Founders Imperial Stout, einn sá besti í ÁTVR í dag!

Founders Imperial Stout, einn sá besti í ÁTVR í dag!

Ég hef áður fjallað um Founders, eitt flottasta brugghús veraldar og jafnvel þótt víðar væri leitað?  Síðustu vikurnar hafa fengist nokkrir af þeirra bestu körlum á betri krám borgarinnar og via sérpöntun ÁTVR.  Kannski hafa menn þegar smakkað t.d. All Day Session IPA frá þeim en hann er með eindæmum ljúfur IPA.  Nú í gær var svo að bætast við einn ægilega flottur, einn sá besti í ÁTVR þessa dagana að okkar mati, Founders Imperial Stout.  Svona eiga Imperial Stout bjórar að vera, þeir gerast varla mikið betri.  Við hér á Bjórspekinni erum svo alls ekki einir um þessa skoðun því þessi ofsalegi karl fær 100 stig af 100 mögulegum á Ratebeer sem fyrir þá sem ekki þekkja til er stærsta bjórsamfélag veraldar á netinu.

Founders Imperial Stout er gott dæmi um bjór sem má ALLS ekki drekka af stút….og ég meina ALLS ekki. Þessi bjór þarf að vera í fallegu glasi, helst einhverju svona tulip glasi, belgmiklu og á fæti.  Ég var svo heppinn að fá að gjöf Founders glas frá félaga mínum Andra sem er einn af þeim sem ábyrgur er fyrir stórauknu bjórúrvali Íslands.  Það er dásamlegt að fylgjast með bununni þegar hellt er í glasið, koooolsvört og þykk eins og olía beint úr iðrum jarðar.  Svo myndast þessi líka fallegi froðuhaus sem hangir nokkuð vel inni.  Í nefi er heilmikið í gangi, mikil sæta, og ristað sætt malt og svo keimur sem ég kannast vel við frá fornri tíð.  Þetta er lykt sem minnir furðu mikið á súkkulaðibananakökuna sem góð vinkona mín Ólína átti stundum til að baka handa mér þegar hún var í góðu skapi.  Frábær nostalgia.  Í munni er hann mikill, áfengið finnst varla nema sem flottur hiti.  Það er mikil beiskja í honum sem er nauðsynlegt til að draga úr sætunni sem skín þó í geng.  Sopinn liggur afar vel og hann er í raun fáránlega mjúkur í munni.  Svo er þarna kaffi, súkkulaði og einhver sæta sem ég kem ekki fyrir mig og loks ofsalega snoturt eftirbragð, korn, kaffitónar og karamella jafnvel.

Ég hvet fólk til að prófa þennan bjór en hafa það þó í huga að þetta er heldur pótent bjór með mikinn skrokk og bragð sem tekur vel í.  Að gefnu tilefni vil ég svo benda á að þessi bjór minnir ekkert á Guinnes sem menn virðast alltaf við þegar kemur að svörtum bjór.
Þessi bjór er magnaður einn og sér en enn betri með einhverju gúmmilaði og ég skora á ykkur að prófa með vanilluís með heitri súkkulaðisósu eða heitri eplaköku með vanilluís og svo auðvitað súkkulaðimús og þá er jafnvel hægt að hella örlítið af bjórnum yfir músina……maður fær bara vatn í munninn.

Þegar heimabrugg er tekið á næsta stig!

Þegar heimabrugg er tekið á næsta stig!

Stundum er ég svo heppinn að það rata á borð til mín skemmtilegir karlar úr smiðjum heimabruggara landins. Að þessu sinni er það Digri brugghús sem lofar mér að smakka.  Ég hef smakkað frá þeim tvo bjóra áður og var ég sérlega ánægður með Batman í Blautri Skikkju frá þeim, virkilega flottur imperial stout þar. Í kvöld er það hins vegar bjór sem ég hef reyndar vitað af lengi og segja má að ég hafi fylgst með fæðingu hans í gegnum munnmæli Digra manna, Imperial Stout heitir hann bara.  Ekki datt mér í hug að ég fengi smakkprufu frá þeim félögum því um afar lítið upplag er að ræða og bjórinn ofsalega spennandi og má segja afar sjaldgæfur bjór, hér á landi amk.  Ég nánast leyfi mér að fullyrða að enginn hefur bruggað svona bjór hér á landi áður.  Vissulega kannski svipað „konsept“ en ekki með svona sögu.  Já Digri notar nefnilega notaða Bourbon Whisky tunnu frá Mikkeller sem hefur verið notuð til að þroska bjór-whisky í svo kölluðu spirits verkefni Mikkellers.  Hefur einhver gert það áður hér?  Hvað sem því líður, hér er maður vitni af því þegar heimabrugg er komið á næsta stig…..“beond homebrew“ hvorki meira né minna.  Þessi magnaði bjór hefur allt að bera og jafnvel umbúðirnar gefa skýr skilaboð um fágaða og vandaða vöru.  Sjálfur hef ég verið með á „todo“ listanum mínum lengi að vaxa flöskutappann á mínu heimabruggi líkt og Mikkeller, Three Floyds og allir þessir stóru flottu gera svo gjarnan með eðalölið sitt.  Hingað til hef ég bara ekki gert nógu flott og pótent öl sem á það skilið.  Digri er hér kominn með öl sem eiginlega verður bara að vera innsiglað á svona elegant máta.  Miðinn er svo annað mál og ekki minna en þar má sjá virkilega elegant en einfalda mynd sem kemur afar smekklega út.  Fullt hús stiga fyrir umbúðirnar.

Bjórinn er kolsvartur og flottur með nettan froðuhaus sem heldur velli.  Ég valdi að sjálfsögðu flott Mikkeller glas undir þennan Digra/Mikkeller fusion bjór ef svo má segja.  Það er svo ofsalega flottur kemur í nefi þar sem viður er áberandi og klárlega whisky.  Það er svo ööööörlítill aukakeimur sem ég stundum finn af heimabruggi og stundum truflar mig.  Veit ekki hvaða þetta kemur, í kvöld hins vegar er svo mikið annað sem fangar athygli mína í nefi að þetta truflar alls ekkert.
Í munni er mikið að gerast, gríðarlegt bragð, mikill hiti og hamagangur og svo er bourbon whisky allsráðandi.  Ofsalega flottur keimur.  Humlar gefa einnig flotta beiskju og svo kemur einhver notaleg vínleg sæta fram þegar líður á.  Eftirbragð hugljúft og gott og maður einfaldlega verður að drífa sig í næsta sopa.

Já þessi guttar eiga hrós skilið, þennan bjór gæti maður hæglega séð á svona 2000 kr í ÁTVR ef hann væri í sölu.  Kærar þakkir fyrir mig!!!

Foie Gras og Imperial Stout – einhver smakkað?

Foie Gras og Imperial Stout!

Chartier ofsalega vinsæll en ofmetinn?

Kannast einhver við staðinn? Ég valdi þessa mynd því á þessum stað í París fékk ég það besta Foie gras sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Ég er reyndar ekki mikill Foie gras maður í þeim skilningi að ég fæ það í raun sjaldan.  Rétturinn getur verð ofsalega góður eða bara eiginlega vondur.  Þetta er dálítið eins og créme brulée, hef smakkað ótal margar útgáfur, það virðist vera hægt að gera þann rétt á óendalega marga máta.  Nóg um það, staðurinn sem ég er að tala um þarna á myndinni heitir Chartier og ku vera ofsalega vinsæll resturant í París.  Okkur var bent á það af heimamönnum að fara þarna svo við gerðum það, staðurinn á að vera ódýr og með hágæða mat.  Við stóðum í ofsalegri röð til að komast þarna inn.  Þegar inn var komið tók við stór salur fullur af fólki.  Allt á iði, brjáluð læti, þjónar hlaupandi út um allt kófsveittir og með blæðandi magasár af stressi.  Við tókum eftir því á meðan við biðum eftir matseðlinum að fólk var nánast rekið út um leið og það renndi niður síðasta bitanum.  Ekki alveg staðurinn til að eiga rómatíska stund en samt heilmikil upplifun og í raun alveg þess virði að fara þarna bara til að fá besta Foie gras í heimi!!!

Nú er ég mikið að spá í pörun matar og bjórs.  Þegar ég sat þarna og smjattaði á þessu lostæti fór ég að spá í hvaða bjór kæmi vel út með.  Rauðvínið var ágætt en bjór væri enn betra held ég.  Ég fór að máta í höfðinu og datt í hug eitthvað þróttmikið Imperial Stout eða barley wine?  Ég held að það gæti verið stórgóð blanda, þrumu bjór, mikið bragð og svo mjúkur ofsalega ljúfur Foie gras ummmm.  Vandinn er að bjórinn er ekki til þar sem maður fær réttinn eða öfugt.  Það er því ekki hlaupið að þessu.  Hvað haldið þið lesendur góðir?  Hefur einhver smakkað þessa pörun? Getur annars einhver bent á stað sem býður uppá góðan Foie gras?

Brewdog Paradox Isle of Arran

IMG_2201-1

Paradox Isle of Arran.  Þessi bjór er hluti af svo kallaðri Paradox seríu frá Brewdog sem byggir á þeirri hugmynd að brugga imperial stout sem svo er látinn þroskast á whisky tunnum.   Á þann máta dregur bjórinn í sig ýmis skemmtileg einkenni frá tunnunum sem þegar hafa tekið í sig hluta af þeim braðflækjum sem finnast í  því whisky sem í þeim lá.  Þó svo að erfitt sé að fá það staðfest þá virðist það vera Rip tide imperial stoutinn þeirra Brewdogmanna sem notaður er í grunninn og svo notast þeir við whisky tunnur frá mismunandi framleiðendum.  Sjálfur er ég ekkert of hrifinn af Rip tide en útkoman er allt önnur þegar hann er orðinn Paradox.

Paradox Isle of Arran er 15% imperial stout sprottinn úr tunnum frá Isle of Arran sem er skosk whiskygerð.  Bjór þessi kom fyrst fram 2008 og er ekki hluti af fastri framleiðslu brugghússins en dúkkar þó upp endrum og eins. Nú fæst hann á Microbar og í sérpöntun í Vínbúðinni.

Sá harði segir : Sæt lykt stígur úr glasi með malti og ögn viðarkeim, spurning um tunnuáhrifin?  Í munni er þessi frábæri bjór þróttmikill og þéttur.  Flókinn á tungu með sinfoníu af stöffi fyrir laukana.  Sætt malt, vínlegar nótur, ögn brenndur og heitur.  Það er einnig viðarkeimur einhver sem líklega kemur frá Whisky tunnunum og svo látlaus sæt vanilla laaaangt aftur í bakgrunni. Ekki mikið whisky til staðar að mínu mati sem er kannski gott þar sem sá drykkur er alls ekki í uppáhaldi.  Eftirbragð er langt, sætt og notalegt og fjarar út í dálítið etanól sem þó kemur vel út.  Mikill hiti og hamingja.

Já þessi er einn af þessum flottu Imperial Stout bjórum sem Brewdog kann svo sannarlega að skapa.  Ofsalega flottur og heilsteiptur bjór sem gott er að njóta einan og sér eða jafnvel enn betra…með djúsí eftirrétt t.d. heitri eplaköku með vanilluís ja eða fara „all in“ og fá sér blauta franska súkkulaðiköku með ummm.

Sá græni: Þessi er kolsvartur og hættulegur að sjá fyrir grænjaxlana.  Hann er þó fallegur „black is beautiful“ og froðan kemur vel út.  Í nefi er sætur keimur.  Í munni er ofsalega mikið bragð og hann rífur dálítið í.  Ég held að menn verði að fara varlega í þennan, í það minnsta að vita út í hvað þeir eru að fara.  Þetta er alvöru bjór af ölgerð og því langt frá því að bragðast eins og Egils Gull.  15% gætu orðið mörgum ofviða.  Um að gera að prófa samt.