
Carnage IPA – of mikið hype!
Ég hef stundum látið í mér heyra þegar ég er ósáttur við bjórinn eða réttara sagt öll lætin sem stundum er í kringum hann. Það er svo oft þannig að menn gera mikið veður úr bjórnum sem svo reynist vera nákvæmlega eins eða amk mjög svipaður og annað sem kemur kannski frá sama brugghúsinu. Ég ætla ekki að nefna Mikkeller í þessu samhengi því þá fæ ég fólk upp á móti mér 🙂 Ég geri mér reyndar vel grein fyrir því að brugghús sem brugga aðdáunarvert mikið af nýjum bjór lendir í því að gera bjór sem svipar til annara í eigin framleiðslu það er bara þannig og gott og blessað.
Það sem er að pirra mig núna er meira það að ég lét hafa mig út í það að eltast við einn svona bjór. Bjór þessi er samsuða tveggja brugghúsa To Øl sem gerir nú orðið ansi spennandi og ljúfa bjóra, m.a. einn af mínum uppáhalds Raidbeer og svo Buxton brewery sem er enskt brugghús sem virðist vera að gera það gott, hef ekki smakkað neitt frá þeim enn sem komið er. Bjór þessi er 7% IPA sem þeir kalla Collaboration Carnage IPA. Þeir gerðu svo annan bjór í sama samhengi sem er súr 4.9% bjór byggður á sama malti og humlum og sá fyrri. Þetta var gert til gamans til að sjá hvernig svipaður grunnur getur orðið breytilegur eftir gerinu. Bjórinn kalla þeir The Sky Mountain í höfuðið á hæsta fjalli Danmerkur Himmelbjerget. Hér er um mun meira spennandi bjór að ræða.
Nóg um það, núna fyrir helgi var svo komið að því, heimsfrumsýning á bjórnum þeirra í nokkrum löndum á sama tíma á öllum stöðum. Örfáir barir í heiminum sem sagt og einn af þeim
Ale & Hop hér í Barcelona þar sem ég var einmitt staddur. Klúðrið hér er dálítið mér að kenna að hluta til því á síðu Ale & Hop er þetta auglýst og svo er linkur á merkimiða Sky Mountain. Á heimasíðu
To Øl var svo ekki beint gefið að lesa sér til um þennan heimsviðburð heldur, ég set hér inn linkinn til gamans
http://to-ol.dk/home/?p=768. Þetta ruglaði mig amk í ríminu og ég fór því spennur, þvert yfir borgina….sem nota bene er ekki lítil, í steikjandi hita til að smakka þennan svakalega bjór. Þegar ég kom á staðinn var sæmilega margt um manninn og gleði í mannskapnum, og viti menn einn af krönunum var aðgangurinn að þessum herlegheitum. Ég keypti mér stóran bjór enda ofsalega þyrstur og spenntur, súrbjór er jú virkilega góður í hita. Mér fannst samt eitthvað undarlegt við þetta allt saman þarna, sérstaklega þar sem merkingin passaði ekki við Sky Mountain 🙂 Komst svo að því að það var ekki sá bjór sem átti að vera á krana heldur þessi Collaboration Carnage. Í æsingnum yfir því að fá að smakka Sky Mountain hafði ég bara lokað á Carnage IPA bjórinn, magnað alveg. Bjórinn var samt fínn, venjulegur IPA en akkúrat ekkert meira en það. Þéttur og fínn, með góða fyllingu. Ferskir ávextir í nefi, mango eða ástaraldinn. Í munni mikil beiskja einnig og einhver krydd, jafnvel vanilla. Ávextir ekki eins áberandi fyrir utan hefðbundinn sítruskeim/furunálar. Mjög góður bjór og verkefnið skemmtilegt. Hefði verið skemmtilegt að smakka báða bjórana saman, það er jú kjarni verkefnisins eða hvað?
Það er hins vegar á hreinu að það að eltast við þennan bjór meira en að rölta í næstu sérverslun er alls ekki þess virði. Það er akkúrat ekkert spes við þennan bjór nema kannski höfundarnir og svo það að þeir geta haft hann dýrari bara af því að hann er collab bjór.
Líkar við:
Líkar við Hleð...
Tengt efni