Heilagur vínandi frá Borg!

Frelsarinn frá Borg!

Dýrð sé Jesús frá Borg…það er klárlega eitthvað guðdómlegtvið þennan bjór!

Páskabjórinn frá Borg að þessu sinni heitir einfaldlega Jesús, það er ekkert verið að flækja þetta enda gerist það líklega ekki meira páskalegra en þetta.  Jesú var jú aðalhetjan í Kristinni trú og er svo sem enn og Páskar auðvitað stærsta hátíð Kristinndómsins.  Þið þekkið flest þessa sögu og mun ég ekki rekja hana hér.  Það kemur mér þó dálítið á óvart að hin vafasama nafnanenfnd í ÁTVR hafi ekki reynt að finna að þessu eitthvað bara til að vera með vesen. Þeir virðast reyndar vera að koma dálítið niður á jörðina hvað þetta varðar en eins og menn muna slapp Júdas, páskabjórinn í fyrra einnig í gegnum nálaraugað.  Gott og blessað, bjórinn virðist ætla að koma í hillurnar án vandræða eftir helgina.

IMG_1335-001Rétt eins og Jesús frá Nasaret þá er Jesús frá Borg ofsalega skemmtileg pæling þar sem hvert skref virðist vera úthugsað við samsetningu bjórsins.  Jesús er  7% ljóst öl í grunninn sem líklega daðrar meira við belgískar hefðir frekar en þær amerísku. Þetta er bjórstíll sem er frekar léttur og þægilegur og þarfnast ekki grjótharðra bragðlauka við.  Flestir ættu að ráða nokkuð vel við svona bjór sem er einnig í anda fyrirmyndarinnar en Jesús var jú frelsari mannkynsins alls, allir áttu að trúa á hann og fylgja.  Bjórinn er einnig ljós og kristal  tær rétt eins og heilagleikinn og öll Guðlegheitin.  Hinn Hvíti Kristur var hann einnig kallaður hér á landi við upphaf byggðar.
Nóg um það, ölið  er látið þroskast dálítið á eik en þetta er farið að verða gríðarlega vinsælt uppátæki bjórgerðarmanna og er gert til að gæða ölið ögn meiri lotningu og hækka flækjustigið.  Svo notuðu menn Madagaskar kakónibbur frá Omnom súkkulaðigerð til að krydda bjórinn dálítið upp.  Þessi vinkill er virkilega skemmtilegur því að undanskildri nafngiftinni hvað er þá betri tenging við íslenska Páska en súkkulaði?  Úthugsað myndi ég segja.  Loks má svo nefna vatnið sem notað er en það hlýtur eiginlega að hafa verið vígt vatn eða það ætla ég rétt að vona.
Það er sannarlega skemmtilegt að sjá alltaf nýjar gerðir af páskabjór frá Borg, þeir halda sig ekki við einhvern ákveðinn stíl eins og oft er en ná samt að fanga kjarna Páskanna hverju sinni.

Páskabjórinn eða sú hugmynd að brugga sérstakan „páskabjór“ fyrir Páskana virðist upphaflega hafa komið frá Dönum í kringum 1890. Hefð þessi virðist hafa byrjað sem svar danskra bruggara við vinsældum hins þýska dobbel bock Paulaner Salvatore sem þýðir bjargvætturinn.  Salvator var bruggaður til að bjarga föstunni hjá Paulaner munkunum í kringum 1770 eða þar um bil.  Bjór þessi varð svo afar vinsæll í Evrópu og var þá Danmörk engin undanskilning.  Þetta gramdist Dönum en þeir telja stig stundum vera nafli alheimsins, eða þannig upplifir maður þá stundum í samskiptum, og vildu þeir ekki sætta sig við gríðarlegar vinsældir erlends bjórs á heimamarkaði.  Carslberg ákvað því að segja stríð á hendur Salvator og hóf að brugga sérstakan páskabjór sem þeir kölluðu Carlsberg Påske Bryg.  Sá bjór kom ekki á markað fyrr en um 1905 en áður hafði lítið bruggús sem kallaði sig Thor byrjað að brugga danska útgáfu af Salvatore og kölluðu hann bara Salvator.  Þetta var í kringum 1980.  En þetta er svo sem útúrdúr.

IMG_1347-001Skoðum Jesús nánar. Í glasi er hann eins og gullfallegur, kristaltær með léttan froðuhaus sem hverfur fljótt.  Hann er er í fyrstu dálítið látlaus í nefi með ögn málmkeim en svo þegar hann fær aðeins að volgna koma fram kryddaðir tónar með ögn vínlegum blæ.  Það er einhver sætur bragur á þessu sem ég tengi við estera frá gerinu.  Súkkulaði er að mínu mati ekki til staðar í nefi.  Ef bjórinn er svo látinn hitna enn frekar fræ hann á sig meira þéttari blæ og kornkeimur verður áberandi.
Í munni liggur hann vel, fylling góð og hann er heldur kolsýrður en það kann ég persónulega vel við.  Nú er reyndar orðið dálítið langt síðan ég smakkaði síðast Bjart frá Borg en það er þarna eitthvað í bakgrunni sem minnir  á hann, dulítið kryddaður.  Svo fer að bætast við keimur frá eikinni, það rétt örlar á honum með vanillu og út í kókos en þetta er mjög látlaust. Beiskju er stillt í hóf en þó vinnur hún sætuna en humlar sem slíkir koma lítið fyrir.  Það er nokkur vínkeimur sem þó er alls ekki truflandi.  Það fer ekki mikið fyrir súkkulaðinibbunum í bragði en þegar kemur að eftirbragði má finna dálítið súkkulaði og sætt malt.  En þó svo að súkkulaði sé ekki áberandi þá er hins vegar ofsalega ljúft að borða súkkulaði með þessum bjór.  Passar vel saman en það er eitt sem ekki allir vita að bjór og súkkulaði er góð pörun oft á tíðum.
Já þessi bjór er bara ofsalega skemmtilegur og virkilega góður.  Svo er það alltaf spurningin með geymsluna?  Ég gæti trúað að hann gæti orðið skemmtilegur með tímanum, hins vegar er hann síaður og því ekkert ger sem breytir honum með tímanum.  Ég ætla samt að prófa að skella honum í skápinn góða í nokkra mánuði og sjá hvað gerist.

Lítill bitur gaur á Microbar

photo (14)Það er orðið dálítið langt síðan maður gat lofað sér að staldra við á uppáhalds barnum sínum og sötra bjór.  Maður er bara of upptekinn í vinnu öllum stundum.  Ég ákvað þó að laumast eftir kvöldvakt um daginn til að reka tungu ofan í nýja bjórinn þeirra Gæðinga sem þeir kalla “litla” bitter.    Bjórinn kalla þeir litla þar sem hann er aðeins um 4% í áfengi.  Mér skilst að upphaflega hafi þetta átt að vera annars konar bjór en svona er það nú oft, hlutir breytast, ákvarðanir eru teknar og útkoman er svo bara eitthvað allt annað en upphaflega var lagt upp með.  Það er það sem er skemmtilegt við þennan bruggheim.  Alla vega, bjórinn er bara stórfínn, þetta er léttur karl, mildur, mikil kornlykt í nefi og grösugir humlar.  Ekki þó áberandi blóm eða ávextir en mér skilst að bjórinn hafi verið þurrhumlaður í drasl.
Á tungu er hann þægilegur, og beiskjan kemur vel fram en er langt frá því að standa undir “bitter” nafninu í þeim skilningi sem hinn almenni borgari leggur oftast í nafnið.  Ég held að fólk fælist almennt dálítið frá þegar þeir heyra nafnið en hér er um að gera að lofa bragðlaukum frekar að dæma.  Hann er einnig dálítið maltaður og fylling í meðallagi.  Minnir dálítið á lager með stolt og sjálfstraust ef svo má segja.
Það er svo sem rétta rólið fyrir stílinn, english bitter  sem á að vera frekar léttur í áfengi, maður á amk ekki að finna það, humlar eiga ekki að vera áberandi í bragði en þó á beiskjan að vera merkjanleg.  Það er svo spurning orðið hvort maður eigi yfir höfuð að tala um stíla þar sem mörkin eru farin að vera svo óljós í dag.  Það er þó gott að hafa einhver viðmið.

Ég kunni virkilega vel að meta þennan flotta strák og Græni karlinn var mér loksins hjartanlega sammála, auðdrekkanlegur, þægilegur og umfram allt góður lítill bjór.  Hver segir að 4% sé of lítið?  Klárlega skella þessu á flöskur, ja eða dósir bara!

Raidbeer á Kexinu, gríðarlega flottur lager

Raidbeer á Kexinu, gríðarlega flottur lager

Ég ef áður talað um Citra humalinn og ég hef talað um Raidbeer frá To Øl. Nú verð ég að gera það aftur, bara svona til að minna á þessa hamingju, fallegir hlutir verða aldrei of oft umtalaðir. Ég leit við á Kexið í gær en þangað fer ég alltaf annað slagið þegar mig langar í eitthvað gott í gogginn, einhverja tilbreytingu og svo er oft hægt að fá ljúfan bjór með. Best er bara að spyrja barþjónana beint hvort þeir séu með To Øl eða Mikkeller eða eitthvað svipað á krana. Í gær voru þeir með Raidbeer á krana en það vill svo til að sá bjór er einn af mínum uppáhalds bjórum og án efa með betri lagerbjór sem fyrirfinnst að mínu mati. Reyndar minnir bjórinn lítið á lager, ég myndi líklega gíska á öl og þá milt amerískt föl öl (american pale ale) ef ég væri að smakka blint.
Raidbeer er hins vegar bruggaður að hætti lagerbjóra með svokölluðu botngeri en hugmyndin með þessum bjór var að upphefja ágæti stílsins, sum sé lagersins eða pilsner stílsins sem er í miklu uppáhaldi hjá þeim félögum hjá To Øl.. Með þessu mótir vildu þeir sýna fram á að hægt er að gera flókinn og skemmtilegan lager. Þeir nota haug af humlum af bestu gerð, Simcoe, Centennial, Nelson Sauvin og svo rúsínuna í enda pylsunnar Citra.
Citra humallinn er dálítið nýr af nálinni, var fyrst ræktaður 2007. Humallinn hefur sætt dálítilli gangríni finnst mér ef marka má umsagnir á veraldarvefnum. Fólk virðist annað hvort elska hann eða hata og sumir virðast bara kunna illa við nafnið. Fyrir mína parta þá er þetta dásamlegur humall, hann er af amerísku bergi brotinn, inniheldur 11-13% alfasýrur sem þýðir að hann gefur mikla beiskju í bjórinn, eða hefur möguleika á því allt eftir hvernig hann er notaður. Hann er þó líkast til meira þekktur fyrir að vera öflugur ylmhumall sem gæðir bjórinn ofsalega ljúfum ávaxtakeim þar sem apríkósur og mangó koma sterkt upp í hugann. Citra inniheldur einnig hátt hlutfall af olíum en er lár í co-humulone olíu sem á mannamáli þýðir að hann hefur bara það besta að bjóða, flóknar bragðflækjur og beiskju en ekkert rusl með. Í bragði má finna ferska beitta humlana, haug af eróstískum ávöxtum og frískleika.
Í Raidbeer leikur þessi magnaði humall stórt hlutverk, maður finnur það bara um leið og bjórinn er kominn í glasið, ávextir og blómlegir tónar.. Citra fær hins vegar flotta mótleikara á formi áður nefndra humla sem skapa ofsalega skemmtilegar bragðflækjur sem er verðugt verkefni fyrir bragðlaukana. Svo er að sjálfsögðu einnig notað malt sem ekki er nánar gefið upp og svo hafrar sem gefa meðal fyllingu og örlítið sætan bakgrunn.
Bjórinn er einfaldlega frábær og ég tala nú ekki um af krana. Hér erum við með 5.2% bjór sem er léttur og þægilegur en hefur þó karakter, er ögn beittur án þess að verða hættulegur og svo heilmikla erótíska ávexti og blóm. Getur varla klikkað.

Svona á Barley Wine að vera!

Ahh það er svo gaman að vera minntur á það afhverju maður heldur uppá ákveðna bjórstíla.  Í kvöld er það heldur betur þannig.  Já ég hef verið að halda til haga jólagjöf frá móður minni sem greinilega elskar son sinn mikið, Alesmith Old Numbskull Barleywine ale.  Ég ákvað að í kvöld væri gott tækifæri til að opna kauða, þáttaskil í lífi mínu, ekki kannski stór en þó nægileg til að réttlæta svona ofurkarl.
Bjór þessi er fallegur í glasi, mattur og flottur með látlausann froðuhaus.  Það er ofsalega mikið að gerast í nefi, herbegið angar allt af sætum vínlegum keim ásamt hunangi, karamellur og ristuðu malti.  Alveg ekta barleywine nef.  Í munni er þetta svipað, ofsalega flottur og vandaður barleywine.  Mjúkur og bragðmikill þar sem finna má sætt maltið sem fær á sig karamellublæ, hunangskeim og dásamlega blómlega humla.  Minnir þannig nokkuð á öflugan double IPA.  Eftirbragð er alveg hreint út sagt dásamlegt þar sem allt er eins og það á að vera, fullkomið.  Áfengið er vel merkjanlegt í þessum karli en það truflar þó ekkert að mínu mati enda veit maður svo sem hvað búast má við.
Já ofsalega öflugur en ljúfur barleywine sem ég mæli eindregið með og minni um leið á að hægt er að sérpanta hina ýmsu karla í ÁTVR og þar á meðal þennan.

Græni karlinn hefur verið dálítið í dvala þar sem hann ákvað að taka sig á og slípa niður skrokk eftir áramótin.  Hann stóðst þó ekki mátið í kvöld enda ekki á hverjum degi sem svona bjórar slæðast inn.
Þó svo að bjórinn fái góða dóma, bæði hér að ofan og úti í hinum stóra heimi þá verð ég að segja að hann kom mér dálítið á óvart.  Var ekki eins hrifinn og aðrir.  Fyrir okkur sem ekki erum vön svona ofsalega miklu bragði og áfengi þá er það varasamt að fara út í stórar fjárfestingar því þó svo að 4000 kr þyki ekki mikið fyrir bjórnörd þá er það mikið fyrir okkur sem erum bara að fikra okkur upp bjórstigann.  Ég er sammála félaga mínum hér að ofan að bjórinn er fallegur og hann ilmar vel, reyndar óskaplega vel þar sem hunang og sætur keimur er allsráðandi.  Í munni er hann hins vegar ofsafenginn, mikil læti og sprittið heldur of áberandi og beiskjan tekur dálítið í.  Ég þó ekki að fara hella þessum enda er maður aðeins farinn að sjóast en ég bendi mönnum hins vegar frá því að prófa þennan nema vita nákvæmlega út í hvað þeir eru að fara.

Já sem sagt, ofsalega flottur barleywine sem menn geta treyst en ættu kannski að fara varlega í ef bragðlaukar eru ekki alveg harðnaðir.  Það breytir því þó ekki að það er alltaf spennandi að prófa eitthvað sem þykir ofsalega flott í heimi bjórsins, þetta er amk barley wine uppá sitt besta.

Umdeildasti Þorrabjór allra tíma – Hvalur

Umdeildasti Þorrabjór allra tíma - Hvalur

Nú er Þorrinn alveg rétt handan við hornið, árstími sem þar til nýlega hefur verið fjarri því að vera í uppáhaldi hjá undirrituðum enda hefur gallsúr og úldinn(*) furðumatur ekki mikið höfðað til mín til þessa. Jafnvel brennivínið sem sumir segja að bjargi þessu öllu saman hefur ekki átt mikið uppá pallborðið að sækja. Þetta hefur þó allt breyst eftir að brugghús landsins tóku uppá því að brugga árstíðarbjór fyrir Þorrann. Nú er þetta allt í einu orðinn dálítið spennandi árstími því það er jú alltaf gaman að sjá hverju menn tefla fram hverju sinni og ekki skemmir það fyrir ef bjórinn er álíka furðulegur og ómetið sem menn borða þessa daga.

Einn af þessum bjórum í ár er einmitt þannig, furðubjór, nýr bjór frá brugghúsinu Steðja í Borgarfirði sem þeir kalla Hvalur Þorrabjór. Bjór þessi er ekki kominn á markað en hefur nú þegar vakið gríðarlega athygli bæði hér heima og úti í hinum stóra heimi. Líklega er þetta með sérstakari bjórum í veröldinni því Hvalur er eini bjórinn sem vitað er um sem bruggaður er með hvalmjöli. Þetta fer vissulega fyrir brjóstið á náttúruvinum um alla jörð, fólki sem heldur líklega að hér hafi heil hvalahjörð látið lífið fyrir bjórinn, einn hvalur á bjór! Þessar skoðanir sínar hafa menn látið í ljós bæði í fjölmiðlum erlendis sem og með grófum hótunum sem streyma nú inn um lúgur þeirra Steðjamanna. Þetta eru allt frá innantómum fúkyrðum að beinlínis lífhótunum sem m.a. felast í því að breyta eiganda Steðja, Dagbjarti Arilíussyni í bjór. Dagbjartur lætur þetta hins vegar allt sem vind um eyru þjóta og fagnar allri umfjöllun enda erfiður markaður þar sem menn þurfa að bera af til að koma sér á framfæri. Öll orka Dagbjarts beinist svo þessa dagana meira að því að koma þessum furðubjór á markað hér fyrir Þorran sem brestur á eftir 3 daga. Það er nefnilega svo að nú hefur framleiðslan og sala bjórsins verið bönnuð hér heima fyrir tilstuðlan Heilbrigðiseftirlits Vesturlands sem bendir á að allt hráefni til matargerðar verði að lúta ákv lögum. Þeir benda á Hvalur HF, þaðan sem mjölið er komið, hafi ekki leyfi til að framleiða mjöl til matvælaiðju.

Hvernig sem fer þá breytir það því ekki að hér er kominn fyrsti hvalabjór sögunnar sem smellpassar við Þorramatseðilinn. Sólúldnaðir selhreyfar, gallsúr hákarl, kafloðnir handplokkaðir hrútspungar eða hvað þetta heitir allt saman og svo ískaldur alíslenskur hvalbjór með, þetta hljómar bara allt svo rétt!
Bjórinn er 5.2% síaður og gerilsneyddur lagerbjór sem inniheldur einnig dálítið reykt malt og svo auðvitað hið próteinríka hvalmjöl frá Hval HF. Til að gera þetta enn þjóðlegra má svo finna hluta af texta úr Hávamálum á merkimiðanum, eitthvað sem sjálfur Óðinn átti að hafa lesið. Miðinn er svo að lögun eins og hvalur svo ekki fari á milli mála um hvað ræðir.

Það berjast um ýmsar tilfinningar í manni þegar maður opnar flöskuna og ekki laust við að það votti fyrir dálitlu stressi. Hér er maður með harðbannaðan drykk sem inniheldur mögulega baneitrað ósamþykkt hvalamjöl úr föllnum spendýrum í útrýmingarhættu. Verður þetta síðasti bjórinn minn? Var þetta síðasti hvalurinn á jörðinni? Verður þetta kannski einhver horbjóður eins og flest annað á borðum landsmanna yfir Þorran?
Allar þessar pælingar hverfa hins vegar um leið og bjórnum er hellt í glas og maður sér að hér er bara um bjór að ræða þó hann sé kannski ekki venjulegur. Fallegur í glasi koparrauður að lit með ágætis froðuhaus. Í nefi er lítið að gerast en það er þó dálítill reykkeimur sem kemur vel út. Svo veit ég í raun ekkert hvernig hvalmjöl ilmar en það er þarna einhver keimur sem ég hef ekki fundið áður.
Í munni er hann bragðmikill og kitlandi. Þægilega humlaður, ögn reyktur og svo einhver kornkeimur og sæta sem kemur fram í bakgrunni, eitthvað sem ég hef aldrei fundið áður. Minnir í raun ekkert á hvalkjöt enda kannski ekki við því að búast af mjöli. Skemmtilegur keimur samt og passar nokkuð vel við rest og gefur ljúft og langt eftirbragð.

Allt í allt vandaður og skemmtilegur bjór sem ég held að muni sóma sér mjög vel sem matarbjór ef hann yfir höfuð kemst á markað. Væri mjög spennandi að smakka hann með steiktu hvalkjöti.  Ég held þó að það sem er skemmtilegast við bjórinn er að hann er framandi og unnin úr einhverju sem maður á ekki að venjast, hann gengur því sem Þorrabjór þar sem allt er leyfilegt en fyrir mína parta myndi ég líkast til ekki vera of spenntur ef um heilsársbjór væri að ræða. Ég get ekki varist því að mér finnst hvalmjöl ekki hjóma sérlega girnilega en kommon….það er jú Þorri! Hvet alla til að prófa þennan, sannir Íslendingar drekka hvalabjór eða hvað?
Vonum bara að þessi bjór komi á markað, ég veit að Dagbjartur er enn ekki búinn að gefa upp alla von, sjáum hvað setur næstu daga.

(*) Viðbót – ég hef áður lent í þessu, gleymi alltaf að passa mig en þegar ég rita um Þorramatinn á ég það til að hreyfa við viðkvæmum taugum fólks sem virkilega kann að meta þennan mat.  Það er bara gott og blessað, gaman að halda í hefðirnar en ég vil þó árétta að hér eru það mínar skoðanir sem koma hér fram.  Þegar ég tala um úldinn og skemmdan mat þá er það skírskotun í það þegar við Íslendingar bjuggum ekki yfir kælitækni nútímans og brugðum á það ráð að leggja mat í súr til að reyna að auka geymsluþol (forða honum frá örverum). Hvað er það annað en að skemma mat? Það er klárlega skilgreiningaratriði hvenær eitthvað er skemmt, sumir segja t.d. sykur skemma kaffidrykkinn, of sterk krydd skemmi ákv rétt, of mikil sósa, kolröng sósa og svona mætti lengi telja.  Mjólk er t.d. ekki beint skemmd ef hún hefur súrnað, hún er það hins vegar að mínu mati.  Hvenær er svo mygluostur skemmdur….það er smekksatriði.  Alla vega, í mínum augum er mikið af þessum Þorramat skemmt.  Úldið er svo annað mál, tek bara svona til orða.  En þá er það hér með komið fram!

Borgar sig að gleyma Borg?

Borgar sig að gleyma Borg?

Allt frá upphafi hefur Borg brugghús verið ötult og lifandi tilraunabrugghús sem hefur fært okkur hvern bjórinn á fætur öðrum.  Þeir komu t.d. með fyrsta íslenska IPAinn, fyrsta Quadrupelinn, fyrsta Barley Wine bjórinn og svona mætti telja talsvert lengi.    Þegar Borgarfjölskyldan er skoðuð má sjá að hún inniheldur stórt hlutfall „ofurbjóra“ ef svo má segja.  Við erum þá að tala um öl sem við Íslendingar eigum kannski ekki að venjast öllu jafna, stóra karla þar sem áfengisprósentan og flækjustig nær himinháum hæðum, bjór eins og Surt og Garún imperial stout, tunnuþroskuð monster á borð við Giljagaur 14.1 og Surt 8.1, barley wine eins og Giljagaur, belgíska tripelinn Ástrík og Úlf Úlf double IPA sem dæmi.  Allt eru þetta dæmi um framúrskarandi eðalöl þar sem öllu er til tjaldað og bæði vilji og geta brugggúrúanna Valla og Stulla, til að lyfta ölmenningu okkar á næsta plan, leynir sér ekki.

Fullkomið eða hvað?  Nánast, það er hins vegar einn galli á þessu öllu saman og kannski er það samt ekki galli, kannski er þetta bara eitthvað sem gerir Borgarbjórinn enn meira spennandi.  Það er nefnilega svo að bjórinn þeirra kemur að mínu mati, og ég veit að ég er ekki einn um þá skoðun, ekki alveg tilbúinn á markað.  Það er þó ekki í þeim skilningi að bjórinn sé ekki góður, alls ekki það er hins vegar oft svo að hann á eftir að verða svo miklu mun betri með tímanum, hann er bara ekki alvega tilbúinn fyrir bjórnördinn.
Þetta segi ég og skrifa nú þar sem ég sit með ársgamlan Júdas í glasi og er að reita af mér stélfjaðrirnar yfir því að hafa ekki tekið fleiri flöskur frá til geymslu síðustu páska.  Já ég skrifa þetta í raun  öðrum víti til varnaðar.  Sömu tilfinningu fékk ég núna um jólin þegar næstsíðasti Giljagaur 14 (ársgamall) rann niður í belg.  Þessir karlar eru orðnir svo miklu skemmtilegri og betri með aldrinum.  Það er nefnilega þannig að sumar tegundir bjórs má og nánast á að geyma og er þá tímaramminn í raun óljós.  1 ár eða 20 ár, hver veit, tíminn leiðir bara í ljós á hvaða tímapunkti bjórinn hættir að vera góður og byrjar að dala og það besta við þetta allt saman er að það eru aðeins þínir eigin bragðlaukar sem ráða för.  Bjórinn verður einhvern veginn flóknari, mýkri og í meira jafnvægi.  Einfaldlega meira þroskaður!

Ég hef haft það fyrir reglu nú í seinni tíð að taka alltaf dálítið ríflegt af stóru bjórunum frá Borg svo ég geti notið þeirra ári síðar, enn sem komið er hefur mér ekki tekist að geyma bjórinn í tvö ár en Giljagaur 14 verður líklega sá fyrsti sem nær þeim stalli næstu jól.  En borgar sig að geyma alla Borgarbjóra?  Alls ekki!  Ég hef heyrt í mönnum sem eru að láta sig hlakka til að smakka árs gamlan Úlf t.d. en Úlfur er dæmi um bjór sem alls ekki hentar til geymslu.  Það er vissulega hægt að geyma hann því hann skemmist ekki, hins vegar tapar hann sérkennum sínum með tímanum þ.e.a.s humalkarakternum sem einkennir IPA stílinn.  Humlar innihalda rokgjarnar og viðkvæmar sýrur sem gefa bragðið og lyktina sem gerir stílinn svo dásamlegann.  Með tímanum hins vegar rjúka þessar sýrur úr bjórnum og hann tapar ferskleika sínum.   Brio er einnig bjór sem alls ekki á að geyma.  Þetta er þýskur pilsner sem í raun byrjar að skemmast um leið og flaskan er opnuð.  Drekkið hann hratt og örugglega.  Það mætti kannski segja að sterkari bjórarnir séu hentugir til geymslu  á meðan þessir léttu og mildu eru meira svona til að þamba í stórum stíl.  Það eru svo líka þarna millistig eins og t.d. Myrkvi.  Spurning bara þá að prófa að geyma eða einfaldlega varpa spurningum á undirritaðan eða meistarana sjálfa hjá Borg.

Svona til að taka þetta saman þá hefur, þökk sé Borg, skapast hér skemmtileg hefð að gera tilraunir með að geyma bjórinn þeirra og sjá hvernig hann vex og dafnar.  Menn þurfa bara að muna að kaupa nóg til að eiga lager fyrir eitt ár, tvö ár þrjúr ár og svo framvegis.  Passa að geyma ekki hvaða bjór sem er, mildu litlu karlarnir eru ekki spennandi til geymslu t.d.  Notið þá til að drekka á meðan hinir þroskast.

Jóladútl og einn ljúfur með frá Kernel

Jóladútl og einn ljúfur með frá KernelNú líður að jólum og menn og konur keppast við að leggja lokahönd á allt sem þarf að klára fyrir jólin.  Það er verið að versla gjafir og pakka inn, jólakortin eru skrifuð og smákökur og annað gúmmilaði bakað.   Þetta fylgir allt saman og er í raun það sem gerir aðdragandann að sjálfum jólunum svo notalegan og skemmtilegan.  Ekki skemmir svo fyrir að fá sér kannski eins og einn ofsalega ljúfan bjór með, svona rétt til að setja ögn meiri gleði í þetta allt saman.
Þó ég eigi sjálfur eftir að gera vel flest þá er frúin komin á fullt og í gær var sett í sörur, eitt af því fáa sem ekki má vanta yfir hátíðarnar hér á bæ.  Þetta lofaði allt saman mjög góðu hjá henni í gær og ákvað ég að láta reyna á nýjan bjór sem kom í hendur mínar úr undarlegri átt.  The Kernel Imperial Brown Stout 9,9% alla leið frá Glascow.  Já mágkona mín fór í mæðraorlof yfir hafið til Skotlands og þar komst bjóráhugi minn einhvern veginn í tal sem endaði með því að náungi að nafni Kevin, sem mágkona mín reyndar hitti aldrei sjálf, vildi endilega senda til mín tvo bjóra, þennan frá The Kernel og svo Fade To Black IPA frá Weird Beard.  Já þetta er flott, það vantar fleiri svona Kevina í heiminn það er sko víst.

En já The Kernel er heldur nýlegt lítið brugghús (2009) í London sem reyndar er orðið svo eftirsótt að það annar ekki eftirspurn. Af þeim ástæðum hafa þeir stækkað við sig held ég bara á síðasta ári.  Bjórinn þeirra er algjörlega framúrskarandi og frumlegur og spái ég því að eftir fáein ár munu vel flestir vita hvað Kernel er, ekki bara í bjórnördaheiminum.  Maður segir bara ekki nei við Kernel.  Ég hef smakkað þá nokkra frá þeim og ekki orðið fyrir vonbrigðum til þessa.
Ég ákvað að prófa bjórinn með stolnum nýbökuðum sörum. Bjórinn er svartari en kol í glasi og froðuhaus hverfur frekar fljótt.  Í nefi er mikið að gerast, hnetur, dökkt súkkulaði, ristað brennt malt.  Einnig einhver vanilla en þá samt alveg sáralítil.  Notaleg sæta með.  Í munni er bjórinn ofsalega mjúkur og flottur með mikla fyllingu.  Áfengið ein 9,9% kemur hvergi fram í bragði.  Hann er nokkuð flókinn þar sem ægir saman ristaðar hnetur, brenndar kaffibaunir, dökkt súkkulaði og ögn reykur.  Beiskja er einnig nokkur og þægileg.  Svo er einhver sæta með, vanilla?  Jább í raun flottur imperial stout sem vert er að prófa.  Hins vegar glími ég við það vandamál að þegar að stout kemur þá er ég afar vandlátur og er oftast ekkert allt of hrifinn.  Þessi karl er aðeins of súr fyrir mig í svipuðum skilningi og espresso getur stundum verið heldur súrara en beiskt en góðu hófi gengnir.  Með sörunum passar hann hins vegar mæta vel, og kemur þannig þessi sæta sem mér finnst vanta.