Kóríander og Chillí dressað nautakjöts burito með Lava stout

image

Matur með bjór eða bjór með mat, skiptir ekki máli það er bæði betra.
Við getum öll verið sammála um að bjór er góður drykkur, það er hægt að nota hann á ýmsa vegu, t.d. drekka hann í einrúmi yfir góðri bók, í veislunni með góðum vinum, hann hefur líka mikið verið notaður til að auka sjálfstraust í makaleit. Það sem mér finnst hins vegar hvað skemmtilegast er að nota hann sem krydd með og/eða í matargerð. Ég hef áður komið inn á þetta hér en góð vísa er sjaldan of oft kveðin eða hvað?
Ég hef verið veikur og ómögulegur undanfarna daga en er loksins að hressast. Ég ákvað því að reyna næra líkama og sál og drífa mig í bústað yfir nótt með fjölskyldunni. Það var svo sem ekki veðrinu fyrir að fagna, svona ömurlegur klassískur íslenskur sumardagur, hávaða rok og skúrir. Þetta er svona veður þar sem ekkert er hægt að gera nema dunda sér innandyra og t.d. plana kvöldmatinn. Maður grillar alltaf í bústað, það er bara þannig og hér skiptir veðrið í raun engu máli. Mig langaði í eitthvað nýtt og djúsí og góðan þróttmikinn bjór með, það þurfti ekkert að vera eitthvað sem tengist veðrinu að þessu sinni.

Naut á grillið mitt takk.
Nautakjöt er dálítið ofarlega í huga mínum þessa dagana og það gerist ekki betra en grillað og gómsætt. Þannig að úr varð að ég náði mér í flottan ungnautafile bita, það hefði alveg mátt vera frampartsfile, aðal atriðið er bara að fá gott kjöt með sem fæstum sinum. Ég veit fátt eins pirrandi og þegar maður er kominn með 5000kr steikina sína úr „overpriced“ kjötbúðinni, búinn að gæla við það og grilla og svo getur maður ekki borðað nema örlítið brot af kjötinu þar sem restin er bara ógeðslegar sinar. Eyðileggur alveg heilt kvöld og jafnvel nokkra daga. Hvað eru menn að selja manni svona og titla sig svo sérverslun í kjöti?
Nóg um það ég átti kjötið og vantaði bara eitthvað að gera með það. Ég opnaði mér einn Punk IPA frá Brewdog en góður bjór kallar oft fram góðar hugmyndir og þarna kom það, innblásinn af sjálfum meistaranum Gordon Ramsay og svo vitleysingunum í Grillsumarið Mikla sem sýnt er á Stöð 2 um þessar mundir ákvað ég að gera ungnauta burito með fersku brakandi sallati og chillí, lime, kóríander dressingu.

Grillað chillí og kóríander ungnautaburito.
Ég veit svo sem ekki hvað ég á að kalla þennan rétt, en svona nokkurn veginn er hann settur saman:

imageKjötið: er lagt í marineringu, þarf kannski ekki en það þarf amk að vera penslað með einhverju dálítið sykruðu sem karmelliserast við grillunina. Það er nefnilega dálítið mikilvægt að fá sæta keiminn á móti hitanum frá chillíinu í dressingunni.
Ég lét kjötið liggja í Teryaki sósu í nokkrar klst og kryddaði með salt og pipar. Teryaki sósan er ofsalega bragðgóð og inniheldur töluvert af sykri.
Kjötið er svo bara grillað á hefðbundinn hátt og stefnt á medium rare, alls ekki meira en það.

Dressing: mjög einföld, ég bara slumpaði og smakkaði þetta til. Markmiðið er að fá dálítinn hita í dressinguna. Þannig að maður notar ca 2-3 mtsk Olífuolíu (ég notaði meira sem var aðeins of mikið), saxaður ferskur chillíbelgur með fræum, 3-4 mtsk soyasósa (Kikkoman er auðvitað best), 3-4 mtsk púðursykur, heill velkreistur lime (sem sagt safinn úr honum), ferskur kóríander eftir smekk og skvetta af fiskisósu.
Þarna er maður kominn með salt, sætt, súrt og sterkt sem maður stillir bara af eftir smekk. Hér vill maður finna vel fyrir brunanum en allt hitt verður að vera með í bakgrunni. Þessi dressing virkar á ýmislegt annað.

Sallat: Einfallt, má nota það sem maður hefur við höndina í rauninni en mæli þó með einhverju brakandi og stökku. Ég notaði kínakál, gróft skorið, rauða papriku, rauðlauk og ferskan kóríander, dálítið mikið af honum, hann er bara svo góður og svo má maður auðvitað setja hvað sem er með þessu.

Aðferð: Þegar kjötið hefur staðið aðeins er það skorið niður í dásamlegar öööörþunnar sneiðar, maður stelur sér einni sneið í gogginn og finnur hvernig það bráðnar nánast í munni og sæti karmelliseraði Teryiak keimurinn kemur ofsalega vel út með. Svo hrúgar maður bara sallatinu á Tortilla kökurnar sem maður rétt aðeins grillar fyrst til að fá mýkt í þær og svo auðvitað rendurnar maður, ekki skemmir svo fyrir að gumsið frá marineringunni er enn á teinunum og gefur því aðeins bragð í kökurnar.
Svo smellir maður eins og tveim til þrem kjötsneiðum ofan á og svo helling af dressingu yfir. Þetta verður dálítið blautt en það gerir ekkert til, Torilla kökurnar verða bara ögn rakar og dúnmjúkar sem er enn betra.

Svo er það rétti bjórinn með, rúsían í pylsuendanum.
Það þarf að drekka eitthvað með þessum herligheitum, eitthvað sem ekki gerir lítið úr kjötinu og eitthvað sem gengur með hitanum frá chillípiparnum. Við erum að tala um bjór, það þarf stóran strák hérna og hvað er þá betra en hinn einstaki Lava Stout frá Ölvisholti? Hann er þróttmikill og þéttur án þess að vera ofvaxinn. Hitinn og sæti vínlegi keimurinn frá áfenginu rennur saman við chillíhitann og svo er þessi unaðslegi nánast reykti BBQ keimur í bjórnum sem auðvitað er alveg að dansa með grillbragðinu af kjötinu. Þetta getur ekki klikkað. Bjórinn bætir flottum flækjum við réttinn og rétturinn lyftir bjórnum á annað stig, frábært!

 

 

 

 

 

 

Steiktir sveppir með porter!

Steiktir sveppir með porter

Ummm sveppir eru bara dásamlegir

Mér datt í hug að deila þessu með ykkur.  Var rétt í þessu ljúka við ljúfa kvöldmáltíð.  Ég er mikið fyrir sveppi af öllum stærðum og gerðum.  Smjörsteiktir sveppir eru dásamlegt meðlæti eða bara réttur út af fyrr sig ef maður er sveppafíkill.  Í kvöld var frúin að malla pasta og sem meðlæti hafði hún ofnbakað smjörsteikt snittubrauð með sveppum og bræddum osti.  Hún lét mig sjá um að steikja sveppina þar sem ég hef sérstakt dálæti af því og hef þó ég segi sjálfur frá tekist ansi vel upp (enda ekki flókið verkefni svo sem).  Oft er best að hafa hlutina einfalda, að steikja sveppi úr smjöri og salta létt gefur góða raun en stundum er gaman að fikta og experimenta með kryddin.  Ég hef dottið niður á stórgóða kryddblöndu á sveppina.  Ég nota þetta á hamborgarann, sem meðlæti, í sósuna ofl.  Í kvöld ákvað ég að gera þessa blöndu ofan á brauðið en með dálitlu twisti að þessu sinni.  Í kvöld var ég að njóta Myrkva porter frá Borg, ég hef góða raun af því að nota hann til að sjóða upp hitt og þetta.  Ég bætti því dágóðri slettu á pönnuna, ummmm lyktin maður minn, dásamlegt alveg, ég stóðst ekki mátið og sullaði dálitlu meira á pönnuna enda spennandi að sjá hvernig þetta kæmi út, engin hætta á að skemma eitthvað hér! En já það sem ég geri annars venjulega er að steikja sveppina úr smjöri, nóg af því, krydda svo með salti, pipar, örlitlu chillikryddi og timian. Stundum steiki ég lauk með og rifinn hvítlauk, ég gerði það í kvöld.  Þetta er dásamlegt, svo þegar porterinn bætist við lyftist þetta allt upp á æðra stig og verður meira elegant og fullkomið.   Það erfiða hér er að tíma bjórnum, það verður dálítil togstreita um hvað mikið af bjór á að nota, þetta veltur bara á viljastyrk.

Þetta setti ég svo á snittubrauðin hennar Sigrúnar og hún reif svo ögn gráðost yfir, ekki of mikið því við viljum njóta sveppanna og loks rifinn ostur eftst.  Inn í ofn og svo bara njóta.

Ég átti ögn eftir að porternum sem ég gat svo drukkið með, fullkomið.