Þá er komið að síðustu árstíðarbjórunum í bili…..eða hvað, hmmmm? 😉 Alla vega, páskabjórinn er umfjöllunarefnið að þessu sinni og í ár eru þeir 6 talsins ef ég hef talið þá rétt. Ég verð að segja að ég var ekki mjög spenntur í ár en það eru þó spennandi karlar þarna inn á milli. Ég ætla ekki að skrifa um hvern og einn að þessu sinni heldur einbeita mér af þeim sem standa uppúr fyrir einhverjar sakir.
Það er nóg af bjór fyrir þá sem bara vilja fá þægilega og létta lagerinn sinn en þó með páskastemningu fyrir páskahlaðborðið. Það er bara þannig að umbúðirnar gera bjórinn hátíðlegri þó svo að innihaldið sé eitthvað sem gengur allt árið um kring. Þannig er það með Egils Páskagull sem er með nýrri uppskrift í ár, Víking Páskabjór og Páskakalda. Þessa karla þekkir fólk vel og er óþarfi að fara nánar í þá hér og nú. Í stuttu máli eru þetta allt léttir og einfaldir lagerbjórar hver með sínu sniði þó og sem gera ekki miklar kröfur til neytandans sem er bara gott og blessað. Vilji menn hins vegar aðeins „hleypa bragðlaukunum út“ þá eru það Borg með Jesús, Steðji með Þara og Víking með Bockinn sinn. Þessir þrír eru allir gríðarlega mismunandi, Páskabock Víkings er alltaf flottur og menn ættu að vera farnir að þekkja hann, bock er alltaf klassískur á páskunum og er virkilega flottur matarbjór og svo er hann bæði fyrir lengra komna sem og leikmenn. Þarinn frá Steðja er hins vegar dálítið snúinn, mjög spennandi og alltaf gaman að fá eitthvað nýtt. Hugmyndin er skemmtileg en fyrir mína parta gekk dæmið ekki alveg upp.
Jesús er svo sigurvegarinn í ár að okkar mati og má lesa nánar um hann hér.

Júdas frá því í fyrra orðinn stálpaður
Að lokum má svo minna á Júdasinn frá Borg sem kom út í fyrra. Fyrir þá sem enn eiga hann til þá er hann orðinn virkilega flottur núna. Hann var flottur þá en núna er hann orðinn mun skemmtilegri að mati undirritaðs og sprittið sem var næstum því truflandi fyrir ári er nú aðeins merkjanlegt sem flottur hiti og sæta. Hann er sætur í nefi, suðrænir þurrkaðir ávextir, heilmikið malt áberandi. Í munni er mikill hiti, hann er orðinn mjúkur og notalegur og sætt ristað malt er allsráðandi og fer þannig að minna dálítið á dobbelbock. Svo eru þarna sætir suðrænir dökkir ávextir í bakgrunni.
Sem fyrr auglýsi ég eftir ykkar áliti, og munið það er sama hvað þið segið, það er ykkar mat!
Sælir, ég er sammála þér með Bockinn, mjög fínn og svo fannst mér Jesús skemmtilegur