Fórn til þrumuguðanna, Bardarbunga offering!

imageÉg er orðinn virkilega ánægður með nýja bjórinn minn sem hefur nú verið í gerjun í 8 daga, ég kalla hann Ösku Illur Pale Ale Bardarbunga Offering en í grunninn er þetta Zombie Dust klónn frá Three Floyds.  Ég bruggaði þennan bjór til að reyna að sefa Þór og Zeif og alla hina sem sjá um þessi eldgos hér á Jörðu. Ástæðan er sú að ég er að fera til New York í fyrramálið þar sem ég mun stúdera bjór og pöbba í hæsta gæðaflokki og ég mátti bara ekki til þess hugsa að helvítis bungan þarna myndi loka fyrir mér öllum flugleiðum.  Þrumuguðirnir virðast vera sáttir við bjórinn einnig því þetta virðist ætla að sleppa fyrir horn.  Bjórinn er þó ekki tilbúinn en bragðgóður er hann.  Já eftir 8 daga í gerjun er hann orðinn 6.3% (FG 1.014) með mikinn humalkarakter þar sem Citra fær að blómstra.  Hann heldur einnig í fyllinguna og sætuna.  Besti bjórinn minn hingað til held ég ef þróunin verður áfram á þessa leið.

Ég bætti 90g af Citra humlum í hann í dag til að poppa hann dálítið upp í nefi.  Skrepp svo til USA og hendi honum svo á kút líklega 2. eða 3. sept.  Það verður þá fyrsti kútabjórinn minn og ég verð bara að viðurkenna það að ég er ooooofsalega spenntur að prófa það dæmi.  Kominn með krana og kolsýrudæmið og allt að verða klárt bara.

Kaldi IPA

imageÉg er nú ekki vanur að skrifa hér um Kalda enda fyrir mína parta um lítt spennandi bjór að ræða hingað til. Ég var eiginlega búinn að gleyma því að ég hitti Sigurð Braga bruggara Bruggsmiðjunnar hérna um árið á bjórhátíð Kex. Við spjölluðum stuttlega saman og hann sagði mér að þeir væru að smíða Kalda India Pale Ale en það þóttu mér virkilega flottar fréttir. Síðan þá eru liðnir nokkrir mánuðir og maður bara búinn að gleyma….slíkt gerist.
Það hefur annars lítið farið fyrir þessum bjór sem mér finnst dálítið undarlegt þar sem hér er um að ræða fyrsta alvöru skref Kalda út fyrir „þægindarammann“ ef svo má segja. IPA frá þessu brugghúsi sem hingað til hefur bara komið með léttan tékkneskan pilsner í öllum mögulegum útgáfum eru stórar fréttir, meira að segja mjög stórar fréttir.
Ég vissi eignilega bara ekki af því að hann væri kominn „í hús“ fyrr en ég rambaði einu sinni sem oftar inn á Microbar núna í þarsíðustu viku. Ég hef reyndar verið mjög, mjöööög upptekinn og ekkert kíkt á öldurshús borgarinnar undanfarið. Nú hins vegar er stórum áfanga lokið í mínu námi og ég ákv að kíkja á Steina á Micro í leit að einhverju góðu í flösku til að fagna. Ég fann það að sjálfsögðu og má lesa um þá hamingju hér en ég rak einnig augun í Kalda IPA á krana og fékk að smakka.
Bjórinn kom virkilega á óvart, ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki við miklu (fordómar, ég veit), ég bjóst við Kalda pilsner með örlitlum humalkeim en nei þetta er alvöru IPA, humlaður og fínn með flotta beiskju, dulitla sætu á móti og fínann skrokk. Það er bara alls ekkert að þessum bjór og get ég vel mælt með honum um leið og ég segi að þetta er klárlega besti Kaldinn í fjölskyldunni. Ef þetta er vísir að nýjum áherslum brugghússins, vísir af því sem koma skal þá eru góðir tímar framundan. Vonum það besta.

Logsdon Peche´n Brett – hinn fullkomni sumarkarl

 

image

Logsdon brugghús var mér ókunnugt um þar til tiltölulega nýlega þegar ég smakkaði Seizoen Bretta hjá Sæberg nokkrum Einarssyni á bjórhátíð Kex fyrir nokkru síðan en Sæberg er eins konar listrænn hönnuður og meðeigandi Logsdon brugghúss. Brugghúsið er amerískt „sveitabrugghús“ staðsett í Oregon sem einbeitir sér að belgískum bjórstílum, sér í lagi villibjór og saison (sveitabjór). Þessir gaurar eru snillingar í Brettanomyces villisveppnum og notkun hans í bjór. Ég held að Seizoen Bretta hafi verið besti saison sem ég hef smakkað svei mér þá!

Ég var að klára nokkuð stóran áfanga í mínu sérnámi á föstudaginn, eða hann er amk stór að mínu mati og því fannst mér ástæða til að fagna. Hvað er betra en að fagna í bjór…stórum bjór, eitthvað sem maður venjulega tímir ekki að kaupa? Júbb ég spjallaði við Steina á Micro en hann hefur smakkað vel flest sem til er hér á landi í bjór og spurði hann ráða, hvaða bjór myndi hann fá sér við svona tækifæri. Steini benti mér á þennan m.a. og hafandi smakkað tvo Logsdon bjóra áður þá þurfti ekki mikið til að sannfæra mig, ég meina 10% Saison með villigeri sem hefur verið aldraður á eikartunnu með ferskjum? Ekki flókið.

image Þetta er gullfallegur bjór í glasi, gulur og mattur með flotta þykka froðu. Ískaldur í sólinni þannig að glasið verður svona í móðu eins og í góðri auglýsingu. Í nefi mætir manni dásamlegur ferskjukeimur i bland við „funky“ brett. Fyrir þá sem ekki þekkja keiminn af villibjór þá er dálítið erfitt að lýsa því. Sumir tala um fúkkalykt, háaloft, mysukeim, súran keim en allt er þetta eitthvað sem gefur ekki góða mynd af því sem maður finnur. Menn verða bara að fá sér einn klassískan villibjór t.d. Cantillon Gueuze eða 3 Fonteinen Oud Gueuze sem hafa stundum fundist á Microbar, og þefa. Logsdon Peche er ekki gott dæmi um „funky“ hins vegar þar sem ferskjurnar eru afar áberandi.

Í munni er þessi drykkur álíka magnaður, gríðarlega frískandi með áberandi ferskjum en án þess að verða væminn. Sýrði, funky villigerskeimurinn kemur í veg fyrir það, kemur virkilega vel út svona súrsætur. Svo kemur eikin þarna í gegn með eins konar vanillukeim eða kókos en afar látlaust þó og loks kryddaðir tónar frá gerinu. Bjórinn er þurr á tungu og það er ágætis beiskja en þó víðs fjarri því sem maður finnur í pale ale t.d. Sopinn endar svo með dálítið súrum eftirkeim sem gerir mann klárann fyrir næsta sopa. Það sem kemur svo á óvart er að þessi bjór er 10% en það er algjörlega ómögulegt að finna það í bragði. Alveg hreint magnaður sumarbjór, hitti beint í mark

Graskers Imperial Stout….er það eitthvað?

image

Southern Tier Blackwater Series Warlock Imperial Stout (8.6%)
Ég kom heim áðan eftir erfiða vakt á hjartagáttinni í dag og viti menn, þetta gula sjaldséða sem við köllum sól lét loksins sjá sig. Það var því kærkomin stund á pallinum í kvöldsólinni seinni part dags og auðvitað tilvalið að fagna þessu nýtilkomna sumri með góðum bjór. Ég átti svo sem ekki mikinn bjór í skápnum góða en ég átti þó þennan Graskers Imperial Stout sem ég kippti með frá Orlando á dögunum. Southern Tier er amerískt brugghús sem oft átti þátt í því að gleðja þreyttan læknanemann á gömlu góðu námsárunum í Danmörku…..gullárunum eins og maður kallar þau stundum þegar maður reynir að gleyma fjárhagsörðuleikum og smámunasemi í danskanum.
Þessi 8.6% imperial stout er bruggaður með graskerjum og á líklega að vera einhvers konar Hallowene bjór eða álíka. Bjórinn er kolsvartur í glasi, liggur dálítið á að komast úr flöskunni, freyðir uppúr. Í glasi er hins vegar látlaus froða. Í nefi er mikið krydd og eitthvað sem líklega er grasker sem er mjög ríkjandi. I munni er bjórinn frekar léttur en þó flókinn. Skrokkur í meðallagi. Áberandi krydd sem minnir helst á kanil eða Chai Latte ef einhver hefur smakkað slíkt svei mér þá. Léttir ristaðir brenndir tónar í bakgrunni sem minna mann á að þetta er stout. Vínandi alveg fjarverandi.
Virkilega flottur bjór og furðulega frískandi. Ég held að þessi verði gríðarlega góður með ungnautafile steikinni sem liggur grillinu hjá mér til að fagna sumrinu sem líklega verður búið í fyrramálið.

Græni karlinn: Svei mér þá ef ég er ekki bara alveg sammála fyrri ræðumanni. Flottur bjór, mildir tónar, krydd og skemmtilegheit.

Kóríander og Chillí dressað nautakjöts burito með Lava stout

image

Matur með bjór eða bjór með mat, skiptir ekki máli það er bæði betra.
Við getum öll verið sammála um að bjór er góður drykkur, það er hægt að nota hann á ýmsa vegu, t.d. drekka hann í einrúmi yfir góðri bók, í veislunni með góðum vinum, hann hefur líka mikið verið notaður til að auka sjálfstraust í makaleit. Það sem mér finnst hins vegar hvað skemmtilegast er að nota hann sem krydd með og/eða í matargerð. Ég hef áður komið inn á þetta hér en góð vísa er sjaldan of oft kveðin eða hvað?
Ég hef verið veikur og ómögulegur undanfarna daga en er loksins að hressast. Ég ákvað því að reyna næra líkama og sál og drífa mig í bústað yfir nótt með fjölskyldunni. Það var svo sem ekki veðrinu fyrir að fagna, svona ömurlegur klassískur íslenskur sumardagur, hávaða rok og skúrir. Þetta er svona veður þar sem ekkert er hægt að gera nema dunda sér innandyra og t.d. plana kvöldmatinn. Maður grillar alltaf í bústað, það er bara þannig og hér skiptir veðrið í raun engu máli. Mig langaði í eitthvað nýtt og djúsí og góðan þróttmikinn bjór með, það þurfti ekkert að vera eitthvað sem tengist veðrinu að þessu sinni.

Naut á grillið mitt takk.
Nautakjöt er dálítið ofarlega í huga mínum þessa dagana og það gerist ekki betra en grillað og gómsætt. Þannig að úr varð að ég náði mér í flottan ungnautafile bita, það hefði alveg mátt vera frampartsfile, aðal atriðið er bara að fá gott kjöt með sem fæstum sinum. Ég veit fátt eins pirrandi og þegar maður er kominn með 5000kr steikina sína úr „overpriced“ kjötbúðinni, búinn að gæla við það og grilla og svo getur maður ekki borðað nema örlítið brot af kjötinu þar sem restin er bara ógeðslegar sinar. Eyðileggur alveg heilt kvöld og jafnvel nokkra daga. Hvað eru menn að selja manni svona og titla sig svo sérverslun í kjöti?
Nóg um það ég átti kjötið og vantaði bara eitthvað að gera með það. Ég opnaði mér einn Punk IPA frá Brewdog en góður bjór kallar oft fram góðar hugmyndir og þarna kom það, innblásinn af sjálfum meistaranum Gordon Ramsay og svo vitleysingunum í Grillsumarið Mikla sem sýnt er á Stöð 2 um þessar mundir ákvað ég að gera ungnauta burito með fersku brakandi sallati og chillí, lime, kóríander dressingu.

Grillað chillí og kóríander ungnautaburito.
Ég veit svo sem ekki hvað ég á að kalla þennan rétt, en svona nokkurn veginn er hann settur saman:

imageKjötið: er lagt í marineringu, þarf kannski ekki en það þarf amk að vera penslað með einhverju dálítið sykruðu sem karmelliserast við grillunina. Það er nefnilega dálítið mikilvægt að fá sæta keiminn á móti hitanum frá chillíinu í dressingunni.
Ég lét kjötið liggja í Teryaki sósu í nokkrar klst og kryddaði með salt og pipar. Teryaki sósan er ofsalega bragðgóð og inniheldur töluvert af sykri.
Kjötið er svo bara grillað á hefðbundinn hátt og stefnt á medium rare, alls ekki meira en það.

Dressing: mjög einföld, ég bara slumpaði og smakkaði þetta til. Markmiðið er að fá dálítinn hita í dressinguna. Þannig að maður notar ca 2-3 mtsk Olífuolíu (ég notaði meira sem var aðeins of mikið), saxaður ferskur chillíbelgur með fræum, 3-4 mtsk soyasósa (Kikkoman er auðvitað best), 3-4 mtsk púðursykur, heill velkreistur lime (sem sagt safinn úr honum), ferskur kóríander eftir smekk og skvetta af fiskisósu.
Þarna er maður kominn með salt, sætt, súrt og sterkt sem maður stillir bara af eftir smekk. Hér vill maður finna vel fyrir brunanum en allt hitt verður að vera með í bakgrunni. Þessi dressing virkar á ýmislegt annað.

Sallat: Einfallt, má nota það sem maður hefur við höndina í rauninni en mæli þó með einhverju brakandi og stökku. Ég notaði kínakál, gróft skorið, rauða papriku, rauðlauk og ferskan kóríander, dálítið mikið af honum, hann er bara svo góður og svo má maður auðvitað setja hvað sem er með þessu.

Aðferð: Þegar kjötið hefur staðið aðeins er það skorið niður í dásamlegar öööörþunnar sneiðar, maður stelur sér einni sneið í gogginn og finnur hvernig það bráðnar nánast í munni og sæti karmelliseraði Teryiak keimurinn kemur ofsalega vel út með. Svo hrúgar maður bara sallatinu á Tortilla kökurnar sem maður rétt aðeins grillar fyrst til að fá mýkt í þær og svo auðvitað rendurnar maður, ekki skemmir svo fyrir að gumsið frá marineringunni er enn á teinunum og gefur því aðeins bragð í kökurnar.
Svo smellir maður eins og tveim til þrem kjötsneiðum ofan á og svo helling af dressingu yfir. Þetta verður dálítið blautt en það gerir ekkert til, Torilla kökurnar verða bara ögn rakar og dúnmjúkar sem er enn betra.

Svo er það rétti bjórinn með, rúsían í pylsuendanum.
Það þarf að drekka eitthvað með þessum herligheitum, eitthvað sem ekki gerir lítið úr kjötinu og eitthvað sem gengur með hitanum frá chillípiparnum. Við erum að tala um bjór, það þarf stóran strák hérna og hvað er þá betra en hinn einstaki Lava Stout frá Ölvisholti? Hann er þróttmikill og þéttur án þess að vera ofvaxinn. Hitinn og sæti vínlegi keimurinn frá áfenginu rennur saman við chillíhitann og svo er þessi unaðslegi nánast reykti BBQ keimur í bjórnum sem auðvitað er alveg að dansa með grillbragðinu af kjötinu. Þetta getur ekki klikkað. Bjórinn bætir flottum flækjum við réttinn og rétturinn lyftir bjórnum á annað stig, frábært!

 

 

 

 

 

 

Stone Matt’s Burning Rosids Imperial Cherrywood smoked Saison

IMG_1821

Saison virðist vera dálítið inn hjá mér síðastliðið ár enda um gríðarlega góðan bjórstíl að ræða.  Það er svo sem ekkert undarlegt við það að maður er ekki að drekka saison alla daga hér á klakanum því úrvalið er nánast núll.  Saison Dupont hefur reyndar verið til hérna lengi og þar er sko aldeilis ekkert slor á ferð.  Svo kom jú hinn íslenski Skaði sælla minninga í fyrra og sló heldur betur í gegn meðal bjórnörda og segja má að Ship O Hoj IPA sá nýjasti frá Ölvisholti sé eins konar humlaður saison einnig.
Fyrr á árinu fór ég með fjölskylduna til Orlando og greip tækifærið til að smakka amerísku túlkun þessa belgíska bjórstíls enda fáir bjórstílar eins viðeigandi í yfir 30 stiga hita við sundlaugabakkann.  Þetta eru auðdrekkanlegir bjórar, mildir en þó flóknir og margslungnir.  Kryddaðir tónar og svo ferskleiki í formi súraldins af ýmsum toga.  Ég datt niður á nokkra góða í þessari ferð og var Great Devide Culette (7.3%) sérlega eftirminnilegur. Svo rak ég augun í þennan frá Stone Brewing,  Matt’s Burning Rosids.  Það var aðallega tvent sem kveikti áhuga minn, brugghúsið Stone sem gerir ekkert nema góðan bjór og því eru gæðin tryggð og svo var það imperial saison en slíkt hafði ég aldrei smakkað.  Það að hann er bruggaður með malti reyktu yfir kirsuberjavið var bara auka bónust.

Sagan á bak við þennan bjór er dálítið hjartavermandi en þeir hjá Stone tileinka bjórinn fyrrum bruggara hjá brugghúsinu Matt Courtright sem lést nýlega langt fyrir aldur fram.  Uppskriftin var eitthvað sem Matt hafði verið að setja saman skömmu áður en hann lést.  Ef maður fer inn á síðuna þeirra má lesa heilmikið um þennan Matt sem virðist hafa verið afar næs gaur.

Þá að bjórnum, ekki það að menn komist svo sem yfir hann hér heima en við Íslendingar förum jú mikið til Flórida og þar ættu menn klárlega að reyna að hafa uppá honum ef kostur gefst.  Bjórinn er glæsilegur í glasi með fallega ljúfa froðu, í nefi er mikið krydd og svo þegar líður á byrja kirsuberin að gera vart við sig.  Í munni er mikill skrokkur og ofsalega mikið bragð með kryddum og þónokkurri sætu.  Reykkeimur er frekar látlaus og í raun þarf maður að vita af honum til að merkja.  Hefði mátt vera öööörlítið meira áberandi.  Kirsuber eru hins vegar mjög áberandi og gera þetta klassíska saison bragð enn skemmtilegra en án þess þó að stela senunni….bjórinn heldur áfram velli sem saison.
Frábær saison sem menn verða að prófa.

Það er svo ekki hægt að fjalla um saison án þess að nefna nýjustu viðbótina á klakann, Logsdon bjórinn sem nú fæst t.d. á Microbar og í sérpöntun ÁTVR.  Logsdon er líklega þeir allra flínkustu í bruggun saison bjóra og ég hvet fólk til að ná sér í nokkrar flöskur.  Sumir hafa kannski þegar smakkað eitthvað frá þeim á bjórhátíð Kexins fyrr á árinu en þar voru nokkrar svakalega flottar perlur frá þeim.

Borg full of shit!

IMG_1812

Borg nr 26 Fenrir Taðreyktur IPA er merkilegur andskoti, líklega sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum bara. Já alltaf gaman að reka tungu ofan í  svona tilraunaverkefni, reyndar hafði ég smakkað taðreyktan bjór hjá Borg fyrir einhverjum 2 árum eða svo, hann var skemmtilegur og á þeim tima voru Borgarar að velta fyrir sér hvort markaðurinn myndi ráða við svona furðuverk.  Ég er Borgurum afar feginn að hafa nú látið vaða því ég átti nefnilega  mjög skemmtilegt móment með þessum bjór á pallinum í gær þar sem sólin gægðist fram á milli skýjanna í nokkrar sekúndur en þó nægilega lengi til að fullkomna mómentið.
Það var nefnilega þannig að þegar ég opnaði flöskuna kom bara öll gamla góða sveitin á móti mér. Þvílíkur hrossaskítur, ég var bara allt í einu kominn aftur í Kjósina fyrir aftan haugsuguna á bak við fjósið. Já ég er þetta gamall, ég náði nefnilega þessum gullárum þar sem ungir menn voru sendir í sveit á sumrin í kúasmölun, heyskap og annað púl. til að verða að mönnum, en nú eru víst breyttir tímar. En en aftur að  haugsugunni 🙂 þetta skemmtilega atvik var mér eignlega nánast gleymt sem er eiginlega ótrúlegt, en kannski er þetta einmitt atvik sem menn vilja ekki tala mikið um?  Hvað með það, það var heitur sumardagur og við vorum þarna tveir félagarnir, líklega 12 eða 13 ára gamlir, nýbúnir að sjúga beljuskít úr haughúsinu  undir fjósinu og smekkfylla haugsuguna sem tengd var við gamla Zetorinn þegar sá þriðji, sem reyndar var bóndinn sjálfur ákvað að setja allt í gang. Hann gerði það reyndar óvart, eða þannig voru hans útskýringar amk, en afleiðingarnar voru þær að haugsugan, eins og haugsugum er ætlað, byrjaði að spúa saur út um alla veggi og jörð og auðvitað okkur félagana tvo.  Það er eiginlega frekar súrt að ekki sé til ljósmynd af þessu.

En ok, gaman að þessu, ekki oft sem bjór tekur mann svona aftur í tímann. Fenrir er amk fullur af skít eins og haugsugan í denn, „full of shit“ eins og hinir Engilsaxnesku frændur okkar myndu orða það. Reyndar ekki beljuskít sem betur fer, slikt kæmi líklega ekki vel út.  Í raun er svo sem enginn skítur í bjórnum heldur er kornið reykt yfir hrossataði sem þannig gæðir kornið þessum eiginleikum.  Í munni er taðið nokkuð minna áberandi en þó vel merkjanlegt og reykurinn dásamlegur. Þetta er bjór sem kallar á mat, fullkominn matarbjór og ég sé strax fyrir mér einhverja flotta reykta ítalska pylsu og franska osta, eða massífa grillsteik. En já mjög sérstakur bjór er óhætt að segja, ég sakna þó dálítið meiri beiskju, hefði viljað meira humalbit með þessum skít enda um IPA að ræða. Engu að síður, ofsalega skemmtilegur bjór.

Græni karlinn var hins vegar ekki eins spenntur, „kúkalykt“ voru hans orð þegar hann prófaði bjórinn fyrst.  Það er nefnilega þannig að menn og konur verða held ég að fara í þennan bjór með alveg opnum hug og ekki missa gleðina ef bjórinn er skrítinn….þessi bjór Á NEFNILEGA AÐ VERA SKRÍTINN!