Hvenær er gestur góður?

Hvenær er gestur góður?

Mynd stolið af síðu Microbar

Það er oftast gaman að fá góða gesti en stundum er enn meira gaman þegar þeir fara aftur.  Hvað er þá góður gestur, er það einhver sem er afar sjaldgæfur og maður sér aldrei og sem kemur aldrei aftur að heimsón lokinni?  Eða er það kannski sá sem er reglulegur gestur og maður gengur að vísum? Hann kemur alltaf aftur en verður þá kannski ekki eins spennandi eða hvað?  Rómantískur gestur hlítur alltaf að vera spennandi?  Við getum amk verið sammála því að gestur sem er leiðinlegur og óspennandi er ekki góður gestur og manni er einhvern veginn sama þegar hann fer og hefur litlar áhyggjur ef hann kemur aldrei aftur.  Hér erum við komin dálítið út á heimspekilegan ís, ég veit.

En  talandi um gesti þá vill nefnilega svo til að núna er góður gestur á krana á Microbar.  Já þetta er sjaldséður gestur, gestur sem kemur aldrei aftur þegar hann er farinn og það sem meira er þá er hann hér í boði ástarinnar.
Já hann Steini á Micro gekk nefnilega í það heilaga á dögunum og bruggaði að því tilefni öl sem kallað er ástarmjöður.  Um er að ræða pale ale með rauðleitum blæ.  4,7% karl, ofsalega ljúfur og þægilegur bjór.  Dálítið þurr á tungu, notaleg beiskja og meðalgóð fylling.  Ég held að fyrir þá sem vilja smakka eitthvað ljúft, einstakt og eitthvað sem kemur líkast til aldrei aftur á krana að þá er um að gera að renna við á Microbar og láta vaða.  Ef Steini er á staðnum ættu menn jafnvel að smella á hann einum kossi í boði Amor.

Svo er það spurningin sem ég hef stundum átt erfitt með að svara.  Hvort er betra að smakka góðan bjór sem maður mun aldrei smakka aftur og komast þannig á bragðið en vitandi það að það sé svo bara allt búið.  Eða bara alveg að sleppa því að smakka en missa þá af því að hafa upplifað eitthvað einstakt?  Talandi um ástina, þá mætti heimfæra þetta þannig, reyndar vel þekkt spurning, er betra að elska og missa eða hafa aldrei elskað?
Já ég held ég hætti hér, þetta er orðið of heimspekilegt og væmið….er með tár í hvörmum þegar þetta er ritað svei mér þá.

p.s.  Pínu óheppileg merking á miðanum eða hvað?  Vonandi ekki dulið hróp á hjálp?  SOS?  😉

Tap takeover á Microbar – tvíburaslagur!

Tap takeover á MicrobarÞað er alltaf gaman þegar pöbbar taka sig til og gera eitthvað til að brjóta upp vanann.  „Tap Takeover“ er virkilega spennandi uppátæki sem þýða má sem kranainnrás þó það hljómi alls ekki eins lostafullt.  Þetta þýðir einfaldlega að venjulegi kranabjórinn fær að víkja fyrir einhverju spennandi og oft á tíðum sjaldgæfu öli.  Í gær gerðist þetta á Microbar og var viðburðurinn kallaður „battle between the twins“ sem tilvísun í þá félaga og bræður Mikkel Borg frá Mikkeller  og Jeppe Jarnit-Bjergsø frá Evil Twin.  Frá hvorum bruggaranum voru þrír karlar á krana,frá Mikkeller Santas Little Helper 2012 þroskaður á koníakstunnum, Green Gold ný útgáfa og Arh Hvad tunnuþroskaður á Sauternes tunnum og frá Evil Twin voru það Even More Jesus Porter, Hipster Ale og Ron and The Beasty Ryan, allir á 1200kr glasið.

IMG_2490Frábært framtak sem mætti vel endurtaka aftur og aftur og jafnvel aftur.  Þó svo að meiningin hafi líklega ekki verið að krýna einhvern sigurvegara kvöldsins þá var þetta nú samt „battle“ ekki satt?  Ég smakkaði þá alla fyrir utan Green Gold sem ég var lítt spentur fyrir akkúrat þetta kvöld þar sem mun betri karlar voru í boði.  Hef margoft smakkað þann klassíska og mér liggur ekkert á að smakka þennan nýja.  Það voru stóru karlarnir sem áttu hug minn í gær og þá verð ég að segja að Mikkeller Santas Little Helper kom ofsalega vel út.  Maður segir það kannski ekki oft, en ég ætla að gera það núna, hann var í raun fáránlega flottur.  Hellingur af kókost í nefi og sætur blær sem minnir á vanillu.  Í bragði var hann flókinn og flottur með kókoskeim og sætu.  Koníakið kemur þarna vel í gegn.  Gríðarlega flottur bjór sem klárlega átti vinninginn þetta kvöld.

Það er reyndar erfitt að kasta svona fram þar sem enginn bjór var eins þetta kvöld.  Allir hver öðrum ólíkari og því kannski erfitt að segja hver var bestur.  Hins vegar má maður alveg vera í ákveðnum gír og í gær var ég í harðjaxlagírnum og vissulega í jólaskapi.  Það verður svo að segjast að Arh Hvad barrel aged var gríðarlega ljúfur, ofsalega flottur með tunnukeim, smáááá vanillu og svo brettið á sínum stað en dálítið mildari en klassíska útgáfan.  Þessi bjór átti vinninginn hjá all mörgum þarna í gær heyrðist mér.

Evil Twin Even More Jesus Porter átti einnig marga áhangendur en persónulega fannst mér hann ekkert sérstakur.  Vissulega flottur Imperial Porter/Stout en þar sem ég er svo sem lítið fyrir þennan stíl nema hann sé örlítið sætur þá er ekki mikið að marka.  Menn voru amk mjög sáttir við hann.  Ron the Beasty Ryan kom líka vel út, ofsalega brettaður og flottur Saison sem hægt er að drekka all day long allt árið um kring.  Ummm vonandi er eitthvað eftir af þessum í kvöld.

Já ofsalega vel lukkað kvöld hjá þeim á Micro.  Takk fyrir mig!

Hættulega nálægt því að vera fáránlega góður DIPA

Hættulega nálægt því að vera fáránlega góður DIPA

Mér er það í raun ekki sönn ánægja að tilkynna að nú er hægt að fá þessa mögnuðu perlu á krana á Microbar.  Ástæðan er bara sú að um er að ræða imperial IPA sem er hættulega nálægt því að vera fáránlega góður og ég kemst ekki í kvöld til að klára hann.  Ég veit eða grunar að hann klárist í kvöld á Mivrubar. Ég er að tala um  Dangerously Close To Stubit frá hinu magnaða bruggfyrirbæri To Øl.  Bjórinn er ein 9.3% og á maður ekki nokkurn möguleika á að finna það í bragði svo mikil eru gæðin í bjórnum.  Fáránlega fallegur í glasi, mattur og fínn með hættulega fallega froðu.  Í nefi er ofsalega ljúfur keimur, haugur af blómum og ávöxtum sem merki um að bjórinn er hér serveraður algjörlega á hárréttum tíma, ferskari gerist þetta varla miðað við landafræðina.  Í bragði njóta humlarnir sín einnig, beiskjan er ofsalega mjúk og fín en þó alveg til staðar já já, bara ekki hvöss ef svo má orða það.  Sætur undirtónn sem heldur vel á móti, mikill þéttleiki og ofsalega ljúfur sætbeiskur eftirkeimur með ávaxtablæ.   Ég held að það sé orðið langt síðan ég smakkaði svona flottan DIPA/Imperial IPA.
Já ég er ofsalega sár yfir að komast ekki í þetta í kvöld en nýt þess þá bara í gengum ykkur.

Græni karlinn: Ég er næstum orðlaus, var hálf hræddur í fyrstu en stemningin og hamingjan á Microbar gerði þetta bara svo magnað.  Lyktin er ljúf og fín með sætum ávöxtum.  Það er vissulega mikið bragð af þessum bjór og hann fyllir vel í munn.  Beiskjan er til staðar en er einhvern veginn ekki svo átakanleg eins og búist var við.  Þetta er klárlega bjór fyrir fólk sem vill fá almennilegt bragð.  Það má amk smakka.

Mikkeller Beer Geek Vanilla Shake

Image

Á Microbar, Beer Geek Vanilla Shake

Beer Geek Breakfast var sá bjór sem kom Mikkeller á kortið á sínum tíma.  Hann hefur slegið í gegn hvar sem hann kemur fyrir í heiminum og allir sannir bjórnördar kannast við kauða.  Sjálfur var og er ég ekkert sérlega hrifinn af honum.  Þetta er vissulega mjög vandaður hafrastout og að nota gourmet kaffi í hann er vel þegin hugmynd.  Hins vegar kveikti hann ekki í mér, þannig er það bara.  Síðan þá hafa komið fram nokkrir nýjir bjórar sem tilheyra þessari beer geek seriu ef svo má segja.  Ég hef smakkað þá nokkra án þess að vera neitt yfir mig hrifinn.  Hins vegar varð ég ofsalega ánægður með Beer Geek Brunch Weasel sem er virkilega flottur imperial stout. Ég viðurkenni að ég er dálítið fyrir sætuna og ég elska vanillu, súkkulaði og kaffi og bjóráhuginn fer líklega ekki á milli mála.  Þegar ég sá svo að þeir voru að sulla þessu öllu saman í bjór var ég staðráðin í að komast yfir eintak.  Nú er þessi spennandi karl kominn hingað til okkar á Microbar, Beer Geek Vanilla Shake, 13% imperial hafrastout.  Bjórinn er bruggaður í norska brugghúsinu Lervig sem Mikkel er farinn að eiga mikil viðskipti við upp á síðkastið.

Planið í kvöld var reyndar að undirbúa yfirvofandi ferð til Barcelona yfir notalegu spjalli á Microbar með Cantillon Iris við hönd. Plön eiga það hins vegar til að fjúka út um gluggan og í staðinn sit ég hér einn heima (reyndar með hundinum), sólbrunninn eftir einn af 3 sólardögum sumarsins og drekk þennan öfluga imperial stout.  Allt annað en Iris.  Ferðin er þó enn fyrirhuguð eftir 6 daga.  Þegar ég opnaði flöskuna og hellti í glasið varð ég pínu skeptískur því það er haugur alveg af vanillu og súkkulaði sem ryðst upp úr glasinu.  Eiginlega um of, jafnvel fyrir sykurtönn eins og mig.  Ég varð eiginlega bara vonsvikinn.  Svo fékk ég mér sopa og þá liðu allar áhyggjur úr skrokk eins og hendi væri veifað.  Ummm, bjór þessi er ofsalega mjúkur og mikil fylling í honum.  Öflugur og bragðmikill með fullt af beiskju og ristuðu, brenndu jafnvel malti en svo fullt af vanillu og súkkulaði án þess þó að vera of væminn eða sætur.  Biturt kaffið kemur einnig til móts við sætuna, eins og svona eitt til tvö espresso skot með dash af vanillu. Nammi namm. Eftirbragð er svo dálítið beiskt með kaffi og brenndu malti.  Mjög ljúft allt saman.  Svo er spurning hvað varð um öll þau 13% áfengis sem leynast í flöskunni?  Maður verður þess ekki var nema í hita og hamingju.

Ég skrifaði þennan dóm jafnóðum á meðan ég var að smakka bjórinn.  Ég verð þvi að bæta við hér án þess að fara upp og breyta að þega líður á bjórinn þá verður hann nánast of mikið af því góða og ég held að ég geti bara tekið einn svona á kvöldi.  Bjórinn er reyndar ekki alveg búinn þegar þetta er ritað 🙂

Sá græni: Nú reynir á, risabjór fyrir litla bragðlauka.  Þegar hér er komið sögu ættu menn ekki lengur að vera hræddir við svarta litinn, við höfum lært að liturinn segir alls ekki allt.  Í nefi er ofsalega mikil lykt þar sem súkkulaði er mest áberandi.  Í munni er svo ofsalega mikið bragð og hann er mjög mjúkur í munni.  Beiskjan er áberandi en líka þessi súkkulaði kaffikeimur.  Þessi bjór er alls ekki fyrir veikar sálir og ég færi varlega í það að eyða peningum í hann einn á báti.  Væri þó sniðugt að kaupa flösku 3-4 saman bara til að smakka þessa geðveiki!

Kölsch! Nýr gestur á krana á Microbar.

Kölsch

Kölsch hið þýska föl öl á krana á Micro núna!

Nýr bjór frá Gæðingi er á gestakrana núna á Microbar.  Um er að ræða mildan og ljúfan lager með sumarlegum blæ af gerðinni kölsch. Steini á Micro segir að í bjórinn sé notað bæði lagerger og ölger sem gerir þetta eins konar lager/öl blending. Bjórinn virðist ósíaður í glasi og heldur dökkur fyrir Kölsch stílinn.  Í nefi er hann með sætum blæ og hunang greinanlegt. Hann er mildur á tungu, fín fylling.  Það er þægilegur humalbragur yfir honumog dálítið krispí og hressandi.  Beiskja jafnast þó nokkuð vel út með sætu og hunangskeim.  Örlítið ávaxtabragð einnig. Allt í allt flottur bjór hjá þeim, ekkert stórverkefni fyrir óharðnaða.  Sá græni myndi taka vel í þennan bjór sem á vel heima á krana yfir sumartímann.  Hann er kannski ekki alveg klassískur Kölsch en hugmyndin góð.  Mæli með þessum bjór fyrir alla.

Stíllinn er þýskur að uppruna og á rætur sínar að rekja til borgarinnar Köln í Þýskalandi. Um er að ræða ljósasta bjórstíl Þýskalands sem sprottinn er af öðrum þýskum stíl Altbier á 19. öld. Kölsch er stundum kallaður hið þýska föl öl eða pale ale.  Altbier er dekkri bjór af gerðinni öl með koparlit en þegar menn náðu tökum á að stjórna betur ristuninni á bygginu gátu menn skapað mun ljósari öl. Kölsch er útkoman.  Í bjórinn er notað sérstakt ölger, yfirborðsger sem þýðir að stíllinn er í raun öl en svo er gerjunin látin malla við kaldar aðstæður og bjórinn þannig kaldgerjaður líkt og lagerbjór og svo er hann látinn þroskast eða „lageraður“ við frostmark um skeið.  Við þessar aðstæður leysir gerið ekki mikið af sínum bragðmiklu esterum úr læðingi og bragð verður milt og látlaust.  Klassískt hefur bjór þessi þó líkt og Altbier dálitinn ávaxtakeim.  Það má því segja að stíllinn sé öl/lager blendingur þó svo að strangt tiltekið sé um öl að ræða og bruggarar myndu ekki taka í mál að kalla bjórinn þeirra lager.  Það má til gamans geta að Kölsch er mjög local bjórstíll.  Líkt og kampavínið sem aðeins er „ekta“ ef það kemur  frá Champagne í Frakklandi þá eru aðeins örfá brugghús í og umhverfis Köln sem brugga bjór sem má kallast ALVÖRU Kölsch.