Lervig, Hoppy Joe og Lucky Jack!

IMG_0577

Það er ýmislegt sem hefur rekið á fjörur mínar hér í tveggja vikna ferð um Barcelona.  Þó svo að Spánverjar og ekki síst Catalonia sé þekkt fyrir allt annað en gourmet bjór þá er hann samt að skjóta rótum hér, amk í Barcelona.  Ég hafði fyrir ferð mína hingað flett upp nokkrum bjórstöðum á Ratebeer og merkt þá flesta á kortið mitt af borginni.  Ég spáði hins vegar ekki í því að ágúst er alls ekki besti tíminn til að ferðast hér um.
Ég ræð öllum frá því að koma hingað í ágúst,sérstaklega bjórnördum því það er nánast öll borgin lokuð.  Menn fara bara í sumarfrí og loka búllunum og láta helst engann vita.  Þannig komst ég aðeins í 3 af nokkrum bjórbúðum/pöbbum borgarinnar.  Stóri missirinn var The Drunk Monk sem er í smábæ hér skammt frá BCN en sá staður er gríðarleg bjórparadís.  Ekki meira um það.

Hoppy Joe frá Lervig!

Hoppy Joe frá Lervig!

Ég get þó ekki kvartað, ég datt inn á nokkra skemmtilega bjóra hér í heimsókn minn og þar á meðal þessa tvo karla frá Lervig.  Það var í raun óvart, ég var að eltast við bestu hamborgarana í bænum á Cerveceria Jazz sem bæði Björgvin félagi minn og Ratebeer hafði mælt með.  Reyndar höfðum við frúin snætt hér burger fyrir nokkrum árum þegar við kíktum við í mýflugumynd í heimsókn til Björgvins og Satu sem þá bjuggu hér.  Staðurinn hefur einnig að bjóða sæmilegt úrval af bjór.  Við höfðum rölt dágóðan spotta, með tóma maga, burger í huga og tvö svööööng þreytt börn bara til þess eins að koma að enn einum lokuðu dyrunum.   Þar var þó skrifað á lítinn miða á hurðinni, lokað fram í september vegna sumarleyfa, vei, now you tell me!  Súr, sár og svekktur strunsaði ég nokkur skref til baka og þá blöstu við mér opnar dyr og notaleg birta, dálítið eins og Gullna hliðið kannski?  Cal Marino hét staðurinn og hann leit bara nokkuð vel út.  Amk voru veggir hlaðnir vínflöskum og svo stórar eikartunnur um allt.  Þetta hlaut að vera eitthvað.  Við röltum inn og hittum fyrir vinalegan eigandann, Edvard sem renndi í gengum matseðilinn með okkur á ensku, allt ofsalega spennandi og framandi litlir smáréttir.  Svo var mér litið á lítinn kæli upp við einn vegginn. Viti menn, bjór! Já þarna var hægt að fá eitthvað af Cantillon, Brewdog og annað og svo rak ég augun í Lervig.  Lervig er lítið norskt brugghús sem líklega er hvað frægast fyrir það að vera nú farið að brugga bjór fyrir/með Mikkeller, t.d. beer geek seríuna og annað ljúfmeti.  Fyrst þetta var þarna fyrir framan mig ákvað ég nú að smakka jafnvel þótt maturinn hafi ekki alveg passað með.  Hoppy Joe er amerískt rauðöl en sá stíll getur verið dálítið mismunandi.  Oftast með rauðum blæ en þarf alls ekki að vera.  Amerísku útgáfurnar oft dálítið humlaðar og svo má stundum finna ögn ávexti og ristaðir malttónar eru áberandi.   Þetta eintak var ágætt, í nefi ögn af humlum, smá gerkeimur og dálítið toffee.  Í munni léttur og mildur með ristuðum malttónum og þægilegri beiskju.  Fylling létt til meðal og eftirbragð stutt og snubbótt. Í heild sinni ágætt rauð öl en ekkert meira en það.

IMG_0560

Lucky Jack

Svo var það hinn karlinn, ég smakkaði reyndar einn IPA líka frá Catalonsku örbrugghúsi en ég fjalla um hann síðar.  Lucky Jack er amerískur pale ale frá Lervig.  Stílinn þarf vart að kynna, bjórinn var ágætur, ferskur í nefi, ekki gamall, humlarnir blómlegir og sætir.  Í munni mildur og þægilegur, vel jafnvægisstilltur með beiskju og malti í alveg réttu hlutfalli.  Get vel mælt með þessum karli ef menn ná í hann.   Það skemmdi dálítið fyrir mér að eigandinn Edvard kom með þetta líka magnaða spænska rauðvín og lofaði okkur að smakka, það endaði reyndar með því að við keyptum allt of mikið af því til að drösla með heim til Íslands.  Rauðvín á jú rétt á sér líka, það er ekki það.
Já flottur staðurm, virkilega skemmtilegur matur og ljúfur bjór.  Edvard er einnig mjög viðkunnulegur og fróður um rauðvín, cava og jafnvel bjórinn.