Oktoberbjórinn, er eitthvað varið í hann?

oktoberNú fer senn að líða að Oktoberfest, hinni árlegu risabjórhátíð í Munchen þar sem íturvaxnar barmmiklar bjórþernur færa í þyrstann líðinn bjór í lítravís og blindfullir karlar í leðursmekkbuxum syngja og tralla eins og enginn væri morgundagurinn.  Bjórhátíð þessi hefur smitað út frá sér í gegnum tíðina og má nú finna litlar útgáfur af oktoberfest víða um veröld.  Hér á landi tíðkast að halda svona bjórveislur í fyrirtækjum, á krám og nú það nýjasta, í tjaldi á Háskólalóðinni í kringum mánaðarmótin september/oktober.  Stóru brugghúsin í Þýskalandi, í kringum Munchen brugga ár hvert sérstakan oktoberfestbjór sem drekka á á þessari gríðarlegu bjórhátíð. Hér á landi eru menn einnig farnir að fikta dálítið við að brugga bjór að þessu tilefni.  Sumir halda í hefðina og brugga bjórinn eftir þýskum hefðum, svo kallaðan Märzen bjór sem bruggaður var í mars og svo látinn gerjast í rólegheitunum yfir sumarmánuðina þannig að hann væri tilbúinn til drykkju í lok september þegar Oktoberfest geisar sem hæst.  Upphaflegi Märzen bjórinn var dökkur lagerbjór en í kringum 1870 náði önnur tegund vinsældum og tók við af gamla dökka bjórnum.  Sá bjór var sterkari bjór af gerðinniVienna lager eða amber-rauður lager sem bruggaður var í mars líkt og hinn upphaflegi Märzen.  Í dag er dálítið mismunandi hvernig menn brugga þennan bjór, Kanarnir halda sig enn við hina rauðu eða amber bjóra á meðan Evrópa er meira í gylltu tæru bjórunum.
Það eru þó alls ekki einhver fastskrifuð lög um hvernig oktoberfestbjór á að vera, menn hafa jú alveg frjálsar hendur í þeim efnum en oftast má finna einhverja tengingu við hátíðina.

Í ár eru 3 nýjir oktoberbjórar á markaðinum, þeir koma  frá íslensku brugghúsunum Borg, Ölvisholti og Steðja.   Kaldi er svo með sinn venjulega oktober Kalda og svo er Lövenbrau og Sam Adams með sína útgáfu.  Ég hef fjallað um þessa karla einhvers staðar áður og mun ekki gera það hér aftur.  Það er jú nýja stöffið sem er spennandi.

Gréta 7.3% baltic porter frá Borg Brugghús

.

Ég hef þegar fjallað um Grétu frá borg og geta menn lesið um hann hér.

.

Hrekkjalómur, 6% amerískur porter frá Ölvisholti

.
Hrekkjalómur
(6%) heitir oktoberbjór þeirra Ölvisholtsmanna þetta árið og er jafnframt sá fyrsti frá þeim eftir að nýr bruggmeistari Elvar kom í hús.  Elvar er reyndur heimabruggari sem hefur lært fræðin sín í Bretlandi.  Við hérna meginn segjum bara velkominn til starfa Elvar, hlökkum til að sjá hvað þú gerir í framtíðinni. Bjórinn sem er af gerðinni amerískur porter er kannski meira tileinkaður hinni amerísku hrekkjavöku sem nálgast nú eins og óð fluga.  Hrekkjalómur er dökk brúnn í glasi með fína froðu.  Maður finnur það um leið og maður hellir í glas að það er veisla í vændum.  Heilmikið krydd, dálítið jólayfirbragð svei mér þá, negull, kanill og svo þetta lúmsa grasker. Það er bara allt í lagi að komast í smá jólafíling enda stutt í hátíð ljóss og friðar….og jólabjórs. Í munni er hann mjög lifandi, kitlar allan skoltinn með gosi og humlum og svo er haugur af kryddi.  Virkilega skemmtileg blanda beiskju og kryddaðra tóna með örlítilli sætu í bakgrunni.  Þegar sopinn fjarar út kemur fram létt ristaður blær sem slær botninn í þetta allt saman.  Fylling er í meðallagi og eftirbragð langt og ljúft.  Ofsalega skemmtilegur bjór frá Ölvisholti.

Græni Karlinn: Dökkur bjór en samt ekki svona „dökkur“ ef þið skiljið mig.  Mjög skemmtilegur bjór, léttur með alls konar bragðflækjum þar sem krydd á borð við kanill og engifer kemur vel fram. Gæti ekki drukkið marga svona í einu en einn stakur er mjög fínn t.d. með steikinni.

.

Steðji Októberbjór, 6% bock frá Steðja

.
Steðji hefur ekki verið að gera góða hluti til þessa að mínu mati.  Þeir fá þó plús í kladdann fyrir að vera frumlegir í bjórgerð sinni og þá má nefna þar Hval og Þara sem dæmi.  Nú eru þeir komnir með oktoberbjór í bock stíl bruggaður með graskersfræjum.  Miðinn er flottur sem hefur hingað til verið eitt af því versta við bjórinn þeirra.  Þessi merkimiði er snotur og kemur vel út og eiga þeir hrós skilið fyrir það, þetta er kannski að koma?  Bjórinn er rauður og fallegur í glasi en froðan sápukennd og hverfur á auga bragði.  Eftir stendur allsber bjórinn sem minnir á vínberjasafa frekar en bjór og engar gosbólur eða neitt.  Ekki aðlaðandi að mínu mati.  Í nefi er mikið malt og sæta.  Klassískur bock, finn þó ekki krydd eða grasker.  Í munni er bjórinn mjög mildur og léttur.  Hann er vel matlaður og bock stílnum er gerð ágætis skil.  Ég finn lítið fyrir graskerinu í þessum karli.  Þannig að þetta er ágætis bjór, sæmilegur bock sem er svo sem viðeigandi fyrir Oktoberbjór.  Graskerið kemur ekki nægilega fram að mínu mati hins vegar.

Græni Karlinn: Fallega rauður blær en vantar alveg froðuna.  Mildur en ekki sérlega góður.  Hellti honum eftir nokkra sopa :

Sem sagt, af þessum þremur myndi ég líklega fara í Grétu en þó er Hrekkjalómur skemmtilegur og væri gaman að sjá hvað hann gerir eftir nokkra mánuði.  Hinir oktoberbjórarnir, Kaldi, Sam Adams og Lövenbrau eru bara eins og hefur verið hingað til.  Ekkert sérlega spennandi.  Ef maður vill hins vegar komast í oktoberfest skap í anda hátíðarinnar í Munchen þá er það Lövenbrau sem er málið.

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s