Kóríander og Chillí dressað nautakjöts burito með Lava stout

image

Matur með bjór eða bjór með mat, skiptir ekki máli það er bæði betra.
Við getum öll verið sammála um að bjór er góður drykkur, það er hægt að nota hann á ýmsa vegu, t.d. drekka hann í einrúmi yfir góðri bók, í veislunni með góðum vinum, hann hefur líka mikið verið notaður til að auka sjálfstraust í makaleit. Það sem mér finnst hins vegar hvað skemmtilegast er að nota hann sem krydd með og/eða í matargerð. Ég hef áður komið inn á þetta hér en góð vísa er sjaldan of oft kveðin eða hvað?
Ég hef verið veikur og ómögulegur undanfarna daga en er loksins að hressast. Ég ákvað því að reyna næra líkama og sál og drífa mig í bústað yfir nótt með fjölskyldunni. Það var svo sem ekki veðrinu fyrir að fagna, svona ömurlegur klassískur íslenskur sumardagur, hávaða rok og skúrir. Þetta er svona veður þar sem ekkert er hægt að gera nema dunda sér innandyra og t.d. plana kvöldmatinn. Maður grillar alltaf í bústað, það er bara þannig og hér skiptir veðrið í raun engu máli. Mig langaði í eitthvað nýtt og djúsí og góðan þróttmikinn bjór með, það þurfti ekkert að vera eitthvað sem tengist veðrinu að þessu sinni.

Naut á grillið mitt takk.
Nautakjöt er dálítið ofarlega í huga mínum þessa dagana og það gerist ekki betra en grillað og gómsætt. Þannig að úr varð að ég náði mér í flottan ungnautafile bita, það hefði alveg mátt vera frampartsfile, aðal atriðið er bara að fá gott kjöt með sem fæstum sinum. Ég veit fátt eins pirrandi og þegar maður er kominn með 5000kr steikina sína úr „overpriced“ kjötbúðinni, búinn að gæla við það og grilla og svo getur maður ekki borðað nema örlítið brot af kjötinu þar sem restin er bara ógeðslegar sinar. Eyðileggur alveg heilt kvöld og jafnvel nokkra daga. Hvað eru menn að selja manni svona og titla sig svo sérverslun í kjöti?
Nóg um það ég átti kjötið og vantaði bara eitthvað að gera með það. Ég opnaði mér einn Punk IPA frá Brewdog en góður bjór kallar oft fram góðar hugmyndir og þarna kom það, innblásinn af sjálfum meistaranum Gordon Ramsay og svo vitleysingunum í Grillsumarið Mikla sem sýnt er á Stöð 2 um þessar mundir ákvað ég að gera ungnauta burito með fersku brakandi sallati og chillí, lime, kóríander dressingu.

Grillað chillí og kóríander ungnautaburito.
Ég veit svo sem ekki hvað ég á að kalla þennan rétt, en svona nokkurn veginn er hann settur saman:

imageKjötið: er lagt í marineringu, þarf kannski ekki en það þarf amk að vera penslað með einhverju dálítið sykruðu sem karmelliserast við grillunina. Það er nefnilega dálítið mikilvægt að fá sæta keiminn á móti hitanum frá chillíinu í dressingunni.
Ég lét kjötið liggja í Teryaki sósu í nokkrar klst og kryddaði með salt og pipar. Teryaki sósan er ofsalega bragðgóð og inniheldur töluvert af sykri.
Kjötið er svo bara grillað á hefðbundinn hátt og stefnt á medium rare, alls ekki meira en það.

Dressing: mjög einföld, ég bara slumpaði og smakkaði þetta til. Markmiðið er að fá dálítinn hita í dressinguna. Þannig að maður notar ca 2-3 mtsk Olífuolíu (ég notaði meira sem var aðeins of mikið), saxaður ferskur chillíbelgur með fræum, 3-4 mtsk soyasósa (Kikkoman er auðvitað best), 3-4 mtsk púðursykur, heill velkreistur lime (sem sagt safinn úr honum), ferskur kóríander eftir smekk og skvetta af fiskisósu.
Þarna er maður kominn með salt, sætt, súrt og sterkt sem maður stillir bara af eftir smekk. Hér vill maður finna vel fyrir brunanum en allt hitt verður að vera með í bakgrunni. Þessi dressing virkar á ýmislegt annað.

Sallat: Einfallt, má nota það sem maður hefur við höndina í rauninni en mæli þó með einhverju brakandi og stökku. Ég notaði kínakál, gróft skorið, rauða papriku, rauðlauk og ferskan kóríander, dálítið mikið af honum, hann er bara svo góður og svo má maður auðvitað setja hvað sem er með þessu.

Aðferð: Þegar kjötið hefur staðið aðeins er það skorið niður í dásamlegar öööörþunnar sneiðar, maður stelur sér einni sneið í gogginn og finnur hvernig það bráðnar nánast í munni og sæti karmelliseraði Teryiak keimurinn kemur ofsalega vel út með. Svo hrúgar maður bara sallatinu á Tortilla kökurnar sem maður rétt aðeins grillar fyrst til að fá mýkt í þær og svo auðvitað rendurnar maður, ekki skemmir svo fyrir að gumsið frá marineringunni er enn á teinunum og gefur því aðeins bragð í kökurnar.
Svo smellir maður eins og tveim til þrem kjötsneiðum ofan á og svo helling af dressingu yfir. Þetta verður dálítið blautt en það gerir ekkert til, Torilla kökurnar verða bara ögn rakar og dúnmjúkar sem er enn betra.

Svo er það rétti bjórinn með, rúsían í pylsuendanum.
Það þarf að drekka eitthvað með þessum herligheitum, eitthvað sem ekki gerir lítið úr kjötinu og eitthvað sem gengur með hitanum frá chillípiparnum. Við erum að tala um bjór, það þarf stóran strák hérna og hvað er þá betra en hinn einstaki Lava Stout frá Ölvisholti? Hann er þróttmikill og þéttur án þess að vera ofvaxinn. Hitinn og sæti vínlegi keimurinn frá áfenginu rennur saman við chillíhitann og svo er þessi unaðslegi nánast reykti BBQ keimur í bjórnum sem auðvitað er alveg að dansa með grillbragðinu af kjötinu. Þetta getur ekki klikkað. Bjórinn bætir flottum flækjum við réttinn og rétturinn lyftir bjórnum á annað stig, frábært!

 

 

 

 

 

 

Humarinn er bestur með?

Það er virkilega gaman að borða góðan mat og enn skemmtilegra þegar maður getur gert góðan rétt enn betri.  Það er t.d. hægt með því að sötra eitthvað ljúft með.  Nú er loksins komið sumar hér á klakanum og því má búast við að landsmenn fari að taka fram grillið og brasa eitthvað gott.  Humar er vinsæll á grillið og þá tala menn og konur oftast um humar og hvítt.  Það er virkilega góð blanda, ískalt hvítvín með hvítlauksristuðum humarhölum, salt og pipar og nóóóg af smjöri ummmm!  Það má þó ekki gleyma bjórnum í þessum efnum því hann býður enn einn vinkilinn og getur einfaldlega gert stórkostlega hluti fyrir humarinn.

Það þarf vart að taka fram að ekki er hægt að grilla humar nema sötra ljúfan bjór með það er amk mín upplifun.  Ef ég gleymi bjórnum við grillið þá fer yfirleitt ekki vel.  Það er svo sem ekki höfuðmál með hvaða bjór maður velur við grillið en sumar bjórgerðir passa betur en aðrar við humarinn.  Um daginn tókst mér næla mér í fullkomna humarhala af stærstu gerð frá Höfn.  Að vana lét ég þá liggja í smjöri, hvítlauk og dash af hvítvíni.  Kryddaði með salti og pipar og skellti á grillið.  Humarinn var álíka ljúfur og hann kostaði mig það vantaði ekki en hann varð enn betri með bjórnum.  Mér datt í hug að reyna belgískan bjór að þessu sinni og valdi einn af mínum uppáhalds, Tripel Karmeliet, hann hefur meiri prósentu en venjulegu lagerbjórarnir sem er ljómandi þar sem sumarið er enn ekki komið á fullt blúss og gott að fá smá hita í kroppinn.  Bjórinn  er margslunginn með kryddaðar nótur sem og ávexti og sætu.  Engir beiskir humlar sem stela senunni hér.  Þetta dansaði allt fullkomlega vel saman við humarinn og mun ég líklega taka þetta „kombó“ aftur næst.  Mæli með þessu, bjórinn fæst í Vínbúðinni og er vel hverrar krónu virði.

Aðrir bjórstílar koma einnig vel út með humarnum, ég er t.d. alltaf mjög ánægður með ískalda hveitibjórinn, belgískan eða þýskan.  Þessir karlar eru mildir og ferskir og fremur látlausir sem er mikilvægt.  Humar er „delicate“ matvara sem alls ekki má kaffæra með sterkum drykk.  Venjulegur lager, þá helst premium gengur einnig alveg.  Hann er hins vegar lítt spennandi en stundum langar mannir bara í eitthvað einfalt.  Svo eru hinir súru og þurru villibjórar, „brett“ ofsalega flottir með humar.  Þeir minna um margt á hvítvín.  Gallinn er að þessi bjórstíll er vandfundinn hér á landi.  Það er helst að líta við á Microbar eða reyna að sérpanta þá í Vínbúðinni. Belgíski blondinn er mjög góð pörun, t.d. Leffe eða La Trappe sem reyndar er hollenskur.  Þessir eru báður mildir, með góða fyllingu og dálítið sætir en þó með kryddaðan undirtón sem tónar vel við humarinn.  Fyrir þá sem vilja ögn meiri átök þá ganga belgísku Tripel bjórarnir einnig vel upp.  Westmalle Tripel td. ummm eða enn betra Orval sem blandar í raun saman tripel og brett hugmyndinni.  Hef reyndar ekki prófað þessa pörun en næst þegar ég kemst í Orval mun hann enda með heilum haug af humarhölum.  Gæti trúað að þar sé hið fullkomna hjónaband komið?  Það má reyndar benda á að nú um stundir fæst reyndar Orval „klónn“ sem kallast Arh Hvad? og kemur úr smiðju meistara Mikkeller.  Hvernig væri að prófa hann?

Það væri gaman að heyra ykkar reynslu á þessu.  Hvað hafið þið prófað með humar?