Skúli Craft Bar

Það hefur kannski ekki farið framhjá fólki hér að nú á næstu dögum mun hér í miðbænum opna nýr bjórstaður sem kallaður er Skúli Craft Bar í höfuðið á Skúla Fógeta sem stendur fyrir utan gluggann.  Þ.e.a.s styttan auðvitað.  Um er að ræða krá þar sem bjórinn er í lykilhlutverki.  Skúli mun líklega opna í þessari viku og verður gaman að sjá hvernig fólk á eftir að taka honum en þar mun fólk komast í besta bjór sem völ er á hér á landi.

Það vita svo ekki allir að sá sem sér um allan bjórinn á staðnum og viðburði tengdum honum er sjálfur undirritaður.  Ég get því lofað góðum gæðum 🙂 Ég vil svo bara taka þetta fram hér svo það fari ekki á milli mála að ég er líklega dálítið hlutlægur þegar kemur að því að fjalla um bjórinn á Íslandi.   Nú geta menn tekið það með í reikninginn þegar þeir lesa eitthvað hér.

🙂

Stóra Lekamálið…Bjórspekingur fylgist með!

Krani
Mynd fengin af AdvancedMedia

Nú er jólabjórinn nánast allur uppurinn í Vínbúðinni, ja eða sá sem vert er að eltast við amk, þá meina ég Mikkeller bjórinn, Brewdog og To ÖlÞvörusleikir er einnig búinn eða alveg að klárast en við þurfum þó ekki að örvænta því það eru dásamlegir hlutir að gerast á kranavaktinni.

Já við höfum verið að fylgjast sérstaklega með krönunum á Kexinu og Microbar en þar er oft hægt að komast í eðalöl af krana og það er sko sannarlega mikið að gerast á næstunni.  Undir á Kexinu núna er El Celler De can Roca 5% hoppy pilsner sem ég hef reyndar sjálfur ekki smakkað en ég hef ekki trú á öðru en að bjórinn sé stórgóður.  Hins vegar kemur hinn magnaði Mikkeller Hoppy Luving Christmas undir á næstu dögum hjá þeim og því ber sko að fagna.  Bjórinn er einn sá albesti af jólabjórflórunni í ár og hann er löngu búinn á flöskum.  Hér gefst því stórkostlegt tækifæri að leggjast undir kranann og smakka bjór eins og hann gerist bestur.  Ekki skemmir svo fyrir matseðillinn á Kexinu en þar er alltaf hægt að fá vandaða smárétti eða ómótstæðilega stærri rétti.  Það er vert að fylgjast hér með því þessi mun klárast hratt þegar hann kemur undir.   Ekki svo að skilja að það sé slæmt því þegar Hoppy Luving klárast er bara pláss fyrir eitthvað annað meistaraverk.  Ég veit t.d. að Mikkeller Ris a la M’ale mun detta undir einhvern tíman í desember.  Hér er virkilega stórbrotinn bjór á ferð sem gerður er til heiðurs hrísgrautsins ris ala mande sem er Danskur jólaréttur og afar vinsæll bæði þar og hér heima.  Bjórinn smakkaði ég fyrst í New York á krana fyrir einhverjum árum síðan og kom hann mér alveg í opna skjöldu.  Hlakka mikið til að smakka hann aftur enda hefur palletan þroskast mikið síðustu ár.  Stíllinn er óljós, einhver blanda bara, það er hins vegar ekki verið að tala um IPA eins og ég hef greinilega skrifað þarna í þessum dómi mínum í denn.
Að lokum má benda á að Þvörusleikir kemur einnig þarna á krana á næstu dögum.

Á Microbar var þegar ég leit þar inn fyrir helgina Mikkeller Crooked Moon Tattoo á krana en sá er flottur 9% imperial IPA.  Ég hvet fólk til að drífa sig á staðinn og þamba þetta kvikindi ef eitthvað er eftir því þegar hann er búinn þá kemur sko hvorki meira né minna einn sá albesti sem ég hef smakkað, Mikkeller Santas Little Helper Cognac Barrel Aged.  Ég smakkaði hann fyrst í tvíburaslagnum í fyrra á Microbar, þvílíkur bjór.  Ég er reyndar að vona að menn verði dálítið seinir að fatta þegar hann kemur undir því ég má ekki til þess hugsa að missa af honum.  Ég læt ykkur vita þegar hann er kominn undir og ég er sjálfur búinn að taka nokkra lítra af honum.

Jahérna, þvílíkur tími framundan!

Hvenær er gestur góður?

Hvenær er gestur góður?

Mynd stolið af síðu Microbar

Það er oftast gaman að fá góða gesti en stundum er enn meira gaman þegar þeir fara aftur.  Hvað er þá góður gestur, er það einhver sem er afar sjaldgæfur og maður sér aldrei og sem kemur aldrei aftur að heimsón lokinni?  Eða er það kannski sá sem er reglulegur gestur og maður gengur að vísum? Hann kemur alltaf aftur en verður þá kannski ekki eins spennandi eða hvað?  Rómantískur gestur hlítur alltaf að vera spennandi?  Við getum amk verið sammála því að gestur sem er leiðinlegur og óspennandi er ekki góður gestur og manni er einhvern veginn sama þegar hann fer og hefur litlar áhyggjur ef hann kemur aldrei aftur.  Hér erum við komin dálítið út á heimspekilegan ís, ég veit.

En  talandi um gesti þá vill nefnilega svo til að núna er góður gestur á krana á Microbar.  Já þetta er sjaldséður gestur, gestur sem kemur aldrei aftur þegar hann er farinn og það sem meira er þá er hann hér í boði ástarinnar.
Já hann Steini á Micro gekk nefnilega í það heilaga á dögunum og bruggaði að því tilefni öl sem kallað er ástarmjöður.  Um er að ræða pale ale með rauðleitum blæ.  4,7% karl, ofsalega ljúfur og þægilegur bjór.  Dálítið þurr á tungu, notaleg beiskja og meðalgóð fylling.  Ég held að fyrir þá sem vilja smakka eitthvað ljúft, einstakt og eitthvað sem kemur líkast til aldrei aftur á krana að þá er um að gera að renna við á Microbar og láta vaða.  Ef Steini er á staðnum ættu menn jafnvel að smella á hann einum kossi í boði Amor.

Svo er það spurningin sem ég hef stundum átt erfitt með að svara.  Hvort er betra að smakka góðan bjór sem maður mun aldrei smakka aftur og komast þannig á bragðið en vitandi það að það sé svo bara allt búið.  Eða bara alveg að sleppa því að smakka en missa þá af því að hafa upplifað eitthvað einstakt?  Talandi um ástina, þá mætti heimfæra þetta þannig, reyndar vel þekkt spurning, er betra að elska og missa eða hafa aldrei elskað?
Já ég held ég hætti hér, þetta er orðið of heimspekilegt og væmið….er með tár í hvörmum þegar þetta er ritað svei mér þá.

p.s.  Pínu óheppileg merking á miðanum eða hvað?  Vonandi ekki dulið hróp á hjálp?  SOS?  😉

Hoegaarden á krana – frábæri sumardrykkurinn í stóra vinalega glasinu!

Image

Að brugga bjór með hveitikorni er ævaforn bruggaðferð sem hvaða Mesopotamiumaður sem er gæti staðfest ef hann væri bara á lífi í dag. Hveiti er í raun bara ein gerðin af mörgum korntegundum sem hægt er að nota í bjórgerð. Í dag er maltað bygg hins vegar langvinsælasta kornið en vissulega nota menn hveitið líka. Hveitibjór nútímans er líklega þekktastur frá Þýskaland og Belgíu en þessar þjóðir brugga dálítið ólíkar gerðir hveitibjórs. Belgar eru frægir fyrir sinn hvíta bjór, belgian witbier eða biere blanche eins og stíllinn er kallaður líka. Um er að ræða hveitibjór sem er alltaf ósíaður og fær því á sig mjólkurkenndan blæ í réttri lýsingu, hann er nánast hvítur!
Hoegaarden er belgískur hvítbjór sem segja má að sé fyrirmynd allra nútíma hvítbjóra frá Belgíu. Nafnið er dregið af smáþorpi með sama nafni sem bendlað hefur verið við þennan bjórstíl í marga áratugi en á „gullárum“ Hoeagaarden þorpsins á 16. öld var haugur af bruggurum sem gerðu hvítbjór eða ein 30 „brugghús“ þegar mest var og þ.m.t. klaustur nokkuð sem opnaði reyndar 100 árum áður.  Já já Guðsmenn fortíðar voru ofsalega duglegir að gera bjór og jafnvel vín.  Þetta breyttist hins vegar allt með tilkomu hins ljósa pilsner bjórs sem náði furðu fljótt gríðarlegum vinslældum um alla veröld. Menn vildu auðvitað taka þátt í æðinu og hættu því að brugga hvítbjórinn og snéru sér að þessar tekjulind.  Hvar var hugsjónin á þessum tíma, ég bara spyr? Tvær heimsstyjaldir hjálpuðu heldur ekki til og þannig lagði síðasta hvítbjórs brugghúsið í Hoegaarden upp laupana árið 1950.
Nokkrum árum síðar hins vegar, ákvað maður nokkur að nafni Pierre Celis að endurvekja stílinn enda fólk farið að sakna gamla góða hvítbjórsins á þessum slóðum. Celis opnaði þannig eftir nokkuð brask brugghús árið 1966 sem bruggaði einungis gamla góða hvítbjórinn. Brugghúsið varð fljótlega þekkt sem Hoegaarden brugghús og var eina sinna tegundir um langt skeið og sætti mikilla vinsælda, belgíski hvítbjórinn var þannig endurfæddur. Celis karlinn lenti hins vegar í fjárhagsvandræðum eftir að brugghúsið hans brann árið 1985 og þurfti að leita til bruggrisans Interbrew eða InBev eins og það heitir í dag. Þar með eignaðist ein stærsta bruggsamsteypa veraldar Hoegaarden og á enn þann dag í dag. Bjórinn er engu að síður stórgóður enn í dag og gríðarlega vinsæll. Það tíðkaðist á þessum slóðum að krydda hvítbjórinn með coriander fræum og appelsínuberki líklega í upphafi til að draga úr súra keimnum sem einkenndi bjórstílinn en notast var við villiger á þeim tíma en slíkt ger gefur af sér afar súran „funky“ keim. Þessi hefð hefur svo bara haldist áfram enda gæðir það bjórinn meira flækjustig og sérkenni.

Hoegaarden er ofsalega mildur og ljúfur bjór af gerðinni öl eða yfirgerjaður bjór. Þessi bruggaðferð gæðir bjórinn meira bragði en menn eiga að venjast í lagerbjór.  Gerið fær að leika lausum hala og líður vel og losar út í bjórinn haug af dásamlegum esterum og öðru góðgæti sem gefur flókið og notalegt bragð. Bragð sem reyndar truflar fólk sem vant er hinum látlausa og leiðinlega lager. Hvað um það, þetta þýðir ekki að hér sé einhver bragðbomba á ferð en maður finnur þó dálítið fyrir kóríander og berkinum og svo er bjórinn örlítið kryddaður og frúttaður þar sem epli eða perur koma við sögu og jafnvel smá hunang.  Bjórinn er einfaldlega dásamlegur alveg ískaldur í sumar og sól og reyndar stórvarasamur þar sem hann er svo auðdrekkanlegur að maður er fljótur að klára nokkra lítra af honum ef maður er ekki á varðbergi, sérstaklega þegar maður fær hann í ofvaxna flotta Hoegaarden glasinu.
En afhverju er ég að skrifa um þennan bjór núna, hann hefur verið fáanlegur lengi hér í vínbúðum og börum í flösku. Jú nú er það nefnilega svo að þessi flotti sumarkarl fæst nú á krana á VegamótumÖlstofunni, Forréttabarnum, K-bar, KOL Resturant og Café Flora . Þetta verða að teljast góðar fréttir ekki satt?

Drekktu hann ískaldan á meðan þú grillar ketið, sötraðu hann með léttu sallati eða humar eða dreyptu á honum með sætum ávaxtabaseruðum eftirréttum.  Hvernig sem er, aðal atriðið er bara að smakka kauða.

Góðar veigar í sólinni…sólveigar?

Nú er sólin að koma fram og þá er gott að drekka góðar veigar...sólveigar? „Sumarið er tíminn þegar kvenfólk springur út“ söng skáldið eitt sinn og vissulega er eitthvað sannleikskorn í því.  Sumarið er einnig tíminn fyrir sól og svalandi  veigar eða það finnst okkur hér á bjórspeki amk.  Það vill svo skemmtilega til að Borg brugghús virðist líka sömu skoðunnar því þeir hafa nú skapað enn einn bjórinn, sumarveigar sem  þeir kalla Sólveig og er rétt að taka það fram að undirritaður er stórhrifinn af nafngiftinni enda ekki annað hægt ég meina kommon, sól og veigar! Það sama á reyndar við um bjórinn sem er stórgóður.  Um ræðir þýskan hveitibjór með haug af humlum af amrískum toga og má því tala hér um amerískþýskan hveiti IPA en þessi bjórstíll hefur verið dálítið vinsæll undanfarið meðal bjórnörda.  Með þessu móti fær maður fram svalandi áhrif hveitibjórsins sem er svo dásamlegur í sumarsólinni en svo þetta ómótstæðilega humalkick úr humlunum sem gerir bjórinn svo vanabindandi.  Þessa eiginleika tekst þeim hjá Borg vel að ná fram að mati okkar hér.  Bjórinn er fallegur í glasi, gruggugur og flottur með myndar haus.  Í nefi er þessi einkennandi gerkeimur sem gefur svo áberandi ávaxtakeim sem minnir helst á banana.  Humlarnir koma svo einnig vel fram og tvinnast inn í þetta með mjög skemmtilegri útkomu. Í munni er bjórinn afar hressandi, fylling í meðallagi, hann er mildur og svalandi eins og sumarbjór á að vera og humlarnir alveg mátulega áberandi með sína beiskju og blómlegheit.  Ég myndi segja að hér væri frábær bjór fyrir þá sem fíla hveitibjórinn en vilja svo eitthvað aðeins meira bit.  Þessi bjór verður einn af sumarbjórunum okkar hér á Bjórspekinni þetta árið.

Það má svo taka það fram að bjórinn fæst nú á krana víða, m.a. á Skúla Craft Bar og líklega víðar og svo er hann kominn í ríkið líka?

Lítill bitur gaur á Microbar

photo (14)Það er orðið dálítið langt síðan maður gat lofað sér að staldra við á uppáhalds barnum sínum og sötra bjór.  Maður er bara of upptekinn í vinnu öllum stundum.  Ég ákvað þó að laumast eftir kvöldvakt um daginn til að reka tungu ofan í nýja bjórinn þeirra Gæðinga sem þeir kalla “litla” bitter.    Bjórinn kalla þeir litla þar sem hann er aðeins um 4% í áfengi.  Mér skilst að upphaflega hafi þetta átt að vera annars konar bjór en svona er það nú oft, hlutir breytast, ákvarðanir eru teknar og útkoman er svo bara eitthvað allt annað en upphaflega var lagt upp með.  Það er það sem er skemmtilegt við þennan bruggheim.  Alla vega, bjórinn er bara stórfínn, þetta er léttur karl, mildur, mikil kornlykt í nefi og grösugir humlar.  Ekki þó áberandi blóm eða ávextir en mér skilst að bjórinn hafi verið þurrhumlaður í drasl.
Á tungu er hann þægilegur, og beiskjan kemur vel fram en er langt frá því að standa undir “bitter” nafninu í þeim skilningi sem hinn almenni borgari leggur oftast í nafnið.  Ég held að fólk fælist almennt dálítið frá þegar þeir heyra nafnið en hér er um að gera að lofa bragðlaukum frekar að dæma.  Hann er einnig dálítið maltaður og fylling í meðallagi.  Minnir dálítið á lager með stolt og sjálfstraust ef svo má segja.
Það er svo sem rétta rólið fyrir stílinn, english bitter  sem á að vera frekar léttur í áfengi, maður á amk ekki að finna það, humlar eiga ekki að vera áberandi í bragði en þó á beiskjan að vera merkjanleg.  Það er svo spurning orðið hvort maður eigi yfir höfuð að tala um stíla þar sem mörkin eru farin að vera svo óljós í dag.  Það er þó gott að hafa einhver viðmið.

Ég kunni virkilega vel að meta þennan flotta strák og Græni karlinn var mér loksins hjartanlega sammála, auðdrekkanlegur, þægilegur og umfram allt góður lítill bjór.  Hver segir að 4% sé of lítið?  Klárlega skella þessu á flöskur, ja eða dósir bara!

Raidbeer á Kexinu, gríðarlega flottur lager

Raidbeer á Kexinu, gríðarlega flottur lager

Ég ef áður talað um Citra humalinn og ég hef talað um Raidbeer frá To Øl. Nú verð ég að gera það aftur, bara svona til að minna á þessa hamingju, fallegir hlutir verða aldrei of oft umtalaðir. Ég leit við á Kexið í gær en þangað fer ég alltaf annað slagið þegar mig langar í eitthvað gott í gogginn, einhverja tilbreytingu og svo er oft hægt að fá ljúfan bjór með. Best er bara að spyrja barþjónana beint hvort þeir séu með To Øl eða Mikkeller eða eitthvað svipað á krana. Í gær voru þeir með Raidbeer á krana en það vill svo til að sá bjór er einn af mínum uppáhalds bjórum og án efa með betri lagerbjór sem fyrirfinnst að mínu mati. Reyndar minnir bjórinn lítið á lager, ég myndi líklega gíska á öl og þá milt amerískt föl öl (american pale ale) ef ég væri að smakka blint.
Raidbeer er hins vegar bruggaður að hætti lagerbjóra með svokölluðu botngeri en hugmyndin með þessum bjór var að upphefja ágæti stílsins, sum sé lagersins eða pilsner stílsins sem er í miklu uppáhaldi hjá þeim félögum hjá To Øl.. Með þessu mótir vildu þeir sýna fram á að hægt er að gera flókinn og skemmtilegan lager. Þeir nota haug af humlum af bestu gerð, Simcoe, Centennial, Nelson Sauvin og svo rúsínuna í enda pylsunnar Citra.
Citra humallinn er dálítið nýr af nálinni, var fyrst ræktaður 2007. Humallinn hefur sætt dálítilli gangríni finnst mér ef marka má umsagnir á veraldarvefnum. Fólk virðist annað hvort elska hann eða hata og sumir virðast bara kunna illa við nafnið. Fyrir mína parta þá er þetta dásamlegur humall, hann er af amerísku bergi brotinn, inniheldur 11-13% alfasýrur sem þýðir að hann gefur mikla beiskju í bjórinn, eða hefur möguleika á því allt eftir hvernig hann er notaður. Hann er þó líkast til meira þekktur fyrir að vera öflugur ylmhumall sem gæðir bjórinn ofsalega ljúfum ávaxtakeim þar sem apríkósur og mangó koma sterkt upp í hugann. Citra inniheldur einnig hátt hlutfall af olíum en er lár í co-humulone olíu sem á mannamáli þýðir að hann hefur bara það besta að bjóða, flóknar bragðflækjur og beiskju en ekkert rusl með. Í bragði má finna ferska beitta humlana, haug af eróstískum ávöxtum og frískleika.
Í Raidbeer leikur þessi magnaði humall stórt hlutverk, maður finnur það bara um leið og bjórinn er kominn í glasið, ávextir og blómlegir tónar.. Citra fær hins vegar flotta mótleikara á formi áður nefndra humla sem skapa ofsalega skemmtilegar bragðflækjur sem er verðugt verkefni fyrir bragðlaukana. Svo er að sjálfsögðu einnig notað malt sem ekki er nánar gefið upp og svo hafrar sem gefa meðal fyllingu og örlítið sætan bakgrunn.
Bjórinn er einfaldlega frábær og ég tala nú ekki um af krana. Hér erum við með 5.2% bjór sem er léttur og þægilegur en hefur þó karakter, er ögn beittur án þess að verða hættulegur og svo heilmikla erótíska ávexti og blóm. Getur varla klikkað.