Baltic Porter frá Borg

IMG_2486
Maður er orðinn allt of góðu vanur held ég þegar maður er farinn að bíða óþolinmóður eftir næsta bjór frá Borg en nú er hann loksins kominn eða bara rétt handan við hornið.  Mér skilst að hann komi á barina í kvöld og svo í vínbúðirnar í næstu viku líklegast.  Ég held að ég sé ekki að fara rangt með heimildir þegar ég segi að þetta sé jafnframt fyrsti bjórinn sem kemur frá Borg eftir að Árni Long áður ÖB bruggari bættist í hópinn en hvernig sem er fyrsti eða annar þá skiptir það svo sem ekki máli, þetta er allt gott.  Ég býð bara Árna hér með formlega velkominn í hóp þeirra sem mega gleðja bragðlauka mína.
.     Hér erum við alla vega að tala um oktoberfestbjórinn þeirra Borgara sem þeir kalla Grétu, þetta er 7.3% baltic porter sem vel er til þess fallinn að þroska dálítið á flösku með öllum hinum stóru körlunum frá Borg. Það er bara svo gaman að sjá hvernig þessir bjórar breytast og dafna með tímanum.  Gréta fær líklega nafn sitt úr ævintýrinu um þau salgætissjúku systkin Hans og Grétu en tengingin við bjórinn er líklega sú að í hann eru notaðar 4 gerðir korns og auðvitað ger og vatn sem er jú uppistaða brauðs. Það er því heilmikið brauð í þessari kerlingu ef svo má segja, brauðmolar?
.     Porter er ekki minn uppáhalds stíll en ég dett þó annað slagið niður á mjög góða slíka, sjáum t.d. Myrkva frá Borg, og auðvitað skipta aðstæðurnar máli líka.  Gréta er reyndar ekki venjulegur porter, Gréta er baltic porter sem þýðir að maður fær alveg slatta af áfengisprósentum með í kaupunum.  Gréta er því næstum því imperial porter þó svo að hún kannski nái ekki alveg þeim stalli.  Menn vita sem þekkja mig að ég er sérlega hrifinn af öllu sem heitir imperial eða double eitthvað og því hef ég verið dulítið spenntur fyrir þessari kerlu hér.
.     Baltic porter er upphaflega kominn frá hinum baltnesku ríkjum svo sem Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi og jafnvel Rússlandi og Svíar hafa einnig verið bendlaðir við stílinn. Á 18. öld barst hinn enski porter til þessara ríkja og svo hafa menn farið að gera sína eigin útgáfu.  Þannig varð baltic porter til sem túlkun þessara ríkja á stílnum.  Stíllinn er þó ólíkur hinum enska porter hvað varðar áfengismagn sem getur orðið töluvert og er því kannski frekar hægt að líkja stílnum við hinn rómaða Russian Imperial Stout.  Baltic porter þarf alls ekki að vera af gerðinni öl eða yfirgerjaður heldur er eiginlega algengara að um lager sé að ræða.  Ég veit, þetta hljómar ekki alveg rétt eða hvað?  Þetta er mjög maltaður stíll, mikið af korni í honum og því oft nokkuð sætur og þægilegur.  Þrátt fyrir háa áfengisprósentu  þá skortir hann þróttinn sem maður fær í frændum hans imperial stout.

„Árstíminn fyrir þennan bjór er einmitt núna að mínu mati, haustið, september/oktober, það er farið að kólna í veðri sem kallar á aðeins þyngri bjór og fleiri prósentur en þó er maður ekki alveg tilbúninn í hardcore imperial vetrarbjórinn.“ Græni Karlinn

Gréta er falleg í glasi, kolsvört og glæsileg með fallegan froðuhaus sem lætur sig þó hverfa nokkuð fljótt.  Í nefi er lítið að gerast, korn, malt, brauð og svo aðeins dökkt súkkulaði?  Í munni hins vegar lifnar hann allur við og stuggar aðeins við bragðlaukunum með kitlandi gosi og humlum.  Beiskja í hófi en er þarna þó.  Hann er nokkuð mildur á tungu, það er ögn hiti í honum frá áfenginu sem kemur virkilega vel út, haustlegt!   Skrokkur er meðal til mikill en ekki þó imperial þéttleiki.  Hann er alls ekki eins sætur og ég bjóst við, maltið er þó þarna og gefur ögn karamellutón, örlítið ristaður fílingur og svo eins og einhver lakkrískeimur í lokinn.  Allt kemur þetta mjög vel út og vekur því alveg réttu lukkuna.
Þetta er bjórinn til að drekka í bústaðnum á pallinum meðan sólinn sest og haustlaufin fjúka um í öllum regnbogans litum.  Þetta er ölið sem maður drekkur eftir erfiða vakt á Landspítalanum til að róa taugarnar rétt fyrir háttinn og þetta er bjórinn sem passar með lambinu, grillmatnum og stóra flotta djúsí BBQ borgaranum.  Þetta er bara nokkuð flottur og skemmtilegur bjór.  Svo er spurning hvenær Hans kemur út?  Varður það oktoberbjórinn að ári eða bara næsti bjórinn frá Borg?

Græni Karlinn : Skemmtilegur bjór, kolsvartur en ekki þannig á bragðið, mun léttari og einfaldari bjór en maður bjóst við.  Aðeins súkkulaði og lakkrís sem kemur skemmtilega út og svo er þessi þægilegi hiti í honum.  Nokkuð sáttur bara!

Borg full of shit!

IMG_1812

Borg nr 26 Fenrir Taðreyktur IPA er merkilegur andskoti, líklega sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum bara. Já alltaf gaman að reka tungu ofan í  svona tilraunaverkefni, reyndar hafði ég smakkað taðreyktan bjór hjá Borg fyrir einhverjum 2 árum eða svo, hann var skemmtilegur og á þeim tima voru Borgarar að velta fyrir sér hvort markaðurinn myndi ráða við svona furðuverk.  Ég er Borgurum afar feginn að hafa nú látið vaða því ég átti nefnilega  mjög skemmtilegt móment með þessum bjór á pallinum í gær þar sem sólin gægðist fram á milli skýjanna í nokkrar sekúndur en þó nægilega lengi til að fullkomna mómentið.
Það var nefnilega þannig að þegar ég opnaði flöskuna kom bara öll gamla góða sveitin á móti mér. Þvílíkur hrossaskítur, ég var bara allt í einu kominn aftur í Kjósina fyrir aftan haugsuguna á bak við fjósið. Já ég er þetta gamall, ég náði nefnilega þessum gullárum þar sem ungir menn voru sendir í sveit á sumrin í kúasmölun, heyskap og annað púl. til að verða að mönnum, en nú eru víst breyttir tímar. En en aftur að  haugsugunni 🙂 þetta skemmtilega atvik var mér eignlega nánast gleymt sem er eiginlega ótrúlegt, en kannski er þetta einmitt atvik sem menn vilja ekki tala mikið um?  Hvað með það, það var heitur sumardagur og við vorum þarna tveir félagarnir, líklega 12 eða 13 ára gamlir, nýbúnir að sjúga beljuskít úr haughúsinu  undir fjósinu og smekkfylla haugsuguna sem tengd var við gamla Zetorinn þegar sá þriðji, sem reyndar var bóndinn sjálfur ákvað að setja allt í gang. Hann gerði það reyndar óvart, eða þannig voru hans útskýringar amk, en afleiðingarnar voru þær að haugsugan, eins og haugsugum er ætlað, byrjaði að spúa saur út um alla veggi og jörð og auðvitað okkur félagana tvo.  Það er eiginlega frekar súrt að ekki sé til ljósmynd af þessu.

En ok, gaman að þessu, ekki oft sem bjór tekur mann svona aftur í tímann. Fenrir er amk fullur af skít eins og haugsugan í denn, „full of shit“ eins og hinir Engilsaxnesku frændur okkar myndu orða það. Reyndar ekki beljuskít sem betur fer, slikt kæmi líklega ekki vel út.  Í raun er svo sem enginn skítur í bjórnum heldur er kornið reykt yfir hrossataði sem þannig gæðir kornið þessum eiginleikum.  Í munni er taðið nokkuð minna áberandi en þó vel merkjanlegt og reykurinn dásamlegur. Þetta er bjór sem kallar á mat, fullkominn matarbjór og ég sé strax fyrir mér einhverja flotta reykta ítalska pylsu og franska osta, eða massífa grillsteik. En já mjög sérstakur bjór er óhætt að segja, ég sakna þó dálítið meiri beiskju, hefði viljað meira humalbit með þessum skít enda um IPA að ræða. Engu að síður, ofsalega skemmtilegur bjór.

Græni karlinn var hins vegar ekki eins spenntur, „kúkalykt“ voru hans orð þegar hann prófaði bjórinn fyrst.  Það er nefnilega þannig að menn og konur verða held ég að fara í þennan bjór með alveg opnum hug og ekki missa gleðina ef bjórinn er skrítinn….þessi bjór Á NEFNILEGA AÐ VERA SKRÍTINN!

Góðar veigar í sólinni…sólveigar?

Nú er sólin að koma fram og þá er gott að drekka góðar veigar...sólveigar? „Sumarið er tíminn þegar kvenfólk springur út“ söng skáldið eitt sinn og vissulega er eitthvað sannleikskorn í því.  Sumarið er einnig tíminn fyrir sól og svalandi  veigar eða það finnst okkur hér á bjórspeki amk.  Það vill svo skemmtilega til að Borg brugghús virðist líka sömu skoðunnar því þeir hafa nú skapað enn einn bjórinn, sumarveigar sem  þeir kalla Sólveig og er rétt að taka það fram að undirritaður er stórhrifinn af nafngiftinni enda ekki annað hægt ég meina kommon, sól og veigar! Það sama á reyndar við um bjórinn sem er stórgóður.  Um ræðir þýskan hveitibjór með haug af humlum af amrískum toga og má því tala hér um amerískþýskan hveiti IPA en þessi bjórstíll hefur verið dálítið vinsæll undanfarið meðal bjórnörda.  Með þessu móti fær maður fram svalandi áhrif hveitibjórsins sem er svo dásamlegur í sumarsólinni en svo þetta ómótstæðilega humalkick úr humlunum sem gerir bjórinn svo vanabindandi.  Þessa eiginleika tekst þeim hjá Borg vel að ná fram að mati okkar hér.  Bjórinn er fallegur í glasi, gruggugur og flottur með myndar haus.  Í nefi er þessi einkennandi gerkeimur sem gefur svo áberandi ávaxtakeim sem minnir helst á banana.  Humlarnir koma svo einnig vel fram og tvinnast inn í þetta með mjög skemmtilegri útkomu. Í munni er bjórinn afar hressandi, fylling í meðallagi, hann er mildur og svalandi eins og sumarbjór á að vera og humlarnir alveg mátulega áberandi með sína beiskju og blómlegheit.  Ég myndi segja að hér væri frábær bjór fyrir þá sem fíla hveitibjórinn en vilja svo eitthvað aðeins meira bit.  Þessi bjór verður einn af sumarbjórunum okkar hér á Bjórspekinni þetta árið.

Það má svo taka það fram að bjórinn fæst nú á krana víða, m.a. á Skúla Craft Bar og líklega víðar og svo er hann kominn í ríkið líka?

Kvasir, fyrsti íslenski mjöður nútímans og hinn kolsvarti Surtur mæta til leiks

IMG_1069Hó hó hó, nú eru litlu jólin að hefjast hjá íslenskum bjórnördum.  Þorrinn rétt handan við hornið sem þýðir Þorrabjór eins og maður getur í sig látið.  Ég veit að ég er ekki einn um það að hafa verið að bíða í heilt ár eftir Þorrabjór Borgar 2014.  Á morgun á sjálfum bóndadeginum er þessi bið loks á enda þegar allir Þorrakarlarnir koma til bygða.  Þar á meðal er vissulega Surtur nr 23, 10% þurrhumlaður imperial stout sem án efa á eftir að gleðja blótandi Íslendinga nær og fjær en frændur hans Surt 8, 8,1 og 15 þekkja menn nú þegar hafa fengið góðar viðtökur.  Ekki nóg með það heldur tefla þeir einnig fram alveg einstökum drykk sem við megum ekki kalla bjór. Sá heitir Kvasir nr 22 sem er mjöður bruggaður eftir íslenskum hefðum.  Virkilega skemmtilegt verkefni og verður án efa gaman fyrir sanna íslenska víkinga að ryfja upp löngu gleymd kynni við þennan göruga drykk og hvaða tímasetning hentar betur en Þorramánuður fyrir svona „aftur til forfeðranna drykk“?
Nafnið er komið úr norrænu goðafræðinni en Kvasir var nokkuð sérstakur gaur sem búinn var til úr hrákum ása og vana (mismunandi tegundir guða í goðafræðinni).  Hann átti hins vegar skamma ævi því bíræfnir dvergar tveir drápu Kvasir og bjuggu til úr honum mjöð sem veitti þeim er drakk skáldargáfu.  Já nú veit ég ekki, þeir félagar Valli og Stulli er vissulega framúrskarandi bjórgerðarmenn en hvort þeir séu á stalli guða á borð við ása og vana verður að liggja á milli hluta.  Hvað sem því líður þá skópu þeir þennan bjór og mögulega, líklega kannski hafa þeir laumað nokkrum hrákaslummum með til að hafa þetta allt eftir bókinni.  Svo má til gaman geta að ef menn drekka mikið af þessum mjöð þá fer að bera á skáldargáfum, þetta á reyndar við um alla áfenga drykki ef út í það er farið.

IMG_1085Ef við kíkjum aðeins á þessa tvo drykki þá kemur Surtur (23)  í sínum svörtu  flottu fötum sem fara honum einstaklega vel.  Í glasi er hann samur við sig kolsvartur með dásemlagan froðuhaus sem hangir vel inni. Þetta er ekki alveg hinn klassíski Surtur, ef það er þá til, því nú hafa þeir notað slatta af humlum í karlinn eða eiginlega alveg haug af þeim til að hressa hann við, þurrhumlun að hætti ameríkanans!  Fyrir vikið verður þetta aðeins öðruvísi stout, mætti jafnvel kalla hann imperial black IPA því humlarnir koma vel við sögu.  Hann er þó nær því að vera bara humlaður imperial stout að mínu mati þar sem hann nær ekki alveg þessum IPA hæðum, en maður ræður svo sem bara sjálfur.  Hvort sem um ræðir þá er þetta stórgóður bjór, haugur af ferskum humlum í nefi og í munni er hann bragðmikill með meðal fyllingu.  Hann er ekki eins mjúkur og smooth eins og Surtur nr 8 þar sem humlarnir gera hann heldur hvassari.  Sætan er hæfileg en einmitt þannig vil ég hafa imperial stout, ég vil amk ekki hafa þá of þurra og ristaða.  Humlarnir skapa mjög skemmtilegt jafnvægi við ristaðan brennda kornkeiminn.  Flott og ljúft eftirbragð og áfengið kemur hvergi fyrir.  Frábær bjór sem ég held að þjóðin eigi eftir að verða ánægð með.  Svo er það geymslan, nú er nefnilega komin dálítil hefð fyrir því að geyma öflugu karlana frá Borg í amk ár.  Þetta er ágætis pæling, Surtur 23 gæti alveg komið vel út í geymslu en hann myndi vissulega tapa humlunum og þeim ferskleika.  Það er þó ekkert sem segir að hann verði verri fyrir vikið og held ég að menn verði bara að prófa og sjá hvað setur…..það er jú það sem er svo skemmtilegt við þetta sport ekki satt?

Svo er það Kvasir, fyrsti íslenski mjöður nútímans.  Til að byrja með þarf að árétta að hér er alls ekki um bjór að ræða heldur mjöð.  Mjöður á í raun meira skylt við vín ef út í það er farið en það er t.d. ekkert korn notað við gerjunina heldur hunang.  Það er því mikilvægt að demba sér í þetta með því hugarfari, ekki reyna að finna einhver bjórelement í honum.  Kvasir er síaður og  ofsalega fallegur í glasi, fullkomlega kristaltær og ljós.  Enginn froðuhaus sem að þessu sinni er viðeigandi, ekki finnum við froðu á hvítvíni t.d.   Ég hellti Kvasir í Borgar glasið en ég held að hann kæmi betur út í elegant hvítvínsglasi eða kokteilglasi jafnvel.  Í nefi eru heilmikið krydd, eitthvað sem minnir á myntu og vanillu.  Í munni er hann ofsalega bragðmikill og ferskur, heilmikil sæta en þó ekki eins og það hljómar þegar maður hugsar hunang.  Hann er dálítið þurr á tungu einnig og smá sýrður.  Minnir mjög á þurrt hvítvín með gosi, ja eða hugljúft Cava (hefði getað sagt freyðivín en er bara svo skotinn í Cava).  Þó Kvasir sé 9% þá finnur maður það hvergi í bragði, eitt prik þar.  Þessi drykkur kom mér virkilega á óvart og ég held að fleiri eiga eftir að reka upp stór augu og kunna vel að meta.  Þó svo að Þorrinn sé tilvalinn tími til að tefla svona drykk fram eins og fram hefur komið hér að ofan þá held ég að þetta sé einnig kjörinn sumardrykkur.  Ískaldur mjöður í sumarsólinni og hvað þá með sushi í stað hvítvíns, ja eða humar?  Ég hvet menn og konur til að prófa þennan flotta mjöð og kaupa nóg til að geyma fram á sumar, það er amk eitthvað sem undirritaður ætlar að gera.  Kvasir er hins vegar síaður og því lítið líf í honum og spurning hversu mikið hann breytist með aldrinum?  Ég spurði Valla af þessu fyrr í kvöld og hann sagðist bara ekki hafa hugmynd hvað myndi gerast.  Um að gera bara að prófa.
Kvasir kemur sem sagt í vínbúðina á næstu dögum, hann nær þó ekki inn fyrir morgundaginn og verða menn því að bíða fram í næstu viku.

Já báðir þessir drykkir fá mín atkvæði og enn og aftur kemur það skýrt fram hversu flott brugghús Borg er.  Ég er ekki einn um þessa skoðun því í kvöld mátti almennt heyra margar ánægjuraddir meðal fólks sem mætti í kvöld á Þorrasmakkið á K-bar.  Að venju var fullt út af dyrum. Þessir félagar hér að neðan voru mjög sáttir, bæði með Surtinn en einnig mjöðinn góða.

IMG_1082

Teresa frá Borg, girnileg á Oktoberfest

photo (3)Nú fer senn að líða Oktoberfest, hinni árlegu risabjórhátíð í Munchen þar sem íturvaxnar barmmiklar bjórþernur færa í þyrstann líðinn bjór í lítravís og blindfullir karlar í leðursmekkbuxum syngja og tralla eins og enginn væri morgundagurinn.  Bjórhátíð þessi hefur smitað út frá sér í gegnum tíðina og má nú finna litlar útgáfur af oktoberfest víða um veröld.  Hér á landi tíðkast að halda svona bjórveislur í fyrirtækjum, á krám og nú það nýjasta, í tjaldi á Háskólalóðinni í kringum mánaðarmótin september/oktober.  Stóru brugghúsin í Þýskalandi, í kringum Munchen brugga ár hvert sérstakan oktoberfestbjór sem drekka á á þessari gríðarlegu bjórhátíð. Hér á landi eru menn einnig farnir að fikta dálítið við að brugga bjór að þessu tilefni.  Sumir halda í hefðina og brugga bjórinn eftir þýskum hefðum, svo kallaðan Märzen bjór sem bruggaður var í mars og svo látinn gerjast í rólegheitunum yfir sumarmánuðina þannig að hann væri tilbúinn til drykkju í lok september þegar Oktoberfest geisar sem hæst.  Upphaflegi Märzen bjórinn var dökkur lagerbjór en í kringum 1870 náði önnur tegund vinsældum og tók við af gamla dökka bjórnum.  Sá bjór var sterkari bjór af gerðinni Vienna lager eða amber-rauður lager sem bruggaður var í mars líkt og hinn upphaflegi Märzen.  Í dag er dálítið mismunandi hvernig menn brugga þennan bjór, Kanarnir halda sig enn við hina rauðu eða amber bjóra á meðan Evrópa er meira í gylltu tæru bjórunum.
Það eru þó alls ekki einhver fastskrifuð lög um hvernig oktoberfestbjór á að vera, menn hafa jú alveg frjálsar hendur í þeim efnum en oftast má finna einhverja tengingu við hátíðina.  Árið 2011 kom Borg með sinn fyrsta oktoberfestbjór sem hét einfaldlega Október (5), ekki minn uppáhalds Borgarbjór samt en fín pæling engu að síður.  Í fyrra kom svo annar oktoberfestbjór frá þeim, sá hét Lúðvík í höfuðið á Lúðvík I. sem ríktí í Bæjaralandi í upphafi 19. aldar.  Bjórinn var af gerðinni doppelbock sem er sterkur þýskur bjórstíll.  Nafngiftin var bæði virðuleg og afar viðeigandi því þegar Lúðvík, þá krónprins af Bæjaralandi, giftist fyrstu konu sinni Theresu þann 12. október 1810 sló hann til gríðar mikillar veislu í Munchen svo þegnar hans gætu glaðst með honum. Þessi hátíð festist svo í sessi sem Oktoberfest æ síðan.  Í ár er komið að nýjum oktoberfestbjór frá Borg, sá er nr 20 í röðinni. Um að ræða dálítið óvenjulegan stíl, India Red Lager, stíll sem líklega er ekki formlega til en hefur þó verið bruggaður í hinni víðri veröld áður.  Segja má að stíllinn sé blanda af India Pale Ale og Red Lager eða Vienna Amber/Red.  Menn eru hér með tenginguna við vinsæla Märzen bjórinn (Amber/Red Lager) en hafa svo poppað hann dálítið upp með humlum, frábær hugmynd! Önnur tenging er svo nafnið en svo virðist sem þeir hjá Borg hafi ákveðið að jafna kynjahlutfallið dálítið í bjórfjölskyldu sinni og eru farnir að nefna bjórinn sinn kvenkyns nöfnum.  Fyrst var það Garún (19) sem reyndar er ekki enn kominn í sölu (fer ekki í sölu hérlendis) og svo þessi, Teresa.  Til eru nokkrar merkar Teresur í sögunni sem og Lúðvíkar ef út í það er farið. María Teresa t.d. sem fædd var í

teresa

Teresa var flott og efnileg eins og bjórinn frá Borg

Vín og ríkti yfir Austurríki, Króatíu, Ungverjalandi og Bæheimi og víðar á 18. öld og önnur Maria Theresa, Spánardrottning sem var að dandalast með Lúðvík 14. Frakklandskonungi um miðja 18. öld.  Hér væri auðvelt að rugla saman parinu frá Borg og þessum tveim.  Umrædd Teresa sem hét reyndar Therese Charlotte Luise, full langt fyrir bjórmiða, var hins vegar uppi dálítið seinna eða í upphafi 19. aldar og sem fyrr segir giftist hún Lúðvík 1. á fyrstu Oktoberfest sögunnar.  Gaman að þessu. Spurningin er svo hvað oktoberfestbjórinn frá Borg mun heita að ári? Að nóg er að taka því þau skötuhjú áttu ein 9 börn , Maximilian , Mathilde Caroline, Otto, Theodelinde, Luitpold, Adelgunde, Hildegard , Alexandra og Adalbert.
Nóg um heimssöguna, bloggið á vissulega að fjalla um bjórinn. Teresa er ofsalega flott í glasi, koparlituð með fallega þétta froðu.  Í nefi má finna ljúfa tóna og sæta sem líklega kemur frá humlunum frekar en maltinu, dulítið af ávöxtum og svo korn.  Virkilega ljúffengt.  Í munni er hann bragðmikill og skemmtilega flókinn miðað við lager.  Fylling er góð og nokkuð fín beiskja án þess þó að ná IPA hæðum.  Það er nokkur sæta á móti frá maltinu og svo einhver ávaxtakeimur og sítrus sem stafar líkast til af humlunum.  Kemur virkilega vel út.  Eftirbragð er virkilega hugljúft með mjúkum „floral“ humalkeim.   Virkilega flottur bjór frá Borg og klárlega besti oktoberbjórinn þeirra hingað til.  Hann hefur allt sem þarf, frábæra lykt, fína beiskju og svo sætan „frúttaðan“ undirtón.  Ef ég væri enn að gefa einkunnir í krúsum fengi þessi 4 krúsir sem lager.

Ástríkur kominn!

Ástríkur kominn!

Ástríkur ferðast til Spánar!

Nú er Ástríkur kominn í búðir heima, rétt fyrir Gay pride sem brestur á með öllu tilheyrandi um helgina.  Þróttmikill bjór sem vert er að prófa.  Mér skilst að hann sé til í litlu upplagi og því um að gera aö drífa sig að grípa kippu.  Sjálfur ætla ég að geyma hann í ca ár því hann er ekki alveg nægilega þroskaður enn sem komið er þó hann sé ljúfur.  Þrátt fyrir myndarleg 10% þá virkar hann bara nokkuð vel hér í 30 stiga hita í Stiges á Spáni, yfirlýstum Gay bæ rétt hjá Barcelona.  Skemmtileg stemning, ég hefði átt að taka fleiri með hingað til að boða fagnaðarerendið!

Steiktir sveppir með porter!

Steiktir sveppir með porter

Ummm sveppir eru bara dásamlegir

Mér datt í hug að deila þessu með ykkur.  Var rétt í þessu ljúka við ljúfa kvöldmáltíð.  Ég er mikið fyrir sveppi af öllum stærðum og gerðum.  Smjörsteiktir sveppir eru dásamlegt meðlæti eða bara réttur út af fyrr sig ef maður er sveppafíkill.  Í kvöld var frúin að malla pasta og sem meðlæti hafði hún ofnbakað smjörsteikt snittubrauð með sveppum og bræddum osti.  Hún lét mig sjá um að steikja sveppina þar sem ég hef sérstakt dálæti af því og hef þó ég segi sjálfur frá tekist ansi vel upp (enda ekki flókið verkefni svo sem).  Oft er best að hafa hlutina einfalda, að steikja sveppi úr smjöri og salta létt gefur góða raun en stundum er gaman að fikta og experimenta með kryddin.  Ég hef dottið niður á stórgóða kryddblöndu á sveppina.  Ég nota þetta á hamborgarann, sem meðlæti, í sósuna ofl.  Í kvöld ákvað ég að gera þessa blöndu ofan á brauðið en með dálitlu twisti að þessu sinni.  Í kvöld var ég að njóta Myrkva porter frá Borg, ég hef góða raun af því að nota hann til að sjóða upp hitt og þetta.  Ég bætti því dágóðri slettu á pönnuna, ummmm lyktin maður minn, dásamlegt alveg, ég stóðst ekki mátið og sullaði dálitlu meira á pönnuna enda spennandi að sjá hvernig þetta kæmi út, engin hætta á að skemma eitthvað hér! En já það sem ég geri annars venjulega er að steikja sveppina úr smjöri, nóg af því, krydda svo með salti, pipar, örlitlu chillikryddi og timian. Stundum steiki ég lauk með og rifinn hvítlauk, ég gerði það í kvöld.  Þetta er dásamlegt, svo þegar porterinn bætist við lyftist þetta allt upp á æðra stig og verður meira elegant og fullkomið.   Það erfiða hér er að tíma bjórnum, það verður dálítil togstreita um hvað mikið af bjór á að nota, þetta veltur bara á viljastyrk.

Þetta setti ég svo á snittubrauðin hennar Sigrúnar og hún reif svo ögn gráðost yfir, ekki of mikið því við viljum njóta sveppanna og loks rifinn ostur eftst.  Inn í ofn og svo bara njóta.

Ég átti ögn eftir að porternum sem ég gat svo drukkið með, fullkomið.