
Á Microbar, Beer Geek Vanilla Shake
Beer Geek Breakfast var sá bjór sem kom Mikkeller á kortið á sínum tíma. Hann hefur slegið í gegn hvar sem hann kemur fyrir í heiminum og allir sannir bjórnördar kannast við kauða. Sjálfur var og er ég ekkert sérlega hrifinn af honum. Þetta er vissulega mjög vandaður hafrastout og að nota gourmet kaffi í hann er vel þegin hugmynd. Hins vegar kveikti hann ekki í mér, þannig er það bara. Síðan þá hafa komið fram nokkrir nýjir bjórar sem tilheyra þessari beer geek seriu ef svo má segja. Ég hef smakkað þá nokkra án þess að vera neitt yfir mig hrifinn. Hins vegar varð ég ofsalega ánægður með Beer Geek Brunch Weasel sem er virkilega flottur imperial stout. Ég viðurkenni að ég er dálítið fyrir sætuna og ég elska vanillu, súkkulaði og kaffi og bjóráhuginn fer líklega ekki á milli mála. Þegar ég sá svo að þeir voru að sulla þessu öllu saman í bjór var ég staðráðin í að komast yfir eintak. Nú er þessi spennandi karl kominn hingað til okkar á Microbar, Beer Geek Vanilla Shake, 13% imperial hafrastout. Bjórinn er bruggaður í norska brugghúsinu Lervig sem Mikkel er farinn að eiga mikil viðskipti við upp á síðkastið.
Planið í kvöld var reyndar að undirbúa yfirvofandi ferð til Barcelona yfir notalegu spjalli á Microbar með Cantillon Iris við hönd. Plön eiga það hins vegar til að fjúka út um gluggan og í staðinn sit ég hér einn heima (reyndar með hundinum), sólbrunninn eftir einn af 3 sólardögum sumarsins og drekk þennan öfluga imperial stout. Allt annað en Iris. Ferðin er þó enn fyrirhuguð eftir 6 daga. Þegar ég opnaði flöskuna og hellti í glasið varð ég pínu skeptískur því það er haugur alveg af vanillu og súkkulaði sem ryðst upp úr glasinu. Eiginlega um of, jafnvel fyrir sykurtönn eins og mig. Ég varð eiginlega bara vonsvikinn. Svo fékk ég mér sopa og þá liðu allar áhyggjur úr skrokk eins og hendi væri veifað. Ummm, bjór þessi er ofsalega mjúkur og mikil fylling í honum. Öflugur og bragðmikill með fullt af beiskju og ristuðu, brenndu jafnvel malti en svo fullt af vanillu og súkkulaði án þess þó að vera of væminn eða sætur. Biturt kaffið kemur einnig til móts við sætuna, eins og svona eitt til tvö espresso skot með dash af vanillu. Nammi namm. Eftirbragð er svo dálítið beiskt með kaffi og brenndu malti. Mjög ljúft allt saman. Svo er spurning hvað varð um öll þau 13% áfengis sem leynast í flöskunni? Maður verður þess ekki var nema í hita og hamingju.
Ég skrifaði þennan dóm jafnóðum á meðan ég var að smakka bjórinn. Ég verð þvi að bæta við hér án þess að fara upp og breyta að þega líður á bjórinn þá verður hann nánast of mikið af því góða og ég held að ég geti bara tekið einn svona á kvöldi. Bjórinn er reyndar ekki alveg búinn þegar þetta er ritað 🙂
Sá græni: Nú reynir á, risabjór fyrir litla bragðlauka. Þegar hér er komið sögu ættu menn ekki lengur að vera hræddir við svarta litinn, við höfum lært að liturinn segir alls ekki allt. Í nefi er ofsalega mikil lykt þar sem súkkulaði er mest áberandi. Í munni er svo ofsalega mikið bragð og hann er mjög mjúkur í munni. Beiskjan er áberandi en líka þessi súkkulaði kaffikeimur. Þessi bjór er alls ekki fyrir veikar sálir og ég færi varlega í það að eyða peningum í hann einn á báti. Væri þó sniðugt að kaupa flösku 3-4 saman bara til að smakka þessa geðveiki!