Bjórdómar alveg gagnslausir?

image

Ég hef verið að velta öllu þessu bjórdómamáli fyrir mér í nokkurn tíma, þessu bjórbloggi ef svo má segja. Ég hætti fyrir nokkru að gefa bjórnum einkunn frá 1 upp í 5 og fór meira bara að dæma í orðum en ég hef verið að spá í að taka þetta alla leið, taka næsta skref. Ég hef áður velt því fyrir mér hér á síðunni afhverju ég er eiginlega að þessum skrifum.

Hefur þetta eitthvað uppá sig, er eitthvað að marka svona dóma, er einhver yfir höfuð sem hefur gagn eða gaman að þessu?“

.
Ég veit ekki svei mér þá, eitt veit ég þó að ég byrjaði upphaflega á þessu fyrir sjálfan mig til að halda til haga hvaða bjór ég hef smakkað og hvernig ég upplifði bjórinn. Það var svo fyrir áskorun vina að ég færði skráningu þessa úr gömlu glósubókinni út á veraldarvefinn. Ég viðurkenni það, mér finnst gaman að skrifa pistla og velta þessu fyrir mér og auðvitað enn skemmtilegra ef einhver nennir að lesa. Hins vegar er ég farinn að setja spurningarmerki við gagnsemi svona dóma fyrir aðra en mig sjálfan. Já og reyndar hef ég komist að því að jafnvel ég sjálfur græði kannski ekki svo mikið á þessum dómum. Það er jú þannig að öll erum við misjöfn og því ekkert sem segir að það sem mér finnst gott eða vont gildi fyrir aðra sem þetta lesa. Það að Steini eða Gunnar Óli (báðir miklir og nokkuð sýnilegir bjórspekúlantar) dásami einhvern bjór þýðir alls ekki að ég eigi eftir að kunna að meta hann. Gott dæmi eru t.d. stout bjórar en ofannefndir karlar eru mikið fyrir þennan stíl og því erum við oftast ósammála þegar slíkir bjórar eru dæmdir. Haukur Heiðar (annar ansi virkur bjórspekúlant) er annað dæmi, hann er óhræddur við að drulla yfir bjór sem hann er ekki að fíla og ég viðurkenni að það fælir mig stundum frá en oft hef ég þó farið gegn hans ráði og smakkað bjór sem ég svo kunni mjög vel við. Þannig er þetta bara. Maður smám saman lærir á þessa karla og finnur með tímanum út hvar smekkur þeirra fellur að mans eigin smekk og þá er hægt að nýta sér bjórdóma þeirra. T.d. er ég farinn að læra að ef Gunnari Óla finnst imperial stout of sætur að þá er það kjörinn bjór fyrir mig. Þetta er vissulega ekki raunhæfur möguleiki fyrir flesta lesendur.

Svo er það eiginlega það versta að það sem manni finnst þessa stundina er alls ekki endilega það sem manni finnst á morgun. Ég hef oft notað dálítið dramatíska samlíkingu máli mínu til stuðnings, þetta er í raun tilraun sem maður getur auðveldlega framkvæmt til að sannreyna þetta. Prófaðu að fara í bústaðinn með góðum vinum eða maka. Skellið ykkur svo í pottinn og njótið bjórs undir norðurljósahimni. Það er næstum því (ég sagði næstum) sama hvaða bjór er með í för, hann verður ljúfur, jafnvel besti bjór sem þið hafið smakkað. Það er af því að umhverfið, stemningin hefur áhrif á líðan og líðan hefur áhrif á hvernig við upplifum hlutina í kringum okkur hvort sem um ræðir, bragð, tilfinningar eða jafnvel það sem er sagt við okkur. Vel þekkt í heilsufræðum eru t.d. verkir sem verða mun verri ef andleg líðan er slæm. Oft er hægt að létta eða laga alveg verki meða því að létta lund. Já prófið svo að taka þennan frábæra bjór aftur á mánudagsmorgni skömmu síðar á meðan þið berjist við að koma börnum framúr og í skólann og þið sjálf jafnvel orðin of sein í vinnu. Það verður aldrei sama upplifunin og ég fullyrði að bjórinn mun ekki bragðast vel, amk ekki eins vel. Fyrir „bjórspekúlantinn“ sem á svo að dæma og skrifa um bjórinn. Hvort á hann að skrifa um hann í pottinum eða þarna á mánudagsmorgni?

Svona ýkt þarf þetta jú ekki að vera til þess að maður upplifi þennan mun. Ég er alltaf að reka mig á þetta, bjór sem ég hafði dæmt fyrir stuttu síðan og hafði þá fengið fullt hús stiga er allt í einu bara orðinn allt í lagi bjór, jafnvel þótt stemningin væri mjög fín. Hér er ég að tala um bara nokkra daga á milli smakka. Ég þori ekki einu sinni að hugsa út í bjór sem ég hef smakkað fyrir einhverjum árum síðan. Ég er því hræddur um að það sé akkúrat ekkert að marka þessa bjórdóma, víndóma eða yfir höfuð hvaða dóm sem er. Nú fer að t.d. að styttast í jólabjórdómana sem finna má í Fréttablaðinu, Fréttatímanum og Mogganum og jafnvel víðar. Sjaldan ber öllum þessum dómum saman og almenningur stendur eftir jafn ringlaður og í upphafi.

Já þannig er það, súrt en líklega rétt. Ég hef ákveðið að breyta þessu hérna hjá mér, ég er samt ekki alveg tilbúin í að hætta að blogga/skrifa um bjórinn því það er vissulega svo margt hægt að fjalla um annað en dóma. Ég ætla hins vegar að reyna að hætta að leggja persónulegt mat á bjórinn, hætta að dæma og fara meira í það að lýsa hvernig ég upplifi bjórinn. Ekki þá með orðum eins og góður eða vondur, meira í átt að hvaða bragð, hvernig fylling og svo frameftir götum. Reyna að vera hlutlaus ef það er hægt. Það er þó líka snúið því t.d. það sem ég upplifi sem bananabragð er fyrir öðrum pera. Upplýsingar um hráefni, bruggaðferð og brugghús er hins vegar eitthvað sem ekki er hlutlægt og ætti að vera óhætt að taka mark á. Svo er líklega rétta að miða alltaf bara við fyrsta mat, „first impression“ og vita þá að það mun líklega breytast fljótt. Ég var líklega kominn á rétta leið þegar ég byrjaði alveg í blábyrjun að skrá í glósubókina mína. Þá skrifaði ég alltaf hvort um væri að ræða fyrsta smakk, hve marga bjóra ég hafði smakkað þennan dag, hvar ég var staddur og hvernig stemningin var á þeim tíma. Þegar ég fletti upp í glósubókinni góðu má t.d. sjá hvaða bjór ég var að smakka þegar ég fékk að vita að ég ætti von á mínu fyrsta barni. Þetta var árið 2000 og bjórinn Hoegaarden (sjá mynd að ofan). Hehe, hann fékk þó ekki nema 3 krúsir þrátt fyrir mikla geðshræringu. Kannski var maður bara í sjokki?

Svo er hægt að gera eins og Haukur Heiðar og Steini t.d. skrifa upp lista yfir 10 eftirminnilegustu bjóra þeirra og afhverju þessir bjórar fá þann stall. Þar má glöggt sjá hve aðstæður geta haft mikil áhrif á dóma.  Skemmtileg pæling.

Jæja ég veit ekki hvað ég geri, þetta er amk pæling.  Sjáum hvað gerist.  Það verður svo gaman að fylgjast með öllum jólabjórdómunum sem eru alveg að fara detta inn í öll fréttablöðin og víðar.  Þar er enginn sammála.

Ein hugrenning um “Bjórdómar alveg gagnslausir?

  1. Ratebeer og Beeradvocat eru fínar síður í dómum þá og að menn geta þá fundið aðila sem líkar við sömu bjóra og manni sjálfum líkar og geta þá prófað þá bjóra sem þeir gefa hátt.
    Sem beur fer er bjórsmekkur manna misjafn og því vart skynsamlegt að „hrauna“ einn eða neinn þó að manni líki ölið ekki persónulega.

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s