t.d. yfir IPA sem svo í næstu viku er bara ekkert sérstakur, þá langaði manni nefnilega meira í imperial stout eða belgískan blond.  Maður er ekki alltaf að upplifa hlutina eins.

Er þá eitthvað að marka bjórdóma eða aðra dóma yfir höfuð?  Græðir fólk á að lesa þetta, t.d. jólabjórdóma, páskabjórdóma og allt þetta sem flæðir yfir landann í fjölmiðlum um þessi tímamót?  Þar eru oft útúr þjaskaðir reynslulaukar að tjá sig um bjórinn á allt öðrum forsemdum en fólk sem langar bara að prófa einhvern góðan þorrabjór t.d. Ég veit það ekki?

Það er svo jú auðvitað einnig þetta með gæðin.  Þ.e.a.s að dæma bjórinn ekki eftir smekk heldur stíl ef það meikar einhvern sens fyrir ykkur.  Ég er þá að meina að bjórfróðir menn dæmi bjór eftir því hversu vel hann er samansettur fyrir ákv stíl.  Það er svo sem hjálplegt fyrir fólk að vita að bjórinn sem það er að spá í sé t.d. góður fulltrúi ákveðins bjórstíls.  Þá veit maður amk það að þessi bjór á að bragðast þannig sem hann bragðast.  Eða hvað?  Nú er hugtakið bjórstíll eitthvað sem kannski er að breytast, það er amk að teygjast mikið á því því menn eru farnir að brugga svo mikið út fyrir stílamörkin og blanda saman og túlka á eigin máta.

Það er þó eitt sem ekki breytist og það eru staðreyndir.  Þá er ég að meina fróðleikurinn á bak við bjórinn, hvaðan hann kemur, hvernig hann er búinn til, hráefnið sem notað er og svo framvegis.  Maður ætti kannski að fókusera meira á slík skrif þegar bjórinn er dæmdur?  Það er hins vegar ekki eins skemmtilegt, það er nefnilega gaman að stúdera bjórinn sinn og velta fyrir sér hvað maður er að finna og þá kemur að því sem ég get ekki sagt nógu oft.  Það er sama hvað maður finnur, ekki láta neinn segja þér að það sé rangt.  Sá bjórvitringur er nefnilega ekki með þína bragðlauka.  ÉG ÞOLI EKKI ÞEGAR MENN LEIÐRÉTTA MIG HVAÐ ÞETTA VARÐAR. Mér er sama þó menn hafi lært mikið um uppruna bjórsins, bjórgerð og allt það sem hægt er að lesa jafnvel alveg frá 5 ára aldri, þeir geta ekki stjórnað mínum bragðlaukum.  Vissulega geta þeir bent á hvað þeir eru að finna því það getur stundum verið gagnlegt þegar maður er að velta fyrir sér hvað það er sem maður finnur en kemur ekki alveg hönd á það.  Um leið og einhver nefnir t.d. banana, hunang eða álíka þá stundum áttar maður sig.

Þannig að, hver er þá niðurstaðan?  Nákvæmlega, ég bara veit það ekki?  Kannski ætti maður bara að halda þessu áfram, það er jú að mestu gert fyrir mína eigin ánægju.  Það væri svo kannski hægt að nota tímafaktorinn betur á þann hátt að fara þá eftir því að gamlir bjórdómar voru skrifaðir á þeim tíma þegar maður var skammt á veg kominn og þá kannski nær „hinum almenna borgara“ í bjórskynjun. Hér nota ég almennan borgara yfir þá sem eru ekki miklir reynsluboltar í þessu. Ég veit ekki, það er amk ekki hægt að ganga út frá því að eitthvað sem maður skrifaði fyrir 2 árum t.d. sé í gildi í dag og menn verða að taka mið af því við lestur slíkra dóma.  Maður ætti kannski að endurmeta alla dómana á árs fresti, það væri flott en ómögulegt!
Kannski ætti maður að hafa alltaf nokkra viðmiðunarbjóra með, þe.a.s. einn klassískan úr hverjum stíl og svo alltaf smakka þá reglulega til að meta hvernig bragðlaukar og smekkurinn breytist?

Ég held ég láti hér við sitja, það væri kannski gaman að heyra frá lesendum!

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s