
Batman í Blautri Skikkju
Það er alltaf gaman að sjá hvað menn eru að pukra í skúrnum heima hjá sér. Stundum er maður svo heppinn að fá smakkprufur af þessu gulli sem menn luma oft á. Hér hefur mér áskotnast ofsalega flottan Imperial Stout frá gaurum er kalla sig Digri brugghús. Bjórinn kalla þeir Batman í Blautri Skikkju. Ég er ekki klár á prósentunni en gaman væri að fá kannski komment hér að neðan með þær upplýsingar frá viðkomandi bruggmeisturum.
Ég verð að segja að þessi bjór kom mér alveg í opna skjöldi. Ég bjóst ekki við miklu, í fyrsta lagi vegna þess að ég er ekki mikið fyrir Imperial Stout, eða kannski frekar, ég er mjög kresinn á stílinn, þeir falla ekki allir í kramið. Í öðru lagi er um heimabrugg að ræða og þar geta menn bæði gert ofsalega vondan bjór eða virkilega góðan. Maður veit ekki hvar á skalanum maður lendir fyrirfram. Þessi var hins vegar algjörlega eitthvað sem smellpassar að mínum smekk, þróttmikill, fullskrokka monster með sætum undirtón. Það eina sem truflaði mig var kannski dálítið áberandi spritt? Ef þessi stæði mér til boða í vínbúðinni myndi ég klárlega velja hann reglulega í körfuna mína. Frábær bjór. Takk fyrir mig. Væri gaman að heyra hver höfundurinn er af merkimiðanum.
Báran var svo sem ekki stök í þetta skiptið heldur flaut með annar bjór frá þeim félögum sem þeir kalla líklega bara Citra IPA ég er ekki viss. Það er amk bara notaður Citra humall í þennan bjór ef ég hef það rétt eftir. Prósentan á huldu en líklega í kringum 4.5-5.5%. Citra er dálítið nýlunda humalafbrigði sem menn eru farnir að fikta dálítið við að nota í bjórinn. Humallinn er alls ekki allra, sumir elska hann á meðan aðrir hata hann. Humall þessi er fremur hár í svo kölluðum alfa sýrum og er hann því fremur bitur og því unt að ná fram nokkuð beiskum bjór (hátt IBU hlutfall). Það eru einnig áberandi sítrus tónar í þessum karli.
En já bjórinn, i honum er ágætis fylling, flott beiskja og notalegur maltkeimur. Mjög ljúfur í nefi með nettum humalkeim og sítrus. Það er hins vegar pínu funky eftirkeimur? Spurning hvort það sé humallinn eða eitthvað annað? Virkilega gaman að bragða þetta.
Takk kærlega fyrir mig. Við skulum sjá hvort einhverjum takist að slá þessa tvo út eða jafna 🙂
Endilega að bæta við réttum upplýsingum og ég mun uppfæra, þið sem þekkið til, hinir Digru.