Gæðabjór í Barcelona – hvað er vert að skoða?

LaMaisonHillurnar í La Maison Belge. Ekki mín mynd því hillurnar voru svo sorglega tómlegar, stal þessari af netinu

Þegar þetta er skrifað þá er ég nýkominn heim úr frábærri ferð til Barcelona.  Spánn er þekkt fyrir allt annað en eðalbjór, þeir eru með rauðvínin sín,  hinn furðulega drykk sangria og hið ómótstæðilega Cava, þeirra útgáfu af Champagne.  Þó við frúin séum mikið fyrir bjórinn þá gefum við öðru áfengi líka gaum, gott rauðvín er stundum betri kostur en bjór og ískalt freyðandi Cava er bara dásamlegt, sér í lagi í steikjandi Spánarsólinni.  Ég var því ekkert ægilega stressaður yfir yfirvofandi bjórleysi í þessari ferð.  Ég lét hins vegar undan fíkninni fyrir brottför og fletti upp bestu bjórstöðum í Barcelona á Ratebeer, bara svona ef ske kynni að þarna leyndist einhver ógurleg bjórparadís sem ekki mætti missa af.   Ég fann nokkra staði og merkti þá inn á kortið mitt.  Ég hafði hins vegar ekki reiknað með öllum lokununum og frístundum sem loðir við spænsku þjóðina.  Ágúst er líkelga versti tími sem hægt er að ferðast á til Spánar, amk Barcelona því þá taka menn sér frí.  Já menn loka bara veitingarhúsum, krám og búðum, skella í lás og koma svo 4-5 vikum síðar aftur.  Það er heldur ekkert verið að hafa fyrir því að veita upplýsingar um þessar lokanir á heimasíðum og því kom maður oft að lokuðum dyrum.  Frekar fúlt en svona er það nú bara.  Svo er það auðvitað hitinn, hann er rosalegur.
Ferðin okkar hófst á einni svona uppákomu mér til mikillar gremju, Rosses i Torrades – celler de cerveses hét staðurinn, nr 2 á Ratebeer, fullt af amerískum bjór, Mikkeller, Brewdog og belgísku öli.  Hljómaði vel en það eina sem ég hins vegar sá af þessum stað eftir 14 evru leigubílatúr, voru lokaðar dyr og haugur af Mikkeller bjór og Brewdog í gluggum.  Mikið var ég svekktur, ég fór heim í kot eiginlega í fýlu, mjög þroskaður ég veit.  Fýlan rann hins vegar fljótt af mér með ísköldu Cava í kvöldsólinni.  Þetta kvöld játaði ég mig eiginlega sigraðan, sumarfrí Spánverja myndu líklega koma í veg fyrir að ég gæti notið eðalöls í þessari ferð.  Ég var eiginlega orðinn alveg sáttur við þá hugmynd þegar ég tveim dögum síðar rambaði inn á Ale & Hop.  „Rambaði“ er svo sem ekki alveg rétta orðið því ég vissi um staðinn og var staddur í nágrenninu, alveg óvart eða þannig.  Eitt leiddi af öðru og þangað var ég kominn með konu og börn.  Staðurinn var opinn og bjórbumban tók gleði sína á ný.

Ale & Hop

IMG_0122

Frábær lítill bjórstaður þar sem hinn vinalegi og bjórfróði Pablo gerir allt til að heimsóknin verði sem notalegust. Bjórúrval gott, 10 kranar með ört breytilegu úrvali.  Ég kom t.d. þarna fjórum sinnum á meðan ég dvaldi í BCN og fékk alltaf nýjan Kernel á krana, fyrst Cream IPA, Citra, Svo SAM IPA), reyndar var þetta óvenju mikill Kernel mánuður sagði Pablo mér.  Lesa má nánar um upplifun mína á Ale & Hop hér.  Flottur staður sem ég mæli klárlega með og maturinn ofsalega góður einnig, allt kjötlaust og mikið organic.  Muna bara að hann er lokaður á daginn til ca 17 eða 18, ég rak mig á það sjálfur og það er ofsalega pirrandi að mæta lokuðum dyrum í 30 stiga hita og vita af ísköldum Kernel Citra fyrir innan t.d.  Ekki láta það henda þig!

La Maison Belge
Efst á lista á Ratebeer er La Maison BelgeUm er að ræða búð sem þarf að hafa dálítið fyrir að heimsækja því hún er ekki sérlega centralt í borginni, hins vegar er hún í Gracia hverfinu sem þykir mjög smekklegt og fallegt, eins og þorp í borginni. Mæli með rölti um svæðið. Eins og nafnið bendir til er áherslan lögð á belgíska bjórinn.  Á síðu þeirra segjast þeir vera með besta úrval af belgísku eðalöli þótt víða væri leitað.  Þar sem hitinn var að drepa mig og ég átti einmitt afmæli þennan dag ákvað ég að byrgja mig upp af belgískum gueuze fyrir fyrirhugaða strandferð, enda frábær bjór í miklum hita.  Ég fékk leyfi hjá frúnni að skjótast um morguninn á meðan hún var að undirbúa ferðina á ströndina (taka til handklæði og svona, mikið stúss) og ég reyndi meira að segja að vera dálítið séður því ég hringdi á undan mér.  Það svaraði hins vegar bara símsvari á spænsku sem ég skildi ekkert, þannig að ég átti alveg eins von á að mæta lokuðum dyrum.  Pablo á Ale & Hop hafði merkt staðinn inn á kortið mitt en ekki alveg á réttum stað.  Ég átti því í dálitlu basli með að finna búlluna. Það var reyndar dálítið skemmtilegt hvernig það atvikaðist, ég eiginlega þefaði búðina uppi í orðsins fyllstu merkingu.  Ég stóð þarna á einu götuhorninu og var að reyna að ákveða mig í hvaða átt best væri að halda þegar ég fann kunnuglega lykt.  Góð tilbreyting frá skítalyktinni sem stöðugt var að gjósa upp á röltinu um borgina.  Þetta var svona ekta belgísk gerlykt, eins og einhver hefði hellt niður dágóðu magni af belgískum blond eða tripel.  Mjög góð lykt.  Ég veit ekki hvað þetta var en ég snéri mér við og þar blasti búðin við mér.  Það voru engin merki um niðurhelltan bjór þarna fyrir utan og lyktin inní búðinni var ekki svona megn.  Ég fann engu að síður búðina og það er það sem skiptir máli.  Lítil verslun með hillum meðfram öllum veggjum og kælir með köldum bjór, belgískum ostum og eitthvað af súkkulaði líka en ekki má gleyma því að Belgar eru snillingar í súkkulaðigerð.  Þarna var einnig mikið úrval af belgískum bjórglösum.  Hillurnar voru hins vegar dálítið tómlegar að sjá, ég veit ekki hvort það var bara ágústmánuðurinn ógurlegi eða léleg áfylling.  Afgreiðslugaurinn var vinalegur og kunni eitthvað í ensku en ekki mjög ræðinn.  Ég spurði um gueuze og sagðist hann þá eiga lítið til að honum.

IMG_0483

3 Fonteinen Oud Gueuze, frábær belgískur gueuze

Hann átti Cantillon Gueuze og Boon Kriek and thats it!  Venjulega var til meira af bjór hjá þeim sagði hann mér en nú er sumar og þá er úrvalið ekki eins gott? Ekkert meira spennandi frá Cantillon, frekar lélegt finnst manni af búð sem gefur sig út fyrir að vera belgíska bjórsetrið.  Ég fór að gramsa dálítið í hillunum og gróf upp 3 Fonteinen Oud Gueuze og tók gleði mína á ný.  Kláraði lagerinn af honum og tók 3 Cantillon að auki og síðasta Boon Kriek bjórinn.   Svo var orðið langt síðan ég drakk Rodenback Grand Cru og fékk hann því að fljóta með….ofsalega ljúfur, var eiginlega búinn að gleyma hversu góður hann er.  Ég ræddi svo aðeins við gaurinn þarna sem lifnaði dálítið við þegar hann sá kortið mitt með öllum bjórstöðunum.  Hann sagði mér þá frá barnum þeirra Brasserie La Maison Belge, sem einnig var að finna í BCN, einir 40 belgískir á kranar og hellingur af flöskum, súkkulaði og belgískir ostar.  Ég náði þó aldrei að skoða þann bar í þessari ferð minni en lýsingin lofaði góðu.

Ég fór heim í kot með fulla tösku af súrum afmælisbjór þó svo að ég hefði viljað geta valið um eitthvað meira þá var ég sáttur.  Búðin var svona la la en mér finnst ekki  efsta sæti á listanum á Ratbeer vera rétt metið.   Það er þó fínt að fara þarna ef maður er í miklu belga stuði en mér fannst vanta mikið uppá úrvalið og myndi líklega ekki fara þarna aftur, amk ekki yfir sumartímann!  Pöbbinn væri þó vert að skoða betur.

La Bona Pinta

IMG_0545

Lokað vegna „hver veit hvers vegna?“

Súri bjórinn hélt mér rólegum í nokkra daga og auðvitað ískalt freyðivínið einnig en svo kom að því að bjórbumban fór að láta í sér heyra aftur.  Það getur verið dálítið snúið að láta pöbbaskoðun og fjölskylduferð fara vel saman.  Maður þarf stundum að vera dálítið lunkinn við að tvinna þetta saman án þess að það sé of áberandi eða bara koma hreint fram og fá „frítíma“ til að skjótast.  Ég gerði hvortveggja. Stundum skaust ég einn í metroið borgina á enda til að meta pöbba og stundum var ég lúmskur.  Markmiðið var jú að drösla einhverju góðgæti með heim til Íslands.  Ein slík ferð var farin einn eftirmiðdaginn þegar við vorum búin að grilla okkur á ströndinni og hópurinn var í afslöppun fyrir kvöldverðarbröltið.  Ég ákvað þá að skjótast á stað sem hljómaði vel á Ratebeer, La Resistència, 12 kranar og gott úrval af bjór og nr 5 á listanum.   Skv fésbók átti staðurinn að opna kl 18:00 og engar vísbendingar um sumarlokun.  Ég kom þó að lokuðum dyrum og engin skýring gefin, súrt á súran máta.  Ég var með „bjórkortið“ með mér og ákv að drífa mig í metróið á annan stað sem reyndar var töluvert lengra í burtu, La Bona Pinta, nr 8 á Ratebeer og hljómaði reyndar ekkert ofsalega spennandi.  Frúin taldi mig vera að fá mér einn öl á La Resistencia fyrir kvöldmatinn þannig að ég stalst í þessa för, uss hún má í raun ekki frétta þetta en fyrir vikið varð þetta ögn meira spennandi.  Ég fann staðinn fyrir rest, pínulítil hola, 4 kranar og þar af bara tveir í gangi og ekkert sérlega spennandi þar að finna, London Porter og pilsner frá lokal mikrobrugghúsi.  Barþjónninn var afar fámáll og lummulegur og geislaði frá sér „ég nenni ekki að ræða við enn einn túristann“.   Þarna er lítill kælir með flöskubjór, fann m.a. Raidbeer frá To Öl sem er í sérlegu uppáhaldi en annað var af belgískum toga eða lokal.  Ég fékk mér einn ískaldan Raidbeer á meðan ég rannsakaði hillurnar og var þar með þessi ferð mín ekki alveg tilgangslaus.

IMG_0547

Flöskurnar í hillunum voru ekkert sérlega spennandi fyrir mig, lítil óþekkt brugghús frá Catalonyu, vissulega áhugavert að prófa  svo sem en ég var þarna að leita af amerísku öli, sem ég fann ekki.  Eitthvað örlítið af Mikkeller en ekkert spennandi.  Fann þó einn bjór úr yeast series og tók hann með heim.
Já þetta er fínn staður fyrir þá sem eru búsettir þarna alveg í nágrenninu, þá er gott að tilla sér og fá sér einn kaldann en að elta hann uppi þvert yfir borgina er ekki þess virði.  Þá færi ég alltaf frekar á Ale & Hop.

La Cerveteca.

IMG_0530

Eins og ég kom inná áðan þá þurfti maður stundum að vera dálítið lúmskur og „innlima“ bjórstaðinn inn í röltið um borgina.  La Cerveteca ku vera flottur bjórstaður, bæði skv Ratebeer og Pablo á Ale & Hop.  Hann er vel staðsettur skammt frá ströndinni og flotta gamla hverfinu Born sem gaman er að týnast í.  Þröngar götur, litlar búðir, resturantar, tapasbarir ofl.  Ég hafði valið gönguleiðina í gengum hverfið að kostgæfni þannig að við enduðum skammt frá La Cerveteca alveg óvart sko.  Ég hafði þó gleymt lykilatriðinu, að kanna opnunartíma.  Við komum á staðinn kl 17:00 en hann opnar ekki fyrr en kl 18:00.   Svekk! Mér tókst þó að sannfæra mitt fólk síðar að líta þarna við aftur nokkrum dögum síðar en börn voru þá orðin mjög lúin og svöng og fengust ekki til að hanga með mér yfir bjór, ég fór í smá fýlu þetta kvöld en fékk þó að sjá staðinn að innan.  Þetta er lítill staður og mjög fá sæti.  Það er hægt að fá eitthvað snarl á borð við tapas sem ég get ekki tjáð mig um þar sem ég staldraði stutt við.  Ég náði heldur ekki að fá mér bjór þarna en það eru nokkrir kælar fullir af bjór, amerísku, belgísku, To Öl, hellingur frá Nögne Ö, Mikkeller og Brewdog.   Nokkrir kranar eru þarna einnig  einir 9 held ég og nokkuð spennandi bjór á þeim sem breytist nokkuð ört sýndist mér á fésbókinni þeirra.  Ég náði sem fyrr segir aldrei almennilega að „drekka“ staðinn í mig en ég held að þetta sé staður sem vert er að heimsækja ef tækifæri gefst til.  Staðsetningin er líka frábær.

La Cervesera Artesana

IMG_0634

Ég mæli með að fólk skoði sig um í Gracia hverfinu í Barcelona. Þetta er svæði sem er einhvern veginn allt öðruvísi en borgin sjálf, eins og þorp í borginni segja sumir.  Ekki mikið um ferðamenn að þvælast fyrir.  Fullt af verslunum, veitingarhúsum og pöbbum og svo er það vissulega brewpöbbinn La Cervesera Artesana.  Ég veit ekki hvar hann er á Ratebeer en margumræddur Pablo hafði merkt hann inn á kortið mitt svo ég ákvað að líta þarna við fyrst við vorum í nágrenninu.  Staðurinn er ofsalega flottur og notalegur að innan, ekta barstemning, veggir hlaðnir alls konar bjórtengdu dóti, glös út um allt og flöskur.  Það er hellingur af borðum þarna enda hægt að panta sér eitthvað að borða með bjórnum.  Á einum veggnum er gler og þar fyrir innan má sjá brugghúsið.  Þetta er þó ekki neitt sjónarspil, lítill suðupottur og gerjunartankur sem hvortveggja kæmist fyrir inn á baðherbergi hjá mér.  Bjórúrvalið er til sóma, mikil áhersla lögð á belgíska bjórinn en einnig er eitthvað af amerísku öli og sitt hvað fleira.  Ég varð sérstaklega hamingjusamur þegar ég sá Great Divide á listanum, bæði minn uppáhalds Yeti Imperial Stout og svo Hercules Double IPAsem er með betri imp IPA sem ég hef komist ígleði og hamingja virtist tryggð þennan dagÉg varð hins vegar mjög súr þegar barþjónninn benti mér á að allt á listanum væri til nema þessir tveir…hversu typical er það?  Ég og Sigrún fengum okkur þá einn af okkar uppáhalds belga Tripel Karmeliet  af krana.  Bjórinn var hins vegar alls ekki eins og hann er vanur að vera.  Allt í lagi bjór en alls ekki Tripel Karmeliet.  Hann var dálítið súr og skrítinn, sýktur eins og maður kallar það bara hreint út.  Sigrún fann þetta strax enda sérlegur aðdáandi bjórsins.  Ég kvartaði við barþjóninn sem smakkaði bjórinn og var sammála mér.  Hann æsti sig eitthvað upp á spænsku við hina tvo barþjónana og svo var lokað fyrir Tripel Karmeliet.  Já þetta er annar bjórinn í þessari ferð sem er sýktur af krana en það getur nefnilega verið erfitt að halda þessu fersku og ósýktu í þessum hita. Note to selve, ekki Tripel Karmeliet af krana nema í Belgíu.  Þá ákvað ég að prófa bjórinn þeirra sem þeir kalla Iberian?  Þeir brugga eina 6-7 tegundir þarna á staðnum eftir enskri forskift, það ætti að vera öruggt að fá ósýktan lokalbjór á krana.  Ég prófaði pale ale hjá þeim sem var ágætur en ekkert sérstakur enda er ég meira fyrir amerísku útgáfuna svo sem.  Þegar kom svo að því að borga reikninginn voru báðir Tripel Karmeliet á seðlinum, klassískt, menn eiga að passa uppá svona, það er meiri klassi yfir því.  Ég þurfti því aftur tjá mig og benda þeim á þetta og þeir leiðréttu það.

Já staðurinn er mjög flottur og úrvalið af flöskubjór mjög gott.  Það væri gaman að koma þarna aftur og prófa alla Iberan línuna og láta reyna á matseðilinn.  Muna bara að forðast erlenda kranabjórinn og hver veit, kannski er þá Great Divide aftur kominn í kælinn?

IMG_0577Cervecería Jazz
Fleiri staði af Ratebeer listanum náði ég ekki að skoða að þessu sinni.  Ég verð þó að nefna einn stað til viðbótar, Cervecería Jazz en hann er kannski meira þekktur fyrir magnaða hamborgara.  Besti borgarinn í bænum er sagt.  Góðir vinir okkar Sigrúnar, Björgvin og Satu, bjuggu fyrir nokkrum árum í Barcelona og þegar við heimsóttum þau fyrir fáeinum árum síðan fóru þau með okkur á þennan stað.  Þetta er lítill kósí staður og eigandinn með mikinn bjórmetnað.  Hann er með sæmilegasta úrval af bjór, belgískt helst en eitthvað amerískt einnig svo sem Rogue og Great Divide og svo Brewdog.  Við Sigrún fengum okkur Tripel Karmeliet sem alltaf er góður ef hann er í lagi og ég man að hamborgarinn var virkilega ljúfur.
Í þessari ferð hins vegar komum við að lokuðum dyrum, sumarfrí stóð á ensku á hurðinni, EN EKKI Á HEIMASÍÐUNNI :(.  Við fengum því engan burger að þessu sinni.  Hins vegar römbuðum við inn á annan forvitilegan stað rétt við hliðina á, Cal Marino (sjá mynd að ofan) hét sá staður.  Ég komst að því síðar meir að mælt er með honum á Tripadvisor.  Virkilega kósí staður með áherslu á smárétti/tapas.  Ofsalega ljúfir réttir og spennandi.  Eigandinn, Edvard er afar viðkunnulegur, hjálplegur og duglegur í enskunni.  Edvard er mikill vínáhugamaður og fræddi hann okkur um hin ýmsu vín sem hann var með á boðstólum og það er ekkert lítið magn.  Við smökkuðum alveg magnað rauðvín hjá honum, þétt of flott Atteca 2011 með Garnacha þrúgu sem ég þekki ekkert til.  Vínið var svo gott að við tókum með okkur tvær flöskur til Íslands ásamt nokkrum öðrum sem hann mælti með.  Það sem vakti einnig athygli mína þarna var lítill bjórkælir með bjór frá Brewdog, Lervig, og Cantillon ásamt lokal örbrugghúsum.  Edvard sagði mér að hann væri dálítið spenntur fyrir góðum bjór og væri svona að reyna að hafa alltaf eitthvað spennandi og gott í kælinum.   Ég prófaði þarna Lervig bjórinn og einn lokal og Sigrún skellti sér á Cantillon Kriek sem er fáránlega góður kirsuberjabjór sem smellpassaði með smáréttunum okkar.  Sniðug hún Sigrún.  Við enduðum samt í rauðvíninu eftir að Edvard lét okkur smakka.  Það var mjög gaman að detta þarna inn, alveg frábær matur og magnað rauðvín og bjór og svo var ofsalega gaman að spjalla við Edvard en hann þekkir m.a. vel eiganda Cervecería Jazz sem og La Cerveteca og gat mælt með báðum stöðunum.

Besti bjórstaður í heimi
Að lokum verð ég hér að nefna einn pöbb sem hefur unnið amk tvívegis titilinn besti bjórstaður heims á Ratebeer. The Drunk Monk sem er að finna í smábænum Mataró sem er ca 30 mín ökutúr frá Barcelona.  Því miður var hann lokaður þarna þegar ég var á ferð en annars hefði ég án efa rúllað þar við enda flottar strendur þarna einnig að finna.  Það var virkilega sárt að missa af þessum rómaða stað og því bendi ég fólki á að forðast Barcelona í Ágúst og byrjun september.

Struise Pannepot 2011

IMG_0258

Struise Pannepot 10%

Ég hef lesið ýmislegt um þennan bjór en aldrei sérstaklega verið að eltast neitt við hann.  Hann er belgískur, bruggaður í De Struise brugghúsinu í belgíu, sama brugghús og Mikkeller vinnur oft með.  Þegar þetta er ritað þá liggur bjórhugur minn helst í amerísku IPA bjórunum og Imperial stout körlunum, belgíski stíllinn er á biðstöðu hjá mér þó ég kippi nú alltaf í einn og einn annað slagið, sérstaklega þá súru.  Þegar maður rekst á svona karla í borg sem annars er þekkt fyrir allt annað en góðan bjór þá slær maður vissulega til.  Ég var staddur á Ale & Hop í Barcelona sem er eins og vin í eyðimörk góðra bjóra.  Flottur lítill staður með sæmilegt úrval af góðum eðalbjór, nánar um það hér.
Pannepot 2011 er af gerðinni belgískt sterköl (belgian Strong Ale), 10% karl með þrótt og bragð.  Kolsvartur í glasi, þétt flott froða. Ylmar eins og sveskjur og þurrkaðir tropical ávextir (viðeigandi hér á Barcelona ekki satt) einnig dálítið ristað sætt malt.  Í munni er mikið að gerast, flottur þéttleiki og flókinn.  Sætur á tungu, heilmikið malt og eins og soðnar sveskjur sem verða dísætar og djúsi en þó með vínlegum keim einnig.  Hellingur af suðrænum dökkum ávöxtum, mikil sæta og hamingja og svo ljúfur hiti frá 10% áfengis.  Já flott tilbreyting frá hinu létta Cava hér á Barcelona.