Innsend smakkprufa – Þýskt eðalöl

Innsend smakkprufa - Þýskt eðalöl

Hveitibjór – þýskt eðalöl frá Ragga í EFLU

Fyrir ekki svo löngu fékk ég þennan bjór sendann frá heimabruggara Ragga sem starfar hjá EFLU.  Þetta er einn af tveim flottum sem hann sendi mér.  Hinn var ESB sem var mjög skemmtilegur.  Þessi heitir einfaldlega Hveitibjór þýskt eðalöl.   Nafnið segir það sem segja þarf, stíllinn er hveitibjór að hætti Þjóðverja.  Alltaf gaman að fá svona smakk af því sem þið eru að bardúsa í skúmaskotum heima við.  Þessi er flottur í glasi, stór og flottur froðuhaus, ofsa smart.  Í nefi látlaus en með dulítilli gerlykt og svo ávextir og mildar kryddnótur.  Það er ekki þessi áberandi banana/perulykt sem oft má finna í þessum stíl.  Í munni er hann dálítið beittur, bjóst við mildarki karli.  En þessi er flottur, tekur örlítið í og svo eru einhverjir kryddtónar.  Svo er ég ekki alveg viss, ekki áberandi sætir ávextir, frekar eins og dálítið rammur börkur, appelsína?  Dálítið eins og belgísku útgáfurnar?   Svo er eins og dálítið maltað sætt eftirbragð sem kemur bara vel út.
Flottur þægilegur og einfaldur hveitibjór.  Nokkuð vel að verki staðið bara.  Menn geta verið stoltir af þessum.

Bitri Gaurinn – innsent heimabrugg!

Bitri Gaurinn - innsent heimabrugg!

Bitri Gaurinn ESB

Það er svo gaman að fá að reka tungu ofan í heimagerðan bjór frá ykkur þarna úti. Ég fæ alltaf annað slagið senda einn og einn til að smakka. Þó svo ég skrifi ekki um þá alla þá detta einn og einn dómur hér inn. Stílar eru margir og mismunandi. Það er mjög klassískt að brugga Pale Ale eða IPA heima við. Stout og Imperial Stout er einnig mjög vinsælir stílar. Sjálfur er ég orðinn mjög spenntur fyrir Imperial Stout því ég er mjög kresinn á þann stíl og er stöðugt
að leita af þeim fullkomna. Það er gaman að sjá þegar fólk fer aðrar leiðir,ESB eða Extra Special Bitter er eitthvað sem ég drekk ekki á hverjum degi. Í raun ekki stíll sem ég hef mikið lagt mér til munns. Er reyndar ekki mikið fyrir enskan bjór yfir höfuð. Var samt mjög spenntur fyrir þessum skemmtilega bjór sem kemur frá Ragga hjá EFLU, bjórinn kallar hann Bitri Gaurinn. ÉG veit ekki prósentuna en hann notar Pale Ale, Caramunich II og Cara Aroma malt. Humlarnir eru East Kent Goldings og Fuggles og svo enskt ölger.

Bjórinn er dálítið mikið kolsýrður, ekki beint gusher en honum liggur á að komast úr flöskunni. Mikil froða í glasi sem hverfur fljótt.Liturinn er brúnn og passar þannig við stílinn. Mattur og ósíaður sem er plús í mínum bókum.
Í nefi má finna dulitla sætu og sýrðan blæ. Malt er þarna einnig með og svo einhver ber. Örlítið járn sem hverfur þegar líður á. Í munni er um mildan bjór að ræða, töluvert kolsýrður sem truflar ekki en miðað við stíl mætti vera minna. Sætur á tungu, malt og dash af ávöxtum. Biturleika er stillt í hóf. Bjórinn er í nokkuð góðu jafnvægi þó svo að sætan nái ögn yfirhöndinni. Líklega mætti bjórinn vera beiskari miðað við stíl en fyrir mína parta er hann bara nokkuð flottur einmitt svona. Ljúft maltað eftirbragð hangir inni lengi lengi.

Já ég er mjög sáttur við þennan bjór. Bitri Gaurinn fær grænt ljós hjá mér og verður líklega til þess að ég held ég fari aftur að eiga meira við ESB og English Bitter. Takk fyrir mig!

Batman í Blautri Skikkju

Batman í Blautri Skikkju

Það er alltaf gaman að sjá hvað menn eru að pukra í skúrnum heima hjá sér.  Stundum er maður svo heppinn að fá smakkprufur af þessu gulli sem menn luma oft á.  Hér hefur mér áskotnast ofsalega flottan Imperial Stout frá gaurum er kalla sig Digri brugghús. Bjórinn kalla þeir Batman í Blautri Skikkju. Ég er ekki klár á prósentunni en gaman væri að fá kannski komment hér að neðan með þær upplýsingar frá viðkomandi bruggmeisturum.

Ég verð að segja að þessi bjór kom mér alveg í opna skjöldi.  Ég bjóst ekki við miklu, í fyrsta lagi vegna þess að ég er ekki mikið fyrir Imperial Stout, eða kannski frekar, ég er mjög kresinn á stílinn, þeir falla ekki allir í kramið.  Í öðru lagi er um heimabrugg að ræða og þar geta menn bæði gert ofsalega vondan bjór eða virkilega góðan. Maður veit ekki hvar á skalanum maður lendir fyrirfram.  Þessi var hins vegar algjörlega eitthvað sem smellpassar að mínum smekk, þróttmikill, fullskrokka monster með sætum undirtón. Það eina sem truflaði mig var kannski dálítið áberandi spritt?  Ef þessi stæði mér til boða í vínbúðinni myndi ég klárlega velja hann reglulega í körfuna mína.  Frábær bjór.  Takk fyrir mig.  Væri gaman að heyra hver höfundurinn er af merkimiðanum.

c

Citra IPA frá Digra brugghús.

Báran var svo sem ekki stök í þetta skiptið heldur flaut með annar bjór frá þeim félögum sem þeir kalla líklega bara Citra IPA ég er ekki viss.  Það er amk bara notaður Citra humall í þennan bjór ef ég hef það rétt eftir.  Prósentan á huldu en líklega í kringum 4.5-5.5%.  Citra er dálítið nýlunda humalafbrigði sem menn eru farnir að fikta dálítið við að nota í bjórinn.  Humallinn er alls ekki allra, sumir elska hann á meðan aðrir hata hann.  Humall þessi er fremur hár í svo kölluðum alfa sýrum og er hann því fremur bitur og því unt að ná fram nokkuð beiskum bjór (hátt IBU hlutfall).  Það eru einnig áberandi sítrus tónar í þessum karli.

En já bjórinn, i honum er ágætis fylling, flott beiskja og notalegur maltkeimur. Mjög ljúfur í nefi með nettum humalkeim og sítrus.  Það er hins vegar pínu funky eftirkeimur? Spurning hvort það sé humallinn eða eitthvað annað?  Virkilega gaman að bragða þetta.

Takk kærlega fyrir mig.  Við skulum sjá hvort einhverjum takist að slá þessa tvo út eða jafna 🙂

Endilega að bæta við réttum upplýsingum og ég mun uppfæra, þið sem þekkið til, hinir Digru.