Foie Gras og Imperial Stout – einhver smakkað?

Foie Gras og Imperial Stout!

Chartier ofsalega vinsæll en ofmetinn?

Kannast einhver við staðinn? Ég valdi þessa mynd því á þessum stað í París fékk ég það besta Foie gras sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Ég er reyndar ekki mikill Foie gras maður í þeim skilningi að ég fæ það í raun sjaldan.  Rétturinn getur verð ofsalega góður eða bara eiginlega vondur.  Þetta er dálítið eins og créme brulée, hef smakkað ótal margar útgáfur, það virðist vera hægt að gera þann rétt á óendalega marga máta.  Nóg um það, staðurinn sem ég er að tala um þarna á myndinni heitir Chartier og ku vera ofsalega vinsæll resturant í París.  Okkur var bent á það af heimamönnum að fara þarna svo við gerðum það, staðurinn á að vera ódýr og með hágæða mat.  Við stóðum í ofsalegri röð til að komast þarna inn.  Þegar inn var komið tók við stór salur fullur af fólki.  Allt á iði, brjáluð læti, þjónar hlaupandi út um allt kófsveittir og með blæðandi magasár af stressi.  Við tókum eftir því á meðan við biðum eftir matseðlinum að fólk var nánast rekið út um leið og það renndi niður síðasta bitanum.  Ekki alveg staðurinn til að eiga rómatíska stund en samt heilmikil upplifun og í raun alveg þess virði að fara þarna bara til að fá besta Foie gras í heimi!!!

Nú er ég mikið að spá í pörun matar og bjórs.  Þegar ég sat þarna og smjattaði á þessu lostæti fór ég að spá í hvaða bjór kæmi vel út með.  Rauðvínið var ágætt en bjór væri enn betra held ég.  Ég fór að máta í höfðinu og datt í hug eitthvað þróttmikið Imperial Stout eða barley wine?  Ég held að það gæti verið stórgóð blanda, þrumu bjór, mikið bragð og svo mjúkur ofsalega ljúfur Foie gras ummmm.  Vandinn er að bjórinn er ekki til þar sem maður fær réttinn eða öfugt.  Það er því ekki hlaupið að þessu.  Hvað haldið þið lesendur góðir?  Hefur einhver smakkað þessa pörun? Getur annars einhver bent á stað sem býður uppá góðan Foie gras?

Glæsiostar með góðu fólki og bjór – getur ekki klikkað

Ostabakki

Gómsætir ostar úr Búrinu og vel valinn bjór með. Sælgæti!

Ég fékk til mín kæra gesti í heimsókn í vikunni, nafna minn og kollega Ragnar Freyr Ingvarsson matarbloggara og hans gullfallegu og lífsglöðu eiginkonu Snædísi.  Það er orðið allt of langt síðan við hittumst síðast.  Við hjónin erum ágætis kokkar og þá sérstaklega betri helmingurinn en þegar von er á svona matvönu glæsifólki hokið af reynslu í eldhúsinu þá getur það orðið dálítið taugatrekkjandi að ákv kvað skal bjóða uppá.  Það er þó eitt sem ekki klikkar og það eru eðalostarnir.  Mér er sama hvort það er hinn síbölvandi Gordon eða allsberi kokkurinn, það kunna allir að meta góða osta og meðlæti.  Ostar eru einnig kjörið tækifæri til að gera tilraunir með bjórpörun því oftast rata mismunandi tegundir osta á bakkann og því hægt að velja úr mörgum bjórstílum. Ég veit að það stuðar marga en bjór passar í raun betur með ostum en rauðvínið.  Vín er heldur hvasst og sýran yfirgnæfir oft viðkvæmt bragðið í mildari ostum.  Svo má til gamans geta þess að gerið í bjórnum er ekki ósvipað því sem notað er við gerjun osta.  Uppruninn er einnig sambærilegur, mjólkurvörur sem koma frá kúm sem bíta gras.  Byggið í bjórnum er líka „gras“.  Þannig má finna eiginleika sem blandast vel saman og stuðla að ljúfri pörun.

La trappe

La Trappe er ofsalega fallegur og ljúfur

Þar sem gestir okkar eru meira rauðvínsfólk en bjórnördar ákvað ég að nota tækifærið og gefa þeim ögn innsýn inn í hina dásamlegu veröld bjórs og hamingju.  Ostarnir voru vel valdir úr Búrinu, að sjálfsögðu fékk Primadonna að fylgja með, það er enginn ostabakki án hans að mínu mati og hann er dásamlegur með bjór t.d. amerískum pale ale eða jafnvel IPA.  Svo verðum við að hafa einhvern góðan blámygluost umm.  Hinn franski Bleu d’ Auvergne varð fyrir valinu eftir nokkuð smakk í Búrinu.  Ofsalega flottur ostur, bragsterkur en samt ekkert um of og dálítið kryddaður með mikla mýkt.  Hér passar vel að hafa bjór með dulitla sætu til að vega á móti en einnig smá bit.  Sjálfur hefði ég valið imperial IPA á borð við Brewdog Hardcore IPA sem gefur þægilega sætu og beiskjubit eða fara alla leið og prófa góðan barley wine svo sem Anchor Old Foghorn.  Ég þekki ekki alveg bjórstig gesta minna og var því dálítið hræddur um að þetta væru of öflugir bjórar.  Ég ákvað því að prófa bara venjulegan IPA sem ég átti kaldann í ísskápnum, Punk IPA frá Brewdog, hann býr reyndar ekki yfir sama sæta keimnum og hinir en alltaf gaman að prófa, svo á hann líka vel við Primadonnuna.  Svo er það Myrkvi frá borg, hann er porter og slíkir bjórar koma vel út með t.d. blámygluostum og eru ekki eins öflugir og stout bjórar sem passa jafnvel enn betur við.  Það er nokkur sæta, ristað malt og ljúfmeti í þessum bjór sem tónar vel með þessum osti.  Það verður svo að segjast að ef maður er með hár á bringunni og þorir „all in“ þá má prófa hinn þróttmikla Lava sem er imperial stout með miklum reykkeim.  Smellpassar með gráðostinum og svo ég tali nú ekki um reyktar pylsur sem auðvitað rata oftast með á ostabakkann.  Þriðji bjórinn þetta kvöld var enginn höfuðverkur.  Ég valdi La Trappe Tripel því ég veit að flestir sem hafa bara smá gourmet palletu ráða vel við þann bjór.  Hann er þróttmikill og heitur (rúm 9%) með ljúfan ávaxtakeim og sætu.  Ég hefði einnig geta valið belgísku trappist bjórana t.d. Chimay eða Westmalle en verðið hér á La Trappe er einstaklega gott og hann er ekkert síðri.  Þessi bjór passar að mínu mati við alla þá osta sem voru í boði þetta kvöld ofsalega flottur stíll.  Það er kannski ekki skrítið, flest trappist brugghúsin gera einnig sinn eigin ost sem passar við bjór þeirra.
Með þessu öllu höfðum við svo klassískt meðlæti, reykta pylsu, heimalagað hrökkbrauð, ólifublöndu, sultur og ýmiskonar gúmmilaði og svo auðvitað Dijon hunangssinnep.

Ragnar Freyr og Snædís eru mikið rauðvínsfólk og því ákváðum við einnig að bjóða uppá gott rauðvín með til að tryggja að enginn færi ósáttur frá borði.  Ég þekki ekki mikið til vína en við hjónin höfum þó komið okkur upp nokkrum uppáhalds þrúgum og vínlöndum.  Þessa dagana erum við alveg kolfallin fyrir vínum frá Argentínu þar sem Malbec þrúgan er allsráðandi.  Þetta er dásamleg þrúga, þróttmikil, þétt og ljúf vín.  Við höfum mikið verið að reyna Trivento vínin sem fást hér í ýmsum verðflokkum, öll góð vín, ákváðum þó að bjóða uppá annað vín frá Argentínu einnig með Malbec þrúgunni.  Þetta er vín frá Trapiche sem einnig er í miklu uppáhaldi.  Nafni minn mætti svo vopnaður til leiks með okkar uppáhalds vín frá Trivento.  Skemmtileg tilviljun, miklir menn hugsa eins ekki satt? 🙂

Já kvöldið var vel lukkað enda ekki annað hægt þegar maður nýtur nærveru góðra vina, ostar og drykkir eru bara auka bónus. Bjórinn gekk vel í mannskapinn og auðvitað rauðvínið með.  Án þess að leggja nokkrum orð í munn þá held ég að gestir okkar hafi kunnað vel við bjórinn, ég held að La Trappe Tripel hafi átt vinninginn þetta kvöld.

Kærar þakkir fyrir komuna kæru vinir og takk fyrir okkur!!!