3 Fonteinen Oud Gueuze

3 Fonteinen Oud Gueuze

Frábær Gueuze

Súr bjór er einn af þessum bjórstílum sem eru mjög „inn“ hjá bjórspekúlöntum um þessar mundir.  Kannski er það meira að litlu róttæku örbrugghúsin eru farin að brugga meira af þessum toga frekar en hitt.  Sjálfur hef ég haft dálæti á þessum bjórum síðan ég fór að fikta í belgíska ölinu fyrir mörgum árum síðan.  Þegar ég segi súrt hér þá á ég við belgíska sjálfgerjaða bjórinn lambic (sjá nánar hér).  Þeir eru fáir í heiminum í dag sem brugga stílinn á gamla mátann en 3 Fonteinen er einn þeirra.

Bjórinn kalla þeir Oud Gueuze sem tilvísun í þá staðreynd að um er að ræða gueuze sem bruggaður er á gamla ósvikna mátann.  Bjórinn er gerður úr blöndu af árs gömlum, tveggja ára og þriggja ára gömlum lambic sem hefur þroskast á eikar tunnum.  Bjórinn er svo ósíaður þegar hann er settur á flöskur og þar fer svo fram seinni gerjun sem gefur kolsýruna.  Allt voðalega náttúrulegt og flott.  Þetta er einn af þessum bjórum sem má láta þroskast á flöskum um árabil og batnar hann bara við það.
Þegar þetta er ritað fæst þessi flotti gueuze á Microbar ásamt fleirum frá Cantillon.
Ég smakkaði þennan bjór núna fyrst á ferðum mínum um Barcelona.  Það er mikill hiti hér og því hentar þessi bjórstíll afar vel.  Kaldur, mildur og ferskur.  Minnir dálítið á þurrt súrt Cava sem Cataloniumenn eru svo frægir fyrir.  Í nefi má finna einkennandi gueuze keiminn, ferskur gerkeimur með ögn fúkkalykt (funky?) og mildum ávöxtum.  Í munni er um dásamlega afurð að ræða.  Flókinn en samt einfaldur og ljúfur.  Það er dálítil sæta í honum sem kemur á óvart, þetta er þó ekkert sem truflar því 3ggja ára Lambicinn gefur súran móttkeim sem dempar þetta.  Mjög flott samspil.  Verulega ferskur bjór og sérlega ljúfur hér í 30 stiga hita.  Ef ég á að bera saman við Cantillon Gueuze sem er minn uppáhalds þá er þessi alls ekki síðri en ögn sætari.  Kannski höfðar hann því til fleiri sem eru á byrjendareit í þessum efnum?
Þessi karl fær amk mín hæstu meðmæli.