Þorrabjórinn, hvað átt þú að kaupa í ár?

IMG_1098Það er víða hægt að lesa umfjöllun um Þorrabjórinn t.d. í Fréttatímanum, Vísir, Mbl ofl ofl og bara allt gott og blessað um það að segja. Ég er hins vegar nokkuð viss um að margir lesendur verði bara ringlaðir á að lesa þetta því auðvitað fer það eftir hvaða bjórvitringar eiga í hlut hvaða bjórar lenda í efstu sætum.  Það er bara svo erfitt að gera þetta þannig að hinn almenni neytandi njóti góðs af.
Ég gæti auðveldlega sagt ykkur að Surtur (23) er langsamlega besti Þorrabjór 2014 og að Kvasir mjöður væri drykkur sem menn bara verða að smakka og láta svo bara allt hitt eiga sig. Þetta væri hins vegar bara mitt mat, það hjálpar lítið þeim sem alls ekki kunna að meta humla, stout eða mjöð! Best væri ef bjórdómarnir væri sniðnir fyrir hvern og einn sem er jú ómögulegt.  Ég er t.d. oft beðinn um ráð þegar félagar mínir standa ráðþrota í Vínbúðinni og vita ekkert hvað þeir eiga að kaupa.  Það er nokkuð auðvelt þar sem ég er farinn að þekkja bjórsmekk þessa fólks og get valið bjórinn miðað við það.   Þetta er hins vegar ekki hægt að gera með skrifum á netmiðlum. Auðvitað verða menn samt að skrifa dóma, það hvetur jú bjórframleiðindur til dáða og þeir fá kannski einhvern örlítinn vitnisburð um hvernig markaðurinn er að taka vörum þeirra…..eða hvað?   Ég veit það ekki svei mér þá.  Það er þó alltaf hægt að reyna, eitthvað verður fólk jú að hafa í höndunum þegar það stendur frammi fyrir úrvalinu í ÁTVR eða hvað?  Nú eru  7 Þorrabjórar og einn „þorra“ mjöður í boði þetta árið og kannski heldur dýrt að kaupa þetta allt, besta leiðin væri hins vegar að gera akkúrat það, að kaupa einn af öllum og smakka sjálfur og ákveða svo ferkari innkaup miðað við það. Fyrir þá sem ekki vilja fara þá leið þá eru mínar ráðleggingar þessar.

SURTUR (23) FRÁ BORG

IMG_1085

Surtur (23) er „alvöru“ bjór, hann er þó ekkert meira alvöru en t.d. Þorra Gull eða Þorra Kaldi, en menn nota bara oft þessa lýsingu þegar talað er um flottan öflugan sælkerabjór fyrir þá hörðustu.   Þeir sem smökkuðu Surtinn í fyrra vita svona nokkurn veginn að hverju þeir ganga í ár.  Surtur 23 er hins vegar aðeins öðruvísi í ár en í hann eru notaðir amerískir humlar í miklu magni.  Fyrir vikið verður bjórinn beiskari og dálítið hvassari og því ekki eins mjúkur og t.d Surtur nr 8 sem var nokkuð sætari.  Þetta er mikill bjór og maður finnur alveg að það eru nokkrar prósentur í honum en kannski ekki alveg 10%.  Svo má finna dálítið ristaða tóna, kaffibaunir, dökkt 80% súkkulaði, beiskjuna frá humlunum og blómin.  Mjög skemmtilegur imperial stout sem drekkist einn og sér og þá alls ekki ískaldur eða með t.d. gráðosti, súkkulaðibaseröðum eftirréttum eða þorramatnum til að deyfa óbragðið.
Ef þú ert langt kominn í bjórfiktinu og þorir í stóra bjóra með mikið bit þá er það klárlega þessi, lang bestur.  Þú verður hins vegar samt að prófa Kvasir og Hval frá Steðja bara til að hafa prófað. Ef þú hefur hins vegar ekki mikið verið að færa þig upp á skaftið í bjórmálum og átt t.d. erfitt með Guinnes eða finnst Úlfur of beiskur þá skaltu bara alveg láta Surt vera og lofa þeim sem kunna að meta að njóta hans.  Það er nefnilega við búið að hann klárist fljótt því menn vilja geyma þennan karl.

HVALUR ÞORRABJÓR FRÁ STEÐJA

IMG_1065Talandi um Hval frá Steðja þá er þetta sá bjór sem allir verða að smakka í ár.  Sama hvaðan þeir koma.  Bjórnördarnir verða að smakka bara til að hafa smakkað svona bjór því þetta er einsdæmi í heiminum.  Styttra á veg komið fólk ætti líka að smakka af sömu ástæðu.  Önnur ástæða er einfaldlega sú að þó svo að hvalahlutinn sé ekki beint mjög trekkjandi þá er þetta bara býsna góður lager. Svo má auðvitað setja allt ofan í sig á Þorranum eins og dæmin sýna til þessa, hvað er betra en hvalbjór með æxlunarfærum sauðkindarinnar t.d.?  Hvalur er lager sem þýðir að hann er heldur auðdrekkanlegur, þó er hann með dálítið bit og bragðmikill svo bjórnördinn verði ekki fyrir vonbrigðum.  Það er ögn reykur í honum en þó mjög látlaus sem ætti ekki að fæla neinn frá…..borða ekki t.d. flestir hangikjöt?  (er svo sem ekkert sérlega hrifinn af því sjálfur).  Svo er einhver kornkeimur eða mjöl í bakgrunni, dálítið sérkennilegur en viðeigandi.  Þetta er hinn fínasti matarbjór, nægilega bragðmikill og spes fyrir Þorra en þó ekkert sem stelur neinum senum.

KVASIR MJÖÐUR (22) FRÁ BORG

IMG_1091Annar drykkur sem menn verða að smakka, sama hvaðan þeir koma í bjórmálum er Kvasir.  Kvasir er mjöður og þó það kunni að hljóma eitthvað ofsalega sérkennilega í huga fólks þá er þetta líklega með mildari drykkjum í þessari upptalningu.  Hmmm eða kannski ekki alveg, hann er þó ekki eitthvað sem bara þeir geta drukkið sem eru fyrir eitthvað öðruvísi og framandi.  Nei Kvasir er kristaltær og kolsýrður mjöður sem minnir um margt á drykk sem vel flestir drekka með góðu móti, hvítvínið.  Gosið gerir hann reyndar kannski meira freyðivínslegan.  Kvasir er hins vegar ekki alveg eins og þessir drykkir því þá væri þetta jú alveg tilgangslaust.  Hann er með heldur kryddað yfirbragð og má finna myntu og ögn vanillu í nefi en það er hins vegar ekkert krydd notað við gerð hans.  Í munni er hann nokkuð sætur og þessi myntukeimur í bland við hunang kemur einnig vel fram. Kolsýran þægileg og svo er hann örlítið þurr á tungu.  Ég á eiginlega ekki orð yfir dómum sem þessi drykkur fær í Fréttatímanum og held ég að menn séu þar dálítið fastir í því að vera að dæma bjór en ekki mjöð.  Smekkur manna er vissulega misjafn sem er af hinu góða.  Þó Kvasir sé 9% þá kemur það alls ekki fram í bragði og ég er sannfærður um að þetta verði virkilega flottur sumarbjór ef menn nenna að geyma karlinn fram á sumar, þar sé ég fyrir mér að þamba kauða ískaldan yfir grillinu, með humar, sushi, léttum pastadiskum eða flottum fiski ummmm.
Já einfaldlega skylda allra Íslendinga að prófa fyrsta mjöð Íslands, þó ekki væri nema að deila einni flösku eða svo.

EINIBERJA BOCK FRÁ VÍKING

IMG_1103Einiberja Bock frá Víking. Svo eru það þeir sem eru dálítið svona á milli, hafa smakkað eitthvað af bjór en eru kannski ekki alveg tilbúnir í of mikla beiskju og hamagang.  Bock bjórstíllinn er alltaf fínn svona millistigsbjór því hér erum við með lager sem þó er mjög bragðmikill en er ekki með allt þetta auka ölbragð sem fer svo oft fyrir brjóstið á fólki.  Þeir hjá Víking virðast dálítið fastir í þessum stíl, páskabock, jólabock og nú þorrabock.  Allt í lagi með það, enda fínn bjórstíll.  Einiberja bockinn er flottur og bragðmikill.  Í nefi er dálítil karamella, ristað malt og ber.  Í munni er mikil fylling, töluvert malt og sæta og svo einhver notaleg beiskja frá einiberjunum.   Ljúft og gott eftirbragð með sætum keim sem loðir við varirnar.  Ofsalega flottur matarbjór sem hentar með flestu sem bragð er af.
Þó svo að bock stílinn sé að verða dálítið þreyttur þá mega þeir eiga það að pælingin er góð með einiberin en talið er að þessi ber hafi verið notuð til að bragðbæta bjórinn til forna.  Þjóðlegt á Þorra!
Þetta er bjór fyrir alla.

ÞORRA KALDI og ÞORRAGULL

Svo eru alltaf þeir sem eru forvitnir um árstíðarbjórinn og finnst stemning í því að hafa hann með á borðum en eru þó ekki vanir að prófa mikið annað en það sem þeir þekkja og eru vissir með.  Þetta fólk ætti kannski að láta Surt vera nema kannski fyrir forvitnis sakir.  Kvasir og Hvalur eru sem fyrr segir samt eitthvað sem allir verða eiginlega að prófa bara til að hafa prófað.  Þorra Gull er bjór sem er alveg öruggt val fyrir þennan hóp.  Hann er mildur og einfaldur og sára lítið verkefni fyrir bragðlaukana og ágætis matarbjór.  Annar slíkur er Þorrakaldi en Kaldi er nánast alltaf eins sama hvað hann er kallaður.  Vissulega finna menn kannski einhver blæbrigði í honum en í heildina er hann ofsalega einsleitur.  Þorrakaldi er alls ekki slakur bjór, þetta er vandaður lager í flottu jafnvægi.  Hann hefur örlitla beiskju sem jafnast þó út með maltinu, meðal skrokk og ágætis eftirbragð.  Hér eru menn öruggir en eru ekki að læra neitt nýtt. Kaldi hefur sætt mikilla vinsælda hjá okkur Íslendingum og er oft með vinsælustu árstíðarbjórum.

ÞORRAÞRÆLL FRÁ VÍKING

Þorraþrællinn frá Víking er einnig í léttari geiranum.  Um er að ræða svo kallaðan Ekstra Special Bitter sem er enskur bjórstíll.  Þó svo að nafnið bendi til þess að hann sé ofsalega beiskur þá er það alls ekki svo.  Í raun er það sem einkennir þennan stíl fullkomið jafnvægi sætu og beiskju, þ.e.a.s sætan frá maltinu vegur á móti beiskjunni frá humlunum og úr verður bjór með flott bragð með möltuðum undirtón, dálítinn toffee keim, flotta fyllingu og svo ögn bit til að íta aðeins við honum.  Þorraþrællinn er nokkuð öruggur bjór fyrir þá sem kunna að meta Kalda og Gullið en fyrir Surtsmenn væri hann heldur og léttur.

GÆÐINGUR ÞORRABJÓR

IMG_1109Loks nefnum við til leiks Þorrabjórinn frá Gæðingi.  Þessi er mjög skemmtilegur og myndi sennilega falla í einhvers konar milli flokk.  Um er að ræða stíl sem kallast brúnöl eða brown ale.  Þessi gæti vel gengið í fólk sem þolir ögn beiskju en vill samt ekki fá of mikið af því góða.  Úlfur er t.d. töluvert beiskari en þessi.  Í nefi er mikil lykt, hnetur og jafnvel leður og þegar líður á bjórinn kemur fram dálítið sætt píputóbak, virkilega notalegt allt saman. Í munni er hann hins vegar frekar blíður, eiginlega of blíður fyrir minn smekk.  Mér finnst alltaf vanta dálítinn skrokk í kauða til að styðja við lyktina.  Bjórinn er engu að síður fínn, nettir humlar sem gefa þægilega beiskju og svo ögn kakó.   Þetta er öl fyrir þá sem vilja eitthvað aðeins öðruvísi en þó ekki eitthvað sem fer yfir strikið.  Svo er bara svo gaman að skoða miðana á þessum flöskum frá Gæðingi en Hugleikur gerir þetta snilldar vel og á Þorrabjórnn skilið stóra mynd í þessari umfjöllun :).

Kvasir, fyrsti íslenski mjöður nútímans og hinn kolsvarti Surtur mæta til leiks

IMG_1069Hó hó hó, nú eru litlu jólin að hefjast hjá íslenskum bjórnördum.  Þorrinn rétt handan við hornið sem þýðir Þorrabjór eins og maður getur í sig látið.  Ég veit að ég er ekki einn um það að hafa verið að bíða í heilt ár eftir Þorrabjór Borgar 2014.  Á morgun á sjálfum bóndadeginum er þessi bið loks á enda þegar allir Þorrakarlarnir koma til bygða.  Þar á meðal er vissulega Surtur nr 23, 10% þurrhumlaður imperial stout sem án efa á eftir að gleðja blótandi Íslendinga nær og fjær en frændur hans Surt 8, 8,1 og 15 þekkja menn nú þegar hafa fengið góðar viðtökur.  Ekki nóg með það heldur tefla þeir einnig fram alveg einstökum drykk sem við megum ekki kalla bjór. Sá heitir Kvasir nr 22 sem er mjöður bruggaður eftir íslenskum hefðum.  Virkilega skemmtilegt verkefni og verður án efa gaman fyrir sanna íslenska víkinga að ryfja upp löngu gleymd kynni við þennan göruga drykk og hvaða tímasetning hentar betur en Þorramánuður fyrir svona „aftur til forfeðranna drykk“?
Nafnið er komið úr norrænu goðafræðinni en Kvasir var nokkuð sérstakur gaur sem búinn var til úr hrákum ása og vana (mismunandi tegundir guða í goðafræðinni).  Hann átti hins vegar skamma ævi því bíræfnir dvergar tveir drápu Kvasir og bjuggu til úr honum mjöð sem veitti þeim er drakk skáldargáfu.  Já nú veit ég ekki, þeir félagar Valli og Stulli er vissulega framúrskarandi bjórgerðarmenn en hvort þeir séu á stalli guða á borð við ása og vana verður að liggja á milli hluta.  Hvað sem því líður þá skópu þeir þennan bjór og mögulega, líklega kannski hafa þeir laumað nokkrum hrákaslummum með til að hafa þetta allt eftir bókinni.  Svo má til gaman geta að ef menn drekka mikið af þessum mjöð þá fer að bera á skáldargáfum, þetta á reyndar við um alla áfenga drykki ef út í það er farið.

IMG_1085Ef við kíkjum aðeins á þessa tvo drykki þá kemur Surtur (23)  í sínum svörtu  flottu fötum sem fara honum einstaklega vel.  Í glasi er hann samur við sig kolsvartur með dásemlagan froðuhaus sem hangir vel inni. Þetta er ekki alveg hinn klassíski Surtur, ef það er þá til, því nú hafa þeir notað slatta af humlum í karlinn eða eiginlega alveg haug af þeim til að hressa hann við, þurrhumlun að hætti ameríkanans!  Fyrir vikið verður þetta aðeins öðruvísi stout, mætti jafnvel kalla hann imperial black IPA því humlarnir koma vel við sögu.  Hann er þó nær því að vera bara humlaður imperial stout að mínu mati þar sem hann nær ekki alveg þessum IPA hæðum, en maður ræður svo sem bara sjálfur.  Hvort sem um ræðir þá er þetta stórgóður bjór, haugur af ferskum humlum í nefi og í munni er hann bragðmikill með meðal fyllingu.  Hann er ekki eins mjúkur og smooth eins og Surtur nr 8 þar sem humlarnir gera hann heldur hvassari.  Sætan er hæfileg en einmitt þannig vil ég hafa imperial stout, ég vil amk ekki hafa þá of þurra og ristaða.  Humlarnir skapa mjög skemmtilegt jafnvægi við ristaðan brennda kornkeiminn.  Flott og ljúft eftirbragð og áfengið kemur hvergi fyrir.  Frábær bjór sem ég held að þjóðin eigi eftir að verða ánægð með.  Svo er það geymslan, nú er nefnilega komin dálítil hefð fyrir því að geyma öflugu karlana frá Borg í amk ár.  Þetta er ágætis pæling, Surtur 23 gæti alveg komið vel út í geymslu en hann myndi vissulega tapa humlunum og þeim ferskleika.  Það er þó ekkert sem segir að hann verði verri fyrir vikið og held ég að menn verði bara að prófa og sjá hvað setur…..það er jú það sem er svo skemmtilegt við þetta sport ekki satt?

Svo er það Kvasir, fyrsti íslenski mjöður nútímans.  Til að byrja með þarf að árétta að hér er alls ekki um bjór að ræða heldur mjöð.  Mjöður á í raun meira skylt við vín ef út í það er farið en það er t.d. ekkert korn notað við gerjunina heldur hunang.  Það er því mikilvægt að demba sér í þetta með því hugarfari, ekki reyna að finna einhver bjórelement í honum.  Kvasir er síaður og  ofsalega fallegur í glasi, fullkomlega kristaltær og ljós.  Enginn froðuhaus sem að þessu sinni er viðeigandi, ekki finnum við froðu á hvítvíni t.d.   Ég hellti Kvasir í Borgar glasið en ég held að hann kæmi betur út í elegant hvítvínsglasi eða kokteilglasi jafnvel.  Í nefi eru heilmikið krydd, eitthvað sem minnir á myntu og vanillu.  Í munni er hann ofsalega bragðmikill og ferskur, heilmikil sæta en þó ekki eins og það hljómar þegar maður hugsar hunang.  Hann er dálítið þurr á tungu einnig og smá sýrður.  Minnir mjög á þurrt hvítvín með gosi, ja eða hugljúft Cava (hefði getað sagt freyðivín en er bara svo skotinn í Cava).  Þó Kvasir sé 9% þá finnur maður það hvergi í bragði, eitt prik þar.  Þessi drykkur kom mér virkilega á óvart og ég held að fleiri eiga eftir að reka upp stór augu og kunna vel að meta.  Þó svo að Þorrinn sé tilvalinn tími til að tefla svona drykk fram eins og fram hefur komið hér að ofan þá held ég að þetta sé einnig kjörinn sumardrykkur.  Ískaldur mjöður í sumarsólinni og hvað þá með sushi í stað hvítvíns, ja eða humar?  Ég hvet menn og konur til að prófa þennan flotta mjöð og kaupa nóg til að geyma fram á sumar, það er amk eitthvað sem undirritaður ætlar að gera.  Kvasir er hins vegar síaður og því lítið líf í honum og spurning hversu mikið hann breytist með aldrinum?  Ég spurði Valla af þessu fyrr í kvöld og hann sagðist bara ekki hafa hugmynd hvað myndi gerast.  Um að gera bara að prófa.
Kvasir kemur sem sagt í vínbúðina á næstu dögum, hann nær þó ekki inn fyrir morgundaginn og verða menn því að bíða fram í næstu viku.

Já báðir þessir drykkir fá mín atkvæði og enn og aftur kemur það skýrt fram hversu flott brugghús Borg er.  Ég er ekki einn um þessa skoðun því í kvöld mátti almennt heyra margar ánægjuraddir meðal fólks sem mætti í kvöld á Þorrasmakkið á K-bar.  Að venju var fullt út af dyrum. Þessir félagar hér að neðan voru mjög sáttir, bæði með Surtinn en einnig mjöðinn góða.

IMG_1082