Rodenbach Grand Cru, mest svalandi bjór veraldar?

g

Eftir tvö ár í viðartanki, ómótstæðilegur Grand Cru

Sennilega einn mesti bjórgúrú heimsins Michale Jackson sem nú er látinn, blessuð sé minning hans sagði eitt sinn að Rodenbach Grand Cru væri mest svalandi bjór veraldar hvorki meira né minna.  Stór orð en líklega ekki svo langt frá sannleikanum.  Karlinn sagði líka að þessi bjór væri einn sá besti eða jafnvel besti matarbjórinn.  Hvað sem því líður, það fer ekki milli mála að um er að ræða magnaðan bjór sem á sér fáar hliðstæður í heiminum.  Reyndar á þetta við um stílinn sjálfann, flæmskt rauðöl eins og Michale kallaði stílinn.  Belgarnir nota ekki þetta hugtak heldur kalla stílinn brúnt súröl.  Rodenbach sem staðsett er í vesturhluta Belgíu er eitt af kannski 5-6 brugghúsum í Belgíu sem brugga þennan stíl, það sem er hins vegar sérstakt við Rodenbach er að allur bjórinn þeirra er af þessari gerð, þeir eyða því öllum sínum kröftum í stílinn á meðan aðrir brugga margar aðrar tegundir ásamt brúnölinu.
Grand Cru er einn af nokkrum bjórum frá Rodenbach en sem fyrr segir eru þeir allir brúnt súröl.  Í grunninn brugga þeir tvær gerðir af bjór af mismunandi styrkleika sem svo er notaður til að skapa alla þá bjóra sem kemur frá brugghúsinu.  Bjórinn fer í gegnum þrjár gerjanir, fyrst í nokkuð hefðbundnum gertönkum við 21 gráðu en svo er bjórinn fluttur yfir í annars konar keröld þar sem gerjun númer tvö fer fram við 15 gráður.  Ástæðan fyrir þetta lága hitastig er til að lofa lactobacillus bakteríum sem notað er í gerjunina að framleiða mjólkursýru sem sýrir bjórinn.  Hjá Rodenbach er nefnilega ekki notast við einn einangraðan gerstofn heldur blöndu af gersveppum sem er haldin „sýkt“ ef svo má segja með lactobacillus.  Að loknu þessu stigi sem getur varið frá 4 – 8 vikum er bjórinn fluttur yfir í risavaxin trégímöld til þroskunar í tvö ár.  Þar fær lactobacillus áfram að leika lausum hala við að sýra bjórinn en bjórinn tekur einnig í sig einhverja eiginleika frá viðnum.  Við þessar aðstæður tapar bjórinn hins vegar gosinu og þarf því hjálp áður en hann fer á flöskur.  Í Grand Cru er notað nánast 100% af þessum „gamla“ þroskaða bjór og svo bætt í hann gosi fyrir átöppun.  Í aðra bjóra er notað mismunandi hlutfall af þessum gamla á móti ungum

GrandCruAmur

Viðargímöldin hjá Rodenbach

gosríkum og ferskum bjór.  Gamli bjórinn er því eins og „sálin“ í bjórum brugghússins.  Viðargímöldin sem notuð eru eiga sér enga hliðstæðu í heiminum, um er að ræða gríðarlega stórar „viðartunnur“ sem ná frá gólfi og upp í loft.  Hjá Rodenbac eru tæp 300 svona gímöld sem fylla eina 9 sali, ofsalega flott „setup“.
En að bjórnum. Hann er fallegur í glasi, kastaníubrúnn með fallega froðu.  Í nefi er hann ofsalega ferskur, súr keimur í bland við málm.  Vínlegur  með kirsuberjum og kannski græn epli? Í munni mætir manni líflegur sopi með heilmiklum vínkarakter, talsvert sýrður  eins og finna má í hliðum tungunnar og fremst.  Það er dálítil sæta í honum einnig, minnir ögn á brenndan sykur.  Gosríkur og spriklandi. Bjórinn minnir mig oft dálítið á ölkelduvatn fyrir þau ykkar sem hafa smakkað það á Snæfellsnesi.  Auðvitað mun betra en það er eitthvað sem framkallar þessa minningu, líklega gosið og málmkeimurinn.  Ofsalagega svalandi bjór og frábær matarbjór vegna léttleika og sýrunnar.  Fæst á Microbar eða via sérpöntun í ÁTVR.

Hættulega nálægt því að vera fáránlega góður DIPA

Hættulega nálægt því að vera fáránlega góður DIPA

Mér er það í raun ekki sönn ánægja að tilkynna að nú er hægt að fá þessa mögnuðu perlu á krana á Microbar.  Ástæðan er bara sú að um er að ræða imperial IPA sem er hættulega nálægt því að vera fáránlega góður og ég kemst ekki í kvöld til að klára hann.  Ég veit eða grunar að hann klárist í kvöld á Mivrubar. Ég er að tala um  Dangerously Close To Stubit frá hinu magnaða bruggfyrirbæri To Øl.  Bjórinn er ein 9.3% og á maður ekki nokkurn möguleika á að finna það í bragði svo mikil eru gæðin í bjórnum.  Fáránlega fallegur í glasi, mattur og fínn með hættulega fallega froðu.  Í nefi er ofsalega ljúfur keimur, haugur af blómum og ávöxtum sem merki um að bjórinn er hér serveraður algjörlega á hárréttum tíma, ferskari gerist þetta varla miðað við landafræðina.  Í bragði njóta humlarnir sín einnig, beiskjan er ofsalega mjúk og fín en þó alveg til staðar já já, bara ekki hvöss ef svo má orða það.  Sætur undirtónn sem heldur vel á móti, mikill þéttleiki og ofsalega ljúfur sætbeiskur eftirkeimur með ávaxtablæ.   Ég held að það sé orðið langt síðan ég smakkaði svona flottan DIPA/Imperial IPA.
Já ég er ofsalega sár yfir að komast ekki í þetta í kvöld en nýt þess þá bara í gengum ykkur.

Græni karlinn: Ég er næstum orðlaus, var hálf hræddur í fyrstu en stemningin og hamingjan á Microbar gerði þetta bara svo magnað.  Lyktin er ljúf og fín með sætum ávöxtum.  Það er vissulega mikið bragð af þessum bjór og hann fyllir vel í munn.  Beiskjan er til staðar en er einhvern veginn ekki svo átakanleg eins og búist var við.  Þetta er klárlega bjór fyrir fólk sem vill fá almennilegt bragð.  Það má amk smakka.