Paradox Isle of Arran. Þessi bjór er hluti af svo kallaðri Paradox seríu frá Brewdog sem byggir á þeirri hugmynd að brugga imperial stout sem svo er látinn þroskast á whisky tunnum. Á þann máta dregur bjórinn í sig ýmis skemmtileg einkenni frá tunnunum sem þegar hafa tekið í sig hluta af þeim braðflækjum sem finnast í því whisky sem í þeim lá. Þó svo að erfitt sé að fá það staðfest þá virðist það vera Rip tide imperial stoutinn þeirra Brewdogmanna sem notaður er í grunninn og svo notast þeir við whisky tunnur frá mismunandi framleiðendum. Sjálfur er ég ekkert of hrifinn af Rip tide en útkoman er allt önnur þegar hann er orðinn Paradox.
Paradox Isle of Arran er 15% imperial stout sprottinn úr tunnum frá Isle of Arran sem er skosk whiskygerð. Bjór þessi kom fyrst fram 2008 og er ekki hluti af fastri framleiðslu brugghússins en dúkkar þó upp endrum og eins. Nú fæst hann á Microbar og í sérpöntun í Vínbúðinni.
Sá harði segir : Sæt lykt stígur úr glasi með malti og ögn viðarkeim, spurning um tunnuáhrifin? Í munni er þessi frábæri bjór þróttmikill og þéttur. Flókinn á tungu með sinfoníu af stöffi fyrir laukana. Sætt malt, vínlegar nótur, ögn brenndur og heitur. Það er einnig viðarkeimur einhver sem líklega kemur frá Whisky tunnunum og svo látlaus sæt vanilla laaaangt aftur í bakgrunni. Ekki mikið whisky til staðar að mínu mati sem er kannski gott þar sem sá drykkur er alls ekki í uppáhaldi. Eftirbragð er langt, sætt og notalegt og fjarar út í dálítið etanól sem þó kemur vel út. Mikill hiti og hamingja.
Já þessi er einn af þessum flottu Imperial Stout bjórum sem Brewdog kann svo sannarlega að skapa. Ofsalega flottur og heilsteiptur bjór sem gott er að njóta einan og sér eða jafnvel enn betra…með djúsí eftirrétt t.d. heitri eplaköku með vanilluís ja eða fara „all in“ og fá sér blauta franska súkkulaðiköku með ummm.
Sá græni: Þessi er kolsvartur og hættulegur að sjá fyrir grænjaxlana. Hann er þó fallegur „black is beautiful“ og froðan kemur vel út. Í nefi er sætur keimur. Í munni er ofsalega mikið bragð og hann rífur dálítið í. Ég held að menn verði að fara varlega í þennan, í það minnsta að vita út í hvað þeir eru að fara. Þetta er alvöru bjór af ölgerð og því langt frá því að bragðast eins og Egils Gull. 15% gætu orðið mörgum ofviða. Um að gera að prófa samt.