Kóríander og Chillí dressað nautakjöts burito með Lava stout

image

Matur með bjór eða bjór með mat, skiptir ekki máli það er bæði betra.
Við getum öll verið sammála um að bjór er góður drykkur, það er hægt að nota hann á ýmsa vegu, t.d. drekka hann í einrúmi yfir góðri bók, í veislunni með góðum vinum, hann hefur líka mikið verið notaður til að auka sjálfstraust í makaleit. Það sem mér finnst hins vegar hvað skemmtilegast er að nota hann sem krydd með og/eða í matargerð. Ég hef áður komið inn á þetta hér en góð vísa er sjaldan of oft kveðin eða hvað?
Ég hef verið veikur og ómögulegur undanfarna daga en er loksins að hressast. Ég ákvað því að reyna næra líkama og sál og drífa mig í bústað yfir nótt með fjölskyldunni. Það var svo sem ekki veðrinu fyrir að fagna, svona ömurlegur klassískur íslenskur sumardagur, hávaða rok og skúrir. Þetta er svona veður þar sem ekkert er hægt að gera nema dunda sér innandyra og t.d. plana kvöldmatinn. Maður grillar alltaf í bústað, það er bara þannig og hér skiptir veðrið í raun engu máli. Mig langaði í eitthvað nýtt og djúsí og góðan þróttmikinn bjór með, það þurfti ekkert að vera eitthvað sem tengist veðrinu að þessu sinni.

Naut á grillið mitt takk.
Nautakjöt er dálítið ofarlega í huga mínum þessa dagana og það gerist ekki betra en grillað og gómsætt. Þannig að úr varð að ég náði mér í flottan ungnautafile bita, það hefði alveg mátt vera frampartsfile, aðal atriðið er bara að fá gott kjöt með sem fæstum sinum. Ég veit fátt eins pirrandi og þegar maður er kominn með 5000kr steikina sína úr „overpriced“ kjötbúðinni, búinn að gæla við það og grilla og svo getur maður ekki borðað nema örlítið brot af kjötinu þar sem restin er bara ógeðslegar sinar. Eyðileggur alveg heilt kvöld og jafnvel nokkra daga. Hvað eru menn að selja manni svona og titla sig svo sérverslun í kjöti?
Nóg um það ég átti kjötið og vantaði bara eitthvað að gera með það. Ég opnaði mér einn Punk IPA frá Brewdog en góður bjór kallar oft fram góðar hugmyndir og þarna kom það, innblásinn af sjálfum meistaranum Gordon Ramsay og svo vitleysingunum í Grillsumarið Mikla sem sýnt er á Stöð 2 um þessar mundir ákvað ég að gera ungnauta burito með fersku brakandi sallati og chillí, lime, kóríander dressingu.

Grillað chillí og kóríander ungnautaburito.
Ég veit svo sem ekki hvað ég á að kalla þennan rétt, en svona nokkurn veginn er hann settur saman:

imageKjötið: er lagt í marineringu, þarf kannski ekki en það þarf amk að vera penslað með einhverju dálítið sykruðu sem karmelliserast við grillunina. Það er nefnilega dálítið mikilvægt að fá sæta keiminn á móti hitanum frá chillíinu í dressingunni.
Ég lét kjötið liggja í Teryaki sósu í nokkrar klst og kryddaði með salt og pipar. Teryaki sósan er ofsalega bragðgóð og inniheldur töluvert af sykri.
Kjötið er svo bara grillað á hefðbundinn hátt og stefnt á medium rare, alls ekki meira en það.

Dressing: mjög einföld, ég bara slumpaði og smakkaði þetta til. Markmiðið er að fá dálítinn hita í dressinguna. Þannig að maður notar ca 2-3 mtsk Olífuolíu (ég notaði meira sem var aðeins of mikið), saxaður ferskur chillíbelgur með fræum, 3-4 mtsk soyasósa (Kikkoman er auðvitað best), 3-4 mtsk púðursykur, heill velkreistur lime (sem sagt safinn úr honum), ferskur kóríander eftir smekk og skvetta af fiskisósu.
Þarna er maður kominn með salt, sætt, súrt og sterkt sem maður stillir bara af eftir smekk. Hér vill maður finna vel fyrir brunanum en allt hitt verður að vera með í bakgrunni. Þessi dressing virkar á ýmislegt annað.

Sallat: Einfallt, má nota það sem maður hefur við höndina í rauninni en mæli þó með einhverju brakandi og stökku. Ég notaði kínakál, gróft skorið, rauða papriku, rauðlauk og ferskan kóríander, dálítið mikið af honum, hann er bara svo góður og svo má maður auðvitað setja hvað sem er með þessu.

Aðferð: Þegar kjötið hefur staðið aðeins er það skorið niður í dásamlegar öööörþunnar sneiðar, maður stelur sér einni sneið í gogginn og finnur hvernig það bráðnar nánast í munni og sæti karmelliseraði Teryiak keimurinn kemur ofsalega vel út með. Svo hrúgar maður bara sallatinu á Tortilla kökurnar sem maður rétt aðeins grillar fyrst til að fá mýkt í þær og svo auðvitað rendurnar maður, ekki skemmir svo fyrir að gumsið frá marineringunni er enn á teinunum og gefur því aðeins bragð í kökurnar.
Svo smellir maður eins og tveim til þrem kjötsneiðum ofan á og svo helling af dressingu yfir. Þetta verður dálítið blautt en það gerir ekkert til, Torilla kökurnar verða bara ögn rakar og dúnmjúkar sem er enn betra.

Svo er það rétti bjórinn með, rúsían í pylsuendanum.
Það þarf að drekka eitthvað með þessum herligheitum, eitthvað sem ekki gerir lítið úr kjötinu og eitthvað sem gengur með hitanum frá chillípiparnum. Við erum að tala um bjór, það þarf stóran strák hérna og hvað er þá betra en hinn einstaki Lava Stout frá Ölvisholti? Hann er þróttmikill og þéttur án þess að vera ofvaxinn. Hitinn og sæti vínlegi keimurinn frá áfenginu rennur saman við chillíhitann og svo er þessi unaðslegi nánast reykti BBQ keimur í bjórnum sem auðvitað er alveg að dansa með grillbragðinu af kjötinu. Þetta getur ekki klikkað. Bjórinn bætir flottum flækjum við réttinn og rétturinn lyftir bjórnum á annað stig, frábært!

 

 

 

 

 

 

Steiktir sveppir með porter!

Steiktir sveppir með porter

Ummm sveppir eru bara dásamlegir

Mér datt í hug að deila þessu með ykkur.  Var rétt í þessu ljúka við ljúfa kvöldmáltíð.  Ég er mikið fyrir sveppi af öllum stærðum og gerðum.  Smjörsteiktir sveppir eru dásamlegt meðlæti eða bara réttur út af fyrr sig ef maður er sveppafíkill.  Í kvöld var frúin að malla pasta og sem meðlæti hafði hún ofnbakað smjörsteikt snittubrauð með sveppum og bræddum osti.  Hún lét mig sjá um að steikja sveppina þar sem ég hef sérstakt dálæti af því og hef þó ég segi sjálfur frá tekist ansi vel upp (enda ekki flókið verkefni svo sem).  Oft er best að hafa hlutina einfalda, að steikja sveppi úr smjöri og salta létt gefur góða raun en stundum er gaman að fikta og experimenta með kryddin.  Ég hef dottið niður á stórgóða kryddblöndu á sveppina.  Ég nota þetta á hamborgarann, sem meðlæti, í sósuna ofl.  Í kvöld ákvað ég að gera þessa blöndu ofan á brauðið en með dálitlu twisti að þessu sinni.  Í kvöld var ég að njóta Myrkva porter frá Borg, ég hef góða raun af því að nota hann til að sjóða upp hitt og þetta.  Ég bætti því dágóðri slettu á pönnuna, ummmm lyktin maður minn, dásamlegt alveg, ég stóðst ekki mátið og sullaði dálitlu meira á pönnuna enda spennandi að sjá hvernig þetta kæmi út, engin hætta á að skemma eitthvað hér! En já það sem ég geri annars venjulega er að steikja sveppina úr smjöri, nóg af því, krydda svo með salti, pipar, örlitlu chillikryddi og timian. Stundum steiki ég lauk með og rifinn hvítlauk, ég gerði það í kvöld.  Þetta er dásamlegt, svo þegar porterinn bætist við lyftist þetta allt upp á æðra stig og verður meira elegant og fullkomið.   Það erfiða hér er að tíma bjórnum, það verður dálítil togstreita um hvað mikið af bjór á að nota, þetta veltur bara á viljastyrk.

Þetta setti ég svo á snittubrauðin hennar Sigrúnar og hún reif svo ögn gráðost yfir, ekki of mikið því við viljum njóta sveppanna og loks rifinn ostur eftst.  Inn í ofn og svo bara njóta.

Ég átti ögn eftir að porternum sem ég gat svo drukkið með, fullkomið.

Foie Gras og Imperial Stout – einhver smakkað?

Foie Gras og Imperial Stout!

Chartier ofsalega vinsæll en ofmetinn?

Kannast einhver við staðinn? Ég valdi þessa mynd því á þessum stað í París fékk ég það besta Foie gras sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Ég er reyndar ekki mikill Foie gras maður í þeim skilningi að ég fæ það í raun sjaldan.  Rétturinn getur verð ofsalega góður eða bara eiginlega vondur.  Þetta er dálítið eins og créme brulée, hef smakkað ótal margar útgáfur, það virðist vera hægt að gera þann rétt á óendalega marga máta.  Nóg um það, staðurinn sem ég er að tala um þarna á myndinni heitir Chartier og ku vera ofsalega vinsæll resturant í París.  Okkur var bent á það af heimamönnum að fara þarna svo við gerðum það, staðurinn á að vera ódýr og með hágæða mat.  Við stóðum í ofsalegri röð til að komast þarna inn.  Þegar inn var komið tók við stór salur fullur af fólki.  Allt á iði, brjáluð læti, þjónar hlaupandi út um allt kófsveittir og með blæðandi magasár af stressi.  Við tókum eftir því á meðan við biðum eftir matseðlinum að fólk var nánast rekið út um leið og það renndi niður síðasta bitanum.  Ekki alveg staðurinn til að eiga rómatíska stund en samt heilmikil upplifun og í raun alveg þess virði að fara þarna bara til að fá besta Foie gras í heimi!!!

Nú er ég mikið að spá í pörun matar og bjórs.  Þegar ég sat þarna og smjattaði á þessu lostæti fór ég að spá í hvaða bjór kæmi vel út með.  Rauðvínið var ágætt en bjór væri enn betra held ég.  Ég fór að máta í höfðinu og datt í hug eitthvað þróttmikið Imperial Stout eða barley wine?  Ég held að það gæti verið stórgóð blanda, þrumu bjór, mikið bragð og svo mjúkur ofsalega ljúfur Foie gras ummmm.  Vandinn er að bjórinn er ekki til þar sem maður fær réttinn eða öfugt.  Það er því ekki hlaupið að þessu.  Hvað haldið þið lesendur góðir?  Hefur einhver smakkað þessa pörun? Getur annars einhver bent á stað sem býður uppá góðan Foie gras?

Glæsiostar með góðu fólki og bjór – getur ekki klikkað

Ostabakki

Gómsætir ostar úr Búrinu og vel valinn bjór með. Sælgæti!

Ég fékk til mín kæra gesti í heimsókn í vikunni, nafna minn og kollega Ragnar Freyr Ingvarsson matarbloggara og hans gullfallegu og lífsglöðu eiginkonu Snædísi.  Það er orðið allt of langt síðan við hittumst síðast.  Við hjónin erum ágætis kokkar og þá sérstaklega betri helmingurinn en þegar von er á svona matvönu glæsifólki hokið af reynslu í eldhúsinu þá getur það orðið dálítið taugatrekkjandi að ákv kvað skal bjóða uppá.  Það er þó eitt sem ekki klikkar og það eru eðalostarnir.  Mér er sama hvort það er hinn síbölvandi Gordon eða allsberi kokkurinn, það kunna allir að meta góða osta og meðlæti.  Ostar eru einnig kjörið tækifæri til að gera tilraunir með bjórpörun því oftast rata mismunandi tegundir osta á bakkann og því hægt að velja úr mörgum bjórstílum. Ég veit að það stuðar marga en bjór passar í raun betur með ostum en rauðvínið.  Vín er heldur hvasst og sýran yfirgnæfir oft viðkvæmt bragðið í mildari ostum.  Svo má til gamans geta þess að gerið í bjórnum er ekki ósvipað því sem notað er við gerjun osta.  Uppruninn er einnig sambærilegur, mjólkurvörur sem koma frá kúm sem bíta gras.  Byggið í bjórnum er líka „gras“.  Þannig má finna eiginleika sem blandast vel saman og stuðla að ljúfri pörun.

La trappe

La Trappe er ofsalega fallegur og ljúfur

Þar sem gestir okkar eru meira rauðvínsfólk en bjórnördar ákvað ég að nota tækifærið og gefa þeim ögn innsýn inn í hina dásamlegu veröld bjórs og hamingju.  Ostarnir voru vel valdir úr Búrinu, að sjálfsögðu fékk Primadonna að fylgja með, það er enginn ostabakki án hans að mínu mati og hann er dásamlegur með bjór t.d. amerískum pale ale eða jafnvel IPA.  Svo verðum við að hafa einhvern góðan blámygluost umm.  Hinn franski Bleu d’ Auvergne varð fyrir valinu eftir nokkuð smakk í Búrinu.  Ofsalega flottur ostur, bragsterkur en samt ekkert um of og dálítið kryddaður með mikla mýkt.  Hér passar vel að hafa bjór með dulitla sætu til að vega á móti en einnig smá bit.  Sjálfur hefði ég valið imperial IPA á borð við Brewdog Hardcore IPA sem gefur þægilega sætu og beiskjubit eða fara alla leið og prófa góðan barley wine svo sem Anchor Old Foghorn.  Ég þekki ekki alveg bjórstig gesta minna og var því dálítið hræddur um að þetta væru of öflugir bjórar.  Ég ákvað því að prófa bara venjulegan IPA sem ég átti kaldann í ísskápnum, Punk IPA frá Brewdog, hann býr reyndar ekki yfir sama sæta keimnum og hinir en alltaf gaman að prófa, svo á hann líka vel við Primadonnuna.  Svo er það Myrkvi frá borg, hann er porter og slíkir bjórar koma vel út með t.d. blámygluostum og eru ekki eins öflugir og stout bjórar sem passa jafnvel enn betur við.  Það er nokkur sæta, ristað malt og ljúfmeti í þessum bjór sem tónar vel með þessum osti.  Það verður svo að segjast að ef maður er með hár á bringunni og þorir „all in“ þá má prófa hinn þróttmikla Lava sem er imperial stout með miklum reykkeim.  Smellpassar með gráðostinum og svo ég tali nú ekki um reyktar pylsur sem auðvitað rata oftast með á ostabakkann.  Þriðji bjórinn þetta kvöld var enginn höfuðverkur.  Ég valdi La Trappe Tripel því ég veit að flestir sem hafa bara smá gourmet palletu ráða vel við þann bjór.  Hann er þróttmikill og heitur (rúm 9%) með ljúfan ávaxtakeim og sætu.  Ég hefði einnig geta valið belgísku trappist bjórana t.d. Chimay eða Westmalle en verðið hér á La Trappe er einstaklega gott og hann er ekkert síðri.  Þessi bjór passar að mínu mati við alla þá osta sem voru í boði þetta kvöld ofsalega flottur stíll.  Það er kannski ekki skrítið, flest trappist brugghúsin gera einnig sinn eigin ost sem passar við bjór þeirra.
Með þessu öllu höfðum við svo klassískt meðlæti, reykta pylsu, heimalagað hrökkbrauð, ólifublöndu, sultur og ýmiskonar gúmmilaði og svo auðvitað Dijon hunangssinnep.

Ragnar Freyr og Snædís eru mikið rauðvínsfólk og því ákváðum við einnig að bjóða uppá gott rauðvín með til að tryggja að enginn færi ósáttur frá borði.  Ég þekki ekki mikið til vína en við hjónin höfum þó komið okkur upp nokkrum uppáhalds þrúgum og vínlöndum.  Þessa dagana erum við alveg kolfallin fyrir vínum frá Argentínu þar sem Malbec þrúgan er allsráðandi.  Þetta er dásamleg þrúga, þróttmikil, þétt og ljúf vín.  Við höfum mikið verið að reyna Trivento vínin sem fást hér í ýmsum verðflokkum, öll góð vín, ákváðum þó að bjóða uppá annað vín frá Argentínu einnig með Malbec þrúgunni.  Þetta er vín frá Trapiche sem einnig er í miklu uppáhaldi.  Nafni minn mætti svo vopnaður til leiks með okkar uppáhalds vín frá Trivento.  Skemmtileg tilviljun, miklir menn hugsa eins ekki satt? 🙂

Já kvöldið var vel lukkað enda ekki annað hægt þegar maður nýtur nærveru góðra vina, ostar og drykkir eru bara auka bónus. Bjórinn gekk vel í mannskapinn og auðvitað rauðvínið með.  Án þess að leggja nokkrum orð í munn þá held ég að gestir okkar hafi kunnað vel við bjórinn, ég held að La Trappe Tripel hafi átt vinninginn þetta kvöld.

Kærar þakkir fyrir komuna kæru vinir og takk fyrir okkur!!!

Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmeti og svo rétti bjórinn!

Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmetissallati. Mynd eftir Ragnar Frey Ingvarsson

Góður félagi minn, nafni og kollegi Ragnar Freyr Ingvarsson matarbloggari er sífellt að gera gómsætar tilraunir í eldhúsinu eins og örgu er kunnugt orðið.  Við hjónakornin dettum stundum í það að elda upp eftir honum og þá að sjálfsögðu reynum við að finna bjór sem passar vel við.  Vissulega förum við oft í rauðvínið eða hvítt með enda á það einnig vel við flesta rétti, þetta fer bara eftir hvernig maður er innstilltur hverju sinni.  Það er bara svo gaman að „experimenta“ með bjórinn hann hefur svo margar víddir.

Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég fékk senda fyrirspurn frá lesanda Bjórbókarinnar og þá væntanlega matarbloggs nafna míns einnig.  Fyrirspurnin fjallaði um uppskrift sem birtist nýverið á bloggsíðunni,  Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmetissallati og chilli sýrðrjómasósu.  Bara það að heyra fyrirsögnina kemur bragðlaukunum af stað og hugmyndir að pörun hrannast upp.  Það er vissulega alltaf best að finna rétta bjórinn þegar maður hefur smakkað réttinn og ég tala nú ekki um að vera með hann fyrir framan sig.  Ég hef hins vegar ekki enn eldað akkúrat þennan rétt en það er þó vel hægt að miða við fyrri reynslu af sambærilegum réttum og svo bara skoða innihaldslýsinguna.

Ef við skoðum hvað við erum með í höndunum, þá er megin uppistaðan kjúklingur, grillaður í þokkabót, sumarlegt og flott.  Maríneringin er dálíið chillíbaseruð og svo má finna sæta chillísósu í grillsósunni með.  Við erum einnig með grillað grænmeti.  Ragnar notar einnig soya sósu í marineringu, hér er kjörið að leika sér aðeins og skipta jafnvel soya út fyrir bragðmikið öl, t.d. porter, stout eða belgískan dubbel til að nefna dæmi.  Látum bara Ragnar Frey ekki vita af því.

Ef við erum á mildu nótunum, væri hægt að fara í belgískan dubbel, hann er dálítið sætur með léttum ávaxtakeim en þó þrótt og dulítið kryddkeim.  Það væri hægt að láta kjúllann marinerast í þessu í staðinn fyrir eða jafnvel með soya sósunni.  Bjórinn „harmoniserar“ vel við sæta chillíið í sósunni  og marineringunni og dansar líka vel með grilluðu gænmetinu sem verður mjög sætt og djúsí við þessa meðferð.  Það er líka alltaf gaman að finna örlitlar vísbendingar um bjórinn í marineringunni  og hvernig hann smellpassar við bjórinn með.  Hér erum við með dæmi um pörun þar sem samsvörun er lykillinn.  Leitast er við að finna eiginleika í drykk og mat sem eru sameiginlegir, hér er það t.d. sætan.  Dæmi um bjór af þessari gerð hér á Íslandi er t.d. Leffe Brune,  Westmalle Dubbel og La Trappe Dubbel.  Ef þið prófið þetta væri gaman að heyra árangurinn hér að neðan.

Myrkvi, ljúfur porter frá Borg.

Myrkvi, ljúfur porter frá Borg.

Það væri líka hægt gera eitthvað allt annað og eltast dálítið við BBQ keiminn  og nota porter.  Porter er reyndar ekki bjór fyrir alla, hann er af gerðinni öl og því bragðmikill ef miðað er við hinn klassíska lager, sumum finnst þetta of mikið bragð.  Porterinn er dálítið á ristuðu brenndu nótunum og oft má finna eins og létt reyktan keim og dökkt súkkulaði jafnvel.    Hann er þó ekki of sætur þó að ristað malt sé dálítið áberandi en á móti kemur beiskjan frá humlunum sem þó verður aldrei neitt of mikið.  Oftast fremur mildir bjórar þegar á heildina er litið.  Þessi stíll kemur vel út með grillmeti hvers konar sérstaklega kolagrilluðum mat.  Það dásamlega við grillmat er að sykurinn í marineringunni „karmelliserast“ ef svo má segja við grillun.  Þessi fallegi grillhjúpur smellpassar við ristuðu malttónana  í porternum.   Mjög skemmtileg pörun og ég tala nú ekki um ef bjórinn er notaður í sjálfa matargerðina einnig.  Fyrir lengra komna eða fólk sem vill aðeins taka skrefið lengra mætti reyna hinn íslenska Lava sem er töluvert reyktur imperial stout.  Reykurinn passar ofsalega vel með öllu grillmeti þó svo að maður hallist meira að para hann við öflugari rétti svo sem grillaðar nautasteikur eða grís.  Dæmi um Porter hér á Íslandi er t.d. hinn alíslenski Myrkvi frá Borg eða London Porter frá Fullers.

Extra Special Bitter er breskur bjórsíll sem gengur vel með flestum mat.  Þrátt fyrir nafnið þá er hann alls ekki „bitur“.  Hann er bragðmikill og ljúfur með sætan undirtón þar sem stundum má finna ögn ávaxtakeim.  Ristað malt kemur við sögu en hann er í mjög góðu jafnvægi við beiskjuna frá humlunum.   Þetta er bjór sem allir ættur að ráða vel við.  Ég held að hann komi sérstaklega vel út með sætu grilluðu grænmetinu og karmellukeimnum í grillhjúpnum á kjúllanum.   Ekki er mikið til hér á landi en ESB frá Fullers er gott dæmi um stílinn.

Ég verð svo að nota tækifærið og nefna til sögunnar Rouge Hazelnut Brown Nectar sem er nýr bjór á klakanum.  Um er að ræða flottan amerískan brown ale eða brúnöl.  Bjórinn er einnig dálítið á ristuðu nótunum, ögn sæta með karmellukeim og svo snerti af súkkulaði og hnetum.  Þetta passar mjög vel við umræddan rétt.  Umm nú verð ég bara að drífa í að reyna þetta „combo“.  Njótið vel.

Þetta eru bara nokkur dæmi, væri gaman að heyra hvernig gengur.  Vilji menn/konur svo fara öruggu leiðina þá gengur spriklandi lager einnig vel með, hann er mildur, bragðlítill og stelur engu frá réttnum en bætir svo sem heldur ekki miklu við.  Það er nánast alltaf hægt að grípa lagerinn ef manni skortir hugmyndir.  Ég myndi þá reyna við einhvern bragðmikinn lager með góða fyllingu.

Vona að ég hafi svarað fyrirspurninni nokkurn veginn.

Bjór og ostar!


Þegar við vorum síðast á ferðalagi um París sumarið 2012 lifðum við á ostum af ýmsu tagi.  Franskir ostar eru einfaldlega ómótstæðilegir.  Rauðvín og ostar er álíka þekkt „kombó“ og „humar og hvítt“ enda algjörlega dásamleg blanda.  Frakkar eru ekki þekktir fyrir bjórgerð en þeir gera ágætis rauðvín og því var það ósjaldan drukkið með á ferðum okkar um borgina.  Hins vegar erum við mikið bjórfólk og ákv að nota tækifærið og reyna nokkrar paranir.  Lagerinn finnst á hverju strái en maður vill fara í meiri alvöru bjór með ostum.  Ef valið er á milli rauðvíns og lagers þá vel ég alltaf rauðvínið með þessum kræsingum.

Það er hægt að finna amk tvær bjórbúðir sem selja vandaðan sælkerabjór og því hægt að láta aðeins á reyna.  Ostar eru af ýmsum gerðum og styrkleika líkt og bjórinn og því þarf að hafa í huga hvers slags ost um ræðir hverju sinni.  Algjörlega smekksatriði hvers og eins samt.  Við viljum þó ekki rótsterkan bjór sem algjörlega stelur senunni.  Ég myndi t.d. forðast Imperial IPA og jafnvel venjulegan IPA einnig.  Reynið frekar  Stout t.d. eða Imperial Stout sem einnig mjög vel við. Jafnel dálítið reyktur Stout eins og okkar íslenski Lava sem er þróttmikill með reyktum undirtón sem minnir dálítið á reykta pylsu en það er jú vel þekkt meðlæti á ostabakkanum.  Lava er þó ekki allra og ég er ekki viss um að sá græni myndi sætta sig við hann!  Porter á einnig mjög vel við, hann er töluvert léttari og mildari en stout bjórarnir en samt má finna þessa létt ristuðu tóna og jafnvel örlítið súkkulaði.  Myrkvi frá Borg er mjög gott alíslenskt dæmi um góðan ostabjór.

Það er ekki hægt að fjalla um osta án þess nefna til sögunnar Trappist bjórana.  Bjórinn sem bruggaður er af alvöru munkum í alvöru klaustrum.  Þessir bjórar eru þróttmiklir, vel frúttaðir oft á tíðum og kryddaðir og skemmtilegir.  Ekki humlar að trufla eða brennt malt.  Einstakur stíll.  Þessir karlar passa einkar vel með ostum og er kannski ekki skrítið að þau 8 Trappist brugghús sem til eru brugga vel flest einnig gómsæta osta til að njóta með bjórnum. Ég er mjög hrifinn af Chimay Tripel eða Westmalle Tripel með ostabakkanum mínum.  Bjór þessi er heldur áfengisríkur og gefur hita og gleði sem passar vel á köldu vetrarkvöldi án þess að yfirgnæfa ostinn.  Kannsi þó betra að hafa kremaða osta með þessum og dálítið bragðmikla.  Hins vegar er vel hægt að fara í mildari belgísku blond bjórana Leffe eða hollenska afbrigðið La Trappe blond ofl.  Þessi stílar eru þekktir fyrir að bera nokkurn ávaxtakeim, eru „frúttaðir“ eins og ég kalla það stundum en það er jú eitthvað sem passar á ostabakkann, vínber, jarðaber ofl ekki satt?

Það væri gaman að heyra frá ykkur ef þið prófið þetta.

Humarinn er bestur með?

Það er virkilega gaman að borða góðan mat og enn skemmtilegra þegar maður getur gert góðan rétt enn betri.  Það er t.d. hægt með því að sötra eitthvað ljúft með.  Nú er loksins komið sumar hér á klakanum og því má búast við að landsmenn fari að taka fram grillið og brasa eitthvað gott.  Humar er vinsæll á grillið og þá tala menn og konur oftast um humar og hvítt.  Það er virkilega góð blanda, ískalt hvítvín með hvítlauksristuðum humarhölum, salt og pipar og nóóóg af smjöri ummmm!  Það má þó ekki gleyma bjórnum í þessum efnum því hann býður enn einn vinkilinn og getur einfaldlega gert stórkostlega hluti fyrir humarinn.

Það þarf vart að taka fram að ekki er hægt að grilla humar nema sötra ljúfan bjór með það er amk mín upplifun.  Ef ég gleymi bjórnum við grillið þá fer yfirleitt ekki vel.  Það er svo sem ekki höfuðmál með hvaða bjór maður velur við grillið en sumar bjórgerðir passa betur en aðrar við humarinn.  Um daginn tókst mér næla mér í fullkomna humarhala af stærstu gerð frá Höfn.  Að vana lét ég þá liggja í smjöri, hvítlauk og dash af hvítvíni.  Kryddaði með salti og pipar og skellti á grillið.  Humarinn var álíka ljúfur og hann kostaði mig það vantaði ekki en hann varð enn betri með bjórnum.  Mér datt í hug að reyna belgískan bjór að þessu sinni og valdi einn af mínum uppáhalds, Tripel Karmeliet, hann hefur meiri prósentu en venjulegu lagerbjórarnir sem er ljómandi þar sem sumarið er enn ekki komið á fullt blúss og gott að fá smá hita í kroppinn.  Bjórinn  er margslunginn með kryddaðar nótur sem og ávexti og sætu.  Engir beiskir humlar sem stela senunni hér.  Þetta dansaði allt fullkomlega vel saman við humarinn og mun ég líklega taka þetta „kombó“ aftur næst.  Mæli með þessu, bjórinn fæst í Vínbúðinni og er vel hverrar krónu virði.

Aðrir bjórstílar koma einnig vel út með humarnum, ég er t.d. alltaf mjög ánægður með ískalda hveitibjórinn, belgískan eða þýskan.  Þessir karlar eru mildir og ferskir og fremur látlausir sem er mikilvægt.  Humar er „delicate“ matvara sem alls ekki má kaffæra með sterkum drykk.  Venjulegur lager, þá helst premium gengur einnig alveg.  Hann er hins vegar lítt spennandi en stundum langar mannir bara í eitthvað einfalt.  Svo eru hinir súru og þurru villibjórar, „brett“ ofsalega flottir með humar.  Þeir minna um margt á hvítvín.  Gallinn er að þessi bjórstíll er vandfundinn hér á landi.  Það er helst að líta við á Microbar eða reyna að sérpanta þá í Vínbúðinni. Belgíski blondinn er mjög góð pörun, t.d. Leffe eða La Trappe sem reyndar er hollenskur.  Þessir eru báður mildir, með góða fyllingu og dálítið sætir en þó með kryddaðan undirtón sem tónar vel við humarinn.  Fyrir þá sem vilja ögn meiri átök þá ganga belgísku Tripel bjórarnir einnig vel upp.  Westmalle Tripel td. ummm eða enn betra Orval sem blandar í raun saman tripel og brett hugmyndinni.  Hef reyndar ekki prófað þessa pörun en næst þegar ég kemst í Orval mun hann enda með heilum haug af humarhölum.  Gæti trúað að þar sé hið fullkomna hjónaband komið?  Það má reyndar benda á að nú um stundir fæst reyndar Orval „klónn“ sem kallast Arh Hvad? og kemur úr smiðju meistara Mikkeller.  Hvernig væri að prófa hann?

Það væri gaman að heyra ykkar reynslu á þessu.  Hvað hafið þið prófað með humar?