
Gæðingur Hveitibjór
Ég hef alltaf tengt hveitibjór við sumarið. Reyndar átti það betur við þegar við bjuggum í Danmörku þar sem raunverulegur munur var á vetri og sumri. Þar var hægt að sjá sól yfir sumarið og dagarnir voru heitir. Þá er ekkert betra en að svala þorstanum með ferskum og mildm hveitibjór en ólíkt því sem margir halda að þá er hveitibjór mjög svalandi drykkur. Þessi tugga er orðin ansi tuggin en það er enn þörf á henni. Hveitibjór, þrátt fyrir nafnið er ekki eins og að drekka brauð. Hann er ekki saðsamur eins og þungt brauð. Hveitibjór er bruggaður úr blöndu af möltuðu hveitikorni og byggi. Hveitið gefur vissulega dálitla fyllingu og svo hnausþykkan froðuhaus ef rétt er að honum staðið. Bjórinn er hins vegar afar mildur og ljúfur og með lága áfengisprósentu.
Þegar þetta er frá þá getum við skoðað þennan nýja hveitibjór frá Gæðingi brugghús. Til að byrja með þá verð ég að koma að miðanum en hann er svakalegur, ég fæ ekki nóg af þessum listaverkum Hugleiks. Miðinn er með appelsínugulum blæ sem er dálítið skemmtilegt því þetta er alveg sami litur og á bjórnum þegar hann er kominn í glas. Appelsínugulur og skuggalega mattur með froðu sem reyndar nær ekki almennilegum hæðum og fjarar tiltölulega fljótt út. Sem hveitibjór þá mætti froðan vera mun meira áberandi.
Í nefi eru mildir tónar, ger og áberandi pera eins og þýskum hveitibjór sæmir. Kemur svo dálítið á óvart í munni, ég óttaðist að hann væri væminn og hálf braðglaus en svo var ekki. Þrusu bragð, ekta þýskur hveitibjór, dálítil pera sem er alls ekki of áberandi og ekkert „bubblegum“ eins og stundum er. Fylling góð án þess að verða of mikill. Ögn beiskja með sem gleðir og kætir. Flott eftirbragð.
Allt í allt, flottur hveitibjór sem hefur allt sem hveitibjór á að hafa fyrir utan froðuna. Ég mæli klárlega með þessum. Fæst stundum á krana á Microbar.
Sá græni: Þetta er flottur bjór af ölgerð. Dálítið meira bragð en maður á að venjast í lagerbjór en alls ekkert sem ætti að trufla of mikið. Beiskja er ekki of mikil en það er dálítið gerbragð sem gæti truflað ef maður er óvanur ölinu. Ég held að fólk ætti auðveldlega að ráða við þennan sem t.d. fyrsta skref úr lager yfir í ölið.