Skaði er skeður í Ölvisholti?

Skaði er skeður í Ölvisholti

Árstíðarbjórar eru orðnir heldur betur inn í dag hér á landi.  Litlu brugghúsin keppast við að brugga sérstaka bjóra fyrir sérstök tækifæri eða árstíðir.  Jólabjórinn og páskabjórinn eru t.d. nú orðið stór hluti af þessum hátíðum í hjörtu margra og í seinni tíð hafa þorrabjórar, oktoberfestbjórar og jafnvel sumarbjórar bætst í hópinn.   Árstíðabjór, eða eins og þeir segja vestanhafs, season beer er einfaldlega bjór sem bruggaður er fyrir ákveðin tíma árs og er því til í litlu magni og í stuttan tíma.  Fyrir vikið verður bjórinn dálítið meira spes og spennandi.  Mörg brugghús gera alltaf fasta árstíðarbjóra sem maður getur treyst á frá ári til árs  á meðan önnur koma með nýjar útgáfur ár hvert.  Þetta uppátæki færir bjórnum enn meiri sérstöðu því þegar hann er búinn þá kemur hann jú aldrei aftur.

Ölvisholt brugghús hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og hafa þeir í gegnum tíðina teflt fram framúrskarandi árstíðarbjórum sem aldrei eru eins á milli ára. Má þar nefna hina mögnuðu Jólabjóra sem oftast liggja í efstu sætum í smakkprófum, páskabjóra og nú síðast sumarbjórinn Röðul sem er sérlega góður IPA.  Sumarbjórinn hefur verið dálítið óskilgreint hugtak hér á landi en menn eru hér frekar nýlega farnir að brugga bjór sem þeir tengja við þennan árstíma. Þegar ég er spurður hvað ég álíti vera sumarbjór þá kemur einn bjórstíll alltaf strax upp í hugann, það er hinn belgíski saison sem einnig er kallaður sveitabjór eða farmhouse ale.  Saison kemur upphaflega frá hinum frönsku mælandi hluta Belgíu, eða Vallóníu og var áður bruggaður í litlum sveitabrugghúsum eða sveitabæjum yfir kaldari haustmánuði ársins. Bjórinn var ætlaður sem svalandi drykkur yfir sumarmánuðina og gjarnan notaður til að fagna uppskerunni á bæjunum og er það líklega þaðan sem viðurnefnið „sveitabjór“ er komið.  Bjórinn átti að vera svalandi og þægilegur en varð þó að vera nægilega sterkur til að lifa sumarmánuðina af.

Ölvisholt er þessa dagana að leggja lokahönd á að koma glænýjum bjór í búðir sem er einmitt af þessari gerð. Bjórinn kalla þeir Skaði Farmhouse Ale (7.5%) og verður hann aðeins fáanlegur hér á landi út október í litlu magni.  Skaði er semsagt árstíðarbjór og verður þá líkast til að kallast haustbjór eða kannski oktoberfestbjór?  Bjórinn verður í það minnsta ekki sumarbjór þrátt fyrir stílinn en saison fæst svo sem í dag allt árið um kring svo þetta er allt í góðu lagi.  Líklega er þekktasta dæmi um stílinn hinn magnaði Saison Dupont sem fæst meira að segja hér á landi ef menn vilja láta á reyna.
Saison stíllinn er gjarnan með áfengisprósentu í hærri kantinum 5-6.5%  án þess þó að vera of sterkur, hann er gulur eða orange að lit með flottan froðuhaus og vel kolsýrður og spriklandi. Humlar koma við sögu og gefa notalega beiskju og stundum er hann þurrhumlaður til að gæða hann meiri angann.  Bjórinn er oftast dálítið sýrður og þurr á tungu og kryddaðir tónar áberandi.
Skaði er gerjaður með frönsku geri sem samkvæmt lýsingu bruggmeistarans gefur af sér þurran bjór með miklum esterum, kryddi og sítrusangann.  Þrátt fyrir frönsku tenginuna ætti ekki að rugla bjórnum við frönsku útgáfuna af sveitabjór, Biére de Garde sem er gjarnan mýkri, sætari og á meiri malt nótum.  Ölvisholt notar að hluta til maltaðan rúg í bjórinn sinn en það styður vel við kryddkarakterinn í stílnum og gefur notalega fyllingu í bjórinn.  Rúsínan í pylsuendanum eða botnfallið í bjórglasinu kannski eru svo hvannarfræin en bruggmeistarar Ölvisholts bættu þurrkuðum alíslenskum Ölvisholts hvannarfræum við á þroskunarstiginu til að gæða bjórinn íslenskum eiginleikum.

Bjórinn kemur í skemmtilegum umbúðum þar sem minimalisminn er allsráðandi.  Einfaldur texti sem virðist handteiknaður og svo látlaus teikning af gamla góða traktornum undir sem gæti verið Zetor eða kannski Ferguson? í glasi er hann fallegur með karamellubrúnum blæ og  léttan froðuhaus.   Í nefi er sterkur keimur þar sem saman kemur ger, ávextir og krydd.  Í munni er hann áberandi gosríkur og léttur en þó bragðmikill og með dálitlum flækjum.  Saison yfirbragðið er greinilegt, beiskja er vel merkjanleg og áberandi kryddaðir tónar skapa flotta kontrasta og svo kemur hvönnin lúmskt fram í bakgrunni.  Skemmtilegur bjór sem smellpassar við Ölvisholt brugghús sem vissulega er sveitabrugghús.  Það er mat undirritaðs að bjór þessi ætti að vera fáanlegur allt árið um kring.  Flottur bjór og vandaður sem ég hvet fólk til að prófa.  Hafa ber í huga að hann er bara fáanlegur í mjög litlu upplagi því megnið af honum er flutt út til Noregs og Bandaríkjanna.

2 hugrenningar um “Skaði er skeður í Ölvisholti?

  1. Bakvísun: Stone Matt’s Burning Rosids Imperial Cherrywood smoked Saison | Bjórspeki

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s