Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmeti og svo rétti bjórinn!

Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmetissallati. Mynd eftir Ragnar Frey Ingvarsson

Góður félagi minn, nafni og kollegi Ragnar Freyr Ingvarsson matarbloggari er sífellt að gera gómsætar tilraunir í eldhúsinu eins og örgu er kunnugt orðið.  Við hjónakornin dettum stundum í það að elda upp eftir honum og þá að sjálfsögðu reynum við að finna bjór sem passar vel við.  Vissulega förum við oft í rauðvínið eða hvítt með enda á það einnig vel við flesta rétti, þetta fer bara eftir hvernig maður er innstilltur hverju sinni.  Það er bara svo gaman að „experimenta“ með bjórinn hann hefur svo margar víddir.

Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég fékk senda fyrirspurn frá lesanda Bjórbókarinnar og þá væntanlega matarbloggs nafna míns einnig.  Fyrirspurnin fjallaði um uppskrift sem birtist nýverið á bloggsíðunni,  Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmetissallati og chilli sýrðrjómasósu.  Bara það að heyra fyrirsögnina kemur bragðlaukunum af stað og hugmyndir að pörun hrannast upp.  Það er vissulega alltaf best að finna rétta bjórinn þegar maður hefur smakkað réttinn og ég tala nú ekki um að vera með hann fyrir framan sig.  Ég hef hins vegar ekki enn eldað akkúrat þennan rétt en það er þó vel hægt að miða við fyrri reynslu af sambærilegum réttum og svo bara skoða innihaldslýsinguna.

Ef við skoðum hvað við erum með í höndunum, þá er megin uppistaðan kjúklingur, grillaður í þokkabót, sumarlegt og flott.  Maríneringin er dálíið chillíbaseruð og svo má finna sæta chillísósu í grillsósunni með.  Við erum einnig með grillað grænmeti.  Ragnar notar einnig soya sósu í marineringu, hér er kjörið að leika sér aðeins og skipta jafnvel soya út fyrir bragðmikið öl, t.d. porter, stout eða belgískan dubbel til að nefna dæmi.  Látum bara Ragnar Frey ekki vita af því.

Ef við erum á mildu nótunum, væri hægt að fara í belgískan dubbel, hann er dálítið sætur með léttum ávaxtakeim en þó þrótt og dulítið kryddkeim.  Það væri hægt að láta kjúllann marinerast í þessu í staðinn fyrir eða jafnvel með soya sósunni.  Bjórinn „harmoniserar“ vel við sæta chillíið í sósunni  og marineringunni og dansar líka vel með grilluðu gænmetinu sem verður mjög sætt og djúsí við þessa meðferð.  Það er líka alltaf gaman að finna örlitlar vísbendingar um bjórinn í marineringunni  og hvernig hann smellpassar við bjórinn með.  Hér erum við með dæmi um pörun þar sem samsvörun er lykillinn.  Leitast er við að finna eiginleika í drykk og mat sem eru sameiginlegir, hér er það t.d. sætan.  Dæmi um bjór af þessari gerð hér á Íslandi er t.d. Leffe Brune,  Westmalle Dubbel og La Trappe Dubbel.  Ef þið prófið þetta væri gaman að heyra árangurinn hér að neðan.

Myrkvi, ljúfur porter frá Borg.

Myrkvi, ljúfur porter frá Borg.

Það væri líka hægt gera eitthvað allt annað og eltast dálítið við BBQ keiminn  og nota porter.  Porter er reyndar ekki bjór fyrir alla, hann er af gerðinni öl og því bragðmikill ef miðað er við hinn klassíska lager, sumum finnst þetta of mikið bragð.  Porterinn er dálítið á ristuðu brenndu nótunum og oft má finna eins og létt reyktan keim og dökkt súkkulaði jafnvel.    Hann er þó ekki of sætur þó að ristað malt sé dálítið áberandi en á móti kemur beiskjan frá humlunum sem þó verður aldrei neitt of mikið.  Oftast fremur mildir bjórar þegar á heildina er litið.  Þessi stíll kemur vel út með grillmeti hvers konar sérstaklega kolagrilluðum mat.  Það dásamlega við grillmat er að sykurinn í marineringunni „karmelliserast“ ef svo má segja við grillun.  Þessi fallegi grillhjúpur smellpassar við ristuðu malttónana  í porternum.   Mjög skemmtileg pörun og ég tala nú ekki um ef bjórinn er notaður í sjálfa matargerðina einnig.  Fyrir lengra komna eða fólk sem vill aðeins taka skrefið lengra mætti reyna hinn íslenska Lava sem er töluvert reyktur imperial stout.  Reykurinn passar ofsalega vel með öllu grillmeti þó svo að maður hallist meira að para hann við öflugari rétti svo sem grillaðar nautasteikur eða grís.  Dæmi um Porter hér á Íslandi er t.d. hinn alíslenski Myrkvi frá Borg eða London Porter frá Fullers.

Extra Special Bitter er breskur bjórsíll sem gengur vel með flestum mat.  Þrátt fyrir nafnið þá er hann alls ekki „bitur“.  Hann er bragðmikill og ljúfur með sætan undirtón þar sem stundum má finna ögn ávaxtakeim.  Ristað malt kemur við sögu en hann er í mjög góðu jafnvægi við beiskjuna frá humlunum.   Þetta er bjór sem allir ættur að ráða vel við.  Ég held að hann komi sérstaklega vel út með sætu grilluðu grænmetinu og karmellukeimnum í grillhjúpnum á kjúllanum.   Ekki er mikið til hér á landi en ESB frá Fullers er gott dæmi um stílinn.

Ég verð svo að nota tækifærið og nefna til sögunnar Rouge Hazelnut Brown Nectar sem er nýr bjór á klakanum.  Um er að ræða flottan amerískan brown ale eða brúnöl.  Bjórinn er einnig dálítið á ristuðu nótunum, ögn sæta með karmellukeim og svo snerti af súkkulaði og hnetum.  Þetta passar mjög vel við umræddan rétt.  Umm nú verð ég bara að drífa í að reyna þetta „combo“.  Njótið vel.

Þetta eru bara nokkur dæmi, væri gaman að heyra hvernig gengur.  Vilji menn/konur svo fara öruggu leiðina þá gengur spriklandi lager einnig vel með, hann er mildur, bragðlítill og stelur engu frá réttnum en bætir svo sem heldur ekki miklu við.  Það er nánast alltaf hægt að grípa lagerinn ef manni skortir hugmyndir.  Ég myndi þá reyna við einhvern bragðmikinn lager með góða fyllingu.

Vona að ég hafi svarað fyrirspurninni nokkurn veginn.

Bjór og ostar!


Þegar við vorum síðast á ferðalagi um París sumarið 2012 lifðum við á ostum af ýmsu tagi.  Franskir ostar eru einfaldlega ómótstæðilegir.  Rauðvín og ostar er álíka þekkt „kombó“ og „humar og hvítt“ enda algjörlega dásamleg blanda.  Frakkar eru ekki þekktir fyrir bjórgerð en þeir gera ágætis rauðvín og því var það ósjaldan drukkið með á ferðum okkar um borgina.  Hins vegar erum við mikið bjórfólk og ákv að nota tækifærið og reyna nokkrar paranir.  Lagerinn finnst á hverju strái en maður vill fara í meiri alvöru bjór með ostum.  Ef valið er á milli rauðvíns og lagers þá vel ég alltaf rauðvínið með þessum kræsingum.

Það er hægt að finna amk tvær bjórbúðir sem selja vandaðan sælkerabjór og því hægt að láta aðeins á reyna.  Ostar eru af ýmsum gerðum og styrkleika líkt og bjórinn og því þarf að hafa í huga hvers slags ost um ræðir hverju sinni.  Algjörlega smekksatriði hvers og eins samt.  Við viljum þó ekki rótsterkan bjór sem algjörlega stelur senunni.  Ég myndi t.d. forðast Imperial IPA og jafnvel venjulegan IPA einnig.  Reynið frekar  Stout t.d. eða Imperial Stout sem einnig mjög vel við. Jafnel dálítið reyktur Stout eins og okkar íslenski Lava sem er þróttmikill með reyktum undirtón sem minnir dálítið á reykta pylsu en það er jú vel þekkt meðlæti á ostabakkanum.  Lava er þó ekki allra og ég er ekki viss um að sá græni myndi sætta sig við hann!  Porter á einnig mjög vel við, hann er töluvert léttari og mildari en stout bjórarnir en samt má finna þessa létt ristuðu tóna og jafnvel örlítið súkkulaði.  Myrkvi frá Borg er mjög gott alíslenskt dæmi um góðan ostabjór.

Það er ekki hægt að fjalla um osta án þess nefna til sögunnar Trappist bjórana.  Bjórinn sem bruggaður er af alvöru munkum í alvöru klaustrum.  Þessir bjórar eru þróttmiklir, vel frúttaðir oft á tíðum og kryddaðir og skemmtilegir.  Ekki humlar að trufla eða brennt malt.  Einstakur stíll.  Þessir karlar passa einkar vel með ostum og er kannski ekki skrítið að þau 8 Trappist brugghús sem til eru brugga vel flest einnig gómsæta osta til að njóta með bjórnum. Ég er mjög hrifinn af Chimay Tripel eða Westmalle Tripel með ostabakkanum mínum.  Bjór þessi er heldur áfengisríkur og gefur hita og gleði sem passar vel á köldu vetrarkvöldi án þess að yfirgnæfa ostinn.  Kannsi þó betra að hafa kremaða osta með þessum og dálítið bragðmikla.  Hins vegar er vel hægt að fara í mildari belgísku blond bjórana Leffe eða hollenska afbrigðið La Trappe blond ofl.  Þessi stílar eru þekktir fyrir að bera nokkurn ávaxtakeim, eru „frúttaðir“ eins og ég kalla það stundum en það er jú eitthvað sem passar á ostabakkann, vínber, jarðaber ofl ekki satt?

Það væri gaman að heyra frá ykkur ef þið prófið þetta.