Humarinn er bestur með?

Það er virkilega gaman að borða góðan mat og enn skemmtilegra þegar maður getur gert góðan rétt enn betri.  Það er t.d. hægt með því að sötra eitthvað ljúft með.  Nú er loksins komið sumar hér á klakanum og því má búast við að landsmenn fari að taka fram grillið og brasa eitthvað gott.  Humar er vinsæll á grillið og þá tala menn og konur oftast um humar og hvítt.  Það er virkilega góð blanda, ískalt hvítvín með hvítlauksristuðum humarhölum, salt og pipar og nóóóg af smjöri ummmm!  Það má þó ekki gleyma bjórnum í þessum efnum því hann býður enn einn vinkilinn og getur einfaldlega gert stórkostlega hluti fyrir humarinn.

Það þarf vart að taka fram að ekki er hægt að grilla humar nema sötra ljúfan bjór með það er amk mín upplifun.  Ef ég gleymi bjórnum við grillið þá fer yfirleitt ekki vel.  Það er svo sem ekki höfuðmál með hvaða bjór maður velur við grillið en sumar bjórgerðir passa betur en aðrar við humarinn.  Um daginn tókst mér næla mér í fullkomna humarhala af stærstu gerð frá Höfn.  Að vana lét ég þá liggja í smjöri, hvítlauk og dash af hvítvíni.  Kryddaði með salti og pipar og skellti á grillið.  Humarinn var álíka ljúfur og hann kostaði mig það vantaði ekki en hann varð enn betri með bjórnum.  Mér datt í hug að reyna belgískan bjór að þessu sinni og valdi einn af mínum uppáhalds, Tripel Karmeliet, hann hefur meiri prósentu en venjulegu lagerbjórarnir sem er ljómandi þar sem sumarið er enn ekki komið á fullt blúss og gott að fá smá hita í kroppinn.  Bjórinn  er margslunginn með kryddaðar nótur sem og ávexti og sætu.  Engir beiskir humlar sem stela senunni hér.  Þetta dansaði allt fullkomlega vel saman við humarinn og mun ég líklega taka þetta „kombó“ aftur næst.  Mæli með þessu, bjórinn fæst í Vínbúðinni og er vel hverrar krónu virði.

Aðrir bjórstílar koma einnig vel út með humarnum, ég er t.d. alltaf mjög ánægður með ískalda hveitibjórinn, belgískan eða þýskan.  Þessir karlar eru mildir og ferskir og fremur látlausir sem er mikilvægt.  Humar er „delicate“ matvara sem alls ekki má kaffæra með sterkum drykk.  Venjulegur lager, þá helst premium gengur einnig alveg.  Hann er hins vegar lítt spennandi en stundum langar mannir bara í eitthvað einfalt.  Svo eru hinir súru og þurru villibjórar, „brett“ ofsalega flottir með humar.  Þeir minna um margt á hvítvín.  Gallinn er að þessi bjórstíll er vandfundinn hér á landi.  Það er helst að líta við á Microbar eða reyna að sérpanta þá í Vínbúðinni. Belgíski blondinn er mjög góð pörun, t.d. Leffe eða La Trappe sem reyndar er hollenskur.  Þessir eru báður mildir, með góða fyllingu og dálítið sætir en þó með kryddaðan undirtón sem tónar vel við humarinn.  Fyrir þá sem vilja ögn meiri átök þá ganga belgísku Tripel bjórarnir einnig vel upp.  Westmalle Tripel td. ummm eða enn betra Orval sem blandar í raun saman tripel og brett hugmyndinni.  Hef reyndar ekki prófað þessa pörun en næst þegar ég kemst í Orval mun hann enda með heilum haug af humarhölum.  Gæti trúað að þar sé hið fullkomna hjónaband komið?  Það má reyndar benda á að nú um stundir fæst reyndar Orval „klónn“ sem kallast Arh Hvad? og kemur úr smiðju meistara Mikkeller.  Hvernig væri að prófa hann?

Það væri gaman að heyra ykkar reynslu á þessu.  Hvað hafið þið prófað með humar?

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s