Kvasir, fyrsti íslenski mjöður nútímans og hinn kolsvarti Surtur mæta til leiks

IMG_1069Hó hó hó, nú eru litlu jólin að hefjast hjá íslenskum bjórnördum.  Þorrinn rétt handan við hornið sem þýðir Þorrabjór eins og maður getur í sig látið.  Ég veit að ég er ekki einn um það að hafa verið að bíða í heilt ár eftir Þorrabjór Borgar 2014.  Á morgun á sjálfum bóndadeginum er þessi bið loks á enda þegar allir Þorrakarlarnir koma til bygða.  Þar á meðal er vissulega Surtur nr 23, 10% þurrhumlaður imperial stout sem án efa á eftir að gleðja blótandi Íslendinga nær og fjær en frændur hans Surt 8, 8,1 og 15 þekkja menn nú þegar hafa fengið góðar viðtökur.  Ekki nóg með það heldur tefla þeir einnig fram alveg einstökum drykk sem við megum ekki kalla bjór. Sá heitir Kvasir nr 22 sem er mjöður bruggaður eftir íslenskum hefðum.  Virkilega skemmtilegt verkefni og verður án efa gaman fyrir sanna íslenska víkinga að ryfja upp löngu gleymd kynni við þennan göruga drykk og hvaða tímasetning hentar betur en Þorramánuður fyrir svona „aftur til forfeðranna drykk“?
Nafnið er komið úr norrænu goðafræðinni en Kvasir var nokkuð sérstakur gaur sem búinn var til úr hrákum ása og vana (mismunandi tegundir guða í goðafræðinni).  Hann átti hins vegar skamma ævi því bíræfnir dvergar tveir drápu Kvasir og bjuggu til úr honum mjöð sem veitti þeim er drakk skáldargáfu.  Já nú veit ég ekki, þeir félagar Valli og Stulli er vissulega framúrskarandi bjórgerðarmenn en hvort þeir séu á stalli guða á borð við ása og vana verður að liggja á milli hluta.  Hvað sem því líður þá skópu þeir þennan bjór og mögulega, líklega kannski hafa þeir laumað nokkrum hrákaslummum með til að hafa þetta allt eftir bókinni.  Svo má til gaman geta að ef menn drekka mikið af þessum mjöð þá fer að bera á skáldargáfum, þetta á reyndar við um alla áfenga drykki ef út í það er farið.

IMG_1085Ef við kíkjum aðeins á þessa tvo drykki þá kemur Surtur (23)  í sínum svörtu  flottu fötum sem fara honum einstaklega vel.  Í glasi er hann samur við sig kolsvartur með dásemlagan froðuhaus sem hangir vel inni. Þetta er ekki alveg hinn klassíski Surtur, ef það er þá til, því nú hafa þeir notað slatta af humlum í karlinn eða eiginlega alveg haug af þeim til að hressa hann við, þurrhumlun að hætti ameríkanans!  Fyrir vikið verður þetta aðeins öðruvísi stout, mætti jafnvel kalla hann imperial black IPA því humlarnir koma vel við sögu.  Hann er þó nær því að vera bara humlaður imperial stout að mínu mati þar sem hann nær ekki alveg þessum IPA hæðum, en maður ræður svo sem bara sjálfur.  Hvort sem um ræðir þá er þetta stórgóður bjór, haugur af ferskum humlum í nefi og í munni er hann bragðmikill með meðal fyllingu.  Hann er ekki eins mjúkur og smooth eins og Surtur nr 8 þar sem humlarnir gera hann heldur hvassari.  Sætan er hæfileg en einmitt þannig vil ég hafa imperial stout, ég vil amk ekki hafa þá of þurra og ristaða.  Humlarnir skapa mjög skemmtilegt jafnvægi við ristaðan brennda kornkeiminn.  Flott og ljúft eftirbragð og áfengið kemur hvergi fyrir.  Frábær bjór sem ég held að þjóðin eigi eftir að verða ánægð með.  Svo er það geymslan, nú er nefnilega komin dálítil hefð fyrir því að geyma öflugu karlana frá Borg í amk ár.  Þetta er ágætis pæling, Surtur 23 gæti alveg komið vel út í geymslu en hann myndi vissulega tapa humlunum og þeim ferskleika.  Það er þó ekkert sem segir að hann verði verri fyrir vikið og held ég að menn verði bara að prófa og sjá hvað setur…..það er jú það sem er svo skemmtilegt við þetta sport ekki satt?

Svo er það Kvasir, fyrsti íslenski mjöður nútímans.  Til að byrja með þarf að árétta að hér er alls ekki um bjór að ræða heldur mjöð.  Mjöður á í raun meira skylt við vín ef út í það er farið en það er t.d. ekkert korn notað við gerjunina heldur hunang.  Það er því mikilvægt að demba sér í þetta með því hugarfari, ekki reyna að finna einhver bjórelement í honum.  Kvasir er síaður og  ofsalega fallegur í glasi, fullkomlega kristaltær og ljós.  Enginn froðuhaus sem að þessu sinni er viðeigandi, ekki finnum við froðu á hvítvíni t.d.   Ég hellti Kvasir í Borgar glasið en ég held að hann kæmi betur út í elegant hvítvínsglasi eða kokteilglasi jafnvel.  Í nefi eru heilmikið krydd, eitthvað sem minnir á myntu og vanillu.  Í munni er hann ofsalega bragðmikill og ferskur, heilmikil sæta en þó ekki eins og það hljómar þegar maður hugsar hunang.  Hann er dálítið þurr á tungu einnig og smá sýrður.  Minnir mjög á þurrt hvítvín með gosi, ja eða hugljúft Cava (hefði getað sagt freyðivín en er bara svo skotinn í Cava).  Þó Kvasir sé 9% þá finnur maður það hvergi í bragði, eitt prik þar.  Þessi drykkur kom mér virkilega á óvart og ég held að fleiri eiga eftir að reka upp stór augu og kunna vel að meta.  Þó svo að Þorrinn sé tilvalinn tími til að tefla svona drykk fram eins og fram hefur komið hér að ofan þá held ég að þetta sé einnig kjörinn sumardrykkur.  Ískaldur mjöður í sumarsólinni og hvað þá með sushi í stað hvítvíns, ja eða humar?  Ég hvet menn og konur til að prófa þennan flotta mjöð og kaupa nóg til að geyma fram á sumar, það er amk eitthvað sem undirritaður ætlar að gera.  Kvasir er hins vegar síaður og því lítið líf í honum og spurning hversu mikið hann breytist með aldrinum?  Ég spurði Valla af þessu fyrr í kvöld og hann sagðist bara ekki hafa hugmynd hvað myndi gerast.  Um að gera bara að prófa.
Kvasir kemur sem sagt í vínbúðina á næstu dögum, hann nær þó ekki inn fyrir morgundaginn og verða menn því að bíða fram í næstu viku.

Já báðir þessir drykkir fá mín atkvæði og enn og aftur kemur það skýrt fram hversu flott brugghús Borg er.  Ég er ekki einn um þessa skoðun því í kvöld mátti almennt heyra margar ánægjuraddir meðal fólks sem mætti í kvöld á Þorrasmakkið á K-bar.  Að venju var fullt út af dyrum. Þessir félagar hér að neðan voru mjög sáttir, bæði með Surtinn en einnig mjöðinn góða.

IMG_1082

5 hugrenningar um “Kvasir, fyrsti íslenski mjöður nútímans og hinn kolsvarti Surtur mæta til leiks

  1. Bakvísun: Bjórspeki

  2. Surt myndi ég bara geyma á dimmum stað á þessu bili sem þú tekur fram, bara ekki í kæli 🙂 Muna svo bara að hann er humlaður og áhrif þeirra dvínar með tímanum. Kannski verður úr betri bjór eða verri. T’iminn er afstæður, ár er klassískt svona til að byrja með, amk gott að smakka eftir t.d. hálft ár og ef það stefnir þá í verri bjór er bara um að gera að drekka rest. Leiðinlegt að vera með 5 ára gamlan bjór sem maður hefur ekkert smakkað á leiðinni og svo uppgötva að bjórinn hentaði engan veginn til geymslu 😉

    Kvasir er kolsýrður já!

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s