Baltic Porter frá Borg

IMG_2486
Maður er orðinn allt of góðu vanur held ég þegar maður er farinn að bíða óþolinmóður eftir næsta bjór frá Borg en nú er hann loksins kominn eða bara rétt handan við hornið.  Mér skilst að hann komi á barina í kvöld og svo í vínbúðirnar í næstu viku líklegast.  Ég held að ég sé ekki að fara rangt með heimildir þegar ég segi að þetta sé jafnframt fyrsti bjórinn sem kemur frá Borg eftir að Árni Long áður ÖB bruggari bættist í hópinn en hvernig sem er fyrsti eða annar þá skiptir það svo sem ekki máli, þetta er allt gott.  Ég býð bara Árna hér með formlega velkominn í hóp þeirra sem mega gleðja bragðlauka mína.
.     Hér erum við alla vega að tala um oktoberfestbjórinn þeirra Borgara sem þeir kalla Grétu, þetta er 7.3% baltic porter sem vel er til þess fallinn að þroska dálítið á flösku með öllum hinum stóru körlunum frá Borg. Það er bara svo gaman að sjá hvernig þessir bjórar breytast og dafna með tímanum.  Gréta fær líklega nafn sitt úr ævintýrinu um þau salgætissjúku systkin Hans og Grétu en tengingin við bjórinn er líklega sú að í hann eru notaðar 4 gerðir korns og auðvitað ger og vatn sem er jú uppistaða brauðs. Það er því heilmikið brauð í þessari kerlingu ef svo má segja, brauðmolar?
.     Porter er ekki minn uppáhalds stíll en ég dett þó annað slagið niður á mjög góða slíka, sjáum t.d. Myrkva frá Borg, og auðvitað skipta aðstæðurnar máli líka.  Gréta er reyndar ekki venjulegur porter, Gréta er baltic porter sem þýðir að maður fær alveg slatta af áfengisprósentum með í kaupunum.  Gréta er því næstum því imperial porter þó svo að hún kannski nái ekki alveg þeim stalli.  Menn vita sem þekkja mig að ég er sérlega hrifinn af öllu sem heitir imperial eða double eitthvað og því hef ég verið dulítið spenntur fyrir þessari kerlu hér.
.     Baltic porter er upphaflega kominn frá hinum baltnesku ríkjum svo sem Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi og jafnvel Rússlandi og Svíar hafa einnig verið bendlaðir við stílinn. Á 18. öld barst hinn enski porter til þessara ríkja og svo hafa menn farið að gera sína eigin útgáfu.  Þannig varð baltic porter til sem túlkun þessara ríkja á stílnum.  Stíllinn er þó ólíkur hinum enska porter hvað varðar áfengismagn sem getur orðið töluvert og er því kannski frekar hægt að líkja stílnum við hinn rómaða Russian Imperial Stout.  Baltic porter þarf alls ekki að vera af gerðinni öl eða yfirgerjaður heldur er eiginlega algengara að um lager sé að ræða.  Ég veit, þetta hljómar ekki alveg rétt eða hvað?  Þetta er mjög maltaður stíll, mikið af korni í honum og því oft nokkuð sætur og þægilegur.  Þrátt fyrir háa áfengisprósentu  þá skortir hann þróttinn sem maður fær í frændum hans imperial stout.

„Árstíminn fyrir þennan bjór er einmitt núna að mínu mati, haustið, september/oktober, það er farið að kólna í veðri sem kallar á aðeins þyngri bjór og fleiri prósentur en þó er maður ekki alveg tilbúninn í hardcore imperial vetrarbjórinn.“ Græni Karlinn

Gréta er falleg í glasi, kolsvört og glæsileg með fallegan froðuhaus sem lætur sig þó hverfa nokkuð fljótt.  Í nefi er lítið að gerast, korn, malt, brauð og svo aðeins dökkt súkkulaði?  Í munni hins vegar lifnar hann allur við og stuggar aðeins við bragðlaukunum með kitlandi gosi og humlum.  Beiskja í hófi en er þarna þó.  Hann er nokkuð mildur á tungu, það er ögn hiti í honum frá áfenginu sem kemur virkilega vel út, haustlegt!   Skrokkur er meðal til mikill en ekki þó imperial þéttleiki.  Hann er alls ekki eins sætur og ég bjóst við, maltið er þó þarna og gefur ögn karamellutón, örlítið ristaður fílingur og svo eins og einhver lakkrískeimur í lokinn.  Allt kemur þetta mjög vel út og vekur því alveg réttu lukkuna.
Þetta er bjórinn til að drekka í bústaðnum á pallinum meðan sólinn sest og haustlaufin fjúka um í öllum regnbogans litum.  Þetta er ölið sem maður drekkur eftir erfiða vakt á Landspítalanum til að róa taugarnar rétt fyrir háttinn og þetta er bjórinn sem passar með lambinu, grillmatnum og stóra flotta djúsí BBQ borgaranum.  Þetta er bara nokkuð flottur og skemmtilegur bjór.  Svo er spurning hvenær Hans kemur út?  Varður það oktoberbjórinn að ári eða bara næsti bjórinn frá Borg?

Græni Karlinn : Skemmtilegur bjór, kolsvartur en ekki þannig á bragðið, mun léttari og einfaldari bjór en maður bjóst við.  Aðeins súkkulaði og lakkrís sem kemur skemmtilega út og svo er þessi þægilegi hiti í honum.  Nokkuð sáttur bara!

Borg full of shit!

IMG_1812

Borg nr 26 Fenrir Taðreyktur IPA er merkilegur andskoti, líklega sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum bara. Já alltaf gaman að reka tungu ofan í  svona tilraunaverkefni, reyndar hafði ég smakkað taðreyktan bjór hjá Borg fyrir einhverjum 2 árum eða svo, hann var skemmtilegur og á þeim tima voru Borgarar að velta fyrir sér hvort markaðurinn myndi ráða við svona furðuverk.  Ég er Borgurum afar feginn að hafa nú látið vaða því ég átti nefnilega  mjög skemmtilegt móment með þessum bjór á pallinum í gær þar sem sólin gægðist fram á milli skýjanna í nokkrar sekúndur en þó nægilega lengi til að fullkomna mómentið.
Það var nefnilega þannig að þegar ég opnaði flöskuna kom bara öll gamla góða sveitin á móti mér. Þvílíkur hrossaskítur, ég var bara allt í einu kominn aftur í Kjósina fyrir aftan haugsuguna á bak við fjósið. Já ég er þetta gamall, ég náði nefnilega þessum gullárum þar sem ungir menn voru sendir í sveit á sumrin í kúasmölun, heyskap og annað púl. til að verða að mönnum, en nú eru víst breyttir tímar. En en aftur að  haugsugunni 🙂 þetta skemmtilega atvik var mér eignlega nánast gleymt sem er eiginlega ótrúlegt, en kannski er þetta einmitt atvik sem menn vilja ekki tala mikið um?  Hvað með það, það var heitur sumardagur og við vorum þarna tveir félagarnir, líklega 12 eða 13 ára gamlir, nýbúnir að sjúga beljuskít úr haughúsinu  undir fjósinu og smekkfylla haugsuguna sem tengd var við gamla Zetorinn þegar sá þriðji, sem reyndar var bóndinn sjálfur ákvað að setja allt í gang. Hann gerði það reyndar óvart, eða þannig voru hans útskýringar amk, en afleiðingarnar voru þær að haugsugan, eins og haugsugum er ætlað, byrjaði að spúa saur út um alla veggi og jörð og auðvitað okkur félagana tvo.  Það er eiginlega frekar súrt að ekki sé til ljósmynd af þessu.

En ok, gaman að þessu, ekki oft sem bjór tekur mann svona aftur í tímann. Fenrir er amk fullur af skít eins og haugsugan í denn, „full of shit“ eins og hinir Engilsaxnesku frændur okkar myndu orða það. Reyndar ekki beljuskít sem betur fer, slikt kæmi líklega ekki vel út.  Í raun er svo sem enginn skítur í bjórnum heldur er kornið reykt yfir hrossataði sem þannig gæðir kornið þessum eiginleikum.  Í munni er taðið nokkuð minna áberandi en þó vel merkjanlegt og reykurinn dásamlegur. Þetta er bjór sem kallar á mat, fullkominn matarbjór og ég sé strax fyrir mér einhverja flotta reykta ítalska pylsu og franska osta, eða massífa grillsteik. En já mjög sérstakur bjór er óhætt að segja, ég sakna þó dálítið meiri beiskju, hefði viljað meira humalbit með þessum skít enda um IPA að ræða. Engu að síður, ofsalega skemmtilegur bjór.

Græni karlinn var hins vegar ekki eins spenntur, „kúkalykt“ voru hans orð þegar hann prófaði bjórinn fyrst.  Það er nefnilega þannig að menn og konur verða held ég að fara í þennan bjór með alveg opnum hug og ekki missa gleðina ef bjórinn er skrítinn….þessi bjór Á NEFNILEGA AÐ VERA SKRÍTINN!