Bjór í Barcelona – Ale & Hop góður byrjunarreitur!

Bjór í Barcelona

Hinn vinalegi og káti Pablo Lezana á Ale&Hop

Þegar maður er í Barcelona þá er það kannski ekki bjórinn sem er efstur í huga fólks.  Þá er ég að tala um venjulegt fólk því bjórnördar eru auðvitað stöðugt að leita að góðum bjór.  Hér í Barcelona er ekki sjálfsagt að fá góðan bjór, hér eru það suðrænir kokteilar, spánskt rauðvín, Sangria og Cava sem ráða ríkjum.  Ég get svo sem ekki kvartað mikið enda sólginn í gott Cava því þeir kunna svo sannarlega til verka hér þegar Cava er annars vegar.  Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Cava freyðivín sem aðeins er bruggað hér á Spáni og nánast einungis hér í Cataloniu.  Cava er eins ósvikið hér á Spáni og Champagne er í Frakklandi.  Ég og frúin fórum ekki með miklar bjórvæntingar hingað út enda dásamlegt að sötra ískalt og spriklandi Cava hér í 30+ stiga hita og ég tala nú ekki um ef maður er staddur á litlum sætum tabas bar sem gerir sitt eigið ósvikið Cava.  Það er þó alltaf erfitt að slíta sig alveg frá bjórnum, ískaldur bjór er eins og allir vita afskaplega ljúfur í steikjandi hita.  Ég lét til leiðast og fékk mér bjór um daginn á rölti mínu hér um borgina, 30 stiga hiti, mig langaði bara svo mikið í einn ískaldann. Það er hins vegar ekki um auðugan

IMG_0061

Ískalt Cava ummm

garð að gresja í þeim efnum, Estrella Damm er hér alls ráðandi og varla hægt að fá annað.  Hér á 3. degi hef ég amk ekki séð neinn annan bjór á krana.  Ég segi þetta nánast aldrei en nú verð ég bara að láta það flakka, bjór þessi er algjörlega ódrekkandi.  Lager sull með einhvern furðulegan brennivínsundirtón. Hræðilegt.  Estrella Damm er klárlega „local“ bjórinn hér, bruggaður hér í Barcelona síðan 1876, stolt Barcelona og menn virðast bara sáttir við að fá ekkert annað.  Svei.
Sem betur fer hafði ég gert heimavinnu mína og laumast til að leita uppi bestu bjórstaði borgarinnar, þeir eru alls ekki margir en þó til staðar.  Ég hafði farið á einn slíkan (þann besta skv Ratebeer) fljótlega eftir komuna til borgarinnar bara til að mæta lokuðum dyrum.  „lokað vegna sumarfríja til 25. ágúst“, þvílík gremja, þarna sá maður haug af Mikkeller, BrewDog og ýmsu amerísku „stöffi“ bak við harðlæsta rimlana.  Það var því sorgmæddur bjórnjörður sem fékk sér Cava þetta kvöld til að lappa upp á sálina.  Virkaði svo sem fínt.  Næsta dag rambaði ég hins vegar inn á bjargvættinn, vin í eyðimörkinni, Ale & Hop!!  Þetta er vandfundinn lítill staður, ekki svo langt frá dýragarðinum og sigurboganum, í rauninni ca miðsvegar á milli þessara kennileita.  Þetta er lítill rólegur staður, dálítið fjarri ferðamannastraumnum þar sem bæði er hægt að kaupa sér ljúfan eðalbjór af krana og drekka á staðnum eða fá sér flöskubjór úr kælinum.  Flöskubjórinn má einnig taka með heim og fær maður þá 10% afslátt, það er hins vegar þess virði að staldra þarna við og drekka bjórinn sinn og ræða við framkvæmdastjórann Pablo en hann er ofsalega vinalegur, talar fína ensku og veit sitthvað um bjórinn og ekki síst bjórinn í Barcelona.  Pablo fræddi mig um bjórmenningu borgarinnar sem er dálítið eins og heima á Íslandi á byrjunarstigi.  Við erum byltingin sagði hann!  Pablo merkti alla bjórstaði borgarinnar á kortið mitt þar sem hægt er að fá góðan eðalbjór og hvatti mig til að skoða úrvalið, mjög hjálplegt.   Maður gæti vel mælt bara með því að menn byrjuðu á Ale & Hop, fengu sér góðan bjór og burger og svo upplýsingar um alla hina staðina í borginni.   Maturinn þarna sem er með mexíkönsku sniði og án kjöts er frábær.  Sonur minn sem er 12 ára fék sér mexikanskan salsaborgara sem var besti borgari sem hann hefur smakkað hvorki meira né minna. Ég fékk mér ofsalega flottan chilli casadia rétt og svo ískaldan IPA af krana með ummm. Kranabjórinn er síbreytilegur og reynt er að hafa bæði bjór frá erlendum stórlöxum sem og litlum spænskum örbrugghúsum.  Flöskuúrvalið er sæmilegt, ekkert ofsalegt en þó hægt að fá eitthvað frá Brewdog, Mikkeller, Port Brewing, Orval ofl.

IMG_0121

Síbreytilegt úrval á 10 krönum staðarins

Ég byrjaði á því að fá mér Kernel Cream IPA 7.2%.  Ofsalega góður IPA, alveg eins og ég vil hafa hann, dálítið blómlegur, frúttaður með þægilega beiskju sem maður finnur vel fyrir.  Fylling ljúf og góð.  Kernel er mjög spennandi örbrugghús í London sem vert er að fylgjast með því ég held að þeir eiga eftir að verða stórt nafn í framtíðinni.  Þetta er frekar nýtt brugghús og er að gera gríðarlega lukku í bjórheiminum í dag.  Það er þó ekki hlaupið að því að fá bjórinn þeirra því framleiðslan er afar lítil og frumstæð.  Hér má sjá stutt myndskeið til að fá tilfinninguna fyrir því hve lítið í sniðum þetta er, reyndar hefur brugghúsið nú stækkað við sig og komið í stærra og flottara húsnæði.  Frábært brugghús sem gerir alveg ljómandi bjór.
‘Eg legg það í vana minn á ferðalögum um heiminn að prófa „local“ bjórinn ef ég kemst í slíkt.  Ég ákvað því að reyna annan af þeim tveim örbjórum sem á krana voru frá Barcelona.  Pablo lofaði mér að reka tunguna í þá báða, báðir amerískir pale ale.  Annar var dálítið spes, eins og með brettkeim (villiger) og ég spurði Pablo hvort hænn væri með slíku geri, Pablo smakkaði þá bjórinn og taldi hann vera sýktan því það var ekki meiningin af gera brettbjór þarna. Það er erfitt að halda bjórnum í réttu ásigkomulagi hér í hitanum í Barcelona segir Pablo.  Bjórinn var hins vegar mjög góður þrátt fyrir þetta en ég ákvað þó að fá mér hinn localbjórinn frá Fort sem þeir kalla American Pale Ale 5.4%.  Virkilega flottur bjór, mildur með þægilegri beiskju og og dálítið gras eða plöntukeim frá humlunum.  Ágætis amerískur pale ale.

Já ég get fyllilega mælt með þessum stað hér í Barcelona, góður matur, róleg stemning, ágætis úrval af flottum bjór (til viðmiðunnar má taka Microbarinn okkar heima sem líklega hefur ögn stærra úrval bjórs á flöskum) og vinalegur og skemmtilegur barþjónn.