Við Íslendingar erum skammt á veg komnir í bjórmenningu, það er ekki nein ný vitneskja svo sem. Við erum langt á eftir vel flestum öðrum þjóðum heims í þessum efnum. Skýringin sennilegast sú að við máttum ekki drekka bjór þar til nýlega en fáfræði kemur einnig við sögu. Við erum ekki nægilega bjórmenntuð þjóð. Við erum þó öll að koma til, úrval bjórs fer sífellt batnandi, bjórvitund barþjóna er hægt og rólega að komast á viðunandi form og lítil spennandi brugghús að skjóta upp kollinum. Fólk er orðið forvitið og byrjað að fikta í mismunandi bjór. Þetta er jákvæð þróun því þetta þýðir betra úrval í framtíðinni. En það má alltaf gera betur, við verðum að halda áfram á þessari braut. Það er mikilvægt að fólk sem er forvitið um þessa hluti eigi sem auðveldast með að fá aðstoð og upplýsingar því það er þannig sem bjórvitundin vex og dafnar. Það er því ógurlega pirrandi þegar maður verður vitni af beinlínis rangri miðlun upplýsinga af hendi fólks sem hefur með sölu á bjórs að gera. Þetta sé ég stundum á pöbbum borgarinnar þegar ég spyr um ákv bjór sem á boðstólnum er. Stundum vita menn akkúrat ekkert um það sem þeir eru að servera sem er jú afar miður. Eins er þetta stundum svona í Vínbúðinni góðu. Hef oft orðið vitni af því þegar fólk er að spyrja um ákv bjór að starfsfólk gefur kolrangar upplýsingar. Stundum svo mikið bull að ég hef ekki getað setið á mér og leiðrétt miskilninginn svo lítið fari fyrir. Eitt sinn heyrði ég starfsmann segja „nei nei Freyja er ekki hveitibjór, hann er síaður“ og annan segja „ taktu frekar Leffe ljósan, sá brúni er dökkur bjór og miklu bragðmeiri og ekki eins sætur“. Ekki alveg orðrétt en mjög nálægt því. Þetta er sem betur fer ekki algilt, það er fullt af fólki í bæði Vínbúðinni sem og á pöbbunum sem veit um hvað það er að tala en það má samt laga til. Myndin hér að ofan sem tekin var í gær er dálítil áminning um að það má laga margt. Manni findist eðlilegt að upplýsingar um bjórinn væru réttar í Vínbúðinni. La Trappe Witt er ekki miðlungs ljós lager heldur yfirgerjaður hveitibjór sem flokkast sem öl. La Trappe blond er heldur ekki sterkur lager, langt í frá. Ég veit ekki út í hvern er að sakast, kannski upplýsingar komnar frá innflytjanda? Kannski er einhverstaðar skrifað að notað sé lagerger í bjórinn þó ég efist um það, bruggaðferðin sem og bragð segja allt annað.
Jább, Heiðrún var það
Sýnist þetta vera tekið í Heiðrúnu, ef svo er að þá er það ekkert leyndarmál að mönnum er alveg sama um bjórinn þar á bæ.