Einn af páskabjórum ársins er hinn undarlegi Þari frá Steðja. Síðast var það Hvalabjórinn umdeildi og nú er það þarabjórinn? Nafnið fær mig reyndar ekki til að æsast sérstaklega upp, það er bara eitthvað sem er fráhrindandi við tilhugsunina um að fá fjöru í flösku. Þegar ég rölti um fjörur landsins, eitthvað sem ég geri allt of lítið af reyndar, þá finnst mér lyktin svona góð vond ef hægt er að segja svo. Dálítið eins og hesthúsafýla, maður þarf að venjast henni til kunna að meta hana. Þessar pælingar mínar breyta því hins vegar ekki að þetta er forvitilegt uppátæki og því ber vissulega að fagna. Það er nefnilega og ætti að vera hugmyndaflugið sem ræður ríkjum þegar bjór er smíðaður. Möguleikarnir eru endalausir, þetta snýst bara um að hitta á eitthvað gott ekki satt?
Ég gæti hins vegar trúað því að menn og konur þessa lands eigi eftir að hika dálítið við að kaupa þennan bjór um Páskana. Til að byrja með er hann lítt páskalegur þegar kemur að nafni og svo held ég bara að þari í bjór sé eitthvað sem fólk sér ekki sem góða hugmynd. Sjálfur tók ég bjórinn með heim bara til að svala forvitni minni.
Bjórinn er fallegur í glasi með fallega rauðan blæ og flotta froðu. Það er mikil lykt af honum, korn, ristað malt en ekkert sem minnir á fjöruborð sem betur fer. Lofar mjög góðu á þessu stigi. Á tungu er þetta léttur bjór, meðal fylling og kitlandi gos. Það er sæmileg beiskja, nokkur sæta og svo dálítið salt. Þegar bjórinn fær að hitna aðeins þá kemur vel fram þessi sjávarselta og maður getur í alvöru ímyndað sér að maður sé í fjöru staddur með þangið upp að hnjám og stökkvandi marflær allt um kring. Ég held að þetta sé vel samansettur bjór og uppátækið er skemmtilegt og frumlegt en ég tengi bjórinn þó ekki Páskunum á nokkurn hátt. Ég held hins vegar að bjórinn ætti heldur heima sem fyrsti sprengidagsbjór sögunnar svona saltur og flottur. Þegar þetta er sagt þá vil ég þó segja að fyrir mína parta þá gekk þetta ekki upp. Ég gat ekki klárað bjórinn og það gerist ekki oft, kannski af því að ég var dálítið að bíða eftir Hardcore IPA sem ég átti í ískápnum, ég veit ekki en alla vega þá hitti þetta ekki í mark. Maður ætti kannski að gefa bjórnum annan séns þegar nær dregur Páskum?
Æ ég veit að ég er vondi karlinn núna, sorry en svona er það bara stundum. Vonum bara að menn hætti samt ekki að lofa frumlegum hugmyndum að enda í bjór!