Logsdon Peche´n Brett – hinn fullkomni sumarkarl

 

image

Logsdon brugghús var mér ókunnugt um þar til tiltölulega nýlega þegar ég smakkaði Seizoen Bretta hjá Sæberg nokkrum Einarssyni á bjórhátíð Kex fyrir nokkru síðan en Sæberg er eins konar listrænn hönnuður og meðeigandi Logsdon brugghúss. Brugghúsið er amerískt „sveitabrugghús“ staðsett í Oregon sem einbeitir sér að belgískum bjórstílum, sér í lagi villibjór og saison (sveitabjór). Þessir gaurar eru snillingar í Brettanomyces villisveppnum og notkun hans í bjór. Ég held að Seizoen Bretta hafi verið besti saison sem ég hef smakkað svei mér þá!

Ég var að klára nokkuð stóran áfanga í mínu sérnámi á föstudaginn, eða hann er amk stór að mínu mati og því fannst mér ástæða til að fagna. Hvað er betra en að fagna í bjór…stórum bjór, eitthvað sem maður venjulega tímir ekki að kaupa? Júbb ég spjallaði við Steina á Micro en hann hefur smakkað vel flest sem til er hér á landi í bjór og spurði hann ráða, hvaða bjór myndi hann fá sér við svona tækifæri. Steini benti mér á þennan m.a. og hafandi smakkað tvo Logsdon bjóra áður þá þurfti ekki mikið til að sannfæra mig, ég meina 10% Saison með villigeri sem hefur verið aldraður á eikartunnu með ferskjum? Ekki flókið.

image Þetta er gullfallegur bjór í glasi, gulur og mattur með flotta þykka froðu. Ískaldur í sólinni þannig að glasið verður svona í móðu eins og í góðri auglýsingu. Í nefi mætir manni dásamlegur ferskjukeimur i bland við „funky“ brett. Fyrir þá sem ekki þekkja keiminn af villibjór þá er dálítið erfitt að lýsa því. Sumir tala um fúkkalykt, háaloft, mysukeim, súran keim en allt er þetta eitthvað sem gefur ekki góða mynd af því sem maður finnur. Menn verða bara að fá sér einn klassískan villibjór t.d. Cantillon Gueuze eða 3 Fonteinen Oud Gueuze sem hafa stundum fundist á Microbar, og þefa. Logsdon Peche er ekki gott dæmi um „funky“ hins vegar þar sem ferskjurnar eru afar áberandi.

Í munni er þessi drykkur álíka magnaður, gríðarlega frískandi með áberandi ferskjum en án þess að verða væminn. Sýrði, funky villigerskeimurinn kemur í veg fyrir það, kemur virkilega vel út svona súrsætur. Svo kemur eikin þarna í gegn með eins konar vanillukeim eða kókos en afar látlaust þó og loks kryddaðir tónar frá gerinu. Bjórinn er þurr á tungu og það er ágætis beiskja en þó víðs fjarri því sem maður finnur í pale ale t.d. Sopinn endar svo með dálítið súrum eftirkeim sem gerir mann klárann fyrir næsta sopa. Það sem kemur svo á óvart er að þessi bjór er 10% en það er algjörlega ómögulegt að finna það í bragði. Alveg hreint magnaður sumarbjór, hitti beint í mark

Stone Matt’s Burning Rosids Imperial Cherrywood smoked Saison

IMG_1821

Saison virðist vera dálítið inn hjá mér síðastliðið ár enda um gríðarlega góðan bjórstíl að ræða.  Það er svo sem ekkert undarlegt við það að maður er ekki að drekka saison alla daga hér á klakanum því úrvalið er nánast núll.  Saison Dupont hefur reyndar verið til hérna lengi og þar er sko aldeilis ekkert slor á ferð.  Svo kom jú hinn íslenski Skaði sælla minninga í fyrra og sló heldur betur í gegn meðal bjórnörda og segja má að Ship O Hoj IPA sá nýjasti frá Ölvisholti sé eins konar humlaður saison einnig.
Fyrr á árinu fór ég með fjölskylduna til Orlando og greip tækifærið til að smakka amerísku túlkun þessa belgíska bjórstíls enda fáir bjórstílar eins viðeigandi í yfir 30 stiga hita við sundlaugabakkann.  Þetta eru auðdrekkanlegir bjórar, mildir en þó flóknir og margslungnir.  Kryddaðir tónar og svo ferskleiki í formi súraldins af ýmsum toga.  Ég datt niður á nokkra góða í þessari ferð og var Great Devide Culette (7.3%) sérlega eftirminnilegur. Svo rak ég augun í þennan frá Stone Brewing,  Matt’s Burning Rosids.  Það var aðallega tvent sem kveikti áhuga minn, brugghúsið Stone sem gerir ekkert nema góðan bjór og því eru gæðin tryggð og svo var það imperial saison en slíkt hafði ég aldrei smakkað.  Það að hann er bruggaður með malti reyktu yfir kirsuberjavið var bara auka bónust.

Sagan á bak við þennan bjór er dálítið hjartavermandi en þeir hjá Stone tileinka bjórinn fyrrum bruggara hjá brugghúsinu Matt Courtright sem lést nýlega langt fyrir aldur fram.  Uppskriftin var eitthvað sem Matt hafði verið að setja saman skömmu áður en hann lést.  Ef maður fer inn á síðuna þeirra má lesa heilmikið um þennan Matt sem virðist hafa verið afar næs gaur.

Þá að bjórnum, ekki það að menn komist svo sem yfir hann hér heima en við Íslendingar förum jú mikið til Flórida og þar ættu menn klárlega að reyna að hafa uppá honum ef kostur gefst.  Bjórinn er glæsilegur í glasi með fallega ljúfa froðu, í nefi er mikið krydd og svo þegar líður á byrja kirsuberin að gera vart við sig.  Í munni er mikill skrokkur og ofsalega mikið bragð með kryddum og þónokkurri sætu.  Reykkeimur er frekar látlaus og í raun þarf maður að vita af honum til að merkja.  Hefði mátt vera öööörlítið meira áberandi.  Kirsuber eru hins vegar mjög áberandi og gera þetta klassíska saison bragð enn skemmtilegra en án þess þó að stela senunni….bjórinn heldur áfram velli sem saison.
Frábær saison sem menn verða að prófa.

Það er svo ekki hægt að fjalla um saison án þess að nefna nýjustu viðbótina á klakann, Logsdon bjórinn sem nú fæst t.d. á Microbar og í sérpöntun ÁTVR.  Logsdon er líklega þeir allra flínkustu í bruggun saison bjóra og ég hvet fólk til að ná sér í nokkrar flöskur.  Sumir hafa kannski þegar smakkað eitthvað frá þeim á bjórhátíð Kexins fyrr á árinu en þar voru nokkrar svakalega flottar perlur frá þeim.