Flottur sumarbjór, Peter Pale and Mary

Notalegur og frískandi sumarkarl

Mikkeller Peter, Pale and Mary – Mikkeller framleiðir svo mikið af bjór að það er nánast vonlaust að fylgjast með. Síðan þeirra er einnig frekar ruglingsleg og oftast lítið af upplýsingum um bjórinn þeirra. Það virðist sem það sé dálítið „cool“ bara að slengja fram einhverjum stykkorðum og smá vísbendingum á fésbókinni en án þess þó að útskýra almennilega um hvað ræðir. Þetta virkar sennilega vel, vekur forvitni og menn kalla á eftir upplýsingum. Stundum er þetta hins vegar bara pirrandi.

Hvað um það, þessi bjór er af gerðinni pale ale í léttari kantinum. Eins og svo oft áður þá er hann bruggaður í De Proef í Belgíu. Nafnið hefur líklega einhverja sögu á bak við sig….eða ekki? Það skiptir ekki nokkru máli, það er bjórinn sem um ræðir.
Í nefi eru mikil blóm og humlar, líklega Mosaic ef ég þekki hann rétt. Í munni er um ofsalega flottan bjór að ræða. Mikið af ávöxtum, ferskjur, og mangó? Þægilega þurr, beiskja notaleg ofsalega léttur og sumarlegur. Já mjög sumarlegur bjór bara með notalegum ávaxtakeim og beiskju í eftirbragði.Frábær sumarbjór sem ég mæli klárlega með, fæst í vínbúðinni, amk Heiðrúnu og Skútuvogi….eru menn eitthvað að þvælast annað hvort eð er?

Ommegang Game of Thrones Fire and Blood Red Ale

Ommegang Game of Thrones Fire and Blod Red Ale

Ommegang er vinsælt amerískt brugghús sem er dálítið þekkt fyrir að smíða bjór eftir belgískum hefðum. Þessu hafði ég alveg gleymt þegar ég tók þennan með í körfuna í áfengisverslun nokkurri í Orlando á dögunum.  Líklega var það bara flaskan og þetta thema sem heillaði mig þá stundina.  Ég hef smakkað nokkra Ommegang bjóra og þeir hafa allir verið ágætir, hins vegar er ég á þeim stað í lífinu að ég er búinn með belgíska tímabilið, tók líklega of stóran skammt af því á sínum tíma.  Svo er það bara þannig að þegar ég vil belgískan bjór þá vel ég mér bjór frá Belgíu, ekki amerískan bjór sem bruggaður er eftir belgískum fyrirmyndum.   Þannig er ég bara.  Ef ég hins vegar fer út í belgískan amerískan bjór þá vil ég líka finna fyrir ameríska „twistinu“.

Að þessu sögðu þá að bjórnum.  Fire and Blood er bjór sem bruggaður er til heiðurs hinna gríðarlegu vinsælu Game of Thrones sjónvarpsþátta sem m.a. hafa verið teknir upp hér á landi að hluta til eins og þekkt er.  Bjórinn er af gerðinni red ale segja þeir og hann kemur í takmörkuðu magni í þrem mismunandi umbúðum.  Þ.e.a.s það eru þrír mismunandi drekar á merkimiðunum en bjórinn er sá sami.  Þeir sem horfa á þættina vita jú að drekarnir eru 3 og skýrir það þessa pælingu.  Þannig að, mig langaði bara að prófa þetta og þá er jú tilvalið að gera það á sama tíma og Game of Thrones er í sjónvarpinu.

Bjórinn er vissulega rauður í glasi og afar fallegur.  Froðan er flott og mikil en hverfur heldur fljótt.  Í nefi er mikið krydd og ávextir og líkist þannig belgískum tripel eða blond.  Auk þess er hellingur af ristuðu malti.
Í munni er hann skemmtilegur og þægilegur.  Mikið bragð, kitlandi kolsýra, fín fylling.  Það er mikill belgi í honum, krydd og pipar jafnvel eða er þetta chillí?.  Sætur maltkeimur skín í gegn en svo kemur þurr og beiskur keimur fram í restina.  Að hafa humlana svona áberandi í lokin tekur bjórinn dálítið út úr algjörlega klassíska belganum sem er mjög gott á þessum bæ.  Eftirbragð er svo langt og notalegt með sætu ristuðu malti og svo eins og dálítið súr tónn alveg í blárestina sem reyndar hverfur og breytist þegar líður á flöskuna eða þegar lögurinn volgnar, þá kemur fram þessi flotti chillí hiti, hér kemur drekinn fyrst fram í bjórnum.

Hinn ágætasti bjór, ég bjóst þó við meira „attitute“.  Virkar líklega vel sem matarbjór með ýmsum réttum.  Ef ég hins vegar á að vera alveg hreinskilinn þá eru umbúðirnar það besta við bjórinn að mínu mati.  Það er bara alltaf gaman að smakka svona bjór sem kemur út að einhverju tilefni og í takmörkuðu magni.  Er samt feginn að ég tók ekki allar þrjár flöskurnar.  Munum samt að ég er einhvern veginn búinn að overdosa á belgískum bjór.