Garún Garún, nýr íslenskur Imperial Stout með draugalegu yfirbragði

Borg-Garún-þurrÞað hefur verið að færast í aukana að litlu íslensku brugghúsin okkar eru farin að flytja út bjórinn sinn inn á erlenda markaði sem eru mun stærri og þroskaðari en hér heima.  Ölvisholt hefur verið að gera þetta um nokkurt skeið og nú virðist Borg ætla að slást í hópinn.  Þetta er vissulega skemmtilegt uppátæki og flott landkynning en hins vegar kannski dálítið svekkjandi fyrir okkur hér sem heima sitjum og komumst kannski ekki í þennan flotta bjór fyrir vikið.

Nú er Borg brugghús komið með enn einn bjórinn, sá 19. í röðinni, þetta fer að verða eins og hjá Mikkeller slík er framleiðnin.  bjór þessi er af gerðinni Imperial Stout  og væri langþráð og kærkomin viðbót við úrvalið hér heima , það hefur nefnilega vantað dálítið imperial stout hér til þessa. Til að vera sanngjarn þá erum við vissulega með hinn magnaða Lava en hann er eins spes og hann er góður og því ekki allra og svo höfum við aðgang að Brewdog Riptide sem mér finnst persónulega ekki alveg nógu magnaður.  Það er þó ekki ástæða til að fagna strax nema reyndar maður sé búsettur í Bandaríkjunum því Borg nr 19 mun allur flytjast út til vesturheims.

Þessi nýji imperial stout eða icelandis stout eins og þeir hjá Borg kjósa að kalla kauða er dularfullur og magnþrunginn eins og góðum imperial stout sæmir enda segjast feður hans hafa verið undir áhrifum íslenskra náttúruafla og þjóðsagna þegar hann var lagður til grunna eða kannski ætti  maður frekar að segja „hún“?  Bjórinn er nefnilega fyrsta „konan“ í Borgfjölskyldunni (þó svo að Teresa nr 20 hafi reyndar sloppið út rétt á undan) og hefur hlotið nafnið Garún í höfuðið á Guðrúnu á Bægisá sem líklega var þekktust fyrir það að hafa verið ástkona Djáknans á Myrká ef marka má þjóðsögurnar.  Djákninn var svo ánægður með hana Garúnu sína að hann gekk sem kunnugt er aftur, eftir sviplegt andlát sitt í Hörgá hér forðum, til að reyna fá hana með sér í gröfina.   Þetta verða að teljast heldur góð meðmæli og er kannski lýsandi fyrir umræddan bjór einnig.

Imperial Stout er bjórstíll sem við Íslendingar erum kannski ekki svo kunnugir enda miklir lagerþambarar.  Stíllinn er hins vegar mjög vinsæll bjórstíll meðal bjórnörda og er sá stíll sem líklega oftast má sjá í efstu sætum á vinsældalistum hvers konar. Ef maður vill eiga góða möguleika á að vinna bjórkeppnir t.d. þá teflir maður fram Imperial Stout.  Stíllinn, sem er allt annað en lager, er uppruninn frá Englandi og er sprottinn af hinum vinsæla porter á þeim tíma einhvern tíman undir lok 18. aldar þegar menn fóru að gera þróttmeiri útgáfu af porternum sem kallaður var stout porter.  Orðið stout á ýmsar skýringar m.a getur það þýtt mikill, stór eða sterkur.  Stout Porter þýddi því sterkur porter eða þróttmikill porter eða eitthvað á þá leið.  Með tímanum datt svo porter hlutinn út og bjórinn var bara kallaður stout.  Imperial viðbótin skýrir sig svo að mestu sjálf, Imperial getum við þýtt sem yfir aðra hafinn, mikill, eða enn stærri?  Imperial Stout, stór stout eða mikill stout.  Hér er átt við áfengismagnið sem nær oft miklum hæðum.

Garún er svört sem nóttin, 11.5% áfengis með gríðarlegan þrótt og karakter.  Í glasi myndast hnausþykkur og drungalegur froðuhaus ofan á myrkum vökvanum sem vel mætti líkja við hina dimmu Myrká á svörtu vetrarkvöldi.  Það er megn lykt af frúnni, mikil sæta, kaffi og súkkulaði.  Í munni kemur þetta allt saman í flóknu samspili þar sem þróttur er mikill án þess að verða þrúandi.  Sætur bakgrunnur, beiskir humlar og hellingur af ristuðum kaffitónum og jafnvel lakkrís og það besta er að hið mikla áfengismagn truflar ekkert. Fyrir þá sem kannast við Surt nr 8 þá er þessi alls ekki ósvipaður.  Ofsalega flottur Icelandic Stout sem við Íslendingar getum verið stoltir af að flytja út til Bandaríkjanna. Persónulega er ég hins vegar dálítið svekktur yfir því að hafa ekki fastan aðgang að honum/henni hér.

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s